10.10.08

Umhverfis jörðina á 95 dögum


 Einar Þorsteinsson, forstjóri Elkem Ísland (járnblendifélagsins), á Yamaha XT660R mótorhjól. Þegar hann er spurður hvað heilli hann við mótorfákinn segir hann: „Þessi tilfinning fyrir frelsi, einfaldleikinn, útiveran og maður er einn með sjálfum sér.“
 Einar hefur víða farið á hjólinu, hvort sem það er snjókoma, rigning, sandstormur eða 48 stiga hiti. Fyrir utan það að hjóla hér innanlands hefur hann farið hringinn í kringum hnöttinn á hjólinu sínu.
Ég hjólaði austur á land, sigldi með Norrænu til Noregs, fór um Eystrasaltslöndin, til Rússlands og Mongólíu, ég hjólaði um Góbíeyðimörkina, fór aftur til Rússlands, þaðan til Japan, Alaska, Kanada og síðan fór ég þvert yfir Bandaríkin og til New York en þaðan flaug ég heim.“
 Einar segir að þetta ferðalag hafi kennt sér hvað Íslendingar hafi það gott þrátt fyrir kreppuna. „Ég lærði líka hvað mannfólkið er yfirleitt gott og hvað lífsgleðin getur verið mikil þrátt fyrir erfiðleika.“

Einar segir að ferðalagið um Mongólíu sé eftirminnilegast. „Þar var víða ekki stingandi strá, hirðingjar búa þar í tjöldum og lifa af náttúrunni og þar lentum við bæði í 47 stiga hita og frosti.“ Draumur Einars er að ferðast um Afríku á mótorhjólinu.
Frjáls Verslun 1.10.2008

19.9.08

Sjálfbærar samgöngur í sjónmáli 2008

ORKUGJAFAR framtíðar í umferðinni og farartæki knúin þeim eru efst á baugi samgönguráðstefnunnar Driving Sustainability ’08 sem sett var á Hilton Reykjavík Nordicahótelinu í gær.
Ráðstefnan er helsti viðburður Samgönguviku Reykjavíkurborgar og skipulögð af Framtíðarorku ehf. Gestgjafar eru Reykjavíkurborg, Landsbankinn og Icelandair. Fyrirlesarar eru margir af fremstu sérfræðingum á sviði nýrrar tækni á samgöngusviðinu og frumkvöðlar í sjálfbærri orkunýtingu. Þá eru sýnd vistvæn ökutæki af ýmsu tagi á ráðstefnunni.

Tilraunastofan Ísland 

Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, hélt opnunarræðu ráðstefnunnar í gærmorgun. Hann sagði að ekki væri langur tími til stefnu að leggja nýjan grundvöll að samgöngum því hefðbundnir orkugjafar, gas og olía, væru að ganga til þurrðar. Ólafur kvaðst vera þeirrar skoðunar að Ísland gæti bæði gegnt hlutverki tilraunastofu og samkomustaðar um orkugjafa framtíðar. Hér mætti stefna saman fólki hvaðanæva úr heiminum til að miðla af og deila með öðrum þekkingu á nýrri tækni. Hann hvatti erlenda gesti ráðstefnunnar til að nýta sér Ísland því mikilvægt væri að sýna í verki að hin nýja samgöngutækni sé nothæf.

Ótæmd orka undir iljunum 

Sigurjón Þ. Árnason, bankastjóri Landsbanka Íslands, benti á að olía, kol og gas væru enn ráðandi orkugjafar þrátt fyrir tækniframfarir. Þekktar lindir jarðefnaeldsneytis tryggja aðeins 40-50 ára notkun eins og hún er í dag. Efnahagslegar ástæður eru ekki síður mikilvægar og hátt olíuverð mun eitt og sér knýja leitina að nýjum orkugjöfum, að mati Sigurjóns. Kjarnorkan er skammtímalausn en framtíðin er í endurnýjanlegum orkugjöfum. Sigurjón vakti athygli á þeirri gríðarlegu orku sem er við fætur manna. Ekki þarf nema örlítið brot af hitaorku jarðskorpunnar til að fullnægja orkuþörf mannkyns.

Sannkallað sólarflug

 Dr. Bertrand Piccard hélt innblásið erindi um að finna nýjar leiðir að lausnum á aðsteðjandi vanda. Piccard öðlaðist heimsfrægð þegar hann flaug fyrstur manna í kringum jörðina í loftbelg. Hann sagðist hafa lofað sér því þá að vera ekki háður eldsneyti í næstu hnattferð. Nú stjórnar hann verkefni um hnattflug á flugvél knúinni sólarorku sem getur verið á lofti jafnt nótt sem dag (www.solarimpulse.com). Stefnt er að tilraunaflugi á frumgerð flugvélarinnar á næsta ári og flugi kringum jörðina einu eða tveimur árum síðar.
Piccard sagði að mannkynið mundi ekki komast af á 21. öld nema það tæki upp nýja endurnýjanlega orkugjafa. Það yrði hvorki einfalt né auðvelt og því fylgi bæði áhætta og áskorun.

Örar framfarir

 Piet Steel, aðstoðarforstjóri evrópskra málefna hjá Toyota-bílaframleiðandanum í Evrópu, gerði m.a. grein fyrir því markmiði Toyota að smíða hinn „fullkomna umhverfisbíl“ og ýmsum leiðum að því marki. Blendings- eða tvinnbíllinn Toyota Prius hefur notið mikillar velgengni og eins blendingsbílar frá Lexus. Steel taldi að blendingstæknin væri besta tæknin í umferðinni nú. Sala Prius hefur vaxið jafnt og þétt og stefnir Toyota að því að selja milljón slíkra bíla á ári snemma á næsta áratug þessarar aldar. Á næsta ári er væntanleg ný kynslóð Prius og tengiltvinnútgáfa, sem hægt verður að hlaða með því að stinga bílnum í samband við rafmagn, er væntanleg. Þá er einnig í undirbúningi að búa bílana fullkomnari rafhlöðum en nú eru í þeim.
 Í gær var einnig fjallað um framfarir í smíði rafgeyma í rafbíla og tvinnbíla, rafvæðingu bílaflotans í Danmörku og lífeldsneyti þar í landi, hönnun afkastamikilla rafknúinna ökutækja, notkun tengiltvinnbíla í norrænum löndum, þróun í átt að farartækjum sem ekki losa kolefni og dagskránni lauk með pallborðsumræðum um hreina tækni, rafmagn og kerfisbreytingu í samgöngukerfinu.
 Hanna Birna Kristjánsdóttir, borgarstjóri í Reykjavík, mun slíta orkuráðstefnunni síðdegis í dag
Eftir Guðna Einarsson gudni@mbl.is
Morgunblaðið
19.9.2008

13.8.08

Vetn­i­svæddi mótor­hjólið

Sveinn Hrafns­son, starfsmaður hjá Air Atlanta í London, hef­ur vakið at­hygli í ensk­um fjöl­miðlum fyr­ir vetn­istilraun sem hann gerði á sínu eig­in Harley Dav­idson-mótor­hjóli í þágu orku­sparnaðar hjá fyr­ir­tæk­inu. Hann byggði á hug­mynd frá seinna stríði en þekkt er að Spitfire- og Mu­stang-herflug­vél­ar voru bún­ar vetn­is-/​bens­ín­mótor til að spara bens­ínið og fækka áfyll­ing­um.

Hjá Air Atlanta hef­ur farið fram umræða um hvernig megi spara eldsneytið á flutn­inga­bíla fyr­ir­tæk­is­ins sem dag­lega aka um 300 km.

Brá Sveinn á það ráð að prófa vetn­is­hug­mynd­ina og notaði Har­ley­inn sem til­rauna­dýr. „Ég var mjög ánægður með út­kom­una, hjólið brenn­ir bens­ín­inu mun bet­ur fyr­ir vikið og auk þess er það kraft­meira,“ seg­ir hann.

Morg­un­blaðið | 13.8.2008 |

2.8.08

Góður fyrir útilegugræjurnar

Dagrún Jónsdóttir hefur verið leiðtogi í Vélhjólafjelagi gamlingja í hátt í tíu ár. Hún býr á
Odds parti í Þykkvabæ og er titluð mótorhjólabóndi í símaskránni.

Dagrún á fjögur mótorhjól, þar af þrjú Harley Davidson, en hjólið sem hún sést oftast á er Triumph P 160 sem er 750 kúbik og með hliðarvagni. „Þetta er aðalhjólið mitt,“ segir hún og sýnir það. „Mér finnst svo gott að ferðast á því og hef þvælst um allt land á því. Ég er búin að eiga það síðan 2001 en átti hliðarvagninn fyrir. Hann var á öðru hjóli og ég færði hann yfir.“
Auðvelt er að sjá Dagrúnu fyrir sér skutlast í „kaupfélagið“ á hjólinu og flytja varninginn heim í vagninum. Hún segir þá mynd hárrétta. „Vagninn er einmitt ástæða þess að ég nota þetta hjól mest. Hann er svo góður undir farangur, passar til dæmis rosa vel fyrir útilegugræjurnar og bjórinn,“ segir hún hlæjandi en kveðst líka geta tekið farþega í hann. Dagrún flutti austur í Þykkvabæ fyrir tveimur árum. Þar hefur hún komið sér upp hjólaverkstæði ásamt vini sínum og svo er hún með mótorhjólatengda ferðaþjónustu eins og hún orðar það. „Ég er búin að útbúa tjaldstæði með klósettum og get tekið á móti litlum hópum vélhjólafólks,“ útskýrir hún. En er hún með braut sem hægt er að spæna á? „Bara fyrir krakka,“ svarar hún. „Svo er fjaran auðvitað endalaus braut.“
   Hvernig skyldu svo nágrannarnir taka því að fá mótorhjólagengi yfir sig? „Heyrðu, þegar það fréttist að ég væri að flytja í Þykkvabæinn varð ég vör við mikinn skjálfta. Nú væru Hells Angels bara að taka yfir plássið. En svo hafa íbúarnir verið mér mjög vinsamlegir og ég veit ekki annað en þeir séu bara hrifnir af því sem ég er að gera.“
     -Eitt í lokin. Ræktar þú kartöflur? „Nei, ég labba bara í næstu hús og kaupi þær þvegnar og tilbúnar í pottinn!“
gun@frettabladid.is

1.8.08

Myndræn svaðilför


 Starfsmenn mótorhjólaleigunnar Biking Viking eru nýkomnir af hálendinu þar sem þeir hjóluðu um í góðviðrinu ásamt ástralska mótorhjólakappanum Simon Pavey. 


Sá er helst þekktur fyrir að vera þjálfari Ewan McGregor og Charley Boorman fyrir Long Way Round og að hafa tekið þátt í Race to Dakar með þeim síðarnefnda.
Tilefni ferðarinnar upp á íslenska hálendið var myndaöflun fyrir bók sem útgáfufyrirtækið Haynes gefur út um ævintýraferðir á mótorhjólum, en myndir frá Íslandi munu bera uppi bókina. Margir þekkja Haynes-bækurnar sem fjalla um viðhald bifreiða og mótorhjóla. Íslenski ljósmyndarinn Þorvaldur Örn Kristmundsson var fenginn til verksins.

Simon Pavey er 41 árs gamall en hann var aðeins 14 ára þegar hann tók þátt í sinni fyrstu motocross keppni í Appin í Ástralíu þar sem hann er fæddur og uppalinn. Ári seinna vann hann sínu fyrstu keppni þar og síðan þá hefur hann tekið þátt í fjölda keppna. Meðal annars París Dakar-rallinu sex sinnum, sem hann hefur klárað fjórum sinnum. Simon hefur nýlega lokið þátttöku í Transorientale-rallinu sem byrjaði í Sankti Pétursborg og endaði Beijing í Kína.

BMW horfir til Íslands

Biking Viking-mótorhjólaleigan er að færa út kvíarnar og ætlar í samstarf við World of BMW sem Simon er meðal annars aðili að í gegnum ferðahjólaskóla sinn. Að sögn Eyþórs Örlygssonar, framkvæmdastjóra Biking Viking, er útlit fyrir að hægt verði að bjóða upp á ferðir víða um heim á BMW mótorhjólum á næstunni og er ferð til Marokkó í burðarliðnum í vetur.
„„World of BMW“ er að skipuleggja ferðir til Íslands á næsta ári og sjáum við fram á mikið og gott samstarf við þá á næstu árum,“ segir Eyþór en ferðir þeirra til Íslands verða kynntar á NEC mótorhjólasýningunni í Birmingham í nóvember. „Ferðin með þremenningana var hreint út sagt frábær og fórum við með þá víða um suðvesturhálendið, meðal annars upp í Krakatinda, yfir Heklu og Markarfljót og meðfram Svörtufjöllum niður á Dómadalsleið. Sögðu þeir ferðina eina þá albestu sem þeir höfðu nokkru sinni farið á mótorhjólum og hafa þeir þó allir farið víða. Hrósuðu þeir helst landslaginu og þeim fjölbreytileika í akstri við erfiðar aðstæður sem landið býður upp á.“
1. ágúst 2008 | Bílablað | 

20.7.08

Opna Mótorhjólasafn á Akureyri

Föðurbróðir minn lést í mótorhjólaslysi fyrir tveimur árum síðan, en þá hafði hann ætlað sér að opna mótorhjólasafn og var komin með 22 hjól.
 Við ákváðum því að taka við kyndlinum og opna safn í minningu hans,“ segir Jóhann Freyr Jónsson, safnstjóri á mótorhjólasafni sem reist verður til minningar um Akureyringinn Heiðar Jóhannsson. 

Safnið verður á safnasvæðinu sunnan við Iðnaðarsafnið á Krókeyri og verður alls um 800 fermetrar að stærð.

„Fjölskylda og vinir Heiðars hafa stofnað sjálfseignarstofunun um bygginguna og reksturinn, en
stefnt er að því að framkvæmdum við fyrsta áfanga verði lokið næsta sumar.
 Auk þeirra hjóla sem Heiðar átti hefur safnið fengið mörg að gjöf og á nú orðið um 50 mótorhjól sem munu vera
til sýnis,“ útskýrir Jóhann Freyr. „

Safnið verður án efa skemmtileg viðbót við safnaflóruna í
Eyjafirði, en ekki síður heimildageymsla um sögu mótorhjóla sem er stór hluti samgöngusögu
Íslands,“ segir Jóhann. 
Geinin í HQ-PDF

19.7.08

Fyrsta skóflustungan af safninu

Fyrsta skóflustunga að Mótorhjólasafni Íslands var tekin 19.júlí 2008.

Á myndinni eru 9.karlmenn en 10.skóflur.
 Ein af þeim er fyrir Heidda (heitinn) sú er Jón Dan heldur í.

Talið frá vinstri  :   Sigurjón P Stefánsson, Gunnar Rúnarsson, Jóhann Freyr Jónsson, Jón Dan Jóhannsson, Rúnar Hafberg Jóhannsson, Guðmundur Jóhannsson, Axel Stefánsson, Stefán Finnbogason og Kristján Þór Júlíusson. 


16.7.08

Vélfákar á safn

*800 fermetra mótorhjólasafni komið upp á Akureyri *Safnið reist til minningar um Heiðar Þ. Jóhannsson

„VIÐ tökum fyrstu skóflustunguna að safninu á laugardaginn kl. 12 og ef allt gengur eftir verður fyrsti hluti safnsins tilbúinn eftir ár,“ segir Jóhann Freyr Jónsson safnstjóri mótorhjólasafns sem er í bígerð á Akureyri. Safnhúsið verður reist í fjórum áföngum og verður um 800 fermetrar að stærð þegar það er tilbúið.

Á safninu verða um 50 bifhjól og þar verður hægt að sjá í máli, munum og myndum yfir 100 ára sögu mótorhjóla hér á landi. Elsta hjólið á safninu er frá árinu 1928, af gerðinni Triumph og var gefið af Jóni Dan Jóhannssyni, föður Jóhanns Freys safnstjóra: „Þetta hjól er enn í góðu standi og er þar með elsta gangfæra mótorhjólið á Íslandi.“

Af öðrum hjólum á safninu má nefna tvö fyrstu lögreglumótorhjólin sem notuð voru á Akureyri. Munirnir á safninu munu koma víðsvegar að af landinu, og hafa margir bifhjólamenn gefið muni.

Safnið verður reist til minningar um Heiðar Þ. Jóhannsson föðurbróður Jóhanns Freys, sem lést í mótorhjólaslysi fyrir 2 árum. „Hann var mikill karakter,“ segir Jóhann. „Heiðar hafði lengi dreymt um að koma upp safninu og var byrjaður að safna hjólum í það. Við, vinir hans og fjölskylda, viljum minnast hans með því að taka við kyndlinum og koma safninu upp.“

Um helgina verða haldnir Hjóladagar á Akureyri og á föstudagskvöld verða sérstakir söfnunartónleikar til styrktar safninu í Sjallanum.
Eftir Hjálmar Stefán Brynjólfsson
hsb@mbl.is
16. júlí 2008

12.6.08

Mótorhjólamessa var eftirtektarverð

Mótorhjólamessa í samstarfi þjóðkirkjusafnaða og Hvítasunnukirkjunnar var haldin í Digraneskirkju að kvöldi annars dags hvítasunnu.
 Flestir mótorhjólaklúbbar áttu fulltrúa í messunni með þátttöku sinni. Messunni stjórnuðu prestarnir sr. Gunnar Sigurjónsson, Snigill og IFMR, sr. Íris Kristjánsdóttir, Snigill og Skutla og Jón Þór Eyjólfsson aðstoðarprestur Fíladelfíu, Snigill og Trúboði.
Tónlistarmaðurinn Þorvaldur Halldórsson sá um tónlistina ásamt Meme-group sem er gospelkór unglingastarfsins í Digraneskirkju.
Leðurklæðnaður og annar öryggisbúnaður á mótorhjólum
var viðeigandi messuklæðnaður. Tilgangurinn var m.a. að minna á þær hættur sem fylgja akstri mótorhjóla og hvetja allt mótorhjólafólk til aðgætni í umferðinni í sumar.
Kópavogsblaðið júní 2008

2.6.08

Á mótorhjóli síðan 1950

HILMAR LÚTHERSSON: SNIGILL NÚMER EITT OG Á NÓG EFTIR

„Ég byrjaði þegar ég var tólf ára, árið 1950,“ segir Hilmar Lúthersson, snigill númer 1. Nú þegar sumarið er komið eru mótorhjól æ algengari sjón á vegum landsins. Hilmar man tímana tvenna enda tæp 60 ár síðan hann eignaðist sitt fyrsta mótorhjól. „Þá voru bara breskar skellinöðrur, níutíu kúbika, tvígengis og gíralausar. Þú þurftir ekki próf á þær fyrr en þær voru orðnar 100 kúbik, þá voru þær hestafl samkvæmt viðmiðum þess tíma,“ segir Hilmar sem eignaðist sitt fyrsta stóra mótorhjól um sextán ára aldurinn. „Það var Ariel 500, ´46 módelið,“ segir Hilmar sem hefur eignast slíkt hjól aftur. „Ég átti þetta hjól í tvö ár en svo tóku við bílar og kvennafar og síðar fjölskyldulíf. Ég byrjaði svo aftur í þessu 43 ára,“ segir Hilmar og bendir á að mikið hefur breyst síðan þá. „Þá þótti ég vera gamall kall, svona hálfgert viðundur. Nú er annað hvert hjól einhver loftpressa og á henni karl um sextugt sem er að byrja í sportinu,“ segir Hilmar.

Hilmar segir mótorhjólaæðið í rénun sökum efnahagsástandsins. Sjálfur á hann þó mörg mótorhjól. „Ég er búinn að eiga um hundrað mótorhjól í gegnum tíðina og búinn að gera upp tugi,“ segir Hilmar. Hann segist hafa prófað vel flestar tegundir hjóla. „Ég er til dæmis búinn að prufa Harley, og það eru ekki  mótorhjól. Þau eru bara eitthvað sem þú átt að eiga inni í skúr. Öll hin hjólin eru mikið framar í hönnun og öllu,“ segir Hilmar en viðurkennir að Harley-hjólin hafi skánað eftir að „Kaninn hætti að vera með puttana í þessu öllu“ og framleiðsla hjólanna dreifðist um heiminn. „Þeir sem ekki hafa vit á mótorhjólum segja „vá!“ þegar þeir sjá Harley.“
  Síðan Hilmar byrjaði aftur hefur mótorhjólum fjölgað umtalsvert og tillitssemi ökumanna bifreiða er meiri en hún var, en þó verða mótorhjólamenn alltaf að vera með puttann á bremsunni. Hvað aksturslag mótorhjólamanna sjálfra varðar segir hann: „Það er ekkert verra í dag en það var í gamla daga. Þá var auðveldara að þekkja lögguna úti á vegi og menn höfðu því nægan tíma til að hægja niður. Það gat stundum verið gaman að bruna austur fyrir fjall því þar var malbikað alla leið,“ segir hann. 
 Hilmar segir að það séu til tvær flokkar af mótorhjólamönnum, þeir sem eru búnir að detta, og þeir sem eiga það eftir. Hann komst í seinni flokkinn árið 2004 þegar hross hljóp í veg fyrir hann og hann datt og brákaði nokkur rif. Hann er þó hvergi nærri hættur þótt hann fylli 70 ár í ágúst.
 soli@frettabladid.is

22.5.08

Bifhjólasýning Raftana

   Mótorhjólamenn um allt land lögðu leið sína í íþróttahúsið í Borgarnesi, eða Fjósið eins og það er oft kallað, í þetta skipti ekki til að horfa á körfubolta heldur á bifhjólasýningu Raftanna.


Hin árlega bifhjólasýning Raftanna var haldin síðastliðinn laugardag. Sýningin var haldin í Íþróttahúsinu í Borgarnesi og er þetta sjötta sýningin á sjö árum, þar sem eitt árið var verið að parketleggja íþróttahúsið. Enginn sýningarstjóri er við sýningarnar þar sem allir Raftar sem koma að sýningunni vinna samán að þessu. „Öll árin sem sýningin hefur verið haldin hefur hún verið vel sótt og hafa yfirleitt um 500-600 mans mætt árlega og talið er að jafnvel fleiri hafi mætt á sýninguna nú. Þetta er bara orðið fastur liður hjá mótorhjólamönnum um mestallt land," segir Guðjón Bachmann, formaður Raftanna.

    Húsnæðið of lítið 

Raftarnir sýna nú um 40 hjól og svo hafa vélhjólaumboðin aíltaf komið með sinn skerf af hjólum, vélsleðum eða fjórhjólum en í þetta skiptið komu umboðin bara með hjól og annan búnað tengdan þeim. f ár voru þeir með hjól frá Heiðari Jóhannessyni sem var goðsögn í lifandi lífi meðal vélhjólamanna. „íþróttahúsið er einfaldlega orðið of lítið, ef við viljum halda alvörusýningar verðum við að hafa nægilega stórt húsnæði, við reyndum einu sinni að hafa sýninguna úti en þá týndust allir og það fór bara í vaskinn," sagði Guðjón

Smitast frá foreldrum

Raftarnir voru stofnaðir árið 2001 af 32 vélhjólamönnum í Borgarfirði. Og í dag eru um 90 meðlimir í hópnum og eru allir mjög virkir. „Hópurinn er bara ein stór fjölskylda," segir Guðjón. Ekki getur maður orðið meðlimur Raftanna fyrr en við 17 ára aldur en flestir meðlimir Raftanna eiga börn og  taka þau með sér á öll mót og annað sem Raftarnir halda. Krökkunum, sem eiga hjól og eru ekki með aldur til að vera í Röftunum, er velkomið að sýna hjólin sín enda var mikið af hjólum frá verðandi Röftum.

Hjólið látið hanga 


Á stórum Harley Davidson mótum í Bandaríkjunum hefur það verið siður að festa japanskt mótorhjól í krana svo er olían látin leka úr því og það ræst. Hjólið svo híft upp og látið bræða úr sér. Eftir að hjólið hefur brætt úr sér er það látið síga niður og þá er það barið til óbóta með hafnaboltakylfum. Raftarnir ætla ekki að taka upp þennan sið en á sýningunni nú létu þeir mótorhjól hanga í krana á Shell-planinu í Borgarnesi, sem blasti við þegar maður kom inn í bæinn.
Hugmyndina átti Helgi Sigurvin Kristjánsson, eigandi HSK krana, sem útvegaði kranann og einniger hann Raftur og á mótorhjólið sem var látið hanga.
Dagblaðið Vísir
22.05.2008 

14.5.08

Þægileg keyrsla

Regla Harley Davidson-aðdáenda er að selja aldrei fyrsta hjólið sem þeir eignast. Björn Leifsson kallar slík hjól monthjól og nýtur þess að sitja fákinn á góðviðrisdögum eins og sífellt stærri hópur Íslendinga. Þar á meðal eru hjónin Oliver Pálmason og Nanna Guðbergsdóttir sem ferðast saman á mótorhjólum. Vala Georgsdóttir fræddist um lífsstíl þessara töffara.

Harley Davidson er eitt helsta lífsstílsmerki í heiminum. Ímynd Harley Davidson-mótorhjólanna tengist þannig sterkt heimi kvikmyndanna. Enda hefur kvikmyndastjarnan James Dean á sér ímynd sem einn frægasti Harley Davidson mótorhjólatöffari allra tíma.
   „Ég kalla þetta monthjól,“ segir Björn Leifsson í World Class, sem átt hefur Harley Davidson-mótorhjól um tíma. Þetta er fyrst og fremst skemmtun,“ segir hann. En hjólið notar hann helst á góðviðrisdögum og þá til og frá vinnu. 
   „Því er ekki hægt að neita að Harley Davidsonmótorhjólunum fylgir ákveðið snobb,“ viðurkennir Björn. „En fyrsta Harley Davidson-mótorhjólið sitt verður maður víst alltaf að eiga, heyrði ég einu sinni, og kaupa sér bara annað hjól.“
   Hjónin Oliver Pálmason og Nanna Guðbergsdóttir segja að hjólamennskan sé sameiginlegt áhugamál þeirra. Þau hafa ferðast saman víða um Evrópu á mótorhjólum. En þegar þau fara í lengri ferðir eru þau alltaf saman á einu hjóli. Líkt og Björn eiga þau Harley Davidson-mótorhjól sem þau hafa mjög gaman af. „Þetta eru glæsikerrur sem þægilegt er að keyra, enda eru þau afskaplega falleg,“ segir Nanna og Oliver bætir við „að það að ferðast um á mótorhjóli sé lífsstíll sem veitir gríðarlegt frelsi“.
„Harley Davidson-hjólin eru ekki hönnuð fyrir mikinn hraða heldur þægilega keyrslu,“ bendir Oliver á. Hér heima er helst farið í stuttar ferðir á suðvesturhorninu og vinsælt er að fara Þingvallahringinn í góðu veðri.
   Þegar Oliver og Nanna bjuggu í München í Þýskalandi um nokkurra ára skeið var stutt að fara yfir til Ítalíu. Þau hafa því þrætt saman marga strand- og fjallvegi bæði á Suður- og Norður-Ítalíu. Uppáhaldsstaðurinn þeirra á Ítalíu er Amalfi-skaginn, sem er um 100 km suður af Napolí. „Þegar ferðast er á mótorhjóli á milli strandbæja á Ítalíu í 30 stiga hita, keyrandi á 50-70 km hraða og með vindinn í fangið erum við heldur betur upptekin af líðandi stund.“
   „Þeir sem velja að keyra um á Harley Davidson-mótorhjóli eru ekki að sækjast eftir neinu adrenalínkikki,“ segir Nanna. „Þessi ferðamáti er einstakur fyrir það hve komist er í nána snertingu við mannlífið og náttúruna. Þegar ferðast er á mótor hjóli er að vísu hægt að fara hratt yfir, en best væri að segja að komið sé víða við,“ segir Oliver.
   Þessi lífsstíll, að þeysast um á mótorhjólum, nýtur aukinna vinsælda og er ekki lengur bundinn við ákveðinn aldur né kyn. Björn, Oliver og Nanna eru sammála um að vaxandi áhugi fólks á hjólamennsku eigi sínar skýringar. Aldur er vissulega hugarástand, enda er fólk líklega almennt orðið meðvitaðra um það að huga meira að sjálfu sér en áður. Ímynd mótorhjólatöffarans tekur því stanslausum breytingum líkt og annað í síbreytilegum heimi hugmynda og lífsviðhorfa. 
 

3.5.08

Ofursvalur Spessi á Harley

Hugsanlega kemur það einhverjum á óvart en einn fremsti ljósmyndari landsins er jafnframt forfallinn mótorhjólamaður


„Þetta er eins og að vera kúreki. Frelsi. Að vera „on the road“ er staður og stund þar sem þú ert
ósnertanlegur. Hjólar með vindinn í andlitið … lyktin af ökrunum, nálægðin við malbikið.
    Það er náttúrlega engin skynsemi að vera á mótorhjóli,“ segir ljósmyndarinn Spessi og gefst upp á að lýsa því hvaða tilfinning fylgi því að vera á mótorhjóli.
  Þeir eru að skríða út á malbikið með vorinu mótorhjólamennirnir. Og einnig margir sem menn tengja ekki við mótorhjól. Spessi er einn þeirra. Ofursvalur á breyttu hjóli, Cooper, en það kallast hjól sem eru með langa gaffla.  Spessi segist hafa átt skellinöðru sem unglingur en svo tók alvara lífsins við eins og gengur.
    Um þrítugt fékk Spessi sér Kawasaki 650, og ári síðar Yamaha sem líktist Harley Davidson. Sem var alltaf draumurinn. Svo var mótorhjólamennskan lögð á hilluna.
„Svo liðu fimmtán ár og ég var fenginn til að gera auglýsingu fyrir SS pylsur. Þar áttu að vera mótorhjólatöffarar og ég fór að leita á gömlum slóðum. Fann nokkra fúlskeggjaða Harleykarla. Tveimur dögum síðar fór ég í umboðið og keypti mér Harley, og hef átt þrjá síðan.
   “ Fyrst keypti hann sér Dyna Lowrider og seinna Night Train en á því hjóli fór hann vítt og  breitt, meðal annars til Noregs á stórt mótorhjólamót. „Svo í lok sumars 2006 svínaði maður fyrir mig og ég inn í hliðina á honum,“ segir Spessi og vandar sofandi sauðum í umferðinni ekki kveðjurnar. Eftir tryggingastapp fékk hann peninga út úr slysinu, keypti nýja grind á hjólið og lét sérsmíða gaffla í Svíþjóð. Þá var hjólið orðið eins og Spessi vildi hafa það.
    Þegar blaðamaður bendir Spessa, sem er í Harley Davidson-klúbbnum og ritstýrir að auki tímariti samtakanna, á að oft séu mótorhjólamenn ekki til fyrirmyndar í umferðinni með því að skjótast milli akreina segir Spessi sitthvað, „racer“-hjól og svo „Harley“: „Racer er adrenalíngræja en Harley er endorfín. Þetta er eins og að vera annars vegar á spítti og hins vegar á heróíni. Allt önnur stemning –
held ég,“ segir Spessi sem hefur látið úða listaverk á bensíntank hjóls síns. „Venus úr málverki
eftir Botticelli. Engar hauskúpur á mínu hjóli heldur ástin og stemningin.
   “ Spessi bendir á að hjól sitt megi skoða á sýningunni Bílar og sport í Fífunni um helgina. Sjálfur er hann svo á leið til Mekka mótorhjólamannsins, sem eru Bandaríkin. Nánar tiltekið liggur leiðin til Sturges í South Dakota. Sturges er 6.500 manna bær og á fimm dögum koma þangað hálf milljón manna á Harley Davidson. Bærinn stækkar í um tuttugu kílómetra radíus.”
Fréttablaðið 3.mai 2008
 jakob@frettabladid.is

25.4.08

BMW fetar troðnar slóðir

REYNSLUAKSTUR 
Ingvar Örn Ingvarsson

Þeir sem þekkja til BMW-mótorhjóla vita að framan af hafa alvöru BMWmótorhjól verið talin hafa loftkælda tveggja strokka boxer vél, drifskaft og hönnun sem hefur höfðað meira til eldra mótorhjólafólksins en þess yngra.
BMW hefur hins vegar unnið hörðum höndum að því síðastliðin ár að vinna gegn ímyndinni og er nú svo komið að frá BMW fæst nánast allt, „krúser“ hjól, keppnishjól, drullumallarar, fjögurra strokka hjól, eins strokka hjól, hjól með hefðbundinni fjöðrun eða óhefðbundinni BMWfjöðrun og jafnvel hjól með keðjum í stað drifskaftsins viðhaldsfría.

Í samkeppni við fleiri

BMW voru um langt skeið einráðir á markaðnum fyrir ferðamótorhjól enda vilja flestir meina að BMW hafi fundið upp þann geira mótorhjóla þó óneitanlega hafi fyrirtæki eins og Triumph verið komin á svipaðar slóðir með hjól eins og Triumph TR6 Trophy.
   BMW lagði mikla áherslu á að hjólin væru eins sterkbyggð og viðhaldsfrí og hægt var og þegar við þann pakka var bætt slaglangri fjöðrun, breiðara stýri og hærri ásetu var kominn pakki sem þótti prýðisgóður fyrir heimsreisur.
   yrir heimsreisur. En BMW-boxer hjólin þykja í stærra lagi fyrir marga og æðiþunglamaleg. Því fór svo að BMW hannaði hjól í samstarfi við Aprilia árið 1993 og úr því samstarfi varð til hið geysivinsæla BMW F650 GS sem jafnframt var fyrsta BMW-hjólið sem ekki notaðist við drifskaft.


   Það má því segja að mótorhjólið sem hér er til prófunar sé eins konar samruni þess nýja og gamla hjá BMW. Hugmyndafræðin að baki hjólinu er enn sú sama, sterkbyggt og endingargott hjól sem þó státar af keðju frekar en drifskafti og hefur jafnframt hefðbundna fjöðrun. BMW hefur þó hvergi til sparað frekar en venjulega en sökum þess hvernig hjólið er uppbyggt, á hefðbundinn máta, þá fer hið nýja BMW F800 GS í beina samkeppni við önnur ferðahjól eins og Honda Varadero, Triumph Tiger, Suzuki V–Strom, Ducati Multistrada og KTM 990 Adventure svo einhver séu nefnd.

Alvöru ferðahjól?

Hið nýja F800 GS er útbúið nýrri vél með tveimur samhliða strokkum og er hún 800cc að stærð. Vélin er nokkuð öflug og hlýtur að hafa stóra þýska meginlandshesta því BMW gefur upp að hún sé 85–88 hestöfl en við prófanir mælist vélin iðulega 91–94 hestöfl. Hér er því um að ræða hjól sem hefur svipað afl og stóru 1200 GS hjólin en mun minni þyngd því F800 GS er aðeins 178 kíló í þurrvikt og 207 kíló með öllum vökvum.
   Þetta er einmitt helsti styrkur hjólsins því það smellpassar á milli F650 GS, sem í dag er með 800 vél og 71 hestafl, og 1200 GS hjólsins. BMW hefur því náð að hanna hjól sem er kraftalegt á að líta eins og 1200 GS en hefur aksturseiginleika á við léttara hjólið.
   Í akstri er F800 GS afskaplega lipurt mótorhjól. Há ásetan, sem þó er ekkert í líkingu við 1200 GS, gefur gott útsýni yfir það sem fram undan er en þó er sætið ekki það hátt að fólk sem er í meðalhæð geti ekki ekið hjólinu. Stýrið er breitt og sterklegt og er hægt að koma margs konar útbúnaði fyrir á því eins og GPS-staðsetningartæki. Upphituð handföng eru kærkomin viðbót þegar haft er í huga hve stýrið er breitt því maður kólnar ansi fljótt á höndunum þegar engin er vindhlífin.
   Á léttum slóða reyndist fjöðrunin vera mjög ákjósanleg fyrir ferðahjól, slaglöng og mjúk og var hjólið strax mjög traustvekjandi í akstri. Aflið er þó mikið og varð ökumaður var við að eldsneytisgjöfin væri fullnæm og því var auðvelt að missa hjólið í spól upp brattar brekkur. Þetta er þó án efa nokkuð sem mun venjast.
   Bremsurnar eru verulega góðar og er mikil hjálp að hafa ABS-bremsukerfi á malbiki en við líflegan akstur er ABS-kerfið stanslaust með smáinngrip sem gefur einfaldlega til kynna að grip dekkjanna – sem eru þó meira miðuð fyrir malbik en geta tæklað smá-slóða, er takmarkað. Sem betur fer er hægt að slökkva á kerfinu þegar keyrt er í möl því þá getur verið þörf á að nota afturbremsuna mun meira en á BMW eru fram- og afturbremsurnar tengdar saman með ABS-bremsukerfinu. Það nægir því að hemla í botn þegar þarf að nauðhemla og kerfið sér um að dreifa álaginu á milli fram- og afturhjóla.

Þægindi og útbúnaður eru kjörorðin

   Sætið reyndist afar þægilegt og fór einnig vel um farþega á hjólinu og má vel ímynda sér að lítið mál sé að aka um lengri leið, jafnvel á slóðum, með farþega á hjólinu. Í reynsluakstrinum var þetta prófað og var ekkert upp á hegðun hjólsins að klaga þó farþegi væri á því þegar ekið var á malarvegi.
   Það sem ferðalangar sækjast eftir er þó aðallega tvennt: góð langdrægni og möguleiki á því að hlaða farangri á hjólíð. Langdrægnin er helst til dræm enda bara 16 lítra bensíntankur á hjólinu. Þó er hægt að komast um 350 kílómetra á tanknum sem verður að teljast viðunandi. Hvað töskur og aukabúnað varðar mun enginn koma að tómum kofanum hjá BMW því úrvalið af töskum og aukabúnaði er gífurlegt. Fyrir þá sem vilja enn meira úrval má alltaf leita til Touratech en það fyrirtæki hefur lengi sérhæft sig í aukabúnaði fyrir mótorhjól og þá sérstaklega GS-hjólin frá BMW.
   Af frágangi hjólsins má sjá að þrátt fyrir að það hafi hvorki boxervél né drifskaft fer ekki á milli mála að um BMW-mótorhjól er að ræða. Allur frágangur er til fyrirmyndar og er augljóst að efnisnotkun er skör ofar en t.d. á BMW F650 GS. Bæði eru felgur dýrari, fjöðrunin er mun vandaðri og hjólið hefur öflugri bremsur.
   Það er ljóst að hvað ferðalög varðar hafa vopn þeirra sem hingað til hafa afsakað sig með sérkennilegri hönnun BMW verið slegin úr höndum þeirra – hér er komið alvöru ferðahjól sem þrátt fyrir að hafa bláa og hvíta BMW-merkið á tanknum er einfalt og hefðbundið. 

4.3.08

Ofur-rafmótorhjól til Íslands

 Heimsins kraftmesta rafmagnsmótorhjól, Killacycle frá Colorado í Bandaríkjunum, verður til sýnis á ráðstefnunni Driving Sustainability ´08 sem fram fer á Hótel Nordica í dag og á morgun. 


Hönnuður Killacycle-hjólsins og eigandi, Bill Dubé verður með kynningu á tækninni að baki þessu einstaka farartæki, sem sett hefur hvert hraða- og spyrnumetið á fætur öðru á síðustu árum. Í desember síðastliðnum fór það kvartmíluna í fyrsta sinn á undir átta sekúndum, en það er langbesti spyrnutími sem rafdrifið farartæki hefur nokkru sinni náð. Auk þessa ofurmótorhjóls verða öllu hversdagslegri en þó nýstárleg farartæki til sýnis og til umfjöllunar á ráðstefnunni, svo sem rafmagnsvespur og rafreiðhjól. Sú þróun sem orðið hefur í rafhlöðutækni á síðustu árum hefur nú gert rafdrif í svo léttum farartækjum að mjög hagnýtum og hagkvæmum kosti til að komast mengunar- en þó áreynslulaust milli staða innanbæjar. Þetta er í annað sinn sem alþjóðlega ráðstefnan Driving Sustainability er haldin, en rafvæðing ökutækja, stórra sem smárra, er í brennidepli dagskrár hennar í ár. Meðal annarra dagskrárliða má nefna kynningu á „i MiEV“-rafbílnum frá Mitsubishi og á tilraun til að fljúga umhverfis hnöttinn á sólarrafdrifinni flugvél. - aa
Fréttablaðið 
18.08.2008

22.2.08

Hercules Wankel á safninu

Eitt af mótorhjólum safnsins er Herkules W2000 Wankel


Á Safninu
Árið  (2008) Flutti Jón Dan bróðir (Heidda) inn Herkules W 2000 Wankel mótorhjól frá Kanada.

Hjólið var haugryðgað þegar það kom til landsins og fylgdi önnur vél með því í varahluti.

Rafkerfið var ekkert nema brunarústir og var því hjólið ógangfært.
Lögðust því Jói Rækja og Gunnar Möller yfir hjólið og komu því í nothæft stand.
Gunnar Möller gerði við rafkerfið og Jói sá um rest og þar á meðal viðgerð  á mótor og restina af útlitinu. Reif hann hjólið í parta og þreif og pússaði laga tankinn og sprautaði Höldur tankinn.

Hjólið var svo sett í gang og hefur síðan þá verið