HILMAR LÚTHERSSON: SNIGILL NÚMER EITT OG Á NÓG EFTIR
„Ég byrjaði þegar ég var tólf ára, árið 1950,“ segir Hilmar Lúthersson, snigill númer 1. Nú þegar sumarið er komið eru mótorhjól æ algengari sjón á vegum landsins. Hilmar man tímana tvenna enda tæp 60 ár síðan hann eignaðist sitt fyrsta mótorhjól. „Þá voru bara breskar skellinöðrur, níutíu kúbika, tvígengis og gíralausar. Þú þurftir ekki próf á þær fyrr en þær voru orðnar 100 kúbik, þá voru þær hestafl samkvæmt viðmiðum þess tíma,“ segir Hilmar sem eignaðist sitt fyrsta stóra mótorhjól um sextán ára aldurinn. „Það var Ariel 500, ´46 módelið,“ segir Hilmar sem hefur eignast slíkt hjól aftur. „Ég átti þetta hjól í tvö ár en svo tóku við bílar og kvennafar og síðar fjölskyldulíf. Ég byrjaði svo aftur í þessu 43 ára,“ segir Hilmar og bendir á að mikið hefur breyst síðan þá. „Þá þótti ég vera gamall kall, svona hálfgert viðundur. Nú er annað hvert hjól einhver loftpressa og á henni karl um sextugt sem er að byrja í sportinu,“ segir Hilmar.Hilmar segir mótorhjólaæðið í rénun sökum efnahagsástandsins. Sjálfur á hann þó mörg mótorhjól. „Ég er búinn að eiga um hundrað mótorhjól í gegnum tíðina og búinn að gera upp tugi,“ segir Hilmar. Hann segist hafa prófað vel flestar tegundir hjóla. „Ég er til dæmis búinn að prufa Harley, og það eru ekki mótorhjól. Þau eru bara eitthvað sem þú átt að eiga inni í skúr. Öll hin hjólin eru mikið framar í hönnun og öllu,“ segir Hilmar en viðurkennir að Harley-hjólin hafi skánað eftir að „Kaninn hætti að vera með puttana í þessu öllu“ og framleiðsla hjólanna dreifðist um heiminn. „Þeir sem ekki hafa vit á mótorhjólum segja „vá!“ þegar þeir sjá Harley.“
Síðan Hilmar byrjaði aftur hefur mótorhjólum fjölgað umtalsvert og tillitssemi ökumanna bifreiða er meiri en hún var, en þó verða mótorhjólamenn alltaf að vera með puttann á bremsunni. Hvað aksturslag mótorhjólamanna sjálfra varðar segir hann: „Það er ekkert verra í dag en það var í gamla daga. Þá var auðveldara að þekkja lögguna úti á vegi og menn höfðu því nægan tíma til að hægja niður. Það gat stundum verið gaman að bruna austur fyrir fjall því þar var malbikað alla leið,“ segir hann.
Hilmar segir að það séu til tvær flokkar af mótorhjólamönnum, þeir sem eru búnir að detta, og þeir sem eiga það eftir. Hann komst í seinni flokkinn árið 2004 þegar hross hljóp í veg fyrir hann og hann datt og brákaði nokkur rif. Hann er þó hvergi nærri hættur þótt hann fylli 70 ár í ágúst.
soli@frettabladid.is