Alls ekki eina
stelpan í sportinu
Mótorkross nýtur sívaxandi vinsælda á Íslandi
en nokkur sértilbúin
svæði má finna til þeirrar
iðkunar í nágrenni við
Reykjavík. Það kemur
skemmtilega á óvart að
aukningin hefur ekki síst
átt sér stað í hópi kvenna.
Hin 25 ára gamla Sigríður Garðarsdóttir starfar sem rekstrarstjóri
tískuverslananna Fókus og Smash.
En þegar vinnudegi lýkur skiptir
hún heldur betur um gír, hendir
sér í leðurgallann og heldur út fyrir bæinn til að sinna áhugamálinu:
mótorkrossi.
„Ég fékk áhuga á mótorkrossinu í fyrrasumar en ég kynntist þessu í gegnum kærastann minn,“ segir Sigríður en hún telur að flestar stelpurnar í sportinu hafi kynnst því með svipuðum hætti. „Ef það er ekki kærastinn þá er það yfirleitt einhver úr fjölskyldunni, t.d. foreldri.“ Auðvitað séu þó undantekningar á þessari reglu, en hvernig sem áhuginn kviknar þá hefur stelpunum í hópnum fjölgað töluvert upp á síðkastið, sérstaklega síðustu tvö ár. Þá séu starfandi þó nokkrir stelpuklúbbar en hún tilheyri reyndar engum slíkum.
Reddar sér alveg
Eins og við er að búast fylgir krossurunum eitthvert viðhald en Sigríður segir það ekkert sem hún ráði ekki við. „Það kemur fyrir að maður detti og það brotni hlutir, gírinn eða eitthvað slíkt. Maður reynir náttúrulega að laga það sem maður getur sjálfur, það þýðir ekkert annað! En núna er ég búin að vera ein að þessu í um það bil tvo mánuði og mér tekst yfirleitt að redda mér. Svo eru allir tilbúnir til að hjálpa manni og ég hef þegið það með þetta erfiðasta.“
Þarf ekki að vera hættulegt
Sigríður segir að það sé ekkert mál að samræma sportið og vinnuna og segist ekki eiga í vanda með skítarendur undir nöglum né marbletti. „Ef ég er mikið á hausnum þá er ég oft marin en það sést þá ekki og er allt falið af fötunum,“ segir hún og þvertekur fyrir að þessi íþrótt sé hættuleg. „Maður er mjög vel varinn á höfði og líkama – sé maður með réttan búnað og keyrir eftir getu þá ætti maður ekki að vera í mikilli hættu. En ef þú ert til dæmis að taka einhver stökk eða eitthvað sem þú kannt ekki þá geturðu lent í vondum málum.“ Að lokum segir Sigríður okkur að þótt hún geti stundað krossið á veturna sé sumarið tíminn og nú nýti hún allar frístundir í sportið. „Ég reyni að fara eins oft og ég get, helst á hverjum degi, og ætla mér að taka þátt í keppnum í sumar, þó svo að ég sé ekkert þrusugóð. Það er bara svo gaman að taka þátt og svo er félagsskapurinn líka frábær.“
Eftir Hauk Johnson haukurj@24stundir.is