
Starfsmenn mótorhjólaleigunnar Biking Viking eru nýkomnir af hálendinu þar sem þeir hjóluðu um í góðviðrinu ásamt ástralska mótorhjólakappanum Simon Pavey.
Sá er helst þekktur fyrir að vera þjálfari Ewan McGregor og Charley Boorman fyrir Long Way Round og að hafa tekið þátt í Race to Dakar með þeim síðarnefnda.
Tilefni ferðarinnar upp á íslenska hálendið var myndaöflun fyrir bók sem útgáfufyrirtækið Haynes gefur út um ævintýraferðir á mótorhjólum, en myndir frá Íslandi munu bera uppi bókina. Margir þekkja Haynes-bækurnar sem fjalla um viðhald bifreiða og mótorhjóla. Íslenski ljósmyndarinn Þorvaldur Örn Kristmundsson var fenginn til verksins.

BMW horfir til Íslands
Biking Viking-mótorhjólaleigan er að færa út kvíarnar og ætlar í samstarf við World of BMW sem Simon er meðal annars aðili að í gegnum ferðahjólaskóla sinn. Að sögn Eyþórs Örlygssonar, framkvæmdastjóra Biking Viking, er útlit fyrir að hægt verði að bjóða upp á ferðir víða um heim á BMW mótorhjólum á næstunni og er ferð til Marokkó í burðarliðnum í vetur.„„World of BMW“ er að skipuleggja ferðir til Íslands á næsta ári og sjáum við fram á mikið og gott samstarf við þá á næstu árum,“ segir Eyþór en ferðir þeirra til Íslands verða kynntar á NEC mótorhjólasýningunni í Birmingham í nóvember. „Ferðin með þremenningana var hreint út sagt frábær og fórum við með þá víða um suðvesturhálendið, meðal annars upp í Krakatinda, yfir Heklu og Markarfljót og meðfram Svörtufjöllum niður á Dómadalsleið. Sögðu þeir ferðina eina þá albestu sem þeir höfðu nokkru sinni farið á mótorhjólum og hafa þeir þó allir farið víða. Hrósuðu þeir helst landslaginu og þeim fjölbreytileika í akstri við erfiðar aðstæður sem landið býður upp á.“
1. ágúst 2008 | Bílablað |