4.3.08

Ofur-rafmótorhjól til Íslands

 Heimsins kraftmesta rafmagnsmótorhjól, Killacycle frá Colorado í Bandaríkjunum, verður til sýnis á ráðstefnunni Driving Sustainability ´08 sem fram fer á Hótel Nordica í dag og á morgun. 


Hönnuður Killacycle-hjólsins og eigandi, Bill Dubé verður með kynningu á tækninni að baki þessu einstaka farartæki, sem sett hefur hvert hraða- og spyrnumetið á fætur öðru á síðustu árum. Í desember síðastliðnum fór það kvartmíluna í fyrsta sinn á undir átta sekúndum, en það er langbesti spyrnutími sem rafdrifið farartæki hefur nokkru sinni náð. Auk þessa ofurmótorhjóls verða öllu hversdagslegri en þó nýstárleg farartæki til sýnis og til umfjöllunar á ráðstefnunni, svo sem rafmagnsvespur og rafreiðhjól. Sú þróun sem orðið hefur í rafhlöðutækni á síðustu árum hefur nú gert rafdrif í svo léttum farartækjum að mjög hagnýtum og hagkvæmum kosti til að komast mengunar- en þó áreynslulaust milli staða innanbæjar. Þetta er í annað sinn sem alþjóðlega ráðstefnan Driving Sustainability er haldin, en rafvæðing ökutækja, stórra sem smárra, er í brennidepli dagskrár hennar í ár. Meðal annarra dagskrárliða má nefna kynningu á „i MiEV“-rafbílnum frá Mitsubishi og á tilraun til að fljúga umhverfis hnöttinn á sólarrafdrifinni flugvél. - aa
Fréttablaðið 
18.08.2008