3.5.08

Ofursvalur Spessi á Harley

Hugsanlega kemur það einhverjum á óvart en einn fremsti ljósmyndari landsins er jafnframt forfallinn mótorhjólamaður


„Þetta er eins og að vera kúreki. Frelsi. Að vera „on the road“ er staður og stund þar sem þú ert
ósnertanlegur. Hjólar með vindinn í andlitið … lyktin af ökrunum, nálægðin við malbikið.
    Það er náttúrlega engin skynsemi að vera á mótorhjóli,“ segir ljósmyndarinn Spessi og gefst upp á að lýsa því hvaða tilfinning fylgi því að vera á mótorhjóli.
  Þeir eru að skríða út á malbikið með vorinu mótorhjólamennirnir. Og einnig margir sem menn tengja ekki við mótorhjól. Spessi er einn þeirra. Ofursvalur á breyttu hjóli, Cooper, en það kallast hjól sem eru með langa gaffla.  Spessi segist hafa átt skellinöðru sem unglingur en svo tók alvara lífsins við eins og gengur.
    Um þrítugt fékk Spessi sér Kawasaki 650, og ári síðar Yamaha sem líktist Harley Davidson. Sem var alltaf draumurinn. Svo var mótorhjólamennskan lögð á hilluna.
„Svo liðu fimmtán ár og ég var fenginn til að gera auglýsingu fyrir SS pylsur. Þar áttu að vera mótorhjólatöffarar og ég fór að leita á gömlum slóðum. Fann nokkra fúlskeggjaða Harleykarla. Tveimur dögum síðar fór ég í umboðið og keypti mér Harley, og hef átt þrjá síðan.
   “ Fyrst keypti hann sér Dyna Lowrider og seinna Night Train en á því hjóli fór hann vítt og  breitt, meðal annars til Noregs á stórt mótorhjólamót. „Svo í lok sumars 2006 svínaði maður fyrir mig og ég inn í hliðina á honum,“ segir Spessi og vandar sofandi sauðum í umferðinni ekki kveðjurnar. Eftir tryggingastapp fékk hann peninga út úr slysinu, keypti nýja grind á hjólið og lét sérsmíða gaffla í Svíþjóð. Þá var hjólið orðið eins og Spessi vildi hafa það.
    Þegar blaðamaður bendir Spessa, sem er í Harley Davidson-klúbbnum og ritstýrir að auki tímariti samtakanna, á að oft séu mótorhjólamenn ekki til fyrirmyndar í umferðinni með því að skjótast milli akreina segir Spessi sitthvað, „racer“-hjól og svo „Harley“: „Racer er adrenalíngræja en Harley er endorfín. Þetta er eins og að vera annars vegar á spítti og hins vegar á heróíni. Allt önnur stemning –
held ég,“ segir Spessi sem hefur látið úða listaverk á bensíntank hjóls síns. „Venus úr málverki
eftir Botticelli. Engar hauskúpur á mínu hjóli heldur ástin og stemningin.
   “ Spessi bendir á að hjól sitt megi skoða á sýningunni Bílar og sport í Fífunni um helgina. Sjálfur er hann svo á leið til Mekka mótorhjólamannsins, sem eru Bandaríkin. Nánar tiltekið liggur leiðin til Sturges í South Dakota. Sturges er 6.500 manna bær og á fimm dögum koma þangað hálf milljón manna á Harley Davidson. Bærinn stækkar í um tuttugu kílómetra radíus.”
Fréttablaðið 3.mai 2008
 jakob@frettabladid.is