14.5.08

Þægileg keyrsla

Regla Harley Davidson-aðdáenda er að selja aldrei fyrsta hjólið sem þeir eignast. Björn Leifsson kallar slík hjól monthjól og nýtur þess að sitja fákinn á góðviðrisdögum eins og sífellt stærri hópur Íslendinga. Þar á meðal eru hjónin Oliver Pálmason og Nanna Guðbergsdóttir sem ferðast saman á mótorhjólum. Vala Georgsdóttir fræddist um lífsstíl þessara töffara.

Harley Davidson er eitt helsta lífsstílsmerki í heiminum. Ímynd Harley Davidson-mótorhjólanna tengist þannig sterkt heimi kvikmyndanna. Enda hefur kvikmyndastjarnan James Dean á sér ímynd sem einn frægasti Harley Davidson mótorhjólatöffari allra tíma.
   „Ég kalla þetta monthjól,“ segir Björn Leifsson í World Class, sem átt hefur Harley Davidson-mótorhjól um tíma. Þetta er fyrst og fremst skemmtun,“ segir hann. En hjólið notar hann helst á góðviðrisdögum og þá til og frá vinnu. 
   „Því er ekki hægt að neita að Harley Davidsonmótorhjólunum fylgir ákveðið snobb,“ viðurkennir Björn. „En fyrsta Harley Davidson-mótorhjólið sitt verður maður víst alltaf að eiga, heyrði ég einu sinni, og kaupa sér bara annað hjól.“
   Hjónin Oliver Pálmason og Nanna Guðbergsdóttir segja að hjólamennskan sé sameiginlegt áhugamál þeirra. Þau hafa ferðast saman víða um Evrópu á mótorhjólum. En þegar þau fara í lengri ferðir eru þau alltaf saman á einu hjóli. Líkt og Björn eiga þau Harley Davidson-mótorhjól sem þau hafa mjög gaman af. „Þetta eru glæsikerrur sem þægilegt er að keyra, enda eru þau afskaplega falleg,“ segir Nanna og Oliver bætir við „að það að ferðast um á mótorhjóli sé lífsstíll sem veitir gríðarlegt frelsi“.
„Harley Davidson-hjólin eru ekki hönnuð fyrir mikinn hraða heldur þægilega keyrslu,“ bendir Oliver á. Hér heima er helst farið í stuttar ferðir á suðvesturhorninu og vinsælt er að fara Þingvallahringinn í góðu veðri.
   Þegar Oliver og Nanna bjuggu í München í Þýskalandi um nokkurra ára skeið var stutt að fara yfir til Ítalíu. Þau hafa því þrætt saman marga strand- og fjallvegi bæði á Suður- og Norður-Ítalíu. Uppáhaldsstaðurinn þeirra á Ítalíu er Amalfi-skaginn, sem er um 100 km suður af Napolí. „Þegar ferðast er á mótorhjóli á milli strandbæja á Ítalíu í 30 stiga hita, keyrandi á 50-70 km hraða og með vindinn í fangið erum við heldur betur upptekin af líðandi stund.“
   „Þeir sem velja að keyra um á Harley Davidson-mótorhjóli eru ekki að sækjast eftir neinu adrenalínkikki,“ segir Nanna. „Þessi ferðamáti er einstakur fyrir það hve komist er í nána snertingu við mannlífið og náttúruna. Þegar ferðast er á mótor hjóli er að vísu hægt að fara hratt yfir, en best væri að segja að komið sé víða við,“ segir Oliver.
   Þessi lífsstíll, að þeysast um á mótorhjólum, nýtur aukinna vinsælda og er ekki lengur bundinn við ákveðinn aldur né kyn. Björn, Oliver og Nanna eru sammála um að vaxandi áhugi fólks á hjólamennsku eigi sínar skýringar. Aldur er vissulega hugarástand, enda er fólk líklega almennt orðið meðvitaðra um það að huga meira að sjálfu sér en áður. Ímynd mótorhjólatöffarans tekur því stanslausum breytingum líkt og annað í síbreytilegum heimi hugmynda og lífsviðhorfa.