23.12.16

Jólakveðja frá Stjórn

Óskum ykkur öllum gleðilegra jóla og farsældar á nýju ári 🎄

Megi 2017 færa ykkur skemmtilega hjólatúra og sólina í fangið 😎

Stjórn Tíunnar

6.10.16

Leðurklæddir ljúflingar

 Pólskir mótorhjólakappar í Unknown Bikers láta gott af sér leiða.  Fluttu til Íslands til að vinna og segja gott að búa á Íslandi.


Félagar í mótorhjólaklúbbnum Unknown Bikers eru allir frá Póllandi og búsettir á Íslandi en segja það þó alls ekki skilyrði fyrir inngöngu í klúbbinn að vera pólskur að uppruna, heldur séu allir velkomnir.
 Í hópnum er mótorhjólafólk af Suðurnesjum, höfuðborgarsvæðinu, frá Akranesi, Ísafirði og víðar. Flestir hafa þeir ekið hringinn í kringum Ísland og sumir oftar en einu sinni. 
Blaðamaður Víkurfrétta hitti þá Arkadiusz Zarzycki, Tomasz Losiewicz, Damian Geriak, Wociech Julkiewicz og Marcin Dobrzynski á kaffihúsi á dögunum. Eins og mótorhjólaköppum er von og vísa voru þeir klæddir í leður frá toppi til táar og nokkrum kaffihúsagestum brá örlítið í brún við að sjá þá hópast inn á kaffihúsið.

Unknown Bikers mótorhjólaklúbbar eru starfræktir víða um heim en sá fyrsti var stofnaður í  Bandaríkjunum. „Við erum nú bara venjuleg fólk og keyrum saman, höldum partý og spjöllum,“ útskýrir Damien. Þeir hafa einnig látið gott af sér leiða og á dögunum gáfu þeir leikskólanum Hjallatúni bækur á pólsku til að nota við móðurmálskennslu barna af pólskum uppruna. Einn félagi þeirra úr klúbbnum er alvarlega veikur og hafa þeir stutt við bakið á honum og fjölskyldu hans.

Mun lægri laun í Póllandi

Allir fluttu félagarnir til Íslands vegna vinnu og hafa dvalið hér mis lengi. Þeir segja erfitt að fá góða, vel launaða vinnu í Póllandi og því hafi þeir ákveðið að flytja til Íslands með fjölskyldum sínum. „Í stórum bæjum og borgum í Póllandi er ástandið betra en á minni stöðum er þetta erfitt.
Pólland er öðruvísi og mikil skriffinnska og háir skattar sem fylgja því að ráða fólk til vinnu,“ segir Marcin. Arek bætir við að fyrir vinnu í eina klukkustund í Póllandi geti hann keypt þrjá lítra af bensíni en á Íslandi tíu lítra.
Þeir eru allir sammála um að hafa ekki aðeins flutt til Íslands til að vinna heldur líka til að njóta lífsins. Þeir sakna Póllands og fara þangað í heimsókn að minnsta kosti einu sinni á ári. Þeir eru sammála um að gott sé að búa á Íslandi og segja lítið mál að bindast þeim innfæddu vinarböndum.
Stundum hitta þeir félaga úr ýmsum öðrum mótorhjólaklúbbum. Pólland nýtur sífellt meiri vinsælda
sem áfangastaður íslenskra ferðamanna og stundum þegar félagar Unknown Bikers ferðast þangað eru fleiri Íslendingar um borð í flugvélunum en Pólverjar. Þeir leggja áherslu á að Pólland sé fallegt land þar sem margt er að skoða.

Hjóla um allt Ísland

Síðasta sumar fóru nokkrir meðlimir Unknown Bikers hringinn í kringum Ísland og óku þá 2430 kílómetra á einni viku. Eins og áður sagði býr einn meðlimanna á Ísafirði og kíktu þeir í
heimsókn til hans í leiðinni. Af uppáhalds stöðum á Íslandi nefna þeir Aldeyjarfoss, Barnafossa, Egilsstaði og Raufarhöfn. Þeir hafa allir átt mótorhjól síðan á unglingsárum. Marcin kom með sitt
hjól með sér með Norrænu þegar hann flutti til Íslands fyrir rúmlega þremur árum. „Það er svo gaman að vera á mótorhjóli, bara að hjóla eitthvert. Stundum á ég ekki bíl en ég á alltaf mótorhjól,“ segir hann. Arek á tvö mótorhjól á Íslandi og tvö í Póllandi. Þegar Wojtek seldi mótorhjólið sitt eitt sinn grét dóttir hans sig í svefn, svo ljóst er að mótorhjólin eru meira en bara farartæki hjá Unknown Bikers og þeirra nánustu.


Víkurfréttir 6.10.2016

1.9.16

Bifhjólaklúbbar Suðurnesja

MÓTORHJÓLAÁHUGI HEFUR MARGFALDAST

Öryggismál og grillaðar pulsur meðal fastra liða. Nærri eitt þúsund hjólskráð á Suðurnesjum


Mikil aukning hefur verið á bifhjólum á Suðurnesjum síðastliðin tíu ár. Árið 2015 voru 905 bifhjól skráð á Suðurnesjum samkvæmt Samgöngustofu en árið 1995 voru aðeins 102 bifhjól skráð. Bifhjólaklúbbar hafa myndast í kjölfarið þar sem einstaklingar sem eiga það sameiginlegt að hafa áhuga á bifhjólum koma saman. Meðal bifhjólaklúbba á Suðurnesjum eru Ernir Bifhjólaklúbbur Suðurnesja, Grindjánar,Sons of Freedom og Lords & Ladies. Þann 27.apríl 2001 komu 46 áhugamenn um mótorhjól saman og stofnuðu Erni Bifhjólaklúbb Suðurnesja. Síðan þá hefur verið gefið út 405 félagsmerki og í dag eru rúmlega hundrað virkir meðlimir. Þó svo að klúbburinn hafi verið stofnaður árið 2001, þá á nafnið Ernir sem bifhjólaklúbbur sér lengri sögu. Á áttunda áratugnum stofnuðu nokkrir gagnfræðinemendur bifhjólaklúbb undir nafninu Ernir. Það mætti því segja að klúbburinn hafi verið endurvakinn árið 2001. Óskar Húnfjörð hefur verið formaður Arna síðastliðið ár og svaraði nokkrum spurningum. 

Hagsmunasamtök með öryggið í fyrirrúmi

„Ernir Bifhjólaklúbbur Suðurnesja eru hagsmunasamtök fyrir bifhjólafólk og leggur mikla áherslu á öryggismál. Klúbburinn er með forvarnardag einu sinni á ári þar sem lögreglan og Brunavarnir fara yfir öryggisreglur og ökuhæfni með félagsmeðlimum. Við erum að reyna að koma af stað nýju átaki að koma félagsmeðlimum í sýnilegri vesti svo auðveldara sé fyrir aðra bílstjóra að sjá okkur. Ég vona að við getum smitað þessa hugsun í aðra klúbba og til annars hjólafólks. Vegna
fjölda skráðra bifhjóla á Íslandi er það ekki síður mikilvægt að bílstjórar verði að gera ráð fyrir því að það séu bifhjól ávallt nálægt í umferðinni og geta verið á hverjum gatnamótum,“ segir Óskar.

Hópdýr 

Starfsemi klúbbsins felur í sér að halda utan um félagsmeðlimi, uppákomur og hefðir ásamt því að vera í forsvari út á við fyrir hönd félaga. Félagsheimili Arnanna er staðsett á Þjóðbraut nr. 722 á Ásbrú og heitir Arnarhreiðrið. Þar hittast félagsmeðlimir og fá sér kaffi eða grillaðar pylsur áður en farið er að hjóla. „Mótorhjólafólk er svona hópdýr eins og við köllum, það er gaman að hjóla saman og hjóla í hópkeyrslu. Við höfum ekki gert það í ár en það hefur í gegnum tíðina verið hefð að hjóla á fimmtudagskvöldum.
Þetta er hlutur sem við erum að reyna að koma í gang aftur en verður örugglega ekki fyrr en næsta sumar,“ segir Óskar. Ernir Bifhjólaklúbbur Suðurnesja er með opinn Facebook hóp þar sem settar eru reglulega inn upplýsingar um væntanlega viðburði og hjólatúra. Þar er einnig hægt að skoða myndir af fyrri viðburðum og ferðum. Til að verða meðlimur í klúbbnum þarf að fylla út umsóknareyðublað sem er á Facebook síðu þeirra og fer umsóknin fyrir stjórn.

Skipulagðar hópkeyrslur 

Ernir stendur fyrir skipulögðum hópkeyrslum við margs konar tilefni. Olíufélög skiptast á að bjóða í pylsupartý á  undan hópkeyrslum. „Mótorhjólafólk er mikið pylsufólk og því það er alltaf byrjað á því að grilla pylsur,“ segir Óskar. Þann 25.júní 2016 var Reykjanesdagur Arna á sama tíma og Sólseturshátíð í Garði. Reykjanesdagur Arna er haldinn í samvinnu við N1 á Ásbrú sem býður hjólafólki upp á pylsur og meðlæti áður en lagt er af stað í hópkeyrslu. Keyrt var í Garðinn og hjólunum stillt upp til sýnis. „Svo er stóri dagurinn okkar Ljósanótt. Þá stendur klúbburinn fyrir hópkeyrslu og þar getum við verið að fá fleiri hundruð hjól. Klúbburinn hefur staðið fyrir hópkeyrslu á Ljósanótt frá upphafi og er allt bifhjólafólk á landinu velkomið. Það er svo mikil stemning þegar svona margir  bifhjólamenn koma saman,“ segir Óskar.

 Hópkeyrsla á Ljósanótt 

Hópkeyrslan á Ljósanótt verður á laugardaginn 3. september. Fyrir þá sem hafa áhuga á að taka þátt í hópkeyrslunni er mæting klukkan  13.00 hjá Olís ÓB bílaplaninu í Njarðvík þar sem að sjálfsögðu verður boðið upp á grillaðar pylsur og meðlæti. Klukkan 14.00 verður tekinn smá upphitunarhringur um Reykjanesið, líklega í Garð, Sandgerði og Keflavík en það fer eftir veðri. Hringurinn endar á Olís ÓB bílaplaninu þar sem hjólunum verður stillt upp áður en lagt er af stað í hópkeyrsluna klukkan 15.00. Keyrt verður í gegnum Keflavík og niður Hafnargötuna og geta allir sem vilja sjá þennann stórkostlega flota af bifhjólum fylgst með. Hópkeyrslan endar á SBK planinu þar sem hjólunum verður stillt upp til sýnis fyrir almenning. Klúbburinn er í samvinnu vð lögregluna og munu þrjú lögreglumótorhjól stjórna umferð í kringum hópkeyrsluna. Hópkeyrslan hefur ætíð verið skemmtilegur liður af Ljósanótt og hvetur Ernir almenning til að mæta og fylgjast með.

Grindjánar

Bifhjólaklúbburinn Grindjánar var stofnaður 28. ágúst 2006 í Grindavík. Hjónin Hrafnhildur Björgvinsdóttir og Davíð Friðriksson eru tvö af stofnmeðlimum Grindjána og hafa verið að hjóla í tugi ára. Hrafnhildur Björgvinsdóttir formaður Grindjána svaraði nokkrum spurningum.
Hrafnhildur hefur verið formaður frá stofnun klúbbsins og hjólað í 20 ár. „Maðurinn minn var byrjaður að hjóla. Ég var eiginlega á móti mótorhjólum en fór einu sinni með honum og þá var ekki aftur snúið. Við fluttum til Grindavíkur árið 2003 og keyptum okkur aftur bifhjól 2006. Við gengum fyrst í Erni en svo langaði okkur að stofna klúbb á þessu svæði. Við fórum hér út og sáum fólk sem var að hjóla og buðum þeim að koma sem höfðu áhuga á að stofna klúbb heim til okkar 28. ágúst 2006,“ segir Hrafnhildur. Þann dag komu saman ellefu einstaklingar og var bifhjólaklúbburinn Grindjánar þar með stofnaður. Af þessum ellefu stofnfélögum eru ennþá fimm í klúbbnum og eru Grindjánar 36 talsins í dag. Mest hafa verið 50 í klúbbnum, en þau eru með þak yfir meðlimafjölda að ekki eru teknir inn fleiri en 50 félagar. Þegar aðsóknin var sem mest var biðlisti. Gefin hafa verið
út 97 félagsmerki. Félagsmeðlimir Grindjána eru af öllum aldri, yngsti meðlimur er 20 ára og elsti 70 ára.

Hittast í Virkinu 

Á hverjum þriðjudegi klukkan 19.30 hittast Grindjánar í félagsheimilinu þeirra Virkinu og ef veður leyfir er hjólað. Starfsemi klúbbsins felst í því að hittast, hjóla og fara í hjólaferðir. Þau eru búin að fara í ótal ferðir síðan klúbburinn var stofnaður og hægt er að skoða myndir frá sumum ferðanna á Facebook síðu þeirra og heimasíðu þeirra www.grindjanar.com. „Við förum í dagsferðir en einnig er stundum gist. Við fórum fjögur saman hringinn í sumar og á landsmót bifhjólamanna,“ segir  Hrafnhildur og bætir því við að klúbburinn sé virkur allt árið um kring. „Við erum alltaf með fjóra fasta viðburði á veturna. Októberfest er fyrstu helgina í október, Jólagleðin fyrstu helgina í aðventu,
Þorragleði fyrstu helgina í febrúar og aðalfundur í apríl og yfirleitt vorgleði eftir á. Yfir sumartímann er Sjóarinn Síkáti okkar aðalviðburður. Þá stöndum við Grindjánar fyrir hópkeyrslu. Í sumar mættu 187 hjól í hópkeyrsluna, keyrt var í gegnum hátíðarsvæðið og endað fyrir utan Virkið þar sem við buðum öllum upp á pylsur og gos. Seinnipart laugardags og sunnudags  buðum við upp á svokallaða krakkakeyrslu. Þá fá krakkar að sitja aftan á hjólunum okkar á meðan við keyrum stuttan hring á lokuðu svæði. Þetta er í miklu uppáhaldi hjá börnunum. Við erum með fullt af hjálmum, beltum og öðrum öryggisbúnaði fyrir þau,“ segir Hrafnhildur. Aðspurð hvort Grindjánar ætli að taka þátt í hópkeyrslunni á Ljósanótt svarar Hrafnhildur játandi. „Við gerum það yfirleitt alltaf.“

10 ára afmæli Grindjána

 Grindjánar héldu upp á 10 ára afmælið sitt 27. ágúst með glæsibrag. Klúbburinn bauð alla velkomna í tertuhlaðborð og tilheyrandi í Virkinu. Bifhjólaklúbbar og hjólafólk víðsvegar um landið létu sjá sig. Meðal þeirra var hjólamaðurinn Matthías Axelsson sem kom alla leið frá Akureyri. „Hann er sennilega mesti hjólari á landinu, það er enginn sem hjólar jafn mikið og hann,“ sagði Gunnar Hafdal. Meðal þeirra bifhjólaklúbba sem mættu í veisluna voru Sober Riders, Unknown Bikers og Bikers Against Child Abuse. Það skorti ekki félagsmeðlimi frá öðrum bifhjólaklúbbum Suðurnesja, en merki Arna, Lords and Ladies og Sons of Freedom voru sýnileg. „Við erum rosalega ánægð með mætinguna. Við vissum ekki hverju við áttum von á en þetta er alveg æðislegt. Það voru rúmlega hundrað hjól hérna og 180 manns,“ sagði Hrafnhildur formaður Grindjána.
VÍKURFRÉTTIR fimmtudagur 1. september 2016








Vonir um mótorhjólasafn Íslands

Á smágerðum platta sem hangir uppi á vegg í svartmáluðu sýningarrými Mótorhjólasafns Íslands á Akureyri er að finna lítið glerhylki með tönn úr Heiðari Þ. Jóhannssyni. Yfir glerhylkinu er áletrun sem á stendur: „Heiðar Þ.Jóhannsson. Framtíðar jólasveinn.1965–1995.“ Undir plattanum er svo miði með eftirfarandi upplýsingum á þremur tungumálum, íslensku, ensku og þýsku: „DNA úr Heidda ef einhver vill klóna. Með vinarkveðju og minningum, Ólafur Sveins –2011.“

Þó svo að tönnin úr Heiðari sé sýnd á  Mótorhjólasafni Íslands með kæruleysislegum hætti, gefur húntilefni til alvarlegrar ígrundunar. Tönnin minnir á hugmyndir umsöfn sem grafhýsi og helgistaði mikilvægra einstaklinga. En söfn eru oft stofnuð í nafni ákveðinna einstaklinga og þar með álitin einskonar framlenging á ævi þeirra, störfum og vonum.

Söfnin eru oft kennd við einstaklinginn og sýna persónulega muni sem hann hefur látið eftir sig

18.8.16

Margt smátt gerir eitt stórt.

Ráðhústorg á Akureyri

Segjum að eigandi farartækis spari að jafnaði einn lítra af bensíni á dag með því að skipta niður í sparneytnara farartæki. Það sýnist litilræði, en á ári nemur þetta meira en 70 þúsund krónum. 

Og oftast fylgir með stórum minni annar hlaupandi kostnaður, svo sem viðhald, dekk og annað sem slitnar við akstur. Komið hátt á annað hundruð þúsunda króna sparnaður.

FÍB reiknar með að rekstur meðalbíls kosti meira en milljón á ári.

Ef hægt er að minnka þennan kostnað um tvo þriðju nemur sparnaðurinn 6-700 þúsund krónum árlega.

Nú hef ég sest sem snöggvast niður á Akureyri, fór af stað úr Reykjavík á tíunda tímanum á vespuhjólinu Léttti og renndi hér í hlað um þrjúleytið.
Á Ráðhústorginu voru bæjarstjórinn og nokkir vasklegir vélhjólamenn og enn hef ég ekki komist upp fyrir þúsund kall þegar ég fylli tankinn.

Bensínkostnaður á þessari leið var rúmlega 1900 krónur, eyðslan 2,4 lítrar á hundraðið og innan við 10 lítrar samtals.

200 krónur kostaði fyrir hjólið eftir Hvalfjarðargöng, 800 ef það hefði verið fólksbíll.
Flestar aðrar tölur á svipaða lund.Ætla að dóla áfram svona svipað innanbrjósts og ef ég væri bara búinn með hálft maraþon, en vildi gjarnan klára það allt. með áheitum og öllu.
Á BSO

Hægt að fylgjast með á slóðinni:  life.@ at.is

Aðrar tölur: 0130-26-160940 kt. 160940-4929.

Mér var í upphafi ferðar í morgun hugsað til kjara aldraðra sem eru á strípuðum 200 þúsunda króna lífeyri og hafa engar aðrar tekju. Komast ekki úr húsi.

Margir eru einhleypir en við prýðis heilsu. Rafreiðhjól í borginni og / eða létt vélhjól í hraðari og eitthvað lengri ferðir.

Af einhverjum ástæðum eru svona hjól geysivinsæl erlendis, líka þar sem meira rignir en hér, eins og á vesturströnd Noregs. 

Ómar Ragnarson 

3.8.16

Ferð á Fiskidaginn Mikla

Fiskidagurinn á Dalvík plönuð er ferð á vegum Tíunnar á föstudag í fiskisúpu hjá Ödda og Berglindi og síðan keyrt til Dalvíkur mæting kl.18:00 og brottför kl.18:30 frá torginu. Laugardagur ferð til Dalvíkur á vegum Tíunnar brottför kl.12:00 frá torginu um að gera að fjölmenna og hafa gaman af

Ferðanefnd.

2.8.16

Greiðsluseðlar

Kæru félagsmenn

Breyting hefur verið gerð á greiðsluseðlum í heimabankanum. Búið er að taka út seðla úr valgreiðslum,og er ástæðan sú að mikið hefur verið rætt innan félagsins að þeir hafi ekki séð greiðslur inn í heimabankanum sínum.
En ekki mun þetta hafa nein aukakostnað fyrir félagsmenn.
En þætti mér vænt um að fá að vita ef þú ætlar ekki að vera félagsmaður í ár.
Bestu kveðjur
Sigríður Dagný
Gjaldkeri Tíunar

19.7.16

Við hlógum, grétum og allt þar á milli

Sigríður Ýr Unnarsdóttir er sannarlega mikil ævintýramanneskja en í júní fór hún ásamt kærasta sínum, Mike Reid, í rúmlega 12 þúsund kílómetra mótorhjólaferð um Bandaríkin. Ferðin var farin í fjáröflunarskyni fyrir sumarbúðir Seeds of Peace í Maine í Bandaríkjunum. Söfnunin gekk vel og einnig ferðin sjálf eins og sönnu ævintýri sæmir, upp og niður og alla vega og ótrúlegar uppákomur áttu sér stað. Ferðalagið sjálft tók rétt innan við mánuð þar sem þau þurftu að keyra að meðaltali um 650 kílómetra á dag til að ná markmiðum sínum. Þau hafa meðal annars áform um atlögu að nýju heimsmeti í september en þau hafa nú þegar fengið samþykki frá heimsmetabók Guinness fyrir framkvæmdinni sem Sigríður Ýr vill síður upplýsa á þessu stigi málsins hver er.

Kærastinn kom sem ferðamaður til Íslands í byrjun þessa árs

Sigríður Ýr kynntist Mike Reid í janúar á þessu ári þegar hann kom sem ferðamaður til Íslands. „Ég hef verið að hýsa ferðamenn í sófagistingu og fengið til mín í gistingu um 50 ferðamenn og Mike var sá síðasti,“ segir Sigríður Ýr sem útskrifaðist úr Tómstunda- og félagsmálafræði frá Háskóla Íslands í vor.
  „Tilgangur ferðarinnar var að styrkja góðgerðasamtök sem heita Seeds of Peace. Þetta  eru samtök í Bandaríkjunum sem fá til sín ung menni frá stríðsþjáðum svæðum í Írak, Afganistan og af Gasa-svæðinu. Þau þurfa styrki fyrir ferðalögum og til dvalar í búðunum. Okkar liður í fjáröfluninni um Bandaríkin var að styrkja einn þátttakanda,“ segir Sigríður Ýr í spjalli við DV.

Einstaklingar og fyrirtæki leggja samtökunum lið

Sigríður Ýr segir að söfnunin hefði meðal annars farið fram með þeim hætti að þau stofnuðu heimasíðu. Þau auglýstu á síðunni og komu þannig ferðinni á framfæri og þá var hægt að heita á þau. Hún segir að upphaflega hafi hún alltaf ætlað sér að fara til Bandaríkjanna og hitta kærasta sinn en síðan hefði ferðin undið upp á sig.

Keyptu mótorhjól áður en lagt var í hann

„Við fórum að finna út hvernig við kæmust frá Fíladelfíu til Kaliforníu og við ætluðum ekki að fara hefðbundna leið þannig að við enduðum með því að kaupa okkur mótorhjól. Því næst var að skipuleggja ferðina til Kaliforníu og svo aftur til baka til að geta selt hjólið aftur eftir ferðalagið. Þetta, sem átti að verða smátt í upphafi, var orðið að heilmikilli ævintýraferð,“ segir Sigríður Ýr.
„Þegar upp var staðið varð ferðalagið um 12 þúsund kílómetrar og við gerðum mjög grófa áætlun
í upphafi. Við rissuðum hring á landakorti, sem við ætluðum að fara um og höfðum til þess 25 daga.
Við vorum með nokkra áhugaverði staði í huga sem við ætluðum að kíkja á. Fórum þjóðveg 66, fórum í Miklagljúfur, Hollywood, Yellowstone-þjóðgarðinn, hittum amishfólk, indíána og lentum í  alls konar ævintýrum,“ segir Sigríður Ýr.


Tilgangurinn var að safna. Eru þið ánægð og sátt þegar upp er staðið? 
„Já, við erum það og þetta gekk ótrúlega vel. Þetta er í fyrsta skiptið sem við förum af stað með söfnun, en höfum bæði tvö farið áður í alls konar ferðir. Hann er meira í ævintýraferðum, ég hef verið meira á bakpokaflakki. Það sem stendur upp úr er að við lærðum heilmikið á þessu og við erum með margar ferðir planaðar. Að finna góð málefni og styrkja eins og kostur er. Við erum búin að vera í samstarfi við Guinness um samþykki til að gera tilraun til að setja nýtt heimsmet, núna í september í Bandaríkjunum, sem tengist mótorhjólum. Á meðan málin eru ekki alveg komin á hreint viljum ekki gefa upp meira.“
 Hvað finnst þér standa upp úr í þessari ferð ykkar til Bandaríkjanna?
„Þetta var ótrúlega lítið mál. Einfalt að fá einhverja hugmynd þó að hún hafi verið frekar klikkuð og koma henni svo í framkvæmd. Við mættum ótrúlega mikilli góðvild hjá fólki sem varð á vegi okkar og allir voru  til í að hjálpa með einum eða öðrum hætti. Þeir sem voru ekki aflögufærir varðandi pening í söfnunina hjálpuðu okkur á annan hátt. Ferðin var erfið, við hlógum, grétum og allt þar á milli því þetta var mikið álag á köflum. Við þurftum að sitja á hjólinu í níu klukkutíma á dag í 20 daga,“ segir Sigríður.

17.7.16

Frá Stjórn

Við viljum þakka öllum sem komu og skemmtu sér með okkur á Hjóladögum!! Snilldar helgi og mikið gaman. Takk fyrir samveruna :)

5.7.16

Náði 400 km hraða á mótorhjóli

Þau eru ekki mörg mótorhjólin sem ná 400 km hraða, en Kawasaki Ninja H2R er ekkert venjulegt mótorhjól og kostar svo mikið sem 50.000 dollara, eða eitthvað á sjöundu milljón króna.
Þannig hjóli ók Tyrkinn Kenan Sofuoglu fyrir stuttu og kom því á 400 hraða og það á um það bil 26 sekúndum og er sá stutti tími einn og sér hreint með ólíkindum. Þetta gerði hann ekki á akstursbraut, heldur á Izmit Bay-brúnni í Tyrklandi, en hún er með einstaklega slétt yfirborð og heppileg til hraðaksturs. Brúnni var lokað á meðan á þessum magnaða akstri Sofuoglu stóð, en hann var skipulagður af Kawasaki-fyrirtækinu.

Með afl á við sportbíl 

Kawasaki Ninja H2R er 300 hestöfl og ekki löglegt á almennum vegum, heldur ætlað að glíma við keppnisbrautir. Það er hins vegar Kawasaki Ninja H2 hjólið, með ekkert R í endann og er það 200  hestöfl og ætti það afl að duga flestum. Kawasaki hafði veitt Kenan Sofuoglu þær upplýsingar að Kawasaki Ninja H2R hjólið væri með uppgefinn hámarkshraða upp á 380 km/klst. en það væri engu að síður draumur margra hjá fyrirtækinu að hægt væri að koma því í 400 km hraða. Það sannaði Kenan Sofuoglu og á nú fyrir vikið hraðaheimsmet á mótorhjóli.
Fréttablaðið 05.07.2016

30.6.16

Landsmót bifhjólamanna sett á Iðavöllum í kvöld


Bifhjólaklúbburinn Goðar eru gestgjafar Landsmóts bifhjólamanna í ár. Það er að þessu sinni haldið á Iðavöllum á Fljótsdalshéraði, svæði sem til þessa hefur verið þekktara er fyrir ferfætta fáka en vélfáka.


Landsmótið er haldið árlega og var þar til fyrir nokkrum árum í umsjón Sniglanna, bifhjólasamtaka lýðveldisins. Undanfarin ár hafa hins vegar landssamtökin samið við klúbba víða um land um að halda mótið.

Fyrir um ári var haft samband við Goðana og segir Hjörtur Óli Ævarsson, formaður klúbbsins, að undirbúningur hafi staðið yfir í allan vetur. „Hann hefur gengið vel. Þeir einu sem við höfum ekki náð að semja við eru veðurguðirnir.“

Vonast er eftir um 200 manns á Iðavelli. Tónleikar verða í boði kvöldin þrjú en hið landsfræga Sniglaband spilar annað kvöld. Á laugardag verða síðan heimabönd, Nefndin leikur fyrir dans en á undan henni rokksveitirnar MurMur og Oni.

Tækifærið er nýtt til að kynna fjórðunginn fyrir mótorhjólafólki og á föstudag og laugardag er gert ráð fyrir akstri um Austurland. Hjörtur Óli segir fyrirhugað að fara um firðina og upp að Kárahnjúkum.

Mótið hefur tvisvar verið haldið á Austurlandi áður eftir því sem næst verður komist, í Végarði í Fljótsdal og Atlavík, en síðan eru liðin mörg ár.

Gestir koma ýmist á hjólum eða bílum, ýmist með hjólin í eftirdragi eða bara á bílnum til að taka þátt í ánægjunni. Þeir koma víða að, til dæmis komu tveir Færeyingar með Norrænu í morgun gagngert til að mæta á mótið.

Víða erlendis eru samkomur mótorhjólafólks kenndar við óspektir en Hjörtur Óli segir landsmótið með þeim friðsamari sem tök eru á. „Mótið var árum saman haldið í Húnaveri og lögregluþjónar á Blönduósi vildu helst vera á vakt þá helgi. Það fer allt svo friðsamlega fram.“


Austurfrett.is
Höfundur: Gunnar Gunnarsson • Skrifað: 
.

21.6.16

Flott ferð til Grenivíkur

Ferðanefnd Tíunar stóð fyrir flottri ferð til Grenivíkur 


og tók Gissur nokkrar myndir úr ferðinni.


Myndir af Facebooksíðu Gissurar Agnarsonar

15.6.16

Öðlast ólýsanlegt frelsi á mótorhjólinu


Ferðalög, saga og mótorhjól eru þrjú helstu áhugamál Hafnfirðingsins Eiríks Viljars Hallgrímssonar Kúld. Honum hefur nú tekist að sameina þetta þrennt með því að þræða fáfarna vegi í Asíu þar sem hann lenti í hinum ýmsu ævintýrum þar sem skæruliðar í hengirúmum, munkar og matarást koma meðal annars við sögu. Eiríkur ætlar nú að nýta reynslu sína í að leiða íslenska ferðalanga um Víetnam á mótorhjóli næsta haust.



Ég lærði sögu í háskólanum og er núna í meistaranámi í framhaldsskólakennsluréttindum sem
sögukennari. Ég hef óbilandi áhuga á sögu og ferðalögum sem tvinnast mikið saman. Eftir að ég tók mótorhjólaprófið þá vaknaði nýr áhugi hjá mér, að nota mótorhjól sem ferðamáta,“ segir Eiríkur.    Ævintýramennska hefur einkennt líf hans síðastliðin ár en hann hefur tekið sér ýmislegt fyrir hendur í gegnum tíðina. Eiríkur hefur til að mynda verið kennari í leik- og grunnskóla, bæði hér á landi og í Kína, stuðningsfulltrúi á meðferðarheimili, spilað knattspyrnu með FH og nú síðast verið leiðsögumaður fyrir erlenda ferðamenn um söguslóðir Reykjavíkur sem hann gerir enn. Eiríkur á
mörg ferðalög á mótorhjóli að baki og stendur efst upp úr annars vegar ferðalag niður Víetnam endilangt og hins vegar Suður-Kína og Myanmar.
  „Þetta byrjaði eftir að ég útskrifaðist úr  framhaldsskóla, þá fóru ég og vinur minn í þessa týpísku Evrópureisu þar sem við keyptum okkur lestarmiða sem var opinn í sex vikur. Þarna fékk maður tilfinningu fyrir því hvað það er gaman að ferðast og sjá nýja hluti á hverjum degi, ráða ferðinni sjálfur og vera frjáls,“ segir Eiríkur.

Áhugamál semvarð að ástríðu

Þegar hann lauk BA-gráðu í sagnfræði í Háskóla Íslands var komið að næstu ferð. „Ég fór til Suðaustur-Asíu með tveimur vinum mínum. Við ákváðum að kaupa okkur mótorhjól í Víetnam og tókum mánuð í að hjóla frá norðri til suðurs. Þetta eru á bilinu 1.700-1.800 kílómetrar, semsagt aðeins meira en hringvegurinn á Íslandi. Ég var eini með mótorhjólapróf og var búinn að vera að ferðast mikið hérna heima og var að fá þessa dellu, en það var ekki fyrr en eftir þetta ferðalag sem ég uppgötvaði mótorhjól sem ferðamáta. Það er svo mikið frelsi sem fylgir því að vera ekki þessi týpíski ferðalangur sem er bundinn við tíma á rútu, lest eða flugvél.“ 
   Eiríkur segir að þeir félagarnir hafi upplifað Víetnam á einstakan hátt, en mótorhjól eru ekki leyfð á helstu þjóðvegum landsins. „Við þurftum að keyra á svokölluðum Bog C-vegum, sem eru frekar lélegir drullu- og malarvegir. Við fórum því út fyrir hina týpísku ferðamannastaði en það er það sem við vorum að leitast eftir. Þetta var svo ekta og okkur fannst það svo geggjað, maturinn, lyktin og jafnvel ruslið á götunum, þetta var allt þess virði.“
   Þegar inn í borgirnar sjálfar var komið, eins og Hanoi í norðri og Saigon í suðri, lýsir Eiríkur umferðinni á hinn bóginn sem hálfgerðri martröð. „Ég man eftir því að þegar ég hjólaði inn í Saigon tók það okkur um fjóra tíma að komast inn í borgina. Þegar ég kom inn í risastórt hringtorg breyttist umferðin í hálfgerða fiskitorfu og ég endaði innarlega í torginu en vinir mínir utarlega. Ég varð viðskila við þá og fylgdi fiskitorfunni og það tók mig marga klukkutíma að finna þá aftur. En þetta er bara hluti af þessu.“ Eftir ferðina til Víetnam fór Eiríkur að finna fyrir enn meiri ástríðu en áður fyrir ferðalögum og mótorhjólum. „Ég held að ég hafi orðið „hooked“ á þessu og um leið og ég kom heim byrjaði ég að plana lengri ferðir í kringum Ísland, ég fór til dæmis Vestfirðina og hringinn í kringum landið með tjald og var að undirbúa mig fyrir lengri ferðir og byrjaði að lesa mótorhjólabækur og blogg. Þetta var að verða ákveðin ástríða.“
   Eiríkur fór í mikla rannsóknarvinnu í eitt ár til að finna hvert ferðinni yrði næst heitið. „Mig langaði að tvinna ferðina saman við kennaranámið og ég var búinn að lesa að Íslendingar væru að fara til Kína og fleiri staða að kenna ensku.“ Eiríkur lagði af stað í reisuna síðastliðið haust. Kennslan var ekki alveg eins og Eiríkur bjóst við og reyndist töluvert erfiðari þar sem kínverski aðstoðarkennarinn talaði enga ensku og nemendurnir eingöngu kínversku. „Ég rann svolítið blint í sjóinn með þetta, en svoleiðis var það bara.“ Kennsluævintýrið varð því styttra en upphafleg plön gerðu ráð fyrir og
mótorhjólaævintýrið tók við. 

Skæruliðar í hengirúmum

Eiríkur lagði af stað frá Kunming í Júnnanhéraði í Kína og hjólaði upp til Tíbet og aftur niður til Kunming. Þaðan fór hann yfir til Myanmar (Búrma) og hjólaði þvert yfir landið frá austri til vesturs.    „Þetta voru sirka þrír mánuðir allt í allt og algjört ævintýri, sérstaklega að vera einn, en ég hafði aldrei áður ferðast einn um á mótorhjóli. Hvaða leið ég fór og hversu langan tíma hún tók kom bara í ljós hverju sinni.“
 Eiríkur á mörg minnisstæð augnablik úr ferðinni og ber þar hæst  frumskógarævintýri frá Myanmar.   „Ég villtist af leið, vísvitandi. Ég ætlaði að stytta mér leið í gegnum hérað sem er á valdi skæruliða og ég vissi að ég mætti í raun ekki fara þar í gegn, en þetta voru bara 180 kílómetrar, sem er ekki mikið, a.m.k. þegar maður hugsar um íslenska vegi. Ég hélt að þetta myndi taka svona þrjá til fjóra tíma.“ Á leið sinni um héraðið mætti Eiríkur mörgum skæruliðum, en þar sem þeir voru mjög óvanir umferð um héraðið voru þeir búnir að koma sérvel fyrir í hengirúmum og kipptu sér lítið upp við eitt mótorhjól sem þaut í gegn.
„Ég passaði mig reyndar á að fela andlitið með klút svo það sæist minna að ég væri ferðamaður og þegar ég leit í baksýnisspegilinn sá ég að þeir kíktu alveg á eftir mér áður en þeir sneru svo aftur í hengirúmið.“ Það sem Eiríkur vissi aftur á móti ekki var að hann var á leiðinni í gegnum frumskóg.     „Að keyra í gegnum frumskóg er ekkert eins og að keyra eftir suðurströndinni á Íslandi. Eftir 12 tíma var ég búinn að keyra 70 kílómetra og þá var farið að dimma. Ég varð því að finna mér næturstað.
Eiríkur komst í næsta þorp og þar ráku íbúar upp stór augu þegar þeir sáu hann, enda alls ekki vanirþví að fá ferðalanga í frumskóginn.
„Þar fékk ég þær upplýsingar að ég gæti ekki gist í þorpinu þarsem þau gætu ekki tekið ábyrgð á mér. Þau ættu í baráttu við herinn og ef eitthvað kæmi fyrir mig gæti það komið þeim illa í þeirra réttindabaráttu. Eini sénsinn fyrir mig var því að gista í  munkaklaustri, en ég var búinn að lesa að ef maður lendir í vanda er alltaf hægt að banka upp á í munkaklaustri, þar sem þeir geta ekki sagt nei við fólk í vanda.“ Þorpsbúarnir bentu Eiríki ánæsta klaustur þar sem hann fékk gistingu. „Þar fékk ég teppi og kodda og vaknaði eldsnemma næsta morgun og tók þátt í hugleiðslu og morgunmat.“

Ókostur að vera örvhentur

Þó svo að nóttin í munkaklaustrinu hafi verið afar sérstök þá segir Eiríkur að hann hafi upplifað
ansi margar sérstakar aðstæður á ferðalögum sínum. „Ég var til dæmis staddur í litlum bæ í Myanmar,
nálægt landamærum Indlands. Þar sem ég er mikill áhugamaður um indverska matargerð leiddist mér
það ekki og á þeim veitingastöðum þar sem lítil enska er töluð er gott að benda á disk hjá öðrum og biðja um það, óháð því hvort þú vitir hvað það inniheldur.“ Eiríkur nýtti sér það einmitt á einum veitingastaðnum í bænum. „Ég fékk ilmandi disk með ýmsu á, en engin hnífapör. Ég sá að allir borðuðu bara með höndunum og ég gerði það sama. Ég hef ekki hugmynd um hvað ég borðaði
en það var hrikalega gott.“
   Eiríkur tók á hinn bóginn eftir því að gestir staðarins horfðu á hann með undrunarsvip. „Ég var orðinn frekar vanur því eftir dvölina í Kína og kippti mér lítið upp við það. Eftir smá áttaði ég mig á því að eitthvað var öðruvísi við þetta augnaráð. Það virkaði frekar sem hneykslun og fyrirlitning. Ég hugsaði með mér að ég hlyti að vera að gera eitthvað rangt. Í mörgum löndum eru ýmsir siðir sem tíðkast ekki og hef ég ætíð verið duglegur að kynna mér þá svo ég lendi ekki í því að verða fyrir aðkasti eða fá einmitt þetta augnaráð sem ég fékk á þessu augnabliki. En ég áttaði mig bara ekki á því hvað það væri sem ég væri að gera rangt. Fingurnir mínir voru löðrandi í olíu og karrí eftir matinn og ég tók eftir því að gestir staðarins sleiktu einfaldlega puttana. Ég gerði að sjálfsögðu slíkt hið sama. Þjónninn var fljótur að hlaupa til mín með bréf og hristi hausinn og las yfir mér pistilinn. Ég skildi auðvitað ekkert sem maðurinn sagði. Eftir matinn þakkaði ég fyrir, gekk heim á leið og reyndi að átta mig á því hvað í ósköpunum ég hefði verið að gera rangt. Þá rann það upp fyrir mér. Á stöðum þar sem salernin eru tyrkneskar holur og klósettpappír tíðkast ekki skeinir fólk sér með vinstri hendi og borðar með hægri. Og ég er bullandi örvhentur.“

Miðlar ferðareynslunni

    Eiríkur var að vísu dauðfeginn að hafa uppgötvað ástæðu augnagotanna eftir að hann hafði yfirgefið staðinn. „Ég vissi alveg um þessa hefð en það er mér svo eðlislægt að borða með vinstri, ég var ekkert að pæla í þessu. En ég reyni alltaf eftir bestu getu að kynna mér hefðir í hverju landi, mér finnst það eiginlega skylda þar sem ég vinn sjálfur í ferðamannaiðnaðinum. Mér finnst mikilvægt að fólk sé meðvitað um fjölbreytileika mismunandi menningar og geti lesið í aðstæður. Það munu koma upp hlutir sem þú getur ekki undirbúið þig fyrir.“ Eiríkur er nú reynslunni ríkari og hyggst nota hana til að fræða ferðaþyrsta Íslendinga um töfra Víetnam og jafnvel fleiri landa í Asíu í framtíðinni.

15. JÚNÍ 2016
Erla María Markúsdóttir
erla@mbl.is

14.6.16

Breyting í ferðanefnd

Kæru félagar. Það hefur orðið smá breyting á ferðanefndinni. Birgir Eiríksson hefur fengið Tryggva Stefán Guðjónsson til að taka sitt sæti í nefndinni.

Þá skipa semsagt ferðanefnd þau Jutta, Tryggvi og Gissur.
Svo viljum við í stjórninni benda hjólafólki á að gæta að sér vegna hraðahindrana sem er verið að skrúfa niður úti um allan bæ, og sérlega þá “bólur” sem heyrst hefur að eigi að setja í einhver hringtorg!!

27.5.16

Yfir þrjátíu mótorhjólamenn á leið á Kirkjubæjarklaustur

 


Um þrjátíu keppendur úr Akstursíþróttafélaginu START eru á leið á Kirkjubæjarklaustur í motokrosskeppni. Hjólin voru gerð klár í gærkvöldi.


Félagar í klúbbnum eru skráðir með 31 hjól til keppni en sumir mæta með fleiri en eitt. Í gærkvöldi voru um 230 keppendur skráðir til leiks á Klaustri

„Þetta er eiginlega samkoma mótorhjólamanna,“ sagði Páll G. Jónsson sem fylgir syni sínum á Klaustur.

Hann gegndi einnig hlutverki skoðunarmanns í gærkvöldi. Fyrir hvert mót þarf að skoða keppnishjólin og tryggja að helsti öryggisbúnaður sé í lagi. Hjólin eru vanalega skoðuð á keppnisstað kvöldið fyrir keppni eða að morgni keppnisdags.

Austfirðingarnir eru hins vegar það margir að til að flýta fyrir fékkst leyfi til að skoða hjólin eystra og það var gert á verkstæði Rafeyjar á Egilsstöðum.

Félagar í START hafa verið duglegir við að mæta á mótin á Klaustri. Keyrt er í sex klukkutíma en mismunandi keppnisflokkar eru í boði þannig menn geta skipst á að keyra eða keyrt einir í flokki járnkalla. „Þarna eru hröðustu ökumenn landsins og þeir hægustu,“ segir Páll.

Keppendurnir fara ekki einir því þeim fylgja stuðningsmenn og tæknimenn en stundum þarf að lappa upp á hjólin í miðri keppni. Félagar í START verða líka áberandi, allir í eins peysum sem útbýtt var í gærkvöldi og þær merktar sérstaklega í tilefni 30 ára afmælis klúbbsins.

„Peysurnar gera þetta skemmtilegra. Þær vekja athygli á samheldnum hópi,“ sagði Magnús Ástráðsson, formaður START.


Austurfrett.is
Höfundur: Gunnar Gunnarsson • Skrifað: .

Stjórn tíunar 2016


Ný stjórn Tíunnar tók til starfa eftir aðalfundinn .


Stjórn 2016

Hrefna Björnsdóttir F
Páll Guðmundsson VF
Sigríður Dagný Þrastardóttir G
Jónína Baldursdóttir R
Jokka B Birnudóttir FF
Sigurvin X-Sukki Samuelsson
Súsanna Kristinsdóttir

26.5.16

Aðalfundur Tíunnar 21.maí 2016

Aðalfundur Tíunnar 21. Maí 2016 í Viðjulundi 1 Akureyri

Fundur hófst kl 19:30. 37 manns voru á fundinum.


1. Fundarstjóri var kosinn Páll Baldvin Guðmundsson og ritari Jónína Baldursdóttir.
2. Formaður, Óðinn Björnsson, fór yfir síðasta ár og þakkaði öllum fyrir samveru og samstarf.
Gizzur fór stuttlega yfir starf ferðanefndar og leggur fram ferðaplan fyrir sumarið 2016 sem inniheldur einnig 2 óvissuferðir.

3. Stjórn lagði fram endurskoðaða reikninga og gjaldkeri fór yfir tölur og gerði grein fyrir að einungis hafi náðst að fá undirskrift Bjarkar Sigurgeirsdóttur, þar sem Svandís Steingrímsdóttir var erlendis þegar reikningar voru klárir. Handbært fé félagsins var um áramót kr 539.597- Björk kom með ábendingu um að reikningar væru ekki nægilega aðgengilegir, að vantaði nánari upplýsingar um hvað væri hvað og raða betur í möppu. Stjórn lofar að bæta þetta og mun fá Svandísi til að skoða þegar hún kemur heim.4. Kosið var í stjórn Tíunnar og voru að þessu sinni 7 framboð.

5. Hjónakornin Oliver og Anna Guðný buðu sig fram til að telja atkvæði í hléi.

6. Tían bauð upp á snittur og drykki í hléi og var fólk almennt ánægt með veitingarnar.
Niðurstöður úr kosningu urðu svohljóðandi: Páll B Guðmundsson 31 atkvæði, Hrefna Björnsdóttir 26 atkvæði, Sigríður Dagný 21 atkvæði, Jokka 20 atkvæði, Geirdís Hanna 10 atkvæði, Halldóra Vilhjálms 13 atkvæði, Þóra Kristín 3 atkvæði. Það kom í ljós daginn eftir, að Þóra Kristín Hafdal hafði dregið framboð sitt til baka samdægurs og fór það framhjá stjórninni. Hennar nafn var því með í kosningu en þar sem hún fékk einungis 3 atkvæði breytir það ekki niðurstöðum kosninga.
Nýja stjórn skipa núna: Jónína Baldursdóttir, Sigurvin Samúelsson, Súsanna Kristinsdóttir, Hrefna Björnsdóttir, Páll B Guðmundsson, Jóhanna G Birnudóttir og Sigríður Dagný Þrastardóttir.

7. Kosið var í ferðanefnd. Fólk var ekki viljugt en 2 voru fengin til að taka hana að sér. Það eru þau Birgir Eiríksson og Jutta Solufari Knur. Gizzur bauðst til að vera þeim innan handar og hjálpa þeim að koma óvissuferðum í framkvæmd.

8. Björk Sigurgeirsdóttir bauð sig fram sem skoðunarmann reikninga áfram og ætlar stjórn að tala við Svandísi líka þegar hún kemur heim. Einnig kom fram hugmynd að tala við Kristínu Helgadóttur um það.

9. Önnur mál. Kosið var um að fundir í sumar yrðu færðir yfir á þriðjudagskvöld og mæting kl 19:30 við Mótorhjólasafnið. Fyrsti fundur næsta þriðjudag 24.maí og vikulega eftir það.
Rætt um leiðir til að ná betur til félagsmanna, athuga sms sendingar, vera sýnilegri á Facebook og leita meira til félaga við undirbúning og vinnu á viðburðum.
Virkja mannskapinn betur í vinnu á safninu, og stjórn safnsins sjái til þess að verkstjórn sé þar fyrir þá sem vilja koma inn og vinna.
Nýja stjórnin var síðan kynnt og mynduð.
Fundi slitið kl 20:30
Ritari JÓNÍNA BALDURSDÓTTIR·26. MAÍ 2016

24.5.16

Með dellu fyrir kaffireiserum


Ólafur Róbert Magnússon, eða Óli Bruni eins og margir kalla hann, hefur gert upp ófá hjólin í gegnum tíðina. Hann hefur sérstakt dálæti á breskum kaffireiserum. Í dag á hann átta hjól ásamt konu sinni en saman ferðast þau á mótorhjólum bæði innan lands og utan.


Mótorhjóladellan hefur fylgt Óla frá tólf ára aldri. „Þá sátum við Haukur Richardsson, besti vinur
minn, yfir mótorhjólablöðum á borð við Cycle World. Við keyptum síðan sína Hondu 50 hvor árið
1966, þá fimmtán ára gamlir, og dellan hefur bara versnað síðan þá,“ segir Óli glettinn.

Yfir 40 hjól 

Fljótlega létu þeir félagar sér ekki nægja að hjóla um á hjólunum heldur fóru að fikta, breyta og bæta og þeir hafa ekki hætt því. Áhugamálið var sett á pásu meðan Óli kom upp börnum en dellan hvarf þó aldrei. „Frá árinu 1987 má segja að ég hafi alltaf haft einhver hjól að gera upp,“ segir Óli sem hefur átt yfir fjörutíu hjól í heildina.

11.5.16

Á þriðja þúsund gestir á bíla- og mótorhjólasýningu

 Fornbílafjelag Borgarfjarðar og Bifhjólafjélagið Raftarnir héldu sameiginlega stórsýningu í Brákarey á laugardaginn. Þetta er í þriðja skipti sem félögin sameinast um sýningarhaldið, en fimmtán ár eru síðan Raftar héldu fyrstu sýningu sína í Borgarnesi, en eitt ár féll úr á þeim tíma þannig að sýningar þeirra eru nú orðnar fjórtán. Fornbílafjelagið er yngri félagsskapur og á sér því ekki eins langa sögu, en er engu að síður fjölmennur og sífellt vaxandi hópur áhugafólks um eldri bíla. Frítt var á sýninguna og kunnu gestir og gangandi vel að meta það.

Að sögn Höllu Magnúsdóttur formanns Raftanna gekk sýningarhaldið og dagurinn í það heila tekið eins vel og kostur var. Ræst hafi úr veðrinu þegar líða tók á morguninn, tekið hafi að lygna á veginum við Hafnarfjall, en hvassviðri er afar óæskilur fylgifiskur svona sýningarhalds. 
Halla áætlar að á þriðja þúsund gestir hafi mætt á svæðið. „Það gekk vel og allir sem ég hef rætt við voru ánægðir. Fjölmargir gestaklúbbar komu með hjól og bíla, sem og einstaklingar sem sýndu ökutæki sín. Auk þess kynntu umboðs- og söluaðilar ýmsar vörur og Golfklúbbur Borgarness og Skotfélag Vesturlands starfsemi sína, en þessi félög hafa bæði æfingaaðstöðu í gamla sláturhúsinu eins og við og Fornbílafjelagið. Svo um kvöldið þegar gestir voru farnir grilluðum félagsmenn í báðum félögunum saman í nýju félagsaðstöðu okkar Raftanna. 
Dagurinn var því góður og við erum alsæl,“ segir Halla. Sömu sögu höfðu félagar í Fornbílafjélaginu að segja sem blaðamaður ræddi við. Létt var yfir mannskapnum og ánægja með hversu margir gestir lögðu leið sína í Brákarey á laugardaginn.
Blaðamaður kýs að láta myndirnar tala sínu máli. Hann er ekki nægjanlega vel að sér í bílategundum og árgerðum til að leggja út í þá vegferð að gefa öllum farartækjum á sýningunni nöfn og kennitölur þannig að hnökralaust yrði.

Skessuhorn 
11.05.2016

2.5.16

Mótorhjól á belti og með skíði


Í lok vetrar kynnti mótorhjóla­verslunin Nitro Trax beltabúnað fyrir mótorhjól, boðið var upp á prufuakstur í Bláfjöllum.

Trax beltabúnaðurinn var settur á Beta 450 cc. mótorhjól frá Nitro, hjólið er um 50 hestöfl og var að skila ágætlega krafti í beltið þrátt fyrir verstu aðstæður sem mögulegar eru fyrir akstur á snjó (blautur krapasnjór sem var verulega þungur). Ég tók lítinn hring á hjólinu og fann strax að það var þungt að hjóla í 1. gír, en strax og sett var í annan gír léttist hjólið og í 3. gír virkaði allt miklu léttara. Maður beygir og hallar hjólinu rétt eins og á venjulegu mótorhjóli (bara gaman, gaman). Fyrir mér er svona búnaður spennandi aukahlutur á mótorhjólið, en bíð spenntur eftir að fá að prófa þennan búnað á nýjum frosnum snjó. Verðið á beltabúnaðinum með skíði og öllum festingum er rúm 1.100 þúsund, en Trax beltabúnað má setja á torfærumótorhjól sem eru frá 350 cc. fjórgengis og tvígengishjól sem eru stærri en 200 cc.
Hjörtur L. Jónsson
02. MAÍ 2016



26.2.16

Mótohjólafólk fái föt


Bifhjólasamtök Lýðveldisins, Sniglar, hafa gefið út lista yfir 10 helstu baráttumál bifhjólafólks á Íslandi og birt á heimasíðu sinni, www.sniglar.is.

Sniglar krefjist þess að aldursmörk á bifhjól verði lækkuð, að bifhjólafólk fái að nota strætóreinar og að notuð verði bifhjólavænni vegrið.

“Við viljum brýna aðeins stálið og setja fram þessi helstu baráttumál okkar,” sagði Hrönn Bjargar, formaður Snigla í samtali við bifhjol.is.

Fleira vekur athygli í kröfum sniglanna. Í ljósi þess að miklu varði að mótorhjólafólk sé klætt í góða hlífðarbúninga á vegum úti sé réttlætismál að vörugöld á fatnaði þeirra verðir felld niður.

Þannig lítur óskalisti Sniglanna út:
  1. Aldurstakmörk á A-próf verði lækkað í 19 ára, A2 próf í 17 ára og A1 próf í 16 ára, auk þess að reglugerð verði sett á gangstéttarvespur.
  2. Bannað verði að nota kubbahindranir í götum með meira en 30 km hámarkshraða.
  3. Fá sérstök bifhjólastæði í miðbæjum helstu þéttbýlisstaða.
  4. Vegrið séu bifhjólavæn og sérstakar undirakstursvarnir settar þar sem við á.
  5. Leyfa bifhjólum að nota strætóreinar til að auka sýnileika.
  6. Bifhjól verði flokkuð sem græn ökutæki og fái ívilnun á vörugjöldum og bílastæðum.
  7. Gerð verði sérstök kennslusvæði sem uppfylla þær kröfur sem gerðar eru í bifhjólaprófum.
  8. Öryggisfatnaður bifhjólafólks fái niðurfellingu á vörugjöldum.
  9. Skoðanir á bifhjól og skoðunarreglugerðir séu endurskoðaðar.
  10. Tekið sé tillit til þarfa bifhjólafólks við lagasetningar og að þær séu gerðar í samráði við bifhjólafólk.
Björn Þorláksson skrifar
26. febrúar 2016