Bifhjólaklúbburinn Goðar eru gestgjafar Landsmóts bifhjólamanna í ár. Það er að þessu sinni haldið á Iðavöllum á Fljótsdalshéraði, svæði sem til þessa hefur verið þekktara er fyrir ferfætta fáka en vélfáka.
Landsmótið er haldið árlega og var þar til fyrir nokkrum árum í umsjón Sniglanna, bifhjólasamtaka lýðveldisins. Undanfarin ár hafa hins vegar landssamtökin samið við klúbba víða um land um að halda mótið.
Fyrir um ári var haft samband við Goðana og segir Hjörtur Óli Ævarsson, formaður klúbbsins, að undirbúningur hafi staðið yfir í allan vetur. „Hann hefur gengið vel. Þeir einu sem við höfum ekki náð að semja við eru veðurguðirnir.“
Vonast er eftir um 200 manns á Iðavelli. Tónleikar verða í boði kvöldin þrjú en hið landsfræga Sniglaband spilar annað kvöld. Á laugardag verða síðan heimabönd, Nefndin leikur fyrir dans en á undan henni rokksveitirnar MurMur og Oni.
Tækifærið er nýtt til að kynna fjórðunginn fyrir mótorhjólafólki og á föstudag og laugardag er gert ráð fyrir akstri um Austurland. Hjörtur Óli segir fyrirhugað að fara um firðina og upp að Kárahnjúkum.
Mótið hefur tvisvar verið haldið á Austurlandi áður eftir því sem næst verður komist, í Végarði í Fljótsdal og Atlavík, en síðan eru liðin mörg ár.
Gestir koma ýmist á hjólum eða bílum, ýmist með hjólin í eftirdragi eða bara á bílnum til að taka þátt í ánægjunni. Þeir koma víða að, til dæmis komu tveir Færeyingar með Norrænu í morgun gagngert til að mæta á mótið.
Víða erlendis eru samkomur mótorhjólafólks kenndar við óspektir en Hjörtur Óli segir landsmótið með þeim friðsamari sem tök eru á. „Mótið var árum saman haldið í Húnaveri og lögregluþjónar á Blönduósi vildu helst vera á vakt þá helgi. Það fer allt svo friðsamlega fram.“
Austurfrett.is
Höfundur: Gunnar Gunnarsson • Skrifað: .