5.7.16

Náði 400 km hraða á mótorhjóli

Þau eru ekki mörg mótorhjólin sem ná 400 km hraða, en Kawasaki Ninja H2R er ekkert venjulegt mótorhjól og kostar svo mikið sem 50.000 dollara, eða eitthvað á sjöundu milljón króna.
Þannig hjóli ók Tyrkinn Kenan Sofuoglu fyrir stuttu og kom því á 400 hraða og það á um það bil 26 sekúndum og er sá stutti tími einn og sér hreint með ólíkindum. Þetta gerði hann ekki á akstursbraut, heldur á Izmit Bay-brúnni í Tyrklandi, en hún er með einstaklega slétt yfirborð og heppileg til hraðaksturs. Brúnni var lokað á meðan á þessum magnaða akstri Sofuoglu stóð, en hann var skipulagður af Kawasaki-fyrirtækinu.

Með afl á við sportbíl 

Kawasaki Ninja H2R er 300 hestöfl og ekki löglegt á almennum vegum, heldur ætlað að glíma við keppnisbrautir. Það er hins vegar Kawasaki Ninja H2 hjólið, með ekkert R í endann og er það 200  hestöfl og ætti það afl að duga flestum. Kawasaki hafði veitt Kenan Sofuoglu þær upplýsingar að Kawasaki Ninja H2R hjólið væri með uppgefinn hámarkshraða upp á 380 km/klst. en það væri engu að síður draumur margra hjá fyrirtækinu að hægt væri að koma því í 400 km hraða. Það sannaði Kenan Sofuoglu og á nú fyrir vikið hraðaheimsmet á mótorhjóli.
Fréttablaðið 05.07.2016