Ólafur Róbert Magnússon, eða Óli Bruni eins og margir kalla hann, hefur gert upp ófá hjólin í gegnum tíðina. Hann hefur sérstakt dálæti á breskum kaffireiserum. Í dag á hann átta hjól ásamt konu sinni en saman ferðast þau á mótorhjólum bæði innan lands og utan.
Mótorhjóladellan hefur fylgt Óla frá tólf ára aldri. „Þá sátum við Haukur Richardsson, besti vinur
minn, yfir mótorhjólablöðum á borð við Cycle World. Við keyptum síðan sína Hondu 50 hvor árið
1966, þá fimmtán ára gamlir, og dellan hefur bara versnað síðan þá,“ segir Óli glettinn.
Yfir 40 hjól
Fljótlega létu þeir félagar sér ekki nægja að hjóla um á hjólunum heldur fóru að fikta, breyta og bæta og þeir hafa ekki hætt því. Áhugamálið var sett á pásu meðan Óli kom upp börnum en dellan hvarf þó aldrei. „Frá árinu 1987 má segja að ég hafi alltaf haft einhver hjól að gera upp,“ segir Óli sem hefur átt yfir fjörutíu hjól í heildina.Óli hefur átt margar tegundir hjóla, allt frá Peugeot skellinöðru upp í Harley Davidson. Frá árinu 1990 hafa þó bresk hjól umfram önnur átt hug hans. Þó segir hann þá dellu aðeins fara minnkandi. „Ég segi oft, breskt er best,“ segir Óli glaðlega en hann telur sig ekki eiga neitt uppáhaldsmerki, þó hafi hann ávallt haft miklar mætur á breska merkinu Norton.
Sterkasta dellan í gegnum tíðina hafa verið svokallaðir kaffireiserar. Kaffireiser eða caféracer má rekja til Bretlands á sjöunda áratugnum. Slík mótorhjól voru notuð til að skutlast á milli kaffihúsa og bara en þau urðu síðar einnig mjög vinsæl á Ítalíu, Frakklandi og öðrum Evrópulöndum.
Óli Bruni hefur ekki tölu á þeim hjólum sem hann hefur gert upp, breytt og bætt. „Þrjú þeirra eru á mótorhjólasafninu á Akureyri en Heiðar heitinn Jóhannsson keypti tvö þeirra af mér meðan hann lifði, einn Norton og einn Triumph Trident, og bróðir hans keypti af mér eina Legend landsins.“
Nýtur veturna í endurbætur
Óli hafði um tíma mikinn áhuga á Harley Davidson hjólum og breytti nokkrum þeirra líka. „Þósumir segi reyndar að ekki sé hægt að breyta slíkum hjólum í neitt betra en upprunalegu útgáfuna,“ segir hann glettinn.
Hjólin sín kaupir Óli frá Englandi og Ameríku, en nokkur hefur hann líka keypt hér heima. „Ég er
svo sérvitur að helst vil ég ekki að nokkur Íslendingur hafi átt þau á undan mér því þá eru hjólin oft
kennd við fyrstu eigendurna.“ Hann nýtir iðulega veturinn til að gera upp hjólin. „Ef það tekur
mig meira en ár að gera upp hjól fæ ég leiða á verkefninu,“ segir Óli sem nýtur góðrar aðstoðar frá
Hirti Jónassyni við verkin. En hvað verður um hjólin sem hann gerir upp? „Sum hef ég selt hér heima en í raun er enginn markaður fyrir slík hjól hér á landi,“ svarar Óli sem sjálfur á átta hjól í dag ásamt Ásu eiginkonu sinni.
Konan er Skutla
„Ása byrjaði að hjóla á gamals aldri. Hún á sitt hjól og hefur farið nokkra hringi í kringum landið með félögum sínum í Skutlunum,“ upplýsir Óli. Hann telur ómetanlegt fyrir dellukarl eins ogsig að eiga skilningsríkan maka enda fer ómældur tími í áhugamálið. „Yfir vetrarmánuðina er
ég í tvo til þrjá tíma í bílskúrnum nokkrum sinnum í viku og lengur um helgar, jafnvel heilu dagana.
Ég held að konan sé bara ánægð með það,“ segir hann og brosir.
Góður ferðamáti
Þau hjónin hafa ferðast töluvert á mótorhjólum í gegnum tíðina, sér í lagi erlendis. „Þá situr hún yfirleitt aftan á,“ segir Óli. Þau hafa hjólað í Ameríku en einnig í Evrópu. Í byrjun júní er förinni til dæmis heitið til Spánar þar sem þau munu leigja hjól til að ferðast á. „Við leigjum oftast hjól en meðan ég var með Harleydelluna fluttum við hjól í gámi til Rotterdam og einu sinni til Bilbao á Spáni.“Þverhaus
Óli Bruni hefur verið í ýmsum mótorhjólaklúbbum. Í dag er hann í Þverhausum. „Það er klúbbur í kringum gömlu hjólin. Þar er enginn formaður, engin lög og enginn gjaldkeri. Þar eru allir númer tvö og enginn ofar öðrum,“ segir Óli Bruni og líkar lýðræðið vel.
solveig@365.is
24. 05.2016