11.5.16

Á þriðja þúsund gestir á bíla- og mótorhjólasýningu

 Fornbílafjelag Borgarfjarðar og Bifhjólafjélagið Raftarnir héldu sameiginlega stórsýningu í Brákarey á laugardaginn. Þetta er í þriðja skipti sem félögin sameinast um sýningarhaldið, en fimmtán ár eru síðan Raftar héldu fyrstu sýningu sína í Borgarnesi, en eitt ár féll úr á þeim tíma þannig að sýningar þeirra eru nú orðnar fjórtán. Fornbílafjelagið er yngri félagsskapur og á sér því ekki eins langa sögu, en er engu að síður fjölmennur og sífellt vaxandi hópur áhugafólks um eldri bíla. Frítt var á sýninguna og kunnu gestir og gangandi vel að meta það.

Að sögn Höllu Magnúsdóttur formanns Raftanna gekk sýningarhaldið og dagurinn í það heila tekið eins vel og kostur var. Ræst hafi úr veðrinu þegar líða tók á morguninn, tekið hafi að lygna á veginum við Hafnarfjall, en hvassviðri er afar óæskilur fylgifiskur svona sýningarhalds. 
Halla áætlar að á þriðja þúsund gestir hafi mætt á svæðið. „Það gekk vel og allir sem ég hef rætt við voru ánægðir. Fjölmargir gestaklúbbar komu með hjól og bíla, sem og einstaklingar sem sýndu ökutæki sín. Auk þess kynntu umboðs- og söluaðilar ýmsar vörur og Golfklúbbur Borgarness og Skotfélag Vesturlands starfsemi sína, en þessi félög hafa bæði æfingaaðstöðu í gamla sláturhúsinu eins og við og Fornbílafjelagið. Svo um kvöldið þegar gestir voru farnir grilluðum félagsmenn í báðum félögunum saman í nýju félagsaðstöðu okkar Raftanna. 
Dagurinn var því góður og við erum alsæl,“ segir Halla. Sömu sögu höfðu félagar í Fornbílafjélaginu að segja sem blaðamaður ræddi við. Létt var yfir mannskapnum og ánægja með hversu margir gestir lögðu leið sína í Brákarey á laugardaginn.
Blaðamaður kýs að láta myndirnar tala sínu máli. Hann er ekki nægjanlega vel að sér í bílategundum og árgerðum til að leggja út í þá vegferð að gefa öllum farartækjum á sýningunni nöfn og kennitölur þannig að hnökralaust yrði.

Skessuhorn 
11.05.2016