Tveir Íslendingar munu seinna í þessum mánuði taka þátt í forvali fyrir draumaferð hvers mótorhjólamanns eða -konu um eyjuna Madagascar úti fyrir ströndum Afríku.
Touratech er stærsti framleiðandi aukahluta fyrir ferðahjól í heiminum í dag og sem kynningu á fyrirtækinu var ákveðið að setja upp ferð með góðgerðarmál og ferðamennsku á stefnuskránni. Ferðin verður farin í apríl á Touratech útbúnum ferðahjólum af ýmsum gerðum um eyjuna Madagascar og tekur tíu daga.
200 umsækjendur
Tveir starfsmenn Touratech stjórna ferðinni og buðu öllum sem vildu að sækja um sex laus sæti. Alls sóttu 200 manns um og voru tveir aðilar valdir frá hverri heimsálfu fyrir sig. Það merkilega gerðist að báðir fulltrúar Evrópu eru frá Íslandi, en það eru þau Guðmundur Björnsson læknir og Inga Birna Erlingsdóttir lögreglukona. Bæði eru mjög virk í akstri ferðahjóla en Inga Birna komst meðal annars í úrslit GS Trophy International-mótorhjólakeppninnar í fyrra, eins og fjallað hefur verið um hér á síðum Morgunblaðsins. Ljóst er að annað þeirra mun komast í draumaferðina en hvort þeirra það verður kemur í ljós eftir fund með skipuleggjendum ferðarinnar í lok febrúar í Þýskalandi. Morgunblaðið mun að sjálfsögðu fylgjast með og segja frá ævintýrinu þegar fram vindur. njall@mbl.is
https://www.mbl.is/bill/frettir/2016/03/07/tveir_islendingar_i_forvali/