Ferðalög, saga og mótorhjól eru þrjú helstu áhugamál Hafnfirðingsins Eiríks Viljars Hallgrímssonar Kúld. Honum hefur nú tekist að sameina þetta þrennt með því að þræða fáfarna vegi í Asíu þar sem hann lenti í hinum ýmsu ævintýrum þar sem skæruliðar í hengirúmum, munkar og matarást koma meðal annars við sögu. Eiríkur ætlar nú að nýta reynslu sína í að leiða íslenska ferðalanga um Víetnam á mótorhjóli næsta haust.
Ég lærði sögu í háskólanum og er núna í meistaranámi í framhaldsskólakennsluréttindum sem
sögukennari. Ég hef óbilandi áhuga á sögu og ferðalögum sem tvinnast mikið saman. Eftir að ég tók mótorhjólaprófið þá vaknaði nýr áhugi hjá mér, að nota mótorhjól sem ferðamáta,“ segir Eiríkur. Ævintýramennska hefur einkennt líf hans síðastliðin ár en hann hefur tekið sér ýmislegt fyrir hendur í gegnum tíðina. Eiríkur hefur til að mynda verið kennari í leik- og grunnskóla, bæði hér á landi og í Kína, stuðningsfulltrúi á meðferðarheimili, spilað knattspyrnu með FH og nú síðast verið leiðsögumaður fyrir erlenda ferðamenn um söguslóðir Reykjavíkur sem hann gerir enn. Eiríkur á
mörg ferðalög á mótorhjóli að baki og stendur efst upp úr annars vegar ferðalag niður Víetnam endilangt og hins vegar Suður-Kína og Myanmar.
„Þetta byrjaði eftir að ég útskrifaðist úr framhaldsskóla, þá fóru ég og vinur minn í þessa týpísku Evrópureisu þar sem við keyptum okkur lestarmiða sem var opinn í sex vikur. Þarna fékk maður tilfinningu fyrir því hvað það er gaman að ferðast og sjá nýja hluti á hverjum degi, ráða ferðinni sjálfur og vera frjáls,“ segir Eiríkur.
Áhugamál semvarð að ástríðu
Þegar hann lauk BA-gráðu í sagnfræði í Háskóla Íslands var komið að næstu ferð. „Ég fór til Suðaustur-Asíu með tveimur vinum mínum. Við ákváðum að kaupa okkur mótorhjól í Víetnam og tókum mánuð í að hjóla frá norðri til suðurs. Þetta eru á bilinu 1.700-1.800 kílómetrar, semsagt aðeins meira en hringvegurinn á Íslandi. Ég var eini með mótorhjólapróf og var búinn að vera að ferðast mikið hérna heima og var að fá þessa dellu, en það var ekki fyrr en eftir þetta ferðalag sem ég uppgötvaði mótorhjól sem ferðamáta. Það er svo mikið frelsi sem fylgir því að vera ekki þessi týpíski ferðalangur sem er bundinn við tíma á rútu, lest eða flugvél.“Eiríkur segir að þeir félagarnir hafi upplifað Víetnam á einstakan hátt, en mótorhjól eru ekki leyfð á helstu þjóðvegum landsins. „Við þurftum að keyra á svokölluðum Bog C-vegum, sem eru frekar lélegir drullu- og malarvegir. Við fórum því út fyrir hina týpísku ferðamannastaði en það er það sem við vorum að leitast eftir. Þetta var svo ekta og okkur fannst það svo geggjað, maturinn, lyktin og jafnvel ruslið á götunum, þetta var allt þess virði.“
Þegar inn í borgirnar sjálfar var komið, eins og Hanoi í norðri og Saigon í suðri, lýsir Eiríkur umferðinni á hinn bóginn sem hálfgerðri martröð. „Ég man eftir því að þegar ég hjólaði inn í Saigon tók það okkur um fjóra tíma að komast inn í borgina. Þegar ég kom inn í risastórt hringtorg breyttist umferðin í hálfgerða fiskitorfu og ég endaði innarlega í torginu en vinir mínir utarlega. Ég varð viðskila við þá og fylgdi fiskitorfunni og það tók mig marga klukkutíma að finna þá aftur. En þetta er bara hluti af þessu.“ Eftir ferðina til Víetnam fór Eiríkur að finna fyrir enn meiri ástríðu en áður fyrir ferðalögum og mótorhjólum. „Ég held að ég hafi orðið „hooked“ á þessu og um leið og ég kom heim byrjaði ég að plana lengri ferðir í kringum Ísland, ég fór til dæmis Vestfirðina og hringinn í kringum landið með tjald og var að undirbúa mig fyrir lengri ferðir og byrjaði að lesa mótorhjólabækur og blogg. Þetta var að verða ákveðin ástríða.“
Eiríkur fór í mikla rannsóknarvinnu í eitt ár til að finna hvert ferðinni yrði næst heitið. „Mig langaði að tvinna ferðina saman við kennaranámið og ég var búinn að lesa að Íslendingar væru að fara til Kína og fleiri staða að kenna ensku.“ Eiríkur lagði af stað í reisuna síðastliðið haust. Kennslan var ekki alveg eins og Eiríkur bjóst við og reyndist töluvert erfiðari þar sem kínverski aðstoðarkennarinn talaði enga ensku og nemendurnir eingöngu kínversku. „Ég rann svolítið blint í sjóinn með þetta, en svoleiðis var það bara.“ Kennsluævintýrið varð því styttra en upphafleg plön gerðu ráð fyrir og
mótorhjólaævintýrið tók við.
Skæruliðar í hengirúmum
Eiríkur lagði af stað frá Kunming í Júnnanhéraði í Kína og hjólaði upp til Tíbet og aftur niður til Kunming. Þaðan fór hann yfir til Myanmar (Búrma) og hjólaði þvert yfir landið frá austri til vesturs. „Þetta voru sirka þrír mánuðir allt í allt og algjört ævintýri, sérstaklega að vera einn, en ég hafði aldrei áður ferðast einn um á mótorhjóli. Hvaða leið ég fór og hversu langan tíma hún tók kom bara í ljós hverju sinni.“Eiríkur á mörg minnisstæð augnablik úr ferðinni og ber þar hæst frumskógarævintýri frá Myanmar. „Ég villtist af leið, vísvitandi. Ég ætlaði að stytta mér leið í gegnum hérað sem er á valdi skæruliða og ég vissi að ég mætti í raun ekki fara þar í gegn, en þetta voru bara 180 kílómetrar, sem er ekki mikið, a.m.k. þegar maður hugsar um íslenska vegi. Ég hélt að þetta myndi taka svona þrjá til fjóra tíma.“ Á leið sinni um héraðið mætti Eiríkur mörgum skæruliðum, en þar sem þeir voru mjög óvanir umferð um héraðið voru þeir búnir að koma sérvel fyrir í hengirúmum og kipptu sér lítið upp við eitt mótorhjól sem þaut í gegn.
„Ég passaði mig reyndar á að fela andlitið með klút svo það sæist minna að ég væri ferðamaður og þegar ég leit í baksýnisspegilinn sá ég að þeir kíktu alveg á eftir mér áður en þeir sneru svo aftur í hengirúmið.“ Það sem Eiríkur vissi aftur á móti ekki var að hann var á leiðinni í gegnum frumskóg. „Að keyra í gegnum frumskóg er ekkert eins og að keyra eftir suðurströndinni á Íslandi. Eftir 12 tíma var ég búinn að keyra 70 kílómetra og þá var farið að dimma. Ég varð því að finna mér næturstað.
Eiríkur komst í næsta þorp og þar ráku íbúar upp stór augu þegar þeir sáu hann, enda alls ekki vanirþví að fá ferðalanga í frumskóginn.
„Þar fékk ég þær upplýsingar að ég gæti ekki gist í þorpinu þarsem þau gætu ekki tekið ábyrgð á mér. Þau ættu í baráttu við herinn og ef eitthvað kæmi fyrir mig gæti það komið þeim illa í þeirra réttindabaráttu. Eini sénsinn fyrir mig var því að gista í munkaklaustri, en ég var búinn að lesa að ef maður lendir í vanda er alltaf hægt að banka upp á í munkaklaustri, þar sem þeir geta ekki sagt nei við fólk í vanda.“ Þorpsbúarnir bentu Eiríki ánæsta klaustur þar sem hann fékk gistingu. „Þar fékk ég teppi og kodda og vaknaði eldsnemma næsta morgun og tók þátt í hugleiðslu og morgunmat.“
Ókostur að vera örvhentur
Þó svo að nóttin í munkaklaustrinu hafi verið afar sérstök þá segir Eiríkur að hann hafi upplifaðansi margar sérstakar aðstæður á ferðalögum sínum. „Ég var til dæmis staddur í litlum bæ í Myanmar,
nálægt landamærum Indlands. Þar sem ég er mikill áhugamaður um indverska matargerð leiddist mér
það ekki og á þeim veitingastöðum þar sem lítil enska er töluð er gott að benda á disk hjá öðrum og biðja um það, óháð því hvort þú vitir hvað það inniheldur.“ Eiríkur nýtti sér það einmitt á einum veitingastaðnum í bænum. „Ég fékk ilmandi disk með ýmsu á, en engin hnífapör. Ég sá að allir borðuðu bara með höndunum og ég gerði það sama. Ég hef ekki hugmynd um hvað ég borðaði
en það var hrikalega gott.“
Eiríkur tók á hinn bóginn eftir því að gestir staðarins horfðu á hann með undrunarsvip. „Ég var orðinn frekar vanur því eftir dvölina í Kína og kippti mér lítið upp við það. Eftir smá áttaði ég mig á því að eitthvað var öðruvísi við þetta augnaráð. Það virkaði frekar sem hneykslun og fyrirlitning. Ég hugsaði með mér að ég hlyti að vera að gera eitthvað rangt. Í mörgum löndum eru ýmsir siðir sem tíðkast ekki og hef ég ætíð verið duglegur að kynna mér þá svo ég lendi ekki í því að verða fyrir aðkasti eða fá einmitt þetta augnaráð sem ég fékk á þessu augnabliki. En ég áttaði mig bara ekki á því hvað það væri sem ég væri að gera rangt. Fingurnir mínir voru löðrandi í olíu og karrí eftir matinn og ég tók eftir því að gestir staðarins sleiktu einfaldlega puttana. Ég gerði að sjálfsögðu slíkt hið sama. Þjónninn var fljótur að hlaupa til mín með bréf og hristi hausinn og las yfir mér pistilinn. Ég skildi auðvitað ekkert sem maðurinn sagði. Eftir matinn þakkaði ég fyrir, gekk heim á leið og reyndi að átta mig á því hvað í ósköpunum ég hefði verið að gera rangt. Þá rann það upp fyrir mér. Á stöðum þar sem salernin eru tyrkneskar holur og klósettpappír tíðkast ekki skeinir fólk sér með vinstri hendi og borðar með hægri. Og ég er bullandi örvhentur.“
Miðlar ferðareynslunni
Eiríkur var að vísu dauðfeginn að hafa uppgötvað ástæðu augnagotanna eftir að hann hafði yfirgefið staðinn. „Ég vissi alveg um þessa hefð en það er mér svo eðlislægt að borða með vinstri, ég var ekkert að pæla í þessu. En ég reyni alltaf eftir bestu getu að kynna mér hefðir í hverju landi, mér finnst það eiginlega skylda þar sem ég vinn sjálfur í ferðamannaiðnaðinum. Mér finnst mikilvægt að fólk sé meðvitað um fjölbreytileika mismunandi menningar og geti lesið í aðstæður. Það munu koma upp hlutir sem þú getur ekki undirbúið þig fyrir.“ Eiríkur er nú reynslunni ríkari og hyggst nota hana til að fræða ferðaþyrsta Íslendinga um töfra Víetnam og jafnvel fleiri landa í Asíu í framtíðinni.
15. JÚNÍ 2016
Erla María Markúsdóttir
erla@mbl.is