Um þrjátíu keppendur úr Akstursíþróttafélaginu START eru á leið á Kirkjubæjarklaustur í motokrosskeppni. Hjólin voru gerð klár í gærkvöldi.
Félagar í klúbbnum eru skráðir með 31 hjól til keppni en sumir mæta með fleiri en eitt. Í gærkvöldi voru um 230 keppendur skráðir til leiks á Klaustri
„Þetta er eiginlega samkoma mótorhjólamanna,“ sagði Páll G. Jónsson sem fylgir syni sínum á Klaustur.
Hann gegndi einnig hlutverki skoðunarmanns í gærkvöldi. Fyrir hvert mót þarf að skoða keppnishjólin og tryggja að helsti öryggisbúnaður sé í lagi. Hjólin eru vanalega skoðuð á keppnisstað kvöldið fyrir keppni eða að morgni keppnisdags.
Austfirðingarnir eru hins vegar það margir að til að flýta fyrir fékkst leyfi til að skoða hjólin eystra og það var gert á verkstæði Rafeyjar á Egilsstöðum.
Félagar í START hafa verið duglegir við að mæta á mótin á Klaustri. Keyrt er í sex klukkutíma en mismunandi keppnisflokkar eru í boði þannig menn geta skipst á að keyra eða keyrt einir í flokki járnkalla. „Þarna eru hröðustu ökumenn landsins og þeir hægustu,“ segir Páll.
Keppendurnir fara ekki einir því þeim fylgja stuðningsmenn og tæknimenn en stundum þarf að lappa upp á hjólin í miðri keppni. Félagar í START verða líka áberandi, allir í eins peysum sem útbýtt var í gærkvöldi og þær merktar sérstaklega í tilefni 30 ára afmælis klúbbsins.
„Peysurnar gera þetta skemmtilegra. Þær vekja athygli á samheldnum hópi,“ sagði Magnús Ástráðsson, formaður START.
Austurfrett.is
Höfundur: Gunnar Gunnarsson • Skrifað: 27. maí 2016.