22.12.15

minna er svo miklu meira

Minna er meira“ sagði þýski arkitektinn og húsgagnahönnuðurinn Ludwig Mies van der Rohe. Honum myndi því eflaust þykja þetta hjól frá Bandit9 heill hellingur þar sem það er ekki neitt neitt!
Bandit9 eru vanir að smíða mótorhjól sem tekið er eftir og nægir í því sambandi að nefna módel á borð við Nero MKII, The Bishop og núna þetta silfurlitaða listaverk sem nefnist Ava.
 Hún sver sig í ættina því hjólin frá fyrirtækinu eru iðulega list sem má hjóla á.

Aðeins níu stykki smíðuð   

Eflaust munu færri komast að en vilja þegar hjólin verða sett á sölu því aðeins níu eintök voru smíðuð í það heila. Grunnurinn er 125cc Honda Supersport en boddíið er handsmíðað úr hápóleruðu stáli, eins og sjá má, enda geta sællegir og stálheppnir eigendur speglað sig um leið og þeir dást að nýja hjólinu sínu.
jonagnar@mbl.is
22.12.2015

3.12.15

Konan sem sigraði karlana

Vikudagur 3.des 2015

Halldóra Vilhjálmsdóttir, þriggja barna móðir og leikskólakennari í Eyjafjarðarsveit, varð á dögunum fyrsta  konan í 41 árs sögu Bílaklúbbs Akureyrar til að vera valin akstursíþróttamaður ársins en félagið er það fjölmennasta sinnar tegundar á landinu. Halldóra segir mótorsport ekki vera karlaíþrótt og vonast til þess að með útnefningunni sé hún að ryðja veginn betur fyrir konur sem hafa áhuga á akstursíþróttum. Vikudagur settist niður með Halldóru og spjallaði við hana um mótorsportið ,staðalímyndir og fleira.

"Það var kominn tími á að kona fengi þessa nafnbót og ég er vonandi að ryðja brautina fyrir aðrar" segir Halldóra sem varð íslandsmeistari í 200 m götuspyrnu F-hjóla á árinu. " Þetta er mikill heiður og viðurkenning fyrir mig, að það sé litið þannig á að minn árangur að ég eigi þetta skilið. Sérstaklega þar sem ég er fyrsta konan sem er valin. Sú staðalímynd að mótorsport sé bara fyrir karlmenn hefur verið viðloðandi lengi en raunin er sú að þeta er ekkert frekar karlasport fremur en það sé kvennmannsverk að skúra.
Við erum alltof föst í staðalímyndum og þurfum að taka af okkur svuntuna og koma okkur út úr þessari þröngsýni. Það að keppa á mótorhjólum eða torfærubílum er ekki bundið við karlmenn " segir Halldóra.

Kom þér valið á óvart?

"Já það gerði það að hluta til, sérstaklega að vera tilnefnd. Það fór fram kosning á netinu þar sem ég var með afgerandi forystu. Ég fékk svo símtal frá fomanni Bílaklúbbsins þar sem ég ver beðin að mæta á lokahófið sem ein af þeim tilnefndu. Stjórnin átti eftir að kjósa og gillti 50% á móti netkostningunni. Miðað við netkostninguna var ég kominn með þumalputtann hálfa leið upp en maður vissi þó aldrei hvernig endanleg niðurstaða yrði."

Var eina stelpan á skellinöðru

Halldóra var 15 ára þegar hún fékk skellinöðru í fyrsta sinn og þá var ekki aftur snúið. " Þegar ég var að byrja að keyra skellinöðru sem unglingur þótti þetta mjög skrítið. Ég var eina stelpan í bænum í þessu sporti á þeim tíma og var litin hornauga. Ég var alltaf að hjóla með strákunum og var ein af þeim.
  Ég fann ekkert mikið fyrir fordómum en eflaust voru þeir til staðar og eru enn. En ég var alltaf

3.11.15

Atvikið á Sepang brautinni hefur sett keppnistímabilið í MotoGP í uppnám

 

Er úti um titilvonir Valentino Rossi?

Atvikið á Sepang brautinni hefur sett keppnistímabilið í MotoGP í uppnám

Klukkan 15:11 að staðartíma sunnudaginn 25. október síðastliðinn gerðist atvik á Sepang brautinni sem breytti öllu keppnistímabilinu í MotoGP og setti allt á annan endann fyrir síðustu keppnina í Valencia sem fram fer um næstu helgi. Heimsmeistarinn Marc Marques og fyrrverandi heimsmeistarinn Valentino Rossi, sem er í forystu í stigakeppninni í ár, höfðu barist af hörku um þriðja sætið í keppninni þegar Marquez þröngvar sér upp að vinstri hlið Rossi skömmu fyrir krappa hægri beygju. Rossi að því er virðist hægir aðeins á sér til að fá Marquez til að hætta við atlöguna en þegar hann gerir það ekki tekur Rossi sig til og rekur fótinn í stýrið á hjóli Marquez sem fellur við. Vegna atviksins eru Rossi dæmd þrjú refsistig og þar sem hann var með eitt refsistig á bakinu þarf hann því að ræsa aftastur í síðustu keppninni með aðeins sjö stiga forystu í heimsmeistarakeppninni. Aðalkeppninautur hans Jorge Lorenzo mun að öllum líkindum ræsa af fremstu rásröð enda er hann að keppa þar á sínum heimavelli, og verður því við ramman reip að draga fyrir aumingja Rossi.

Var atvikið réttlætanlegt?

En hvernig gerir nífaldur heimsmeistari eins og Rossi svona afdrifarík mistök, gæti einhver spurt? Rossi hafði nokkru áður sakað Marquez um að keppa gegn honum en fyrir Lorenzo, því að eftir slakt gengi í byrjun tímabilsins á Marquez ekki lengur von á þriðja titlinum í röð.
Lorenzo er samlandi Marquez en Rossi er frá Ítalíu, en frá báðum löndum koma oft blóðheitir keppnismenn. Það má heldur ekki gleyma því að þótt Marquez eigi ekki lengur von á titli er hann fyrst og fremt keppnismaður og fær borgað fyrir að vinna keppnir. Keppnin í ár stendur einnig á milli Honda og Yamaha og þar sem að þeir kepptu um þriðja sætið snerist keppnin ekki síst um það hvort liðið hefði tvö hjól á verðlaunapalli. Marquez hafði eins og áður sagði gert harða atlögu að Rossi og þeir höfðu skipst á forystu fram og til baka og aldrei meira en hjóllengd á milli þeirra. Fyrir þá sem á horfðu varð þessi hanaslagur þess valdandi að neglur voru nagaðar niður í kviku og lamið í sófaborð af öllu afli. Stuttu fyrir atvikið storkaði Marquez honum mikið og Rossi brást við með því að veifa eins og einhver sem lendir í að svínað sé á hann í umferðinni. Þessir leikrænu tilburðir höfðu engin áhrif á Marquez sem hélt uppteknum hætti og eftir á hafa sumir sagt að Rossi hafi verið í rétti að sparka til Marquez eftir þessar atlögur. Vandamálið fyrir Rossi var bara eins og hann veit best sjálfur að það eru reglur í MotoGP keppninni eins og öðrum keppnum og ásamt dómurunum með reglugerðarbókina voru hundruð milljóna áhorfenda að fylgjast með í beinni útsendingu. Jú, að vísu hafði Marquez rekið höfuðið í rassinn á Rossi skömmu áður og hvað var þá að því að Rossi ræki fótinn aðeins í hann? Málið var einfaldlega það að Rossi hægði á sér fyrir beygjuna og leit á Marquez á meðan og tekur svo þá ákvörðun að sparka í hann. Þegar atvikið er skoðað í þessu samhengi verður ásetningurinn augljós og Rossi verður því að sætta sig við þá niðurstöðu að byrja aftastur í Valencia.

Ekki öll von úti

Rossi getur þó átt nokkra möguleika ennþá og ef hann nær sjötta sæti. Til dæmis þarf Lorenzo að verða í öðru af efstu tveimur sætunum til að vinna heimsmeistarakeppnina. Rossi hefur áður þurft að ræsa aftarlega og unnið sig upp í efstu sæti svo að spennan fyrir áhangendur Rossi og Lorenzo er gífurleg. Hvað liðsmenn Honda gera til að hafa áhrif á þann slag verður að koma í ljós en Pedrosa og Marquez hafa eflaust fengið þá skipun að vinna efstu tvö sætin í sárabætur fyrir slakt gengi á árinu. Marquez á brautarmetið í Valencia og Pedrosa hefur oftast unnið þar keppni. Það stefnir því í mikla veislu næstkomandi sunnudag en keppnin verður meðal annars sýnd í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport 3 og hefst dagskráin klukkan 12:50 að íslenskum tíma.
Hér má sjá í hvaða sæti Valentino Rossi þarf að lenda á móti Jorge Lorenzo til að hampa heimsmeistaratitlinum:
Lorenzo fyrstur, Rossi annar
Lorenzo annar, Rossi þriðji
Lorenzo þriðji, Rossi sjötti
Lorenzo fjórði, Rossi níundi
Lorenzo fimmti, Rossi ellefti
Lorenzo sjötti, Rossi tólfti
Lorenzo sjöundi, Rossi þrettándi
Lorenzo áttundi, Rossi fjórtándi
Lorenzo níundi, Rossi fimmtándi 

njall@mbl.is

Framtíðin í mótorhjólum?Mótorhjólatæknin frá Yamaha

Tokyo Motor Show er sýning sem snýst um að sýna nýjustu tækni í heimi farartækja og þess vegna snýst hún ekki einungis um bíla, heldur líka mótorhjól og stundum jafnvel vélmenni lika. Yamaha sýndi okkur inní alla þessa heima á sýningunni því að Yamaha frumsýndi ekki aðeins sinn fyrsta bíl heldur einnig þríhjóla sportmótorhjól og vélmenni sem getur keyrt alvöru keppnishjól.

Vélmennið veitir innsýn

Motobot er sjálfvirkt vélmenni sem getur tekið ákvarðanir og er hannaður til að ráða við akstur mótorhjóls, sem er ekkert smáverkefni fyrir tæknimenn Yamaha. Motobot er ekkert fyrir að keyra lítil æfingarhjól og lætur ekkert minna duga en aðeins breytt Yamaha R1M. Stefnan er að hann geti ekið óbreyttu hjóli á keppnisbraut á meira en 200 km hraða. Í fréttatilkynningu frá Yamaha segir að verkefnið að láta vélmenni stýra mótorhjóli sé óendanlega flókið og krefst mikillar nákvæmni á mörgum sviðum. Með þessu næst fram innsýn í alla þætti mótorhjólaaksturs og þar af leiðandi meiri árangur í tæknilegum öryggisbúnaði mótorhjóla sem við gætum farið að sjá innan tíðar í framleiðsluhjólum. Hvort vélmennið verður farið að ögra Valentino Rossi til keppni fljótlega verður þó að koma í ljós.

Með gripið í beygjurnar 
Motobot er vélmenni sem er hannað AFP
til að ráða við akstur mótorhjóls.

Þríhjóla MT-09 var einnig frumsýnt í Tokyo en það kallast reyndar MWT-9 en það stendur fyrir Multi-Wheel. Með því að hafa tvö framhjól í fullri stærð á það að hafa enn meira grip í beygjum en venjulegt mótorhjól. Hjólið er með þriggja strokka 850 rsm vél og útlitslega virðist hjólið jafnvel vera tilbúið til framleiðslu. Fjöðrunin er mjög slaglöng til að geta leyft framhjólunum að halla mikið enda var þróunarheiti þess „Cornering Master“ eða meistari beygjunnar.

MBL 3.11.2015
njall@mbl.is

5.10.15

Myndband af því þegar Conor færði Gunnar Nelson mótorhjól

Gunnar Nelson fékk Harley Davidson-mótorhjól í afmælisgjöf frá Dana White, forseta UFC bardagasambandsins og bardagakappanum Conor McGregor í sumar.


Harley Davidson hefur birt myndband á Facebook sem sýnir þegar Conor gaf Gunnari hjólið á afmælisdaginn hans í Las Vegas. Bundið var fyrir augun á Gunnari sem gjörsamlega trylltist úr spennu þegar hann sá mótorhjólið.

Myndbandið má sjá hér
Fréttatíminn
5.10.2015

20.8.15

Óður til mótorhjólamenningar


Rokk af gamla skólanum mun dynja í miðbænum og mótorhjólakempur þenja vélarnar.

Mótorhjólamenn hafa lengi verið áberandi á Menningarnótt. Þar sýna þeir sig og sjá aðra og bregða oft á leik með skemmtilegum uppátækjum.
Þeir sem hafa gaman af huggulegum mótorhjólum og þykir fátt fallegra en þegar rymurinn í ótal púströrum blandast saman við hljóminn af rafmagnsgítar ættu að leggja leið sína í Naustin, milli Tryggvagötu og Hafnarstrætis. Þar hefur skapast hefð fyrir því að efna til Reykjavik Custom Bike Show þar sem blandast saman sýning á sérdeilis fögrum breyttum mótorhjólum og vænn skammtur af hörðu rokki sem fær hárin til að rísa.

Sigurþór Hallbjörnsson, eða Spessi eins og hann er oftast kallaður, og Halldór „Dóri“ Grétar Gunnarsson standa fyrir þessum viðburði.

Afrakstur vetrarins

„Segja má að þessi uppákoma sé tækifæri til að sýna afrakstur allrar þeirrar vinnu sem átti sér stað í bílskúrum mótorhjólaeigenda veturinn áður. Langt er liðið á mótorhjólasumarið og ekki seinna vænna að sýna hvernig menn hafa breytt og fegrað hjá sér mótorhjólin, og hvaða fáka þeim tókst að smíða frá grunni,“ segir Spessi.
Saga Reykjavik Custom Bike Show nær allt aftur til ársins 2009. Spessi segir að hátíðinni hafi verið valinn þessi staður því að Naustin megi kalla aðalrokkgötu landsins, með landsins fremstu rokkbari og -klúbba allt um kring. Stóru sviði er stillt upp þvert yfir götuna og úrvali fallegra mótorhjóla raðað upp svo að gestir og gangandi geta virt þau vandlega fyrir sér.

„Þriggja manna dómnefnd velur annars vegar flottasta sérsmíðaða hjólið og hins vegar flottasta mikið breytta hjólið,“ segir Spessi og bætir við að á meðan dómnefndin beri saman bækur sínar stígi einvalalið tónlistarmanna á svið. „Við eigum von á hljómsveitinni Erik, með Danna Pollock í forystuhlutverki. Síðan mætir hljómsveitin 3B; Bitter Blues Band, og Kontinuum sem lýsa má sem draumkenndu þungarokksbandi. Verður þarna spilað alvöru rokk af gamla skólanum.“

Raunar dreifir atburðurinn úr sér langt út fyrir Naustin. Segir Spessi að mótorhjól hafi aðgang að Tryggvagötunni ef ekið sé eftir ákveðinni leið. Þar geti mótorhjólamenn lagt fákum sínum og oft hafi 100-150 hjól hafa verið á staðnum. „Klukkan 14 stundvíslega biðjum við alla þá sem eru á mótorhjólum að setja hjólin sín í gang og þenja vélarnar vel, til minningar um það mótorhjólafólk sem fallið hefur frá. Þegar drunurnar fylla Tryggvagötuna byrjar hljómsveitin Erik tónleikana með gítarsurgi og látum, rokki og róli, og keppast mótorhjólakapparnir og rokkhetjurnar við að yfirgnæfa hver aðra með hávaða,“ lýsir Spessi og bætir við að um mergjað augnablik sé að ræða sem enginn vilji missa af.

Heillandi fagurfræði

Að sögn Spessa er Reykjavík Custom Bike Show viðburður þar sem allir eru velkomnir. Þar heldur mótorhjólafólk eins konar ættarmót og þeir sem áhugasamir eru um mótorhjólalífsstílinn geta fengið að skoða og spyrja spurninga. Greinilegt er að í mörgum blundar mótorhjólakarl eða -kona, og jafnvel ef fólk kærir sig ekki um að þeysa eftir þjóðveginum með vindinn í andlitið kunna margir að meta fagurfræðina sem einkennir fallegt mótorhjól. Segir Spessi að þessi áhugi sjáist meðal annars á vinsældum bandarískra sjónvarpsþátta þar sem sagt er frá alls kyns uppátækjum á mótorhjólaverkstæðum.
Sjálfur kveðst Spessi hafa fallið kylliflatur árið 1980 þegar hann í bríaríi skellti sér í bíó í London og horfði á mótorhjólamyndina Easy Rider. „Þessi draumkennda þjóðvegamynd var ólík öllu sem ég hafði áður séð, og sex árum síðar tókst mér að kaupa mitt fyrsta mótorhjól, sem var Kawasaki 650. Auðvitað langaði mig í Harley en það var ekki komið að því. Nokkrum árum seinna keypti ég mér minn fyrsta Harley og fór að fikra mig nær draumnum sem ég sá í Easy Rider-myndinni forðum,“ segir Spessi söguna. „Lét ég á endanum smíða fyrir mig hjól hérna á Íslandi og tveimur árum seinna, árið 2008, lét ég smíða fyrir mig mótorhjól í Las Vegas og hjólaði á því frá Vegas og til Sturgis, þar sem haldið er stærsta mótorhjólamót í heimi. Síðan þá hef ég hjólað mikið í Ameríku og bjó ég ásamt fjölskyldunni í Kansas árin 2011-12 til að upplifa og rannsaka mótorhjólakúlturinn.“

Um þessar mundir vinnur Spessi að heimildarmynd um amerísku mótorhjólamenninguna í félagi við Bergstein Björgúlfsson og segir hann að útkoman eigi að verða eins konar vegamynd.

ai@mbl.is
20. ágúst 2015

18.8.15

Ferðasaga síðan 1976 Hringferð

Steini Tótu sendi okkur ferðasögu sem hann skrifaði eftir mynni og smá flettingum í heilabúi mínu.En ferðin var farin í júní mánuði árið 1976. Þar sem þessi grein er stór áhvað Steini að við myndum skipta þessu niður á nokkrar vikur. En hér er sem sagt fysti hlutinn og myndskreittur með myndum úr ferðini. á þessum árum áttum við varla fyrir bensíni á hjólin svo ekki voru myndavélarnar upp á marga fiska á þessum tíma.En gefum Steina orðið.


Partur 1. 1976. 3 CB og misgengis Kawi í utanlandsferð.

 Smá formáli að sögu sem er svo lýgileg, að ekki er séns í helvíti að skálda annað eins bull. Skrifað eftir minni og frekar dregið úr. Fólk sem vill ekki vita sín bernskubrek þarf ekkert að lesa lengra Næsta vor, 2016, verða 40 ár frá þessum túr Hér er faraskjótinn til útlanda Herjólfur sá fyrsti. Þarna urðum við láta hífa hjólin um borð og binda þau svo utan í lúgukarminn. Enginn ekjuskip Vertíðin var að klárast og í einhverju rugli fyrr um vorið hafði okkur dottið í hug að fara hringinn um Norðurey. Sem sagt Utanlandsferð. Tryggvi Bacon á CB 750 ´71 , aldurs forseti ferðalanga, fæddur snemma í árinu, var að verða gamall, alveg orðinn 19. Fæddur 58 var Tommi í Höfn á misgengis 400 Kawanum og við ungviðið, 59 módel Einar Arnar á Brekku á CB 500 '72 fæddur snemma í árinu og Steini Tótu á CB 750 ´71. Sögumaður er Steini Tótu, sem hafði bíttað við Kolla í Súkku á aleigunni og þessari Hondu.
Hér erum við frændur
að undirbúa ferðina miklu.
 Kolli fiskaði peyjann um hvað væri til af aurum og það kostaði svo Hondan. Flottur karlinn. Svo lánaði hann fyrir farinu heim. Ritari varð sem sagt 17 seinna um sumarið. Ferðasagan litast aðeins af þessu gamla rugli að fæðingadagur ráði skírteinis úthlutun. Hafa skal í huga að á þessum tíma vissum við bara um 9 stk. 4 cyl. Japönsk hjól á landinu. Það voru 5 900 Zetur, 3 750 Four og þessi 500 Einars. Óljóst slúður var af einu CB 350 á Vellinum, en aldrei staðfest. Ferðalagið byrjaði með fullt af veseni við að smíða bögglabera, sem fengust ekki í búðinni, plana hver ætti að bera tjaldið ( voru helvíti stór þá ) hvað langt o.s.frv. Svefnpokar þessa tíma þurftu Station bíla til að ferðast.

23.7.15

SÝNING UM KONUR OG MÓTORHJÓL

ÁHUGAMÁLIÐ Jónína Baldursdóttir er duglegað hjóla
 og hefur átt þátt 
í að skipuleggja nokkrar ferðir á
vegum Tíunnar, 
Bifhjólaklúbbs Norðuramts, og er
nýkjörin 
stjórnarmeðlimur þar.  MYND/EINKASAFN
MÓTORHJÓLASAFN
Myndir af konum á mótorhjólum, sögubúta og ýmsa muni sem minna á tengsl kvenna og mótorhjóla má finna á sýningu sem stendur yfir í Mótorhjólasafni Íslands á Akureyri í sumar.

Þessi sýning kom þannig til að stjórn Mótorhjólasafnsins óskaði eftir því að konuklúbbarnir á Akureyri tækju að sér að búa til sýningu í tilefni af hundrað ára kosningaafmæli kvenna,“ segir Ragnhildur Arna Hjartardóttir sem heldur utan um sýninguna Konur og mótorhjól, sem var opnuð í Mótorhjólasafni Íslands þann 14. júní og stendur til 30. ágúst.
Ekki reyndist þrautalaust að safna saman munum og upplýsingum fyrir slíka sýningu enda hefur saga íslenskra mótorhjólakvenna ekki verið skráð. „Við hóuðum saman hópi af konum og vorum sex í nefnd. Við vorum með lítið fé á milli handanna en biðluðum til mótorhjólakvenna um allt land að senda okkur myndir,  upplýsingar og muni,“ segir Ragnhildur.
 Á sýningunni er að finna fjöldann allan af myndum en einnig ýmsar upplýsingar, sögur og muni. „Við komumst að því með góðri hjálp að fyrsta konan sem átti mótorhjól á Íslandi var Helga Níelsdóttir ljósmóðir árið 1939.
Hún notaði það til að aka til vinnu, en gafst reyndar fljótt upp á því þar sem þungt var að vera á því og af því að vegir voru að mestu malarvegir þurfti hún iðulega að skipta um alklæðnað eftir hverja ferð vegna ryks og drullu. Síðan er vitað um aðra konu rétt eftir stríð sem var á hjóli sem hún fékk hjá hernum. Lítið er vitað um fleiri konur fyrr en stelpur fóru að vera á skellinöðrum á áttunda áratugnum og síðan þegar konur fóru að sjást meira á hjólum á níunda áratugnum,“ upplýsir Ragnhildur. Hún segir þróunina hraðari upp á síðkastið. „Konur á öllum aldri eru farnar að láta gamlan draum rætast og taka mótorhjólapróf sem er frábært.“

Litlar tölulegar upplýsingar eru til um konur og mótorhjól. „Við vitum þó að frá 1980 hafa 2.930 konur verið skráðar eigendur þungra bifhjóla.“ Við erum með myndir og brot úr sögu, mótorhjól og klúbbatengdan fatnað. Svo erum við með konur í mótorhjólalögreglunni. Guðrún
Jack var svo dásamleg að lána okkur hluta af fatnaði og myndir af sér og upplýsingar. Sýningin Konur og mótorhjól er opin alla daga frá kl. 10 til 17.
20.7.15

Inga Birna keppir í Suður-Afríku

Myndina tók Árni Sæberg og kunnum við honum bestu þakkir fyrir.

Inga Birna Erlingsdóttir, lögreglumaður í umferðardeild Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, hefur verið valin í 10 manna úrtak fyrir fyrsta alþjóðlega kvennalið GS bikars BMW, en keppt er á R 1200 GS mótorhjólum frá BMW. 

Fram undan er sex daga undankeppni, sem haldin verður í Suður-Afríku í september, en að henni lokinni verða valdar þrjár konur til þátttöku í aðalkeppninni í Taílandi á næsta ári. Mikið mun reyna á hæfni, þol og samvinnu keppenda, sem spreyta sig í ýmsum þrautum á meðan keppninni stendur.  Þátttökuliðin koma víða að, en 2016 verða konur með í fyrsta sinn og þá í alþjóðlega liðinu sem áður var nefnt.

Þess má geta að Inga Birna var valin úr hópi 119 kvenna frá 28 löndum, sem allar sóttust eftir að taka þátt í keppninni. Það eitt og sér er mikill heiður fyrir hana og svo gæti hún hæglega komist í þriggja manna keppnisliðið sem mætir til leiks í Taílandi á næsta ári. Samstarfsfélagar hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu óska Ingu Birnu til hamingju með að hafa komist í 10 manna úrtakið og óska henni góðs gengis í undankeppninni í Suður-Afríku.
20.6.2015

8.7.15

Landsmót bifhjólafólks haldið í Eyjum um síðustu helgi: (2015)

Framvarðasveitin: Tryggvi Sig, Hjalti Hávarðar,
Jenni, Óskar og Steini Tótu.

Hópakstur á 90 hjólum og nokkur hundruð hestöflum... 

Dansað og djammað í Herjólfsdal :: Allt fór vel fram, segja Drullusokkar sem stóðu að mótinu

Þau voru mörg hestöflin sem saman voru komin í Herjólfsdal þar sem bifhjólafólk á Íslandi hélt landsmót. Alls voru um 200 manns mótinu og um 90 hjól sem vöktu mikla athygli þegar þau fóru um Heimaey í einni röð á laugardaginn. „Það vorum við í Drullusokkunum, bifhjólasamtökum  Vestmannaeyja, sem héldum mótið að þessu sinni,“ sagði Gunnar Adólfsson, Darri í Bragganum, þegar Eyjafréttir ræddu við hann að mótinu loknu. Var hann mjög ánægður með hvernig til tókst. „Hér áður voru það Sniglarnir sem sáu um landsmótið en undanfarin ár eru það minni
klúbbarnir sem taka að sér að halda það. Nú var komið að okkur og tókst bara vel.“
 Gist var í Herjólfsdal og fengu þau þjóðhátíðartjald ÍBV til afnota.
Darri segir að dagskráin hafi byrjað á föstudaginn á þrautakeppnum á hjólunum. Um kvöldið var slegið í dýrindis fiskisúpu og Jarl kom og tók nokkur lög við mikla ánægju gesta. Á eftir var ball með Sniglabandinu í tjaldinu og var dansinn stiginn fram á nótt. „Á laugardaginn fórum við hópakstur um bæinn og suður á eyju og voru 90 hjól í hópnum. Á eftir var spyrnukeppni á skellinöðrum í kringum tjörnina sem vakti mikla athygli og ekki síður kátínu. Á eftir grilluðum við lambakjöt sem rann ljúflega niður. Þá var komið að þætti Bjartmars Guðlaugssonar sem skemmti í heilan klukkutíma. Fór hann á kostum og hefur sjaldan verið betri.  Sniglabandið lék svo á ballinu sem stóð til klukkan fjögur. Þar með lauk velheppnuðu landsmóti og ég heyrði ekki annað en að gestir væru ánægðir með hvernig til tókst,“ sagði Darri.

Ómar Garðarsson
omar@eyjafrettir.is

https://timarit.is

30.6.15

Harleyinn hans Brandos seldur fyrir 256.000 dali

 

Eitt hæsta verð sem fengist hefur.


Harley Davidson FLH Electra-Glide mótorhjól af árgerð 1970 var selt hjá uppboðshúsinu Julien’s Auctions í Kaliforníu. Það væri varla í frásögur færandi nema fyrir þær sakir að Julien’s sérhæfir sig í sölu á munum sem tengjast fræga fólkinu og mótorhjólið var í eigu kvikmyndagoðsagnarinnar Marlons Brandos.

   Hjólið var splunkunýtt þegar Brando eignaðist það og ökutæki sem var mjög við hæfi leikarans enda lék frammistaða hans í kvikmyndinni The Wild One (1953) stórt hlutverk í að móta hugmyndir bandarískra kvikmyndahúsagesta um menningu mótorhjólagengja.

   Að sögn Gizmag var Brando mikill mótorhjólaunnandi sem þótti fátt skemmtilegra en að fara í langa hjólatúra. Hann minntist þess með hlýhug að ferðast á hjólinu um New York árla morguns, áður en mannlífið vaknaði til lífs, í hlýju sumarnæturinnar, klæddur í gallabuxur og bol með föngulegt fljóð á aftursætinu.

   Mótorhjólið sem selt var á uppboðinu var enda með 13.859 mílur á mælinum. Var hjólið slegið á 256.000 dali, jafnvirði rösklega 34 milljóna króna, og er þar með í hópi þeirra fimmtíu mótorhjóla sem hæst verð hefur fengist fyrir á uppboði. 

ai@mbl.is

23.6.15

Ökuþórinn Haukur Þorsteinsson tekur þátt í Erzberg-þolreiðinni

Erfiðust í hausnum 

Haukur Þorsteinsson er vel þekktur keppandi í bæði motorcrossi og endúró á Íslandi og hefur oft farið út fyrir landsteinana að keppa í þolaksturs-torfærukeppnum. Í ár ákvað hann að láta gamlan draum rætast og taka þátt í Erzberg rodeo-keppninni í Austurríki, en hún fer fram á fjalli sem búið er að grafa í sundur og er ein risastór grjótnáma. Aðeins einn Íslendingur hefur keppt í þessari erfiðu keppni áður, en Benóný Benónýsson keppti þar árið 2012 og náði næstum að komast að hliði þrjú áður en keppnin var flautuð af vegna veðurs. Morgunblaðið hafði samband við Hauk og bað hann um að lýsa upplifun sinni í þessari keppni sem margir telja meðal erfiðustu aksturskeppna á mótorhjólum í heiminum í dag.

Erfið keppni og mikill hiti

Alls eru 2.000 manns sem tóku þátt í Prologue-keppninni sem er úrtökukeppni fyrir keppnina sjálfa og er kappakstur á malarvegum upp fjallið. Þar komst Haukur í 241. sæti fyrri daginn og ákvað hann að láta þar við sitja, en nokkrir keppendur komust upp fyrir hann seinni daginn svo að Haukur byrjaði í sæti númer 275. „Ég fór tímatökuna á 13.09 mín. og það voru 17 manns sem voru með sama tíma. Hefði ég því verið nokkrum sekúndum hraðari hefði ég verið mun ofar,“ sagði Haukur um undanúrslitin. Í keppninni í ár var mikið ryk og hiti að það var því ræst með lengra millibili en 50 keppendur voru ræstir í einu. „Í fyrra voru 43 keppendur sem kláruðu keppnina og stjórnendur keppninnar voru óánægðir með það hversu margir kláruðu þá, vilja að keppnin sé það erfið að aðeins örfáir klári. Þess vegna var erfiðleikastigið á þessari keppni mun meira en áður og svo til að kóróna það kom hitabylgja þannig að þegar keppnin hófst vorum við í 36 stiga hita. Allt fjallið var svo skraufaþurrt að fjallið var eins og steypa, en það hafði rignt nokkru áður,“ sagði Haukur.


Keppnin byrjar á stórri beygju eftir ræsinguna þar sem Haukur náði að taka framúr nokkrum keppendum en í fyrstu stóru brekkunni lendir hann á stórum steini. „Sem betur fer fór ég ekki á hausinn og náði að stoppa þversum í brekkunni og keyrði því strax niður og í veg fyrir næsta hóp. Ég reyndi strax aftur með nánast engri atrennu og náði að slefast upp brekkuna. Næstu brekkur voru einfaldari en svo komum við að stóru gryfjunum þar sem allir áhorfendurnir voru. Eftir það fórum við að klifra upp S-beygjurnar upp fjallið en komum svo að stórri brekku fullri af grjóti. Þar er alltaf einhver sem klúðrar brekkunni svo að næsti maður á eftir missti sína atrennu.
Allir hinir fyrir aftan voru svo æstir að þeir biðu í rótum brekkunnar svo að þar var engin atrenna heldur. Þetta varð því allsherjarkaos, ég komst hálfa brekku fyrst en í annarri tilraun náði ég hærra og nógu hátt til að aðstoðarmenn efst í brekkunni máttu hjálpa til að ná hjólinu upp fyrir brúnina.“ Eftir þessa brekku sagði Haukur að keppnin hefði gjörbreyst. „Það var búið að síast vel úr hópnum og maður hjólaði meira einn. Þarna fór bröltið í skóginum að byrja, upp og niður brattar brekkur sem sumar voru svo brattar að mér, sem er þokkalega vanur svona brölti stóð alls ekki á sama. Þarna var lækjarfarvegur með stórgrýti, mörg hunduð kílóa björgum. Brekkurnar sem fylgdu á eftir voru einnig erfiðar vegna þess að þá var farið að draga af keppendum og sumir farnir að stoppa í brekkunni. Maður þurfti samt að láta vaða og þarna gekk mér vel og fékk gott klapp fyrir frá áhorfendum, því að flestir þurftu aðstoð á þessum tímapunkti til að komast upp, en ég ekki,“ sagði Haukur.

Margir sem meiddust

„Eftir sjötta hlið í keppninni fór þetta að verða verulega erfitt og þarna komum við að brekku sem var búið að gera erfiðari en árið áður, en síðustu 10-20 metrarnir voru þverhnípi með trjárótum í. Þarna neðst voru nokkrir keppendur með brotin stýri og sá sem var á undan mér lét vaða á þetta með tilþrifum, en hann kastaðist frá efsta kaflanum og kollsteyptist niður brekkuna. Hjólið fór í döðlur og þegar hann stóð upp kom í ljós að hann var handleggsbrotinn. Þarna var mér sagt að hann væri þriðji keppandinn á stuttum tíma sem fór í sjúkrabíl,“ sagði Haukur ennfremur. Þegar þarna var komið ákváðu margir að hætta og Haukur einnig. „Ég var enn ferskur og hjólið í góðu lagi ennþá og þess vegna var ég svekktur að stjórnendur hefðu gert keppnina svona erfiða en gat þó verið sáttur við árangurinn því af þessum 500 sem hófu keppni varð ég í 144. sæti. Það voru aðeins 128 keppendur sem komust upp þessa brekku og þeir fimm sem kláruðu fóru saman í mark til að mótmæla því hversu erfið keppnin var orðin,“ sagði Haukur og var sammála að keppnin hefði verið of erfið. „Hún var þó ekki erfiðust líkamlega af þeim keppnum sem ég hef tekið þátt í en örugglega erfiðust í hausnum,“ sagði Haukur að lokum.
njall@mbl.is
morgunblaðið 23.6.2015

18.6.15

Ferð að fallinu. 19 júní

Vélhjólafólk. 


Þá er það næsti föstudagur, 19 júní þá förum við að Fallinu eins og undanfarin sumur, það eru 10 ár frá vigslu þessa flotta listaverk eftir Heidda nú vonast ég til að sjá alla sem mótorhjóli geta valdið þetta kvöld. Þeir sem ætla að fara í hóp í Varmahlíð frá Króknum mætið á N1 fyrir kl 19.30.

Gísli Gunnarsson prestur fer með hugvekju eins og undanfarin ár við Fallið kl 20.00 og við rúllum okkur svo í RÓLEGHEITUNUM á Sauðárkrók og leggjum hjá Maddömmunum, þær ætla að taka á móti okkur með kaffi og meðlæti.

Endilega látið þá vita sem eru að hjóla eins þó þeir séu ekki í okkar hópi þar sem þetta snertir okkur öll.

Farið varlega í umferðinni.
Kveðja Svavar #76. Formaður Smaladrengjana.

Landsmót Bifhjólamanna 2015 í Vestmannaeyjum


21.5.15

Setti flugvélamótor í mótorhjól


Af hverju ekki að setja 9 strokka stjörnu­mótor úr flug­vél í mótor­hjól?
Þjóðverj­inn Frank Ohle gat greini­lega ekki svarað þeirri spurn­ingu, því það er ná­kvæm­lega það sem hann gerði.

 Mótor­inn sem varð fyr­ir val­inu heit­ir Rotec R3600, er 3,6 lítra og skil­ar 150 hest­öfl­um. Það ætti að duga hvaða mótor­hjóli sem er, í það minnsta fyrst það dug­ar í flug­vél.

Hjólið hans Ohle er sér­smíðað og heit­ir „M ... von Richt­hofen“ og verður að telj­ast lík­legt að hann sé að vísa í Man­fred von Richt­hofen, bet­ur þekkt­an sem Rauði barón­inn.

Í frétt Jal­opnik kem­ur fram að Ohle hafi verið eitt og hálft ár að klára hjólið, sem er með lít­illi flug­véla­skrúfu fremst á hreyfl­in­um, til skrauts.
Þrátt fyr­ir að mótor­inn sé ætlaður til hálofta­ferða er helsta áhyggju­efni Ohle lík­lega að reka hann hvergi niður, því veg­hæð er ekki bein­lín­is sterka hlið þessa hjóls.
https://www.mbl.is//
2013/05/15/

19.5.15

Ný stjórn Tíunnar 2015

Ný stjórn tíunar tók við eftir Aðalfundinn.


2015
Ragnhildur Hjartard.
Birgir Eiríksson
Rut M. Unnarsd.
Elísa R. Guðmundsd.
Óðinn S. Björnsson
Hrefna Björnsd.
Sigríður Sveinsd.

11.5.15

Vantar aðstoð á safni 13. og 14. maí 2015

Jæja gott fólk


Nú vantar okkur aðstoð á Mótorhjólasafni Íslands á miðvikudag og fimmtudag, reiknum með að byrja seinnipart á miðvikudag og vinna fram á kvöld og mæta síðan eldhress á fimmtudag kl 10-16.

Það þarf að gera safnið klárt fyrir opnunarhátíð á laugardag, þrífa hjól og gólf ofl..

Skorum á alla að mæta og grípa með sér tuskur og fötur.


KOMA SVO!!!

1.5.15

1 mai 2015

Hér er myndband frá fyrsta maí hópkeyrslunni sem fór fram í Reykjavík í blíðaskapaveðri. 


1. maí hópkeyrslu á Akureyri aflýst

Jæja gott fólk. Það er búið að fara og taka út leiðina, skoða veðurspá, horfa á snjókornin svífa til jarðar og fylgjast með hitastiginu falla um 3° á 10 mínútum. Götur eru mjög blautar og því hætta á ísingu þannig að því miður verðum við að aflýsa hópakstri í ár.


Stjórn

1 mai 2015

Hópkeyrsla Bifhjólamanna 2015 tekið upp af sjónvarpstöðinni Hringbraut
Viðtöl við Njál Gunnlaugsson og Hilmar Lúthersson , og fleiri 

9.4.15

Á döfinniHér að neðan er að finna upplýsingar um fundi og viðburði Tíunnar vor og sumar 2015.
ATH! þessar upplýsingar eru settar fram með fyrirvara um breytingar, fylgist því vel með1. maí kl. 13: Hópakstur um Akureyri. Mæting á Ráðhústorgi kl. 12.30

6. maí kl. 20: Almennur félagsfundur

16. maí kl. 9-13: Skoðunardagur Tíunnar og Frumherja á Akureyri

16. maí kl. 17.30: Aðalfundur Tíunnar á Mótorhjólasafni Íslands
ATH! aðeins þeir sem hafa greitt félagsgjöld Tíunnar 2015 geta greitt atkvæði og tekið þátt í fundinum sem og starfi Tíunnar. Að venju verður hægt að greiða félagsgjöldin á staðnum, tökum ekki kort - cash only

16. - 19. júlí: Hjóladagar 2015Eftir aðalfund tekur við sumardagskrá Tíunnar og þá verða almennir félagsfundir haldnir vikulega, á miðvikudagskvöldum kl. 19.30 á Mótorhjólasafni Íslands nema annað verði auglýst sérstaklega. Fyrsti almenni félagsfundur sumarsins verður því haldinn 20. maí að öllu óbreyttu.Stjórn Tíunnar vill svo benda félagsmönnum/konum sínum á að fylgjast einnig með á facebooksíðu klúbbsins https://www.facebook.com/tianbifhjolaklubbur 

31.3.15

Ökuþórinn |Spessi ljósmyndari


Orðinn fyrirsæta fyrir BMW-mótorhjól

  Risastórt auglýsingaspjald með mynd af Spessa prýddi bás BMW á MC-messunni í Noregi í vetur. Það verður ekki mikið stærra en þetta. Hjólið sem Spessi á í dag flutti hann inn frá Bandaríkjunum þar sem það var smíðað.

Sigurþór Hallbjörnsson, betur þekktur sem Spessi ljósmyndari, er mótorhjólamaður af lífi og sál. Hann er þekktur fyrir að aka um á Harley-Davidson-mótorhjólum og er mikill áhugamaður um þær gerðir mótorhjóla.
Sigurþór Hallbjörnsson, betur þekktur sem Spessi ljósmyndari, er mótorhjólamaður af lífi og sál. Hann er þekktur fyrir að aka um á Harley-Davidson-mótorhjólum og er mikill áhugamaður um þær gerðir mótorhjóla. Það vakti því athygli þegar hann fór að birtast víða sem fyrirsæta fyrir BMW-mótorhjól í vetur, bæði í netheimum og á sýningum erlendis. Blaðamanni bílablaðsins lék forvitni á að vita hvernig þetta verkefni kom til og kíkti því í stúdíóið hans Spessa og settist niður með honum ásamt einum kaffibolla.
„Það var haft samband við mig þegar ég var á leiðinni í gönguferð á Strandir og var að fara yfir Djúpið þegar hringt var í mig,“ sagði Spessi og glotti. „Það var sagt að ég þyrfti að koma í prufu eftir tvo daga. Ég sagðist ekki geta það en sendi henni tengil á trailerinn á mótorhjólamyndinni sem ég er að gera. Svo hverf ég bara í sex daga en þegar ég kem aftur er málið bara þannig að þeir vilja endilega fá mig. Þegar ég kem í bæinn fer ég beint niður á Loftleiðir þar sem BMW-fólkið var búið að koma sér fyrir. Ég mætti þarna á Harley-Davidson-hjólinu mínu og vakti sú innkoma talsverða athygli þar sem þau sátu öll í kaffi þegar ég kom. Þeir voru þarna mættir með tvo flutningabíla, annan með mótorhjólum og hinn með göllum og þá sá ég að það var alvara í þessu verkefni.“

Spessi við fyrsta stóra hjólið sitt
 Kawasaki Z650 1980 módel
Harley-vinirnir ekki hrifnir fyrst

Spessi er um þessar mundir að vinna að heimildarmynd um rótgróna Harley-Davidson-töffara í Bandaríkjunum og þessir vinir hans þar voru nú ekkert hrifnir af þessu fyrst þegar þeir fréttu þetta. „Þegar ég sagði þeim að ég fengi borgað fyrir þetta kom nú annað hljóð í strokkinn. Konseptið var það að sagan átti að vera raunveruleg og þess vegna þurfti fyrirsætan að vera bæði ljósmyndari og mótorhjólamaður. Þeir voru um leið að kynna nýja R1200 GS-hjólið með Boxer-mótornum. Eins og mér fannst þessi Boxer-mótor hrikalega ljótur í gamla daga þegar Skúli Gautason mætti á BMW-hjólinu sínu, þá gæti ég alveg hugsað mér að eiga svona hjól í dag. Það er nefnilega einhver karakter við þessi hjól í dag og þá sérstaklega gömlu hjólin. Nýi NineT-kaffireiserinn þeirra er líka ferlega flottur að mínu mati.“

Byrjaði að hjóla kringum 1970

Hjólið sem Spessi keyrir í dag er eiginlega ekki Harley-mótorhjól, því að mótorinn er frá S&S; þótt hann sé upphaflega Harley-Davidson-mótor. Grindin og annað er sérsmíðað eftir náunga sem heitir Paul Stewart og átti fyrst að vera í Bobber-stíl. Sá náungi varð sjötti í heimsmeistarakeppni mótorhjólasmiða 2006. „Ég átti fyrst skellinöðru þegar ég var 14 ára, í kringum 1970,“ sagði Spessi þegar við spurðum hann út í hvenær hann byrjaði mótorhjólaferilinn. „Síðan tók lífið við með sínum refilstigum, en þegar ég kom til baka úr því kom áhuginn á því að fá sér mótorhjól aftur. Þá fékk ég mér Kawasaki Z650 1981 módel sem ég var á í nokkur ár. Ég hafði alltaf áhuga á að fá mér Harley og álpaðist inná bíómynd í London árið 1980 sem hét Easy Rider. Það var bara opinberum fyrir mér að sjá þessi hjól þar. Það var samt eins og fjarlægur draumur að maður gæti fengið sér þannig hjól. Ég fékk mér svo Virago-mótorhjól sem minnti á Harley í útliti en það seldi ég svo þegar ég fór í nám, en draumurinn var alltaf til staðar. Löngu seinna var ég að gera auglýsingu fyrir SS-pylsur uppi í Litlu-Kaffistofu. Þá fór ég á stúfana að finna fólk í það og byrjaði leitina í umboðinu. Það endaði svo með því að ég fór aftur í umboðið og keypti mér loksins Harley-mótorhjól sem ég hef verið á síðan,“ sagði Spessi að lokum.
njall@mbl.is
Njáll Gunnlaugsson

17.3.15

Götur borgarinnar hættulegar fyrir mótorhjólamenn: „Menn þurfa að hífa sig upp af rassgatinu“


„Menn þurfa að hífa sig upp af rassgatinu“


„Þetta er beinlínis lífshættulegt fyrir okkur, þó þetta sé vissulega slæmt fyrir þá sem aka um á bifreiðum,“ segir Njáll Gunnlaugsson, vélhjólakennari, sem var gestur í þættinum Í bítið á Bylgjunni þar sem hann ræddi um akstursskilyrði vélhjólamanna í borginni.

Götur borgarinnar eru margar hverjar illa farnar eftir veðurfarið á landinu undanfarna mánuði.

Tvöfalda þarf það fjármagn sem árlega er veitt í viðhald gatna á höfuðborgarsvæðinu. Ástand vega í Reykjavík hefur sjaldan verið eins slæmt og því ljóst að það mun taka langan tíma að bæta úr ástandinu.

Sjá einnig: Slæmt ástand vega í Reykjavík: Tvöfalt fjármagn þurfi svo ástandið verði ásættanlegt
„Þessar holur eru bara allstaðar núna, ekki bara á umferðaþungum götum. Sem betur fer eru frekar fá mótorhjól komin út á göturnar núna. Ég þekki einn sem hefur hjólað allan veturinn. Það er ákveðið vandamál hversu litlum peningum er eytt í þetta blessaða gatnakerfi. Menn þurfa að hífa sig upp af rassgatinu og fara sinna þessum hlutum.“

Sjá einnig: Göturnar grotna niður
Njáll segir það vera næsta skref að kenna nemendum sínum að sveigja í kringum holur í staðinn fyrir keilur.
Stefán Árni Pálsson 
17. mars 2015

10.3.15

Góugleði aflýst

Vegna dræmrar þátttöku er búið að aflýsa Góugleðinni sem átti að vera laugardaginn 14. mars nk.

27.2.15

Góugleði

Jæja gott fólk

Góugleði verður haldin 14. mars næstkomandi í Lóni v. Hrísalund. Húsið opnar kl 21 og kostar litlar 2.500 kr inn (skemmtun og ball), tökum EKKI kort en "beinharðir" seðlar vel þegnir.

Þema kvöldsins er "hattar og höfuðskraut" og er jafnvel mögulegt að frumlegasta höfuðskrautið fái verðlaun
smile emoticon


Skráning er hafin á tian@tian.is, hlökkum til að sjá ykkur
smile emoticon

15.2.15

Á fjögur hundruð mótorhjól á Stokkseyri

Hjálmar Sigurðsson Safnari

Hjálmar Sigurðsson á Stokkseyri á sér sérstakt áhugamál því hann safnar mótorhjólum, þó ekki alvöru hjólum því þetta eru allt leikfangamótorhjól.


Hjálmar og kona hans búa í Eyjaseli 6 á Stokkseyri þar sem mótorhjólasafnið er í einu herberginu. Þetta eru rúmlega fjögurhundruð hjól á ýmsum gerðum, sem Hjálmar hefur safnað síðustu fimm árin.

„Þetta er bara mitt áhugamál, ég safna bara öllum hjólum,“ segir Hjálmar. Hann á mikið af Harley Dawson, hjólum, nokkur lögreglumótorhjól og meira að segja Spidermann mótorhjól.

Þrátt fyrir að hann sé komin yfir fimmtugt þá lætur hann það ekki stoppa sig enda gefur söfnunin honum mikið.

„Það er bara gaman af þessu, þetta er það sem ég hrærist og lifi í, ég er mótorhjólamaður og verð það alveg þar til að ég dey. Það er eins og þeir segja Bretarnir, þegar ég hætti að geta hjólað á tvíhjólinu þá set ég þriðja hjólið undir, ég get þá bara hjólað lengur.“ Hjálmar er með mótorhjólaskegg. „Já, já, það fylgir þessu, það er nú bara þannig, maður lifir bara í þessu og ég er bara eins og ég er,“ segir Hjálmar.

Hann segist ætla að halda áfram að safna mótorhjólum og þiggur fleiri ef einhver á. „Já, já, ég þigg alveg í safnið hérna, ef fólk á þau niður í geymslu eða einhversstaðar annarsstaðar, þá þigg ég hjólin, ég get alveg borgað pínulítinn pening fyrir þess vegna,“ segir hann.
Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar  15. febrúar 2015
visir.is

27.1.15

Netfangalisti og Góugleði

Jæja gott fólk, okkur vantar upplýsingar um e-mail hjá þó nokkrum félagsmönnum okkar. Í þessari viku verður því sendur út prufu-póstur til þeirra sem eru á póstlistanum okkar, þeir félagsmenn/konur sem hafa ekki fengið póst frá Tíunni 1.febrúar næstkomandi en vilja fá póst í framtíðinni, eru vinsamlega beðnir um að senda upplýsingar á tian@tian.is.

Svo verður Góugleði haldin 14. mars 2015 ef næg þátttaka fæst - nánari upplýsingar um það koma síðar en endilega takið daginn frá :)