23.6.15

Ökuþórinn Haukur Þorsteinsson tekur þátt í Erzberg-þolreiðinni

Erfiðust í hausnum 

Haukur Þorsteinsson er vel þekktur keppandi í bæði motorcrossi og endúró á Íslandi og hefur oft farið út fyrir landsteinana að keppa í þolaksturs-torfærukeppnum. Í ár ákvað hann að láta gamlan draum rætast og taka þátt í Erzberg rodeo-keppninni í Austurríki, en hún fer fram á fjalli sem búið er að grafa í sundur og er ein risastór grjótnáma. Aðeins einn Íslendingur hefur keppt í þessari erfiðu keppni áður, en Benóný Benónýsson keppti þar árið 2012 og náði næstum að komast að hliði þrjú áður en keppnin var flautuð af vegna veðurs. Morgunblaðið hafði samband við Hauk og bað hann um að lýsa upplifun sinni í þessari keppni sem margir telja meðal erfiðustu aksturskeppna á mótorhjólum í heiminum í dag.

Erfið keppni og mikill hiti

Alls eru 2.000 manns sem tóku þátt í Prologue-keppninni sem er úrtökukeppni fyrir keppnina sjálfa og er kappakstur á malarvegum upp fjallið. Þar komst Haukur í 241. sæti fyrri daginn og ákvað hann að láta þar við sitja, en nokkrir keppendur komust upp fyrir hann seinni daginn svo að Haukur byrjaði í sæti númer 275. „Ég fór tímatökuna á 13.09 mín. og það voru 17 manns sem voru með sama tíma. Hefði ég því verið nokkrum sekúndum hraðari hefði ég verið mun ofar,“ sagði Haukur um undanúrslitin. Í keppninni í ár var mikið ryk og hiti að það var því ræst með lengra millibili en 50 keppendur voru ræstir í einu. „Í fyrra voru 43 keppendur sem kláruðu keppnina og stjórnendur keppninnar voru óánægðir með það hversu margir kláruðu þá, vilja að keppnin sé það erfið að aðeins örfáir klári. Þess vegna var erfiðleikastigið á þessari keppni mun meira en áður og svo til að kóróna það kom hitabylgja þannig að þegar keppnin hófst vorum við í 36 stiga hita. Allt fjallið var svo skraufaþurrt að fjallið var eins og steypa, en það hafði rignt nokkru áður,“ sagði Haukur.


Keppnin byrjar á stórri beygju eftir ræsinguna þar sem Haukur náði að taka framúr nokkrum keppendum en í fyrstu stóru brekkunni lendir hann á stórum steini. „Sem betur fer fór ég ekki á hausinn og náði að stoppa þversum í brekkunni og keyrði því strax niður og í veg fyrir næsta hóp. Ég reyndi strax aftur með nánast engri atrennu og náði að slefast upp brekkuna. Næstu brekkur voru einfaldari en svo komum við að stóru gryfjunum þar sem allir áhorfendurnir voru. Eftir það fórum við að klifra upp S-beygjurnar upp fjallið en komum svo að stórri brekku fullri af grjóti. Þar er alltaf einhver sem klúðrar brekkunni svo að næsti maður á eftir missti sína atrennu.
Allir hinir fyrir aftan voru svo æstir að þeir biðu í rótum brekkunnar svo að þar var engin atrenna heldur. Þetta varð því allsherjarkaos, ég komst hálfa brekku fyrst en í annarri tilraun náði ég hærra og nógu hátt til að aðstoðarmenn efst í brekkunni máttu hjálpa til að ná hjólinu upp fyrir brúnina.“ Eftir þessa brekku sagði Haukur að keppnin hefði gjörbreyst. „Það var búið að síast vel úr hópnum og maður hjólaði meira einn. Þarna fór bröltið í skóginum að byrja, upp og niður brattar brekkur sem sumar voru svo brattar að mér, sem er þokkalega vanur svona brölti stóð alls ekki á sama. Þarna var lækjarfarvegur með stórgrýti, mörg hunduð kílóa björgum. Brekkurnar sem fylgdu á eftir voru einnig erfiðar vegna þess að þá var farið að draga af keppendum og sumir farnir að stoppa í brekkunni. Maður þurfti samt að láta vaða og þarna gekk mér vel og fékk gott klapp fyrir frá áhorfendum, því að flestir þurftu aðstoð á þessum tímapunkti til að komast upp, en ég ekki,“ sagði Haukur.

Margir sem meiddust

„Eftir sjötta hlið í keppninni fór þetta að verða verulega erfitt og þarna komum við að brekku sem var búið að gera erfiðari en árið áður, en síðustu 10-20 metrarnir voru þverhnípi með trjárótum í. Þarna neðst voru nokkrir keppendur með brotin stýri og sá sem var á undan mér lét vaða á þetta með tilþrifum, en hann kastaðist frá efsta kaflanum og kollsteyptist niður brekkuna. Hjólið fór í döðlur og þegar hann stóð upp kom í ljós að hann var handleggsbrotinn. Þarna var mér sagt að hann væri þriðji keppandinn á stuttum tíma sem fór í sjúkrabíl,“ sagði Haukur ennfremur. Þegar þarna var komið ákváðu margir að hætta og Haukur einnig. „Ég var enn ferskur og hjólið í góðu lagi ennþá og þess vegna var ég svekktur að stjórnendur hefðu gert keppnina svona erfiða en gat þó verið sáttur við árangurinn því af þessum 500 sem hófu keppni varð ég í 144. sæti. Það voru aðeins 128 keppendur sem komust upp þessa brekku og þeir fimm sem kláruðu fóru saman í mark til að mótmæla því hversu erfið keppnin var orðin,“ sagði Haukur og var sammála að keppnin hefði verið of erfið. „Hún var þó ekki erfiðust líkamlega af þeim keppnum sem ég hef tekið þátt í en örugglega erfiðust í hausnum,“ sagði Haukur að lokum.
njall@mbl.is
morgunblaðið 23.6.2015