Tvíeykið Motorliebe ferðast um heiminn á vespum og er nú statt á Íslandi. Hópinn skipa þeir Dani Heyne frá Leipzig og Michael Blumenstein frá Frankfurt. Ævintýrið hófst á síðasta ári þegar félagarnir keyrðu frá Los Angeles til New York-borgar. Á dagskránni er svo að keyra með sólinni frá vestri í austur þannig að á næsta ári munu þeir fara til Írlands og Stóra-Bretlands.
Hugmyndin að ævintýrinu kviknaði þegar Heyne rakst á bloggsíðu hjá bandarískri stúlku sem keyrði frá San Fransisco til New York á vespu. Hún var að flytjast til New York og vildi ferðast um og kynnast landinu. Þeir félagar ákváðu að leggja af stað í svipað ferðalag á rúmlega þrjátíu ára gömlum vespum. Þeir leituðu af fallegum og áhugaverðum stöðum og fólki að mynda og taka viðtöl við. Í lok ferðar gáfu þeir svo út bókina Auf der Vespa durch die USA.
Nú eru þeir að gera hið sama á Íslandi en ferðalagið hófst fyrir tíu dögum á Seyðisfirði. Þeir eru komnir til Ísafjarðar og er uppáhaldsstaðurinn hingað til Djúpavík en þeir segja að þar sameinist íbúar, náttúra og saga í fullkominni blöndu. Þá hrífast þeir mjög af náttúru Íslands en eru enn að venjast kuldanum og snjónum. Þeir eru afar ánægðir með að hafa hafið ferðina nú en ekki í maí eins og stóð til upphaflega vegna snjósins.
Hingað til hefur allt gengið vel en þó eru nokkrir hlutir sem þeir eiga erfitt með að komast yfir og leita nú. Það er t.d. hestamaður sem vill fara í kappreiðar við vespu, einhver til að rýja lamb með sér og fyrirtæki sem er til í að breyta fjórhjóli í fjallabíl.
Hér má nálgast Facebook-síðu Motorliebe.
https://www.facebook.com/photo/?fbid=809728052416278&set=a.601500876572331
https://www.mbl.is/frettir/innlent/2015/06/22/a_vespum_um_island_3/