31.3.15

Ökuþórinn |Spessi ljósmyndari


Orðinn fyrirsæta fyrir BMW-mótorhjól

  Risastórt auglýsingaspjald með mynd af Spessa prýddi bás BMW á MC-messunni í Noregi í vetur. Það verður ekki mikið stærra en þetta. Hjólið sem Spessi á í dag flutti hann inn frá Bandaríkjunum þar sem það var smíðað.

Sigurþór Hallbjörnsson, betur þekktur sem Spessi ljósmyndari, er mótorhjólamaður af lífi og sál. Hann er þekktur fyrir að aka um á Harley-Davidson-mótorhjólum og er mikill áhugamaður um þær gerðir mótorhjóla.
Sigurþór Hallbjörnsson, betur þekktur sem Spessi ljósmyndari, er mótorhjólamaður af lífi og sál. Hann er þekktur fyrir að aka um á Harley-Davidson-mótorhjólum og er mikill áhugamaður um þær gerðir mótorhjóla. Það vakti því athygli þegar hann fór að birtast víða sem fyrirsæta fyrir BMW-mótorhjól í vetur, bæði í netheimum og á sýningum erlendis. Blaðamanni bílablaðsins lék forvitni á að vita hvernig þetta verkefni kom til og kíkti því í stúdíóið hans Spessa og settist niður með honum ásamt einum kaffibolla.
„Það var haft samband við mig þegar ég var á leiðinni í gönguferð á Strandir og var að fara yfir Djúpið þegar hringt var í mig,“ sagði Spessi og glotti. „Það var sagt að ég þyrfti að koma í prufu eftir tvo daga. Ég sagðist ekki geta það en sendi henni tengil á trailerinn á mótorhjólamyndinni sem ég er að gera. Svo hverf ég bara í sex daga en þegar ég kem aftur er málið bara þannig að þeir vilja endilega fá mig. Þegar ég kem í bæinn fer ég beint niður á Loftleiðir þar sem BMW-fólkið var búið að koma sér fyrir. Ég mætti þarna á Harley-Davidson-hjólinu mínu og vakti sú innkoma talsverða athygli þar sem þau sátu öll í kaffi þegar ég kom. Þeir voru þarna mættir með tvo flutningabíla, annan með mótorhjólum og hinn með göllum og þá sá ég að það var alvara í þessu verkefni.“

Spessi við fyrsta stóra hjólið sitt
 Kawasaki Z650 1980 módel
Harley-vinirnir ekki hrifnir fyrst

Spessi er um þessar mundir að vinna að heimildarmynd um rótgróna Harley-Davidson-töffara í Bandaríkjunum og þessir vinir hans þar voru nú ekkert hrifnir af þessu fyrst þegar þeir fréttu þetta. „Þegar ég sagði þeim að ég fengi borgað fyrir þetta kom nú annað hljóð í strokkinn. Konseptið var það að sagan átti að vera raunveruleg og þess vegna þurfti fyrirsætan að vera bæði ljósmyndari og mótorhjólamaður. Þeir voru um leið að kynna nýja R1200 GS-hjólið með Boxer-mótornum. Eins og mér fannst þessi Boxer-mótor hrikalega ljótur í gamla daga þegar Skúli Gautason mætti á BMW-hjólinu sínu, þá gæti ég alveg hugsað mér að eiga svona hjól í dag. Það er nefnilega einhver karakter við þessi hjól í dag og þá sérstaklega gömlu hjólin. Nýi NineT-kaffireiserinn þeirra er líka ferlega flottur að mínu mati.“

Byrjaði að hjóla kringum 1970

Hjólið sem Spessi keyrir í dag er eiginlega ekki Harley-mótorhjól, því að mótorinn er frá S&S; þótt hann sé upphaflega Harley-Davidson-mótor. Grindin og annað er sérsmíðað eftir náunga sem heitir Paul Stewart og átti fyrst að vera í Bobber-stíl. Sá náungi varð sjötti í heimsmeistarakeppni mótorhjólasmiða 2006. „Ég átti fyrst skellinöðru þegar ég var 14 ára, í kringum 1970,“ sagði Spessi þegar við spurðum hann út í hvenær hann byrjaði mótorhjólaferilinn. „Síðan tók lífið við með sínum refilstigum, en þegar ég kom til baka úr því kom áhuginn á því að fá sér mótorhjól aftur. Þá fékk ég mér Kawasaki Z650 1981 módel sem ég var á í nokkur ár. Ég hafði alltaf áhuga á að fá mér Harley og álpaðist inná bíómynd í London árið 1980 sem hét Easy Rider. Það var bara opinberum fyrir mér að sjá þessi hjól þar. Það var samt eins og fjarlægur draumur að maður gæti fengið sér þannig hjól. Ég fékk mér svo Virago-mótorhjól sem minnti á Harley í útliti en það seldi ég svo þegar ég fór í nám, en draumurinn var alltaf til staðar. Löngu seinna var ég að gera auglýsingu fyrir SS-pylsur uppi í Litlu-Kaffistofu. Þá fór ég á stúfana að finna fólk í það og byrjaði leitina í umboðinu. Það endaði svo með því að ég fór aftur í umboðið og keypti mér loksins Harley-mótorhjól sem ég hef verið á síðan,“ sagði Spessi að lokum.
njall@mbl.is
Njáll Gunnlaugsson