3.11.15

Atvikið á Sepang brautinni hefur sett keppnistímabilið í MotoGP í uppnám

 

Er úti um titilvonir Valentino Rossi?

Atvikið á Sepang brautinni hefur sett keppnistímabilið í MotoGP í uppnám

Klukkan 15:11 að staðartíma sunnudaginn 25. október síðastliðinn gerðist atvik á Sepang brautinni sem breytti öllu keppnistímabilinu í MotoGP og setti allt á annan endann fyrir síðustu keppnina í Valencia sem fram fer um næstu helgi. Heimsmeistarinn Marc Marques og fyrrverandi heimsmeistarinn Valentino Rossi, sem er í forystu í stigakeppninni í ár, höfðu barist af hörku um þriðja sætið í keppninni þegar Marquez þröngvar sér upp að vinstri hlið Rossi skömmu fyrir krappa hægri beygju. Rossi að því er virðist hægir aðeins á sér til að fá Marquez til að hætta við atlöguna en þegar hann gerir það ekki tekur Rossi sig til og rekur fótinn í stýrið á hjóli Marquez sem fellur við. Vegna atviksins eru Rossi dæmd þrjú refsistig og þar sem hann var með eitt refsistig á bakinu þarf hann því að ræsa aftastur í síðustu keppninni með aðeins sjö stiga forystu í heimsmeistarakeppninni. Aðalkeppninautur hans Jorge Lorenzo mun að öllum líkindum ræsa af fremstu rásröð enda er hann að keppa þar á sínum heimavelli, og verður því við ramman reip að draga fyrir aumingja Rossi.

Var atvikið réttlætanlegt?

En hvernig gerir nífaldur heimsmeistari eins og Rossi svona afdrifarík mistök, gæti einhver spurt? Rossi hafði nokkru áður sakað Marquez um að keppa gegn honum en fyrir Lorenzo, því að eftir slakt gengi í byrjun tímabilsins á Marquez ekki lengur von á þriðja titlinum í röð.
Lorenzo er samlandi Marquez en Rossi er frá Ítalíu, en frá báðum löndum koma oft blóðheitir keppnismenn. Það má heldur ekki gleyma því að þótt Marquez eigi ekki lengur von á titli er hann fyrst og fremt keppnismaður og fær borgað fyrir að vinna keppnir. Keppnin í ár stendur einnig á milli Honda og Yamaha og þar sem að þeir kepptu um þriðja sætið snerist keppnin ekki síst um það hvort liðið hefði tvö hjól á verðlaunapalli. Marquez hafði eins og áður sagði gert harða atlögu að Rossi og þeir höfðu skipst á forystu fram og til baka og aldrei meira en hjóllengd á milli þeirra. Fyrir þá sem á horfðu varð þessi hanaslagur þess valdandi að neglur voru nagaðar niður í kviku og lamið í sófaborð af öllu afli. Stuttu fyrir atvikið storkaði Marquez honum mikið og Rossi brást við með því að veifa eins og einhver sem lendir í að svínað sé á hann í umferðinni. Þessir leikrænu tilburðir höfðu engin áhrif á Marquez sem hélt uppteknum hætti og eftir á hafa sumir sagt að Rossi hafi verið í rétti að sparka til Marquez eftir þessar atlögur. Vandamálið fyrir Rossi var bara eins og hann veit best sjálfur að það eru reglur í MotoGP keppninni eins og öðrum keppnum og ásamt dómurunum með reglugerðarbókina voru hundruð milljóna áhorfenda að fylgjast með í beinni útsendingu. Jú, að vísu hafði Marquez rekið höfuðið í rassinn á Rossi skömmu áður og hvað var þá að því að Rossi ræki fótinn aðeins í hann? Málið var einfaldlega það að Rossi hægði á sér fyrir beygjuna og leit á Marquez á meðan og tekur svo þá ákvörðun að sparka í hann. Þegar atvikið er skoðað í þessu samhengi verður ásetningurinn augljós og Rossi verður því að sætta sig við þá niðurstöðu að byrja aftastur í Valencia.

Ekki öll von úti

Rossi getur þó átt nokkra möguleika ennþá og ef hann nær sjötta sæti. Til dæmis þarf Lorenzo að verða í öðru af efstu tveimur sætunum til að vinna heimsmeistarakeppnina. Rossi hefur áður þurft að ræsa aftarlega og unnið sig upp í efstu sæti svo að spennan fyrir áhangendur Rossi og Lorenzo er gífurleg. Hvað liðsmenn Honda gera til að hafa áhrif á þann slag verður að koma í ljós en Pedrosa og Marquez hafa eflaust fengið þá skipun að vinna efstu tvö sætin í sárabætur fyrir slakt gengi á árinu. Marquez á brautarmetið í Valencia og Pedrosa hefur oftast unnið þar keppni. Það stefnir því í mikla veislu næstkomandi sunnudag en keppnin verður meðal annars sýnd í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport 3 og hefst dagskráin klukkan 12:50 að íslenskum tíma.
Hér má sjá í hvaða sæti Valentino Rossi þarf að lenda á móti Jorge Lorenzo til að hampa heimsmeistaratitlinum:
Lorenzo fyrstur, Rossi annar
Lorenzo annar, Rossi þriðji
Lorenzo þriðji, Rossi sjötti
Lorenzo fjórði, Rossi níundi
Lorenzo fimmti, Rossi ellefti
Lorenzo sjötti, Rossi tólfti
Lorenzo sjöundi, Rossi þrettándi
Lorenzo áttundi, Rossi fjórtándi
Lorenzo níundi, Rossi fimmtándi 

njall@mbl.is