3.11.15

Framtíðin í mótorhjólum?



Mótorhjólatæknin frá Yamaha

Tokyo Motor Show er sýning sem snýst um að sýna nýjustu tækni í heimi farartækja og þess vegna snýst hún ekki einungis um bíla, heldur líka mótorhjól og stundum jafnvel vélmenni lika. Yamaha sýndi okkur inní alla þessa heima á sýningunni því að Yamaha frumsýndi ekki aðeins sinn fyrsta bíl heldur einnig þríhjóla sportmótorhjól og vélmenni sem getur keyrt alvöru keppnishjól.

Vélmennið veitir innsýn

Motobot er sjálfvirkt vélmenni sem getur tekið ákvarðanir og er hannaður til að ráða við akstur mótorhjóls, sem er ekkert smáverkefni fyrir tæknimenn Yamaha. Motobot er ekkert fyrir að keyra lítil æfingarhjól og lætur ekkert minna duga en aðeins breytt Yamaha R1M. Stefnan er að hann geti ekið óbreyttu hjóli á keppnisbraut á meira en 200 km hraða. Í fréttatilkynningu frá Yamaha segir að verkefnið að láta vélmenni stýra mótorhjóli sé óendanlega flókið og krefst mikillar nákvæmni á mörgum sviðum. Með þessu næst fram innsýn í alla þætti mótorhjólaaksturs og þar af leiðandi meiri árangur í tæknilegum öryggisbúnaði mótorhjóla sem við gætum farið að sjá innan tíðar í framleiðsluhjólum. Hvort vélmennið verður farið að ögra Valentino Rossi til keppni fljótlega verður þó að koma í ljós.

Með gripið í beygjurnar 
Motobot er vélmenni sem er hannað AFP
til að ráða við akstur mótorhjóls.

Þríhjóla MT-09 var einnig frumsýnt í Tokyo en það kallast reyndar MWT-9 en það stendur fyrir Multi-Wheel. Með því að hafa tvö framhjól í fullri stærð á það að hafa enn meira grip í beygjum en venjulegt mótorhjól. Hjólið er með þriggja strokka 850 rsm vél og útlitslega virðist hjólið jafnvel vera tilbúið til framleiðslu. Fjöðrunin er mjög slaglöng til að geta leyft framhjólunum að halla mikið enda var þróunarheiti þess „Cornering Master“ eða meistari beygjunnar.

MBL 3.11.2015
njall@mbl.is