3.12.15

Konan sem sigraði karlana

Vikudagur 3.des 2015

Halldóra Vilhjálmsdóttir, þriggja barna móðir og leikskólakennari í Eyjafjarðarsveit, varð á dögunum fyrsta  konan í 41 árs sögu Bílaklúbbs Akureyrar til að vera valin akstursíþróttamaður ársins en félagið er það fjölmennasta sinnar tegundar á landinu. Halldóra segir mótorsport ekki vera karlaíþrótt og vonast til þess að með útnefningunni sé hún að ryðja veginn betur fyrir konur sem hafa áhuga á akstursíþróttum. Vikudagur settist niður með Halldóru og spjallaði við hana um mótorsportið ,staðalímyndir og fleira.

"Það var kominn tími á að kona fengi þessa nafnbót og ég er vonandi að ryðja brautina fyrir aðrar" segir Halldóra sem varð íslandsmeistari í 200 m götuspyrnu F-hjóla á árinu. " Þetta er mikill heiður og viðurkenning fyrir mig, að það sé litið þannig á að minn árangur að ég eigi þetta skilið. Sérstaklega þar sem ég er fyrsta konan sem er valin. Sú staðalímynd að mótorsport sé bara fyrir karlmenn hefur verið viðloðandi lengi en raunin er sú að þeta er ekkert frekar karlasport fremur en það sé kvennmannsverk að skúra.
Við erum alltof föst í staðalímyndum og þurfum að taka af okkur svuntuna og koma okkur út úr þessari þröngsýni. Það að keppa á mótorhjólum eða torfærubílum er ekki bundið við karlmenn " segir Halldóra.

Kom þér valið á óvart?

"Já það gerði það að hluta til, sérstaklega að vera tilnefnd. Það fór fram kosning á netinu þar sem ég var með afgerandi forystu. Ég fékk svo símtal frá fomanni Bílaklúbbsins þar sem ég ver beðin að mæta á lokahófið sem ein af þeim tilnefndu. Stjórnin átti eftir að kjósa og gillti 50% á móti netkostningunni. Miðað við netkostninguna var ég kominn með þumalputtann hálfa leið upp en maður vissi þó aldrei hvernig endanleg niðurstaða yrði."

Var eina stelpan á skellinöðru

Halldóra var 15 ára þegar hún fékk skellinöðru í fyrsta sinn og þá var ekki aftur snúið. " Þegar ég var að byrja að keyra skellinöðru sem unglingur þótti þetta mjög skrítið. Ég var eina stelpan í bænum í þessu sporti á þeim tíma og var litin hornauga. Ég var alltaf að hjóla með strákunum og var ein af þeim.
  Ég fann ekkert mikið fyrir fordómum en eflaust voru þeir til staðar og eru enn. En ég var alltaf
meira þessi strákastelpa en er nokkurn tímann daman í kjólnum sem var að snyrta á sér neglunar.  Ég hef grun um að ég hafi fæðst með fleiri karl- en kvenhormón. Engu að síður er ég kona, vinn við að snýta og skipta um bleyjur á börnum, ala þau upp til að taka við af okkur. Ég mála mig og geng í kjól ef mig langar, ég próna, baka, elda og fleira sem hefur verið staðalímynd kvenmannsins alla tíð. Og ég hef gaman af því, sem hefur lengi verið rótgróin karlaíþrótt, mótorsporti!
Ég móta líf mitt ekkert eftir því hvernig samfélagið ætlast til þess að ég hagi mér heldur geri það sem mig langar að gera. Ég hef alltaf verið þannig að mér finnst ekkert gaman að falla inn í normið og vera eins og hinir. Stundum mæti ég með fjólublatt hár í vinnuna eða í náttgallanum í Hagkaup. Eitt sinn eftir sýningu í Freyvangsleikhúsinu, sem ég tók þátt í, mætti ég í Hagkaup sem norn, var með allt hárið út í loftið, græn í framan og ég veit ekki hvað. Það er stundum gaman að sjá svipinn á fólki þegar maður gerir eitthvað flippað. Það sest stundum púki á axlir mínar," segir Halldóra og hlær.


" Er þetta kona"

Halldóra hélt erindi á málþingi Bílaklúbbs Akureyrar fyrir skemmstu þar sem hún fjallaði m.a. um fordóma og staðalímyndir í sportinu.
Eru fordómar til staðar?
"Ekki beint fordómar, heldur þessar staðalímyndir. Ég man t.d. fyrir nokkrum árum, þá var yngsti sonur minná staðnum að horfa á. Hann var að hvetja mig áfram og öskraði "Áfram Mamma!" Nokkrir unglingar stóðu fyrir aftan hann urðu steinhissa. " Er þetta kona?" sögðu þeir. Þeir reiknuðu bara með því að þetta væri karlmaður á hjólinu. Það er einmitt þessi staðalímynd sem við þurfum að breyta."
     Halldóra segist ekki hafa orðið vör við fordóma í sinn garð. " Eflaust eru einhverjir sem finnst þetta fáránlegt og líta mig hornauga, en þetta er svolítið spurningin um hvað maður kýs að horfa á og heyra. Ég veit hver ég er og fólkið í kringum mig veit það einnig. Það er frekar að fólk verði hissa þegar ég tala um að ég hafi verið eða sé að fara að keppa í spyrnu. Í dag er ekkert skrýtið að kona þeysist um á mótorfáki en þegar þetta er komið aðeins lengra og við farnar að keppa í mótorsporti, þá verður fólk oft hissa".
Má ekki líta svo á að sigur þinn í kjöri akstursíþróttaamanns ársins hjá BA sé ekki síður ákveðinn sigur fyrir kvennfólk almennt í þessu sporti?
"Jú ekki spurning. Þegar ég byrjaði að spyrna fyrir fjórum árum þá hugsaði ég mér að ég ætti ekkert í þessa stráka, ég er bara stelpa. En það er ekkert þannig, ég er búin að sýna það og sanna fyrir sjálfri mér og öðrum að ég á fullt erindi í þessa stráka og ég er ekki sú eina.  Það er fullt af konum þarna úti sem langar að prufa en eru ragar við það vegna þess að þær eru stelpur. Þess vegna þarf að velta fyrir sér hvað sé hægt að gera til að fá þessar konur til að koma og prófa, t.d. væri hægt að halda konukvöld þar sem eingöngu konur koma og fá að prófa mótorhjól, torfærubíla og hvaðeina.
 Þannig konukvöld varð einmitt til þess að ég fór á sínum tíma að kynna mér þetta sport."
Konan sem sigraði karlana

" Krökkunum þykir þetta mikið sport "

Ef þú hefðir spurt mig fyrir nokkrum mánuðum hefði ég sagt að ég ætti tvö mótorjól og eina skellinöðru. En í dag á ég bara eitt hjól og skellinöðruna og það dugar mér alveg," segir Halldóra sem fer flestra sinna ferða á sumrin á motorhjóli en leggur því yfir háveturinn.
     "Ég var t.d. að keppa fyrir sunnan sumarið 2014 og hjólaði suður á keppnina og aftur heim. Einnig fer ég í vinnuna á leikskólanum í Hrafnagili á mótorhjólinu og það finnst krökkunum ægilega gaman að sjá. Það er mikið sport fyrir þau þegar ég kem á hjólinu í allri mudderingunni. Þetta gefur mér einnig tækifæri til þess að koma skilaboðum til krakkana að það sé alveg í lagi að kona sé á mótorhjóli og íklædd leðurdressi," segir Halldóra.
   Hún segist hjóla reglulega á kvöldin og um helgar að sumri til og það sé fátt sem toppi það að þeytast um göturnar á mótorhjóli, "Oft hjóla ég langt fram eftir nóttu, skrepp kannski inn á pöbb og tek smá dans eða fæ mér kaffi og hjóla svo til baka. Mér finnst eiginlega ekkert yndislegra en hjóla frameftir nóttu á fallegu sumarkvöldi. Ég er yfirleitt ein að hjóla og þetta er besta geðlyf í heimi, að opna glerið á hjálminum og finna vindinn í andlitið og dropana ef það er rigning. Maður er svo lifandi. Stundum þegar maður er með allt á hornum sér er gott að fara út að hjóla, finna frelsið og stundum að öskra aðeins inn í hjálminum," Segir Halldóra og hlær.

Þröstur Ernir Viðarsson
throstur@vikudagur.is

Vikudagur 3.des 2015