20.7.15

Inga Birna keppir í Suður-Afríku

Myndina tók Árni Sæberg og kunnum við honum bestu þakkir fyrir.

Inga Birna Erlingsdóttir, lögreglumaður í umferðardeild Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, hefur verið valin í 10 manna úrtak fyrir fyrsta alþjóðlega kvennalið GS bikars BMW, en keppt er á R 1200 GS mótorhjólum frá BMW. 

Fram undan er sex daga undankeppni, sem haldin verður í Suður-Afríku í september, en að henni lokinni verða valdar þrjár konur til þátttöku í aðalkeppninni í Taílandi á næsta ári. Mikið mun reyna á hæfni, þol og samvinnu keppenda, sem spreyta sig í ýmsum þrautum á meðan keppninni stendur.  Þátttökuliðin koma víða að, en 2016 verða konur með í fyrsta sinn og þá í alþjóðlega liðinu sem áður var nefnt.

Þess má geta að Inga Birna var valin úr hópi 119 kvenna frá 28 löndum, sem allar sóttust eftir að taka þátt í keppninni. Það eitt og sér er mikill heiður fyrir hana og svo gæti hún hæglega komist í þriggja manna keppnisliðið sem mætir til leiks í Taílandi á næsta ári. Samstarfsfélagar hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu óska Ingu Birnu til hamingju með að hafa komist í 10 manna úrtakið og óska henni góðs gengis í undankeppninni í Suður-Afríku.
20.6.2015