15.12.05

JÓLAHJÓL

DÆGURLAGIР

Það var í gömlu góðu árdaga Sniglanna sem þetta klassíska jólalag kom í heiminn. Mótorhjólatöffarinn og leikarinn Skúli Gautason á heiðurinn af lagi og texta.

 „Ég átti afmæli og það var veisla heima hjá mér,“ svarar Skúli aðspurður hvernig lagið varð til. Þá leigði hann hús ásamt Þormari Þorkelssyni, öðrum mótorhjólatöffara, á Görðum við Ægisíðu.
„Þar var hálfgert félagsheimili fyrir mótorhjólabullur og oft gestkvæmt og glatt á hjalla,“ segir Skúli. Hann rifjar síðan upp það sem fór fram í örlagaríku afmælisveislunni.

 Börn og mótorhjól 

„Við vorum eitthvað að velta fyrir okkur hvernig hugsunarhátturinn hefði verið hjá mótorhjólatöffurunum þegar þeir voru börn, um hvað þeir voru að hugsa. Flestir voru á því að hafa átt draum að fá mótorhjól í jólagjöf. Svo fóru af stað vangaveltur um það hvort hann væri ekki svolítið áberandi pakkinn og hvort það væri eitthvað hægt að fela þann pakka því að jólagjafir eiga að koma á óvart, ekki satt?“ Upp úr þessum umræðum og vangaveltum spratt svo lagið „Jóla-hjól“ og þar sem þetta var afmælisveislan hans Skúla var honum gefið það loforð í afmælisgjöf að lagið skyldi koma út á plötu. Hann og Þormar mæta daginn eftir upp í stúdíó Mjöt til að taka upp tvö lög, þar á meðal lagið um jólahjólið. „Þetta var glamrað á kassagítar og við bara rauluðum þetta inn,“ segir Skúli.

Milljón dollara hugmynd

Ætlunin var að gera lítinn 45 snúninga vínil og fóru þeir með upptökurnar upp í plötupressuna Alfa sem þá var suður í Hafnarfirði.
 „Þá voru þeir í plötupressuninni í miðju jólaplötuflóðinu og voru einungis í því að pressa stóru 33 snúninga plöturnar. Til að koma okkar plötu inn hefði þurft að afgreiða allar stóru plöturnar fyrst og það var of mikið mál.“
 Á endanum varð platan þeirra á stærð við 33 snúninga plötu en spilanlegi hlutinn aftur á móti aðeins á stærð við 45 snúninga plötu. Meira en helmingur plötunnar var sem sagt auður. „Síðan gáfu þeir okkur hvítt umslag utan um og við Þormar handskreyttum þessi hvítu umslög eftir óskum hvers viðskiptavinar og seldum þetta bara úti á götu. Við sögðum auðvitað ekki frá því að auða svæðið á plötunni væri út af þessum vandræðum í plötupressunni heldur létum við í veðri vaka að þetta væri alveg sérhannað. Þetta væri svona handfang þannig að maður gæti alveg gripið um plötuna með fitugum fingrum án þess að það kæmi niður á hljómgæðunum. Alveg milljón dollara hugmynd. Við prentuðum plötuna í einhverjum fimm hundruð eintökum sem seldust upp þessi jól.“

Morgunblaðið 15.12.2005

27.10.05

Með bensín í blóðinu

Tryggvi Sigurðsson
 Það fæðast sumir með bensín í blóðinu og það er með það eins og svo margt annað í lífinu, þetta leggst í ættir og er Tryggvi Sigurðsson talandi dæmi um það. Hann er þriðji ættliðurinn sem haldinn er bíladellu á háu stigi og ekki er hann minni áhuginn á mótorhjólum. Bílaeignin endurspeglar þennan áhuga, hún er ekki mæld í jeppum heldur bílum og mótorhjólum sem eiga sér sögu og hafa sál og djásnin eru Ford Mustang 68 og Harley Davidsson mótorhjól. Tryggvi er Eyjamaður í húð og hár, sonur Sigurðar Tryggvasonar og afinn er Tryggvi Gunnarsson oft kenndur við Hornið og sjálfur segist Tryggvi tilheyra Hornaflokknum. Tryggvi er vélstjóri á Frá VE en hann á sér annað áhugamál sem eru skip og bátar. Það er ekki margt sem hann veit ekki um báta sem einhvern tíma hafa verið gerðir út frá Vestmannaeyjum, hann á mjög gott myndasafn af bátum og síðast en ekki síst smíðar hann líkön af skipum og bátum af ótrúlegri nákvæmni þar sem nostrað er við hvert smáatriði.
Þetta áhugamál er efni í stórt og mikið viðtal en nú ætlunin að halda sig við bíla og mótorhjól. Tryggvi tekst allur á loft þegar hann er spurður um Mustanginn og hann hellir tölulegum staðreyndum yfir blaðamann sem veit ekki hvaðan á sig stendur veðrið. „Þetta er Ford Mustang árgerð 1968, Fastback
Ford Mustang Fastback 1968
sem mér fínnst skipta miklu máli. Vélin er V8, 302 rúmsentimetrar og gæti verið um 250 hestöfl. Bíll og vél er upprunalegt og hann er m.a.s. á upprunnalegum felgum," segir Tryggvi um þennan dýrðar bíl. Tryggvi er búinn að eiga Mustanginn í tvö ár, en hann var ekki einn um hituna. „Eg var búinn að bíða lengi eftir honum og þeir slógust um hann bíladellukarlarnir. Fyrri eigandi býr á Skagaströnd og þar stóð bíllinn inni í bílskúr nema á tyllidögum, var bara notaður spari. Það er búið að keyra hann 58.000 mílur sem er ekki mikið á tæplega 40 árum." Tryggvi segir að Mustanginn hafi verið í þessu standi þegar hann keypti hann en var nýsprautaður þegar hann var fluttur inn árið 1990. „Eg keypti hann á milljón á borðið sem eru eðlileg afföll af heimilisbílnum á tveimur árum." Tryggvi segir að Ford Mustang hafi alla tíð verið draumabíllinn enda mjög vinsæll þegar hann var að alast upp. „Þegar ég var peyi átti Silli Þórarins flottan Mustang og þegar ég fékk bílpróf 17 ára fékk ég að keyra hann og það var mikil upplifun fyrir ungan svein." En Tryggvi er ekki sá eini sem er haldinn þessum kvilla ef kvilla skyldi kalla. „Það hefur alltaf verið bíladella í Hornaflokknum," segir hann og vísar til þess að fjölskyldan hafi löngum verið kennd við Hornið. „Maður ólst upp við þetta, afi Tryggvi  Gunnarsson eða Labbi á Horninu eins og hann var oft kallaður var bæði með bíla- og mótorhjóladellu, pabbi, Siggi Labba, hélt uppi merki afa í þessum efnum og við bræður mínir eru líka bíladellukarlar. Addi Steini er flottur á því, keyrir um á Porche og sá yngsti er verri en við Addi Steini til samans," sagði Tryggvi.
Þá er komið að mótorhjólunum og þar er ekki komið að tómum kofunum því Tryggvi á fjögur mótorhjól og það elsta er frá árinu 1946. „Mótorhjólin tóku allan minn tíma og pening þegar ég var ungur það tók maður í arf frá bæði pabba og afa. Þar var Hornaflokkurinn enn og aftur á ferðinni. Það er rétt að ég á fjögur mótorhjól í dag en að sjálfsögðu byrjaði maður á skellinöðru."
Tryggvi segir að þetta með mótorhjólin hafi verið svolítið í bylgjum og enn hefur hann ekki fjárfest í draumahjólinu en hann getur ekki kvartað. „Draumamótorhjólið er að sjálfsögðu Harley Davidsson V Road en það er það dýrt að ég get ekki réttlætt það fyrir sjálfum mér að eiga slíkan dýrgrip. En maður verður að eiga einn Harley og ég á Harley Davidsson Sportster 1200, árgerð 2000. Svo á ég tvö Hondahjól, CB-750 af árgerðum 1975 og 1976 sem eru sams konar hjól og ég átti og þegar þú varst að elta mig," sagði Tryggvi hlæjandi og vísaði til fyrri starfa blaðamanns í lögreglunni.
„Fjórða hjólið er Matchless 500 árgerð 1946 sem ég gerði upp. Ég gaf það nú eiginlega syni mínum og hann notar það sem stofustáss. Hann fékk líka hjá mér skellinöðru sem ég gerði upp. Hún er af gerðinni Honda Dax, árgerð 1971 og var upphaflega 50 rúmsentimetrar en er í dag 85 og enginn má vita það."
 Áttu þér annan draumabíl en Mustang? „Mig hefur lengi langað í jafnaldra minn, Chevrolet Bel Air 1957. Annars hef ég aldrei verið með einhverja einstefnu í bílategundunum, hef verið blessunarlega laus við það. Benz er vandaðasti bíllinn, en samt er það nú svo að hver bíll hefur sín einkenni eða öllu heldur karakter."
Er bíladella eitthvað sem eldist afmönnum? „Ég veit það ekki, sjálfur ætla ég að halda þessu áfram á meðan það gefur mér einhverja ánægju. Það sem háir mér er lítill tími því það fer mikill tími í bátasmíðina, svo er það fjölskyldan og sjómennskan og svo er ég  með dellu fyrir bátum og skipum í fullri stærð og á mikið myndasafn og þekki sögu flestra í
Eyjaflotanum. Til að slappa af frá þessu öllu saman finnst mér best að stíga á mótorhjól og taka einn hring. Eg þekki ekkert sem er eins afslappandi," sagði Tryggvi að lokum.

Eyjafréttir 27.10.2005

11.10.05

Vélhjólasport vaxandi íþrótt

Fjölskyldufyrirtækið JHM sport hefur verið við Stórhöfða 35 í eitt ár. Áður var það í kjallara í heimahúsi en er nú stærra og fjölbreyttara. Jón Hafsteinn Magnússon, eigandi fyrirtækisins hefur verið viðriðinn vélhjólabransann frá því árið 1970 og nú hafa orðið kynslóðaskipti þar sem börnin hans eru komin á fullt í sportið. Dóttir hans, Klara Jónsdóttir, vinnur í JHM sport auk þess sem hún er sjálf á fullu í sportinu. „Ég var alltaf á litlu hjóli þegar ég var lítil og hætti svo í smá tíma. Núna er ég byrjuð á fullu. Þetta er ótrúlega gaman, það skemmtilegasta sem ég geri," segir Klara. Mikil aukning hefur orðið á vélhjólasporti undanfarin ár og eru fjölskyldur farnar að stunda þetta saman. Sportið hefur verið landlægt síðan fyrir 1970. Fyrst voru það aðallega karlar sem stunduðu vélhjólasport en konur hafa sótt í sig veðrið undanfarin ár og eru farnar að keppa í vélhjólasporti, þ.e. mótorkrossi og Enduro. I motorkrossi er keppt á tilbúnum brautum en í enduro á vegslóðum. Þá eru hjólin skráð,
með ljósi og annað slíkt. Á þeim hjólum má keyra innan bæjarmarka en á mótorkross hjólunum má einungis vera á lokuðum svæðum. Þess má geta að sonur Jóns Hafsteins er núverandi íslandsmeistari  í enduro. Búnaður skiptir öllu máli þegar byrja skal í þessu fjöruga sporti. Nauðsynlegt er að hafa hjálm, hanska og brynju sem fer annað hvort innan undir eða yfir utanyfirflíkina. í JHM sport er hægt að fá allt í tengslum við vélhjólasportið auk þess sem þar vinnur fagfólk sem veitir persónulega ráðgjöf.
Blaðið 11.10.2005
http://timarit.is/

23.8.05

Þingmaður í leðri Geysist um á mótorfák

Þingmaðurinn Magnús Þór Hafsteinsson hefur endurnýjað kynni sín við Kawasaki-mótorhjól sem hann fór á um stóran hluta Noregs um miðbik síðasta áratugar. Hann rann af stað á mótorhjólinu frá heimili sínu á Akranesi í gær og framundan voru einhverjir torförnustu þjóðvegir landsins á leiðinni til Ísafjarðar.
„Ég er búinn að eiga þetta hjól í tíu ár," sagði Magnús Þór, skömmu fyrir brottför í gær, og hugurinn hvarf aftur til Norður Noregs á 10. áratugnum. „Ég hef farið nokkrum sinnum um allan Noreg og allar Færeyjar. Ég hef nú lent í mörgum svaðilförum á þessu hjóli. Ég var á því í mörg ár, bjó í Noregi og ferðaðist á því með tjald og svefnpoka. Upp á síðkastið hef ég bara verið að eignast börn og svona og er fyrst núna að draga hjólið fram aftur," segir hann.
Erindi Magnúsar Þórs á Ísafirði var fundur Vestnorræna ráðsins sem hófst þar í gær. Er þar um að ræða vettvang þar sem ísland er stórveldi við hlið Færeyja og Grænlands. Íbúar Vestfjarða geta átt von á að fá að berja þingmanninn augum næstu daga, þar sem hann geysist um héraðið, leðurklæddur á mótorfák. „Ég ætla að fara um Vestfirðina næstu daga og hitta fólk. Og gera úttekt á vegakerfinu, þannig að maður viti hvað maður er að tala um á Alþingi. Ég fer um sunnanverða firðina, ég er ættaður þaðan," segir hann. Og hjólið er ekki á leiðinni inn í bílskúr á næstunni.
Magnús Þór hefur í hyggju að nota það í vetur Það er rosalega gott að vera á mótorhjóli, sérstaklega Reykjavík, þar sem umferðarþunginn er orðinn gríðarlegur.  Ef maður er á mótorhjóli fer maður fyrstur af stað á hverjum ljósum. Jafnvel í mestu umferðarhnútum. Þess fyrir utan fær maður allt aðra tilfinningu fyrir landinu á mótorhjóli en í bíl."
DV 23.08.2005

6.8.05

Gullhjólið er notað á góðviðrisdögum

Sigurður O. Björnsson er stoltur eigandi að Harley Davidson mótorhjóli. Mikil þrautaganga var að koma því til landsins en gullhjólið, eins og strákarnir á Kárahnjúkum kalla gripinn, var alveg þess virði.

„Ég er alveg klár á því að það er ekki til neitt Harley Davidson hjól í líkingu við þetta,“ segir Siggi.
Enda erum við að tala um hundrað ára afmælisútgáfu af Harley Davidson Softail Deuce frá árinu  2003.
„Það var töluvert bras að koma hjólinu hingað. Ég þurfti að kaupa það frá Ameríku,“ segir Siggi.
Hann fór því sjálfur til Ameríku og hlóð hjólið aukahlutum sem ekki eru fáanlegir hérna. Þetta
fyrirkomulag kostaði þó töluverð vandræði. „Reglurnar hjá Harley Davidson í Ameríku eru þannig að þeir selja ekki nokkrum manni nýtt hjól nema að hann hafi amerískt ökuskírteini og lögheimili.
Það sem bjargaði mér í þessu er að ég er amerískur ríkisborgari svo ég gat farið og tekið bílprófið,“ segir Siggi sem bætir við að hjólið sé sérstaklega flott af því að það sé í hundrað ára afmælislitunum
„sterling silver og wild black“. En af hverju gullhjól? „Við vorum að grínast með þetta uppi á Kárahnjúkum þar sem ég vinn, því ég fékk gulllykil með hjólinu því þetta er afmælis útgáfa. Það fengu ekki allir svona lykil nema bara sérstakir viðskiptavinir. Hann kom í öskju og með keðju til að hafa um hálsinn,“ segir Siggi. Hann bætir við að strákarnir hafi dálítið strítt honum á þessu og verið hneykslaðir á því að hann hafi ekki viljað keyra um á hjólinu uppi á Kárahnjúkum. „Það fer ekki  nokkur maður með neitt mótorhjól upp að Kárahnjúkum nema að það sé torfæruhjól. Gullhjólið er líka svo flott að maður notar það ekki nema bara á góðviðrisdögum.“
annat@frettabladid.is

2.7.05

Viðtal við Dagrún Jónsdóttir Mótorhjólakonu 2005

Dagrún Jónsdóttir þekkja flestir mótorhjólamenn sem hjóluðu á síðustu öld... bæði var hún í stjórnum Snigla og í  formaður Vélhjólafélag Gamlingja og þrældugleg við að safna gömlum mótorhjólum og gera upp gamla Harley Davidson.

Okkur var bent á þetta viðtal sem leyndist á netinu hjá Ruv.. njótið

Viðtal við Dagrúnu Jónsdóttir 2005 byrjar á 13:40

21.6.05

Haldið upp á 100 ára afmæli mótorhjólsins á Sauðárkróki

Birgir Örn Birgisson
í Brautinni

Á milli 1000-1500 manns í afmælinu

Afhjúpun minnismerkisins var tvímælalaust hápunkur hátíðarinnar," sagði Helga Eyjólfsdóttir, einn skipuleggjenda afmælishátíðarinnar.
Helga var jafnframt eini kvenkyns keppandinn í vélhjólakeppnunum helgarinnar.Veðursins vegna voru þátttakendur eitthvað færri en vonir stóðu til, en þó er áætlað að á bilinu 1200-1500 manns hafi verið á svæðinu þegar mest var. 

Þrátt fyrir að veðurguðirnir hafi ekki verið hliðhollir hjólafólkinu skemmti bæði það og aðrir áhugasamir áhorfendur sér vel við að fylgjast með hinum ýmsu vélhjóla keppnum sem fram fóru

víðsvegar um bæinn á laugardeginum. Að mati Helgu stóð afhjúpun minnismerkisins í Varmahlíð á sunnudeginum uppúr öllum dagskrárliðum á hátíðinni, enda tilfinningaþrungin stund fyrir marga,
sérstaklega þá sem hafa misst einhverja nákomna sér í bifhjólaslysum.

Að veðrinu undanskildu voru forsvarsmenn hátíðarinnar mjög ánægðir með hvernig til tókst og höfðu á orði hversu vel hafi verið tekið á móti þeim. Vildu þeir koma á framfæri þökkum til bæði

sveitarstjórnarinnar fyrir framúrskarandi góðar undirtektir og aðstoð við undirbúning hátíðarinnar, þeirra fyrirtækja sem styrktu þá með ýmsum hætti og þá ekki síður til íbúa Skagafjarðar fyrir að taka svo fordómalaust á móti þeim sem raun varð á.

_____________________________________________________________________

Skrúðkeyrsla mótorhjóla vaktitalsverða athygli.

Óhætt er að segja að hestöfl hafi settsvip sinn á þjóðhátíðardagskrá Norðvestlinga þetta árið.  Á Sauðaárkróki tóku vélhjólamenn allsstaðar af landinu virkan þátt í hátíðardagskránni en hún hófst á miklum skrúðakstri vélhjóla af öllum stærðumog gerðum í gegnum bæinn.


Á flæðunum var síðan hefðbundin hátíðardagskrá og skemmtiatriði. Var þar skátatívólí og teimt var undir börnum á eins hestafls ferfættum gæðingum.  Fór llt vel fram þrátt fyrir að veðurguðirnir hefðu mátt vera Skagfirðingum hliðhollari.

Helga Eyjólfsdóttir
og eini kvennkeppandinn

 Feykir 200518.6.05

Frábært fjölskyldusport

Inda Björk Alexandersdóttir

Inda Björk Alexandersdóttir var að fá sér nýtt mótorhjól. Hún fékk delluna fyrir þrettán árum og eftir það varð ekki aftur snúið.

„Fyrrverandi sambýlismaður minn átti hjól og ég smitaðist af bakteríunni,“ segir Inda. „Ég var ekki einu sinni með próf þegar áhuginn vaknaði, en ég dreif mig að taka prófið um leið og ég mátti. Þetta er þess eðlis að maður verður auðveldlega húkkaður.“
Fyrsta hjólið sem Inda eignaðist var 100 Kawasaki, árgerð ‘78. „Það var ágætis græja, en þetta sem ég var að fá núna er meiriháttar. Þetta er Triumph Speedmaster, rosalega hippo. Ekki hippalegt,“ útskýrir hún, „meira svona króm. Hippahjólin voru gömlu Goldwingarnir sem voru eins og hálfgerð sófasett.“
  Inda pantaði hjólið upp úr bæklingi og var jafnvel örlítið smeyk um að það væri ekki nógu stórt. „Félagi minn er kominn  með Triumph-umboðið á Íslandi sem er nú virkt á Íslandi í fyrsta skipti í 25 ár. Nú þegar ég er búin að fá það og prófa það er ég alsæl.“
  Inda segist ekki beint geta skilgreint hvað það er sem er svona skemmtilegt við mótorhjólasportið. „Það er bara allt. Maður kemst í beina snertingu við náttúruna þegar maður er á ferð um landið og það er svo gott að vera einn með sjálfum sér. Þetta er bara svo ólýsanlega gaman.“
  Inda á þrjú börn, ellefu ára , fimm ára og eins árs og þessi ellefu ára mjög áhugasamur. „Þetta er sport sem hentar fjölskyldufólki og nú erum við til dæmis á leið á fjölskylduhátíð á Siglufirði með Sniglunum.“
  Inda segir enn örla á fordómum gagnvart mótorhjólafólki og segir brýnt að það breytist. „Það er ekki auðvelt að vera á mótorhjóli í umferðinni, aðallega vegna tillitsleysis og frekju þerra sem eru á bíl. Þetta verður að laga og það gerist ekki nema með áróðri og meiri skilningi.“
Fréttablaðið 18.06.2005

10.6.05

Hliðarvagninn tekur í

Akureyri 

Kraftakarlinn Torfi Ólafsson er mikill áhugamaður um mótorhjól, enda einn af stofnendum Sniglanna og með félagsnúmer 54. Hann fjárfesti nýlega í mótorhjóli frá Bandaríkjunum en um er að ræða 40 ára afmælisútgáfu af Hondu Goldwing 1500, árgerð 1989. Hjólið er með hliðarvagni og vegur alls um 630 kg fyrir utan ökumann „en er mun þyngra með ökumanni,“ eins og Torfi orðaði það sjálfur. Hann sagði að mun erfiðara væri að aka þessu hjóli, þar sem hliðarvagninn tæki hraustlega í en hann hefur þó verið að bjóða öðrum fjölskyldumeðlimum á rúntinn. Hann stefnir svo í lengri ferðir þegar hann hefur náð betri tökum á ökutækinu. Torfi ætlaði upphaflega að kaupa stakan hliðarvagn, þar sem hann á annað mótorhjól, Hondu Goldwing 1200, sem einnig er afmælisútgáfa frá fyrirtækinu. Vagninn einn og sér var hins vegar það dýr að Torfa þótti hagkvæmara að kaupa hjól með vagni.
Morgunblaðið 10.06.2005

8.6.05

Íþrótt allra tómstundahópa


 Jón Hafsteinn Magnússon, eigandi og forstjóri JHM sport, segir geysilega aukningu hafa verið í hópi þeirra er stunda torfæruakstur á bifhjólum á íslandi. „Ég hugsa að á síðustu þremur árum hafi  hópurinn þre- eða fjór-faldast," segir Jón, en hann telur fjöldann vera á bilinu 1500-2.000 manns.„Þessi íþrótt höfðar til allra; forstjóra, lögfræðinga og verkamanna, í öllum aldurshópum og af báðum kynjum." JHM sport selur torfæruhjól fyrir börn og fullorðna. Þar fæst t.d. lítið hjól fyrir krakka á aldrinum 4-5 ára sem eru byrjaðir að geta hjólað án hjálpardekkja. Hjólið er eins gíra og getur að hámarki verið ekið á 25 km á klukkustund. Einnig fást mótorkross eða enduro- hjól fyrir krakka sem eru ögn stærri. Jón telur þó skynsamlegast að byrja í sportinu á klifurhjólum. Þeim er hægt að aka yfir nánast hvaða hindrun sem er en slíkur hindrunarakstur verður sífellt vinsælli keppnisíþrótt á meginlandi Evrópu og víða annars staðar.

Torfæruskellinöðrurnar fyrir yngri aldurshópinn eru mjög vel útbúnar. Þær hafa sama útlit og stóru hjólin, eins bretti, tankhlífar, hliðarhlífar, sæti og aukabúnað. Þannig lítur 50 kúbika hjól nánast eins út og 300 kúbika. Öll enduro-hjólin eru skráð götuhjól svo þeim má aka hvar sem er.
„Þetta leysir allan bílastæðavanda í Reykjavík," segir Jón, hreykinn yfir lítilli innanbæjarskellinöðru. „Segjum að fólk fái sér svona græju og aki niður í bæ til vinnu. Þá sparast gríðar legt bílastæðapláss. Fimm svona hjól komast hæglega í hvert bílastæði. Hjólið kostar 238.000, er 50 kúbik og eyðir um þremur lítrum á hundraðið. Það er blátt númer á þessu þannig að hver sem er, sem er með bílpróf, má aka því án sérstaks mótorhjólaprófs. Fólk upplifir hlutina svolítið á annan hátt með þessum ferðamáta.     

Blaðið 8.6.2005
TM125 Hjólið sem er í úrvalsflokki þeirra
torfæruhjóla sem fást á landinu.

3.6.05

Eins og sex malandi kettlingar

 
Sumir halda því fram að til séu tvær tegundir bifhjólamanna, þeir sem hafa unun af því að þenja tæki sín til hins ýtrasta og svo hinir sem leggja meira upp úr útlitinuog finnst mest um vert að vita af því að horft sé á þá öfundaraugum. Skúli Gautason hefur velt þessu fyrir sér en ætlar ekki að leggja dóm á það hér hvor greinin er æðri. Víst er um það að hjólið sem hér er fjallað um sameinar báðar fylkingarnar. 


Gullfallegt hjól sem varð fyrsta fjöldaframleidda hjólið til að fara kvartmíluna undir 12 sekúndum.
Honda var í tilvistarkreppu á seinni hluta áttunda áratugarins. Keppinautarnir voru komnir með ný og
kraftmeiri hjól. Honda CB750 hjólin höfðu verið framleidd nær óbreytt í heilan áratug og þó að þau
séu sjálfsagt einhver best heppnuðu hjól allra tíma þurfti Honda að koma með eitthvað nýtt og byltingarkennt. En – hvað og hvernig átti það að vera? Markaðsfræðingar fyrirtækisins beittu aðferð sem ekki hefur oft verið notuð í seinni tíð; að spyrja blaðamenn tímaritanna sem fjölluðu um mótorhjól. Blaðamennirnir voru sammála um það að glampinn í augum kyndilberans væri að slokkna.

Honda yrði að koma með mótorhjól sem væri yfirlýsing. Yfirlýsing um stórhug, glæsileika og
tæknilega getu.  Sex strokka línuvél í mótorhjóli hafði reyndar sést áður. Ítalski  bifhjólaframleiðandinn Benelli hafði framleitt slík hjól og Honda-verksmiðjurnar sjálfar höfðu framleitt kappaksturshjól á árunum upp úr 1960 sem voru með 6 strokka í línu. 250 rúmsentimetra hjól sem hétu RC-166 og unnu fjölda heimsmeistaratitla á árunum 1961-1967 m.a. með „Bike-Mike“, Mike Hailwood, við stýrið. Það var einmitt á þeirri hönnun sem Honda CBX var byggt. Það er þó mun meira að vöxtum: Vélin er 1047 rúmsentimetra, 24 ventla og skartar sex púströrum og hljómar eins og sex malandi kettlingar. Ýmsar útfærslur eru síðan til í hljóðkútum, flækjur, 6 í einn, hefðbundinn 6 í 2 og loks 6 í 6 þar sem hver strokkur hefur sinn hljóðkút. Eitt slíkt kerfi mun vera væntanlegt til landsins og verður gaman að heyra í því hjóli.
Það munu vera 15 CBX hjól á landinu og 11 til 12 af þeim gang fær. Þar af eru 8 á yjafjarðarsvæðinu.
CBX var aðeins framleitt í fjögur ár, frá 1979-82. Þau voru kraftmestu hjólin þegar þau komu fram
en voru milduð ögn strax árið eftir því stimpilstangirnar áttu til að slitna á mesta snúningi og  bókstaflega saga mótorinn í sundur.  1981 árgerðin var töluvert breytt. Þá voru CBX orðin ferðahjól með vindhlífum, töskum og mýkri fjöðrun. Ekki er vitað nákvæmlega hversu mörg CBX-hjól voru framleidd en að líkindum hafa þau verið á bilinu 40-60.000. Langmest var framleitt af 1979 árgerðinni, vel á þriðja tug þúsunda. Framleiðslunni var hætt 1982, enda hjólin dýr í framleiðslu og önnur 4 strokka hjól orðin öflugri.
TENGLAR ..............................................
www.cbxclub.com
www.cbxworld-.com
 www.timscbx.com
www.cbx6.co.uk www.cbx.dk
_____________________________________________________Morgunblaðið 3.6.2005___________

Eins og Buick meðal hjóla

Akureyringarnir Baldvin Ringsted og Stefán Finnbogason hafa verið þungt haldnir af mótorhjóladellu frá unga aldri. Þeir aka báðir á CBX og hafa að auki nýlega flutt inn nokkur slík hjól til viðbótar.


Stefán: Þetta eru hvorki sneggstu hjólin né þau kraftmestu. Miðað við hjól sem eru framleidd í dag eru þau þung og svifasein en þau líða áfram stabíl og fín. Það er ekki hægt að henda þeim til – þú
ert ekki sneggstur fyrir horn en þau fara best með þig. Eins og Buick meðal hjóla.
Baldvin: Í fyrsta skipti sem ég sá mynd af CBX ákvað ég að ég yrði að eignast svona hjól. Það kom ekkert annað til greina. Það sem ég er ánægðastur með er að það er engin grind fyrir framan vélina, ekkert sem skemmir útsýnið á mótorinn.
 Stefán: Þetta voru rándýr hjól á sínum tíma. Ég var heppinn, hjólið mitt er eitt af svokölluðum skólahjólum. Honda-verksmiðjurnar létu framhaldsskólum í Bandaríkjunum í té nokkur hundruð svona hjól til notkunar í vélvirkja- og tækninámi. Í skólunum voru þau ýmist skrúfuð í frumeindir eða hreinlega gleymdust einhvers staðar úti í horni og ég var svo heppinn að rekast á eitt slíkt á spjallrásum CBX-manna. Það var ekki keyrt nema tæpar tvær mílur þegar ég fékk það.
Hvaða athugasemdir heyrast helst um þessi hjól?
 Baldvin: „Er þetta virkilega sex strokka?“ eða „Nei, nei, sex strokka línuvél!“
Stefán: „Er þetta framleitt svona?“ Stefán er vélstjóri og þekktur fyrir að fara ekki alltaf troðnar slóðir. Hann segir að nokkrir hafi skriðið undir hjólið, alveg vissir um að hann hefði búið þetta til úr tveimur vélum.
Baldvin: Hér áður fyrr voru flestir mótorhjólamenn áhugamenn um mótorhjól og vissu sitthvað um sögu þeirra og þekktu helstu hjólin, þar með CBX. Nú hin síðari ár vilja margir helst keyra á krómi slegnum loftpressum og spá ekki í neitt annað en það hvernig þeir taki sig út á hjólunum sínum.

Þýðgengi þessara véla er engu líkt.

Ef þú kemur að Harley-Davidson í hægagangi hendist stýrið til um tommu eða tvær en leggirðu tebollann þinn á tankinn á CBX rétt gárast yfirborðið. Stefán: Í hægagangi hljómar vélin eins og sex malandi kettlingar. Þegar þú gefur í heyrast engir skellir og læti heldur hvinur eða þytur. Mér heyrist menn vera ansi heittrúaðir.
Stefán: Það eru nú margir H/D menn ansi skemmdir.
Baldvin: Ég vil nú fremur kalla þetta ást en trú. Það er erfitt að skilgreina þessa ást. Það er kannski alltaf erfitt að skilgreina ást?
 Stefán: Þetta eru sjaldgæf hjól og menn sem eignast þau láta þau ógjarnan af hendi.
Baldvin: Það eru starfandi eigendaklúbbar í Evrópu, Ameríku, Japan og víðar. Það má greina töluverðan mun á afstöðu til hjólanna á þessum þremur stöðum; í Evrópu er mikið um sérsmíðuð
hjól, nýjustu gerðir af fjöðrun og oft er ekkert upprunalegt nema vélin. Í Bandaríkjunum er mikið
lagt upp úr því að hafa allt upprunalegt, helst eins og hjólið kom af færibandinu. Í Japan eru menn
mikið að mixa saman hlutum úr nýrri Hondum.
Má tala um íslensk sérkenni? 
Stefán: Ætli það sé ekki helst króm? Baldvin: Ég verð að viðurkenna að íhaldssemin minnkar ekki með árunum. Mér verður illt af því að sjá myndir af CBX-chopperum. Mér finnst þar illa farið með fallega mótora en mildar útlits-, fjöðrunar- og aflbreytingar eru í lagi.
Er starfandi íslenskur CBXklúbbur?
 Baldvin: Á sínum tíma var „Sexý-félagið“ félagsskapur allra sex strokka hjóla á landinu. Nú hefur CBX-hjólunum fjölgað það mikið að vert er að fara að stofna félag og verður það gert á Akureyri 17. júní. Ég hef tekið saman myndir og sögu allra CBX hjólanna á landinu. Ég ætla að taka samantektina með mér á næsta Evrópumót CBX-manna sem verður haldið á Falstri í Danmörku 19.–21. ágúst næstkomandi.
Morgunblaðið 3.6.2005

27.5.05

Alþjóðleg þolakstursveisla á Klaustri


Stærsta mótorsportkeppni sem nokkurn tímann hefur verið haldin á Íslandi fer fram um helgina. Um er að ræða alþjóðlegt mót í  þolakstri á torfæruhjólum sem haldið er í landi Efri-Víkur við Kirkjubæjarklaustur. Bjarni Bærings fylgdist með undirbúningi
tæplega 400 þátttakenda frá 4 löndum sem stefna á Kirkjubæjarklaustur, þar sem vel á annað þúsund manns mun
eyða helginni í mótorblandaðri sveitasælu.KJARTAN Kjartansson, kennari á Kirkjubæjarklaustri, átti það frumkvæði fyrir 3 árum að halda 6
klukkutíma þolaksturskeppni í landi Efri-Víkur. Keppnin heppnaðist vel og allir höfðu gaman af. Erlendir keppendur sýndu mótinu mikinn áhuga og mótið fékk umfjöllun í erlendum fjölmiðlum. Síðan þá hefur mótið vaxið með eindæmum og er orðin allra stærsta mótorsportkeppni sem haldin er á Íslandi. Ekki spillir fyrir vexti mótsins að undantekningarlaust leikur veðrið viðkeppendur og  áhorfendur. Kjartan hefur staðið í ströngu síðustu vikur við skipulagningu og undirbúning mótsins. Brautin er lögð í gígóttu graslendi í bland við gljúpan sand og hvasst hraun. Allt gistirými á stóru
svæði í kringum keppnina er uppselt en tjaldsvæði staðarins tekur lengi
 við. Tvennir tónleikar hafa verið skipulagðir um helgina ásamt hinni árlegu grillveislu staðarhaldara.

Sjöfaldur heimsmeistari meðal keppenda

Svíinn og Husqvarna ökumaðurinn Anders Eriksson er svo sannarlega þungaviktarmaður í sportinu. Þessi sænski jaxl á að baki 7 heimsmeistaratitla í þolakstri síðastliðin 10 ár. Hann hefur einnig  orðið Þýskalandsmeistari og sigurvegari í hinni erfiðu argentínsku keppni Enduro del Verano – þrjú ár í röð. Í Svíþjóð hefur hann unnið stærsta þolakstursmót Svíþjóðar sem kallast Novemberkåsan og árið 1999 fékk hann sænsku nafnbótina „Bifhjólamaður ársins“ í öllum flokkum. Anders er í dag á fullu að keppa í heimsmeistaramótinu í þolakstri, lenti í 4.sæti í síðustu keppni sem fram fór á Ítalíu 8. maí og er í þriðja sæti í mótaröðinni. Anders er mættur til Íslands til að keppa og ætlar sér umfram allt að hafa gaman af keppninni en á einnig óneitanlega mikla möguleika á sigri. Það er gífurleg lyftistöng fyrir sportið á Íslandi og heiður fyrir  keppnishaldara að fá Anders til að keppa og verður gaman að sjá Íslendingana berjast við kappann í
þessari 6 klukkustunda glímu.


_______________________________________

Risastór landkynning

SEAN Lawless, ritstjóri hins virta breska tímarits Dirt Bike Rider, kom til landsins sl. þriðjudag og
byrjaði heimsóknina að sjálfsögðu á því að skola af sér ferðarykið í Bláa lóninu. Ástæða Íslandsheimsóknarinnar er sú að verið er að vinna blaðagrein um land og þjóð fyrir Dirt Bike Rider blaðið.
Klausturskeppnin, sem fram fer laugardaginn 28. maí, og fólkið sem hana sækir, eru miðpunktur greinarinnar og segir hann brautina og stemninguna sem þar myndast einstaka. Sean keppir í boði Yamaha á YZ 250 með íslenskum liðsfélaga sínum, Þóri Kristinssyni, en aðspurður segir Sean dagskipunina vera þá eina að ná að klára keppnina í
heilu lagi en kappaksturinn stendur yfir í heilar 6 klukkustundir samfleytt og flestir orðnir örmagna í lok dags eftir allan þann barning sem fylgir akstri torfæruhjóla. Sean hefur notað tímann sem hann hefur haft aflögu fyrir keppnina til að hitta íslenska vini sína sem hann á orðið nokkuð marga frá fyrri heimsóknum sínum til Íslands. Einnig hefur hann verið að skoða landið og fór m.a. í hjólatúr á klifurhjólum (trialshjólum) en grein um slík hjól birtist einmitt á síðum Bíla í síðustu viku. Sean ók nýju GasGas 250cc í boði JHM sport og var farið yfir grjót og klettagil. Sean, sem hefur áratuga reynslu á klifurhjólum, segir aðstæður á Íslandi vera á heimsmælikvarða og hann telur að hún eigi eftir að ná góðri fótfestu hér á komandi árum. Það eru fleiri útlendingar væntanlegir til landsins vegna keppninnar á Klaustri. Ron Lawson, ritstjóri bandaríska tímaritsins Dirt Rider, er væntanlegur og keppir í boði KTM. Spaugilegt hversu nöfn ritstjóranna tveggja eru lík, annars vegar Lawless og hins vegar Lawson, sérstaklega ef maður reynir svo að íslenska eftirnöfn þeirra tveggja. Eitt stærsta nafnið á Klaustri er þó án efa margfaldur meistari, hinn sænski Anders Eriksson og liðsfélagi hans, Bretinn Tony Marshall. Ferð þeirra til landsins er styrkt af Flugleiðum og aka þeir félagar á Husqvarna TC 450. Það er því ljóst að frá því fyrir fjórum árum er 6 tíma þolaksturinn á Klaustri var haldinn í fyrsta skipti hefur keppninni vaxið fiskur um hrygg, keppendum fjölgað, innlendum sem erlendum og ljóst að uppákoma af þessu tagi er mikil lyftistöng fyrir ferðamannaiðnaðinn á svæðinu.
Morgunblaðið 27.5.2005

25.5.05

Íslandsmet í hópakstri á mótorhjólum verður sett í júní

Allt að 700 mótorhjól keyra saman 

MILLI 500 og 700 mótorhjól hvaðanæva af landinu munu aka saman síðasta spölinn frá Varmahlíð til Sauðárkróks 16. júní en þá helgi verður þess minnst að 100 ár eru frá því að fyrsta mótorhjólið var flutt til landsins. Ökumennirnir munu leggja af stað frá sinni heimabyggð um morguninn og mætast klukkan 22 um kvöldið í Varmahlíð. Ekið verður í hóp frá Suðurnesjum, í gegnum  höfuðborgarsvæðið og norður í land annars vegar og hins vegar munu ökumenn af Austurlandi og Akureyri hafa samflot til Varmahlíðar.
Hjörtur L. Jónsson, skipuleggjandi hátíðarinnar, býst við því að um 2.000 gestir komi á hátíðina. Hann segist hafa fengið þessa geðveikislegu hugmynd í kollinn og ákveðið að framkvæma hana. Hann setti sig í samband við mótorhjólaklúbba um land allt og hafa viðtökurnar verið góðar. 
„Ég var að vonast eftir því að um 500 hjól kæmu en er hræddur um að þau verði nær 700,“ segir hann. Ljóst er þó að Íslandmet mun falla þegar hjólin koma saman og keyra síðasta spölinn og skiptir þá litlu máli hvort þau verða fimm eða sjö hundruð, þar sem gamla metið er 234 hjól, en það settu Sniglarnir á 1. maí hópkeyrslu sinni hér innanbæjar.“ Hjörtur segir mikla áherslu lagða á að hafa stjórn á umferðarálaginu sem muni myndast vegna þessa, sérstaklega í ljósi þess að Bíladagar eru haldnir á Akureyri þessa sömu helgi. Þannig verður mikið samstarf við lögregluyfirvöld á svæðinu auk þess sem Esso hefur samþykkt að gefa hjólamönnum frímiða í Hvalfjarðargöngin 16. júní.

Minnisvarði um látna bifhjólamenn afhjúpaður

Ýmsilegt er í boði á dagskrá hátíðarinnar og má meðal annars nefna að á sunnudeginum verður afhjúpaður í Varmahlíð  minnisvarði um alla þá sem hafa látist í mótorhjólaslysum hér á landi en minnisvarðinn er gefinn af Sniglunum.
Að öðru leyti segir Hjörtur áherslu lagða á að hátíðin verði fjölskylduvæn. „Hugmyndin  var að sameina alla mótorhjólamenn, torfæru- og götuhjólamenn í eina fjölskylduhátíð. Mótorhjólasport hefur alltaf áhrif á fjölskylduna, hvernig sem á það er litið og hugsunin var sú að fjölskyldan gæti öll skemmt sér með mótorhjólamönnunum og heimamenn líka.“
Eftir Árna Helgason
arnihelgason@mbl.is
25.05.2005

19.4.05

Ættarmót mótorhjólamannsins


Það var árið 1905, 19. júní nánar tiltekið, að maður að nafni Þorkell Clemenz flutti fyrsta mótorhjólið til íslands. Af því tilefni ætla bifhjólamenn landsins að koma saman í Skagafirði um þjóðhátíðarhelgina og fagna þessum merka áfanga. Mótorhjólaæði hefur gripið um sig á Sauðárkróki.

Það eru fjórtán mótorhjólasamtök sem koma að hátíðinni í samstarfi við Vélhjólaklúbb Skagafjarðar. Heilmikið stendur til, eins og gefur að skilja, og eru það tveir stórir atburðir sem vekja hyað mesta athygli. Sá fyrri er sameiginleg hópkeyrsla frá Varmahlíð til Sauðárkróks að kvöldi 16. júní sem  markar upphaf hátíðarinnar. Hinn seinni er svo á lokadeginum, er afhjúpaður verður minnisvarði um þá sem látist hafa í bifhjólaslysum.
Maðurinn á bak við hátíðina er Hjörtur L. Jónsson. Hann fékk hugdettu um að hrinda slíkri hátíð í framkvæmd og lét bara verða af því að eigin sögn. „Ég fæ stundum brjálaðar hugmyndir og ef þær eru nógu brjálaðar reyni ég að framkvæma þær.
Þannig byrjaði Enduro-ið á íslandi og þannig byrjaði Mótorhjólakvartmílan árið 1989," segir Hjörtur en keppnirnar sem hann vísar til eru vel þekktar innan torfæruhjólaheimsins.

Mótorhjólinu til heiðurs

„Hugmyndin var upphaflega sú að koma saman á einhverju tjaldsvæðinu og halda upp á 100 ára afmæli mótorhjólsins á Íslandi," segir Hjörtur. „En til þess að allir geti fengið eitthvað fyrir sinn snúð eru líka alls kyns atburðir á dagskrá, bæði fyrir götuhjól og torfæruhjól. Vélhjólafélag Skagafjarðar ætlar að halda utan um aksturskeppnirnar sem verða aðallega fyrir torfæruhjólin." Hjörtur ítrekar að þær keppnisgreinar sem keppt er í séu ekki hluti af þeim greinum sem keppt er í til íslandsmeistara yfir allt sumarið. „Þetta er eingöngu til gamans gert og mótorhjólinu til heiðurs. Hátíðin hefur verið kölluð ættarmót mótorhjólamannsins og er því aðaláherslan lögð á samveru og skemmtun."
Hjálmar segir að hátíðin sé fjölskylduhátíð. „Það verður engin kvölddagskrá skipulögð enda kemur slík dagskrá, svo sem böll og tónleikar, sterk inn hjá landsmótí Sniglanna sem er haldin hálfum mánuði síðar. Við leggjum allt upp úr því að hafa hátíðina eins fjölskylduvæna og hægt er. Það er svo þegjandi samkomulag meðal allra bifhjólaklúbba að þeir eru ekki með neina dagskrá hjá sér þessa helgi."

Mótorhjólaæði á Sauðárkróki

Fjölmargir klúbbar eru starfræktir um landið allt en þeir þekktustu eru Vélhjólaíþróttaklúbburinn (VÍK) og Sniglarnir. En þó svo að klúbbarnir séu margir eru félagsmennirnir nánast.  undanteknfngarlaust í fleiri en einum klúbbi. „Einn sem ég talaði við um daginn sagðist vera í sjö klúbbum. Við búumst þó við þónokkrum fjölda, aldrei færri en 500, en ef gestirnir verða mikið fleiri en tvö þúsund lendum við sjálfsagt í vandræðum," segir Hjörtur sem sjálfur er meðlimur í  Sniglunum.  Hátíðin verður á Sauðárkróki eins og fyrr segir og eru heimamenn þar í skýjunum yfir að fá mótorhjólamenn landsins í heimsókn til sín. Segja má að háffgert mótorhjólaæði hafi gripið
um sig en bæði sveitarstjórinn og formaður bæjarstjómar hafa fest kaup á mótorhjóli í tílefni hátíðarinnar. „Jú, sveitarstjórinn okkar, Ársæll Guðmundsson, lét gamlan draum rætast og fékk sér mótorhjól," segir Áskell Heiðar Ásgeirsson, sviðsstjóri í Ráðhúsinu á Sauðárkrókí. „Við héldum tvö glæsileg landsmót ungmennafélaganna í fyrra og sýndum þá að við getum tekið á mótí þónokkrum  fjölda af fjölskyldufólki og haldið hér glæsilega hátíð. Vonandi verður þetta í þeim anda. Svo er vonandi að við náum að rugla saman reitum okkar í kringum þjóðhátíðarhöld okkar."

Nóg að gera 

„Dagskráin er nokkurn veginn klár," segir Hjörtur. „Það eina sem er enn í vinnslu er gerð minnisvarðans. Búið er að hanna hann og menn eru tílbúnir að vinna nánast frítt en það vantar enn fjármagn tíl að kaupa efhið. Það vantar enn styrktaraðila tíl þess." Auk þess að dagskráin er smekkfull af torfærukeppnum og öðru slíku verður nóg um að vera fyrir alla fjölskylduna. Á  laugardeginum verður til að mynda heilmikil dagskrá á íþróttavellinum, til að mynda mótorhjólamannafótboltí. Reglurnar í þeirri íþrótt líkjast á engan hátt hefðbundnum  knattspyrnureglum. Tjaldsvæði verður boðið endurgjaldslaust fyrir mótsgesti í boði sveitarfélagsins.
eirikurst@dv.is
DagblaðiðVísir 19.04.2005 
*Tían breytti aðeins greininni frá frumgreininni Þar sem Nafn Hjartar L J. var ekki rétt skrifað inn í greinina.
en þar var hann skrifaður inn sem Hjálmar.

10.4.05

Tætt og tryllt á námskeiði

Ingi þór Tryggvason með nemendum sínum.

Vélhjólaklúbbur Skagafjarðar 

Vélhjólaklúbbur Skagafjarðar, gekkst fyrir námskeiði fyrir félagsmenn um síðustu helgi, þar sem kennari var Ingi Þór Tryggvason hjá MOTOXSKÓLANUM . Á námskeiðið mættu 12 vaskir strákar og höfðu af því bæði gagn og gaman. Vélhjólaklúbbur Skagafjarðar var stofnaður í apríl S.l. og fer ört vaxandi en félagar eru 34 í dag. Stjórn klúbbsins hefur beitt sér fyrir því að félagsmenn fari eftir reglum um akstursleiðir á torfæruhjólum og hefur átt gott samstarf við lögreglu. Hins vegar er klúbbnum farið að vanta æfinga- og keppnissvæði og vonast til að fá úr því bætt sem fyrst. Eftir velheppnaða afmælishátíð vélhjólsins um þjóðhátíðarhelgina eru klúbbsmeðlimir bjartsýnir um framtíð Vélhjólaklúbbsins og vilja koma á framfæri þakklæti til þeirra fjölmörgu sem lögðu hönd á plóginn. Einnig er vert að nefna það að í Vélhjólaklúbbi Skagafiarðar eru einnig götuhjólaeigendur og klúbburinn beitir sér í þágu allra vélhjólaeigenda. Ingi Þór Tryggvason með nemendum sínum.

Feykir 29.06.2005 

21.3.05

Hvers vegna verða mótorhjól ósýnileg?

Þegar snjóa leysir og mótorhjólin fara að birtast á götunum þykir mótorhjólafólki oft ástæða til að minna á sig og ekki að óþörfu. Njáll Gunnlaugsson spyr hvers vegna sumir velviljaðir ökumenn keyra bíla í veg fyrir mótorhjól og stöðva svo þar skyndilega.


ÞETTA er spurning sem mótorhjólafólk hefur lengi velt fyrir sér og nú er komin fram kenning sem gæti varpað ljósi á málið. Samkvæmt nýlegum vísindalegum uppgötvunum verður mótorhjólið ökumönnum bíla því sem næst ósýnilegt þegar því er ekið beint í áttina að þeim. Þetta fyrirbæri kallast feluhreyfing og lætur hluti sem eru á hreyfingu beint í áttina að marki sínu, falla saman við bakgrunninn. Þegar mótorhjólið verður skyndilega sýnilegt aftur er fyrsta viðbragð ökumanns bílsins að frjósa og snarstoppa bílinn, oftar en ekki beint fyrir framan aðvífandi mótorhjólið. Þetta fyrirbrigði er vel þekkt úti í náttúrunni og drekaflugan notar þetta bragð til að koma bráð sinni á óvart.

Rekur í rogastans

Þessi feluhreyfing mótorhjólsins í áttina að bílnum gerist þegar mótorhjólinu er ekið í beina línu í átt að bílnum. Í huga ökumannsins virðist mótorhjólið ekki stækka og blandast það því saman við bakgrunninn og verður ósýnilegt. Heili ökumannsins er á þessu augnabliki stilltur til að nema hreyfingu og þess vegna verður hann ekki var við mótorhjólið. Þegar mótorhjólið nálgast svo að bílinn meira stækkar það og verður því ökumanninum skyndilega sýnilegt aftur svo að hann frýs í sporum sínum.
Feluhreyfingu þessari var fyrst lýst í kenningu Srinivasan og Davey árið 1995 um hvernig drekaflugur nota þessa tækni til að ráðast á bráð sína í loftinu. Það var svo breski mótorhjólakennarinn Duncan MacKillop sem kom auga á samhengið og staðfærði þetta yfir á það vel
þekkta fyrirbæri þegar svínað er fyrir mótorhjól.
„Feluhreyfing skordýrsins notfærir sér viðbragð  heilans við skyndilegri hreyfingu,“ útskýrir MacKillop. „Stafirnir sem eru til hliðar í sjónhimnunni eru næmari fyrir hreyfingu og vara okkur við henni.“

Mótorhjólið hluti af heildarmyndinni

Ökumaður bílsins lítur jafnvel til hliðar og sér sambland af húsum og bílum í fjarlægð, í mörgum litum og með mismunandi lögun, og mótorhjólamaðurinn verður hluti af þess ari heildarmynd. Allt lítur þetta út fyrir að vera ekki á hreyfingu og því á ökumaður bílsins sér einskis ills von, fyrr en við birtumst óvænt og hann rekur í rogastans. Í náttúrunni gerist þetta venjulega þegar drekaflugan er kominn mjög nálægt og hún notfærir sér hikið og grípur bráð sína.
   Vísindamenn hafa einnig sýnt fram á að hægt er að láta kanínu frjósa hreyfingarlausa með því einu að láta skugga nálægt henni stækka skyndilega. Samkvæmt slysatölum í Bretlandi er ákomustaður mótorhjóla í þessum slysum venjulega á milli framhjóls og A-bita bílsins, sem að gefur til kynna að mótorhjólið verður ökumanninum ekki sýnilegt fyrr en mjög nálægt gatnamótunum.
   Hvað er hægt að gera? Engar tilraunir hafa verið gerðar á þessu fyrirbrigði varðandi mótorhjól ennþá en MacKillop gerði sínar eigin tilraunir sem virðast styðja mál hans. Hann uppgötvaði að hægt er að gera sig sýnilegri. „Ef maður færir sig nær brúninni þegar maður nálgast gatnamót viðheldur það feluhreyfingunni en ef maður heldur sig í beinni línu fjærst vegarbrúninni verður maður sýnilegri fyrr,“ segir MacKillop.
   Þetta styður það sem haldið hefur verið fram um bestu stöðu mótorhjóls á akrein. MacKillop uppgötvaði líka að hægt er að vara bílstjórann við aðvífandi mótorhjóli þannig
að hann sjái það mun fyrr. „Ég komst að því að smávegis svig á akreininni varð þess valdandi að bílstjórinn leit snöggt í áttina að mér og stoppaði áður en að hann kom út á gatnamótin. Sem bifhjólakennari á ég þó erfitt með að ráðleggja fólki að stunda svig í umferð þar sem taka verður inn í dæmið hraðann. Hjólafólk verður að nota skynsemina og muna hversu ósýnileg við virðumst vera öðrum í umferðinni. Þess vegna er alltaf best að hægja á sér við varhugaverð gatnamót,“ segir Mackillop ennfremur.
Morgunblaðið 18 mars 2005

16.3.05

Fagurkeri á glansandi gæðingi (2005)

Guðbjörg Sigurðardóttir fann draumahjólið á Guggenheim-safninu í New York

 Þegar Guðbjörg Sigurðardóttir, verslunareigandi og óperuunnandi með meiru, sest upp á fákinn sinn og þeysist út í íslenska náttúru er það ekki til að slá hraðamet og finna adrenalínið streyma um æðar, jafnvel þótt farskjótinn gangi fyrir vélarafli og það af kröftugu gerðinni. Þvert á móti segist hún ekki hafa minnsta áhuga á  glannaskap eða fífldirfsku þegar hún ferðast um á Harley Davidson mótorhjólinu sínu. „Það er ekki til töffari í mér,“ segir hún með áherslu. Þrjú ár eru

19.1.05

Dagbók drullumallaraEldur á ísnum

Ég er með uppástungu, svona bæði í gamni og alvöru.

Ég er með uppástungu, svona bæði í gamni og alvöru. Hvernig væri að læknastéttin athugaði þann möguleika að fækka eitthvað pillunum sem skrifaðar eru út fyrir þá fjölmörgu sem þjást af skammdegisþunglyndi á veturna og prófa að vísa á eitthvað sem mögulega nærir bæði líkama og sál? Það er t.a.m. fátt yndislegra á köldum vetrardögum en að þeysa eftir ísilögðum vötnum á mótorhjóli þar sem áhyggjur heimsins eru skildar eftir á bakkanum stundarkorn og menn fá útrás fyrir einfaldar en sterkar hvatir. Leikurinn snýst um að menn haldi fullri einbeitingu og að nagladekkin haldi gripi á ísnum.
Ísakstur hefur verið stundaður á Íslandi í mörg herrans ár og til er mikil reynsla og mörg góð húsráð í þessari tómstundaiðju. Haukur Þorsteinsson er eigandi verslunarinnar Nítró. Hann mætti með dótakassann á klakann þar sem við tókum saman stuttan skrens á tækjunum, Kawasaki KX 250, Husaberg 450 og einhverju furðulegu apparati sem var eins og afkvæmi vélsleða og fjórhjóls en var óstöðvandi í ófærðinni. Haukur gaf okkur svo nokkur góð ráð varðandi útbúnað í ísaksturinn en hann veit sínu viti í þeim efnum. Einnig tókst mér að draga Guðjón Guðmundsson, umsjónarmann Bíla, frá tölvuskjánum og út á ísinn, svona rétt til að hann fengi nasasjón af sportinu. En snúum okkur nú að Hauki og heyrum á hvaða hollráðum hann lumar fyrir ísaksturinn.

Hvað er það sem er svona gaman við ísinn?

"Allt! það má segja að ísaksturinn fylli upp í dauða tímann þegar það er ekki hægt að hjóla í motocross-brautum eða á fjallvegum. Einnig er þetta mjög góður félagsskapur. Maður lærir líka gríðarlega mikið á því að keyra á ísnum."

Geta allar stærðir og gerðir hjóla farið í ísakstur?

"Já það geta allar gerðir hjóla verið á ísnum. Þetta er bara spurning um réttan búnað. Það eru 50cc skellinöðrur á ísnum og síðan sjáum við 650cc endurohjól og allt þar á milli. Það hafa meira að segja sést stærri götuhjól á ísnum, þannig að það geta allir komið sér á hann."

Hvernig er best að útbúa hjólin í ísaksturinn?

"Númer eitt er að vera á góðum dekkjum, það er að segja negldum dekkjum sem fást í nokkrum gerðum. Einnig er hægt að kaupa skrúfur sem eru skrúfaðar utan frá inn í dekkið og sumir hafa farið þá leið að skrúfa dekkin innan frá með tréskrúfum. Nauðsynlegt er að setja neyðarádrepara á hjólið sem drepur á vélinni ef ökumaður dettur af hjólinu og kemur þannig í veg fyrir að hjólið skaði aðra nálæga. Smástillingar á blöndungi tvígengishjóla geta verið nauðsynlegar vegna kuldans. Vera vel klæddur, það er ekki gott að vera kaldur ef menn detta, þá er hættara við tognun. Nú geta menn keypt upphitaðan fatnað, t.d. hjá okkur í Nítró, s.s. vettlinga, sokka, treyjur og fleira. Einnig er hægt að kaupa svokallaðar hitamottur sem settar eru undir handföngin til að halda hita á höndum. Andlitsgrímur fást einnig og henta þær bæði vel í kuldanum og einnig í sandinn á sumrin."

Hvaða öryggisbúnað og hlífðarfatnað þurfa ökumenn annan en gamla góða föðurlandið?

"Eins og ég nefndi hér áðan er búnaðurinn á hjólin aðallega neyðarádrepari. Hvað varðar ökumanninn sjálfan er nauðsynlegt að útbúa sig eins og ef um crosskeppni væri að ræða, það er að segja hjálmur, brynja, olnbogahlífar, hnéhlífar, crossskór, gleraugu, hanskar, góðar buxur og jakki eða treyja."

Hvað mundirðu ráðleggja byrjendum í sportinu varðandi líkamsbeitingu og aksturstækni?

"Það er mikið atriði að vera hreyfanlegur á hjólinu, jafnframt því er mikilvægt að vera afslappaður svo maður spennist ekki upp og pumpist upp í höndunum, en það er þó nokkuð algengt að menn pumpist upp í höndunum. Sem sagt muna að halda laust í stýri og passa að hanskar og annar fatnaður þrýsti ekki það mikið á hendurnar að blóðið nái ekki að renna eðlilega. Varðandi hreyfanleikann er t.d. hægt að benda á að þegar komið er að beygju er gott að færa sig fram á hjólið til að ná sem bestu gripi með framdekkinu og vera framarlega nánast alla beygjuna, en þegar komið er út úr henni færa sig þá aftar á hjólið til að koma sem mestu gripi á afturdekkið."

Hvers lags mótorhjólamenn stunda ísakstur og er einhver aukning í þessari íþrótt milli ára?

"Ég held að það séu allar gerðir manna og kvenna sem stunda þetta sport og já það er áberandi aukning á milli ára. Nú sjáum við orðið meira af ungu kynslóðinni koma á ísinn, krakka um og undir tvítugu. Einnig erum við farin að sjá fleiri stelpur. Til gamans má geta þess að síðastliðið sumar voru 3-5 stelpur að keppa á motocross-hjólum og það var ákveðið að halda stelpunámskeið og fenginn til þess erlendur kennari. Öllum til mjög mikillar undrunar mættu fyrsta kvöldið 19 stelpur, sem segir okkur ýmislegt um áhugann á sportinu. Þessi fjöldi hefði talist nokkuð góður í motocrosskeppni fyrir ekki nema 4-5 árum og þá á ég við í flokki karla og það í heildina, því að á þeim tíma kepptu held ég engar stelpur á crosshjólum."

Hvað um þetta klikkaða fjórhjól, eða á ég kannski frekar að kalla þetta beltahjól? Hvað er málið?

"Já það er ekki nema von að þú spyrjir. Við vorum að fá þennan einstaka beltabúnað sem passar undir flest 4x4 fjórhjól og hann hefur vakið gríðarlega athygli. Það má segja að þetta sé bylting fyrir fjórhjólaeigendur með 4x4x fjórhjól. Nú geta þeir notað hjólin sín allan ársins hring og ekki nóg með það heldur komast þeir líka ótrúlega mikið. Einnig tel ég það alveg ljóst að fyrir björgunarsveitir sé þetta án efa eitt öflugasta björgunartæki sem völ er á. Tækið kemst hreinlega allt, það dregur heil ósköp og það er gríðarlega góð ending á þessum búnaði."
19. janúar 2005