Jón Hafsteinn Magnússon, eigandi og forstjóri JHM sport, segir geysilega aukningu hafa verið í hópi þeirra er stunda torfæruakstur á bifhjólum á íslandi. „Ég hugsa að á síðustu þremur árum hafi hópurinn þre- eða fjór-faldast," segir Jón, en hann telur fjöldann vera á bilinu 1500-2.000 manns.
„Þessi íþrótt höfðar til allra; forstjóra, lögfræðinga og verkamanna, í öllum aldurshópum og af báðum kynjum." JHM sport selur torfæruhjól fyrir börn og fullorðna. Þar fæst t.d. lítið hjól fyrir krakka á aldrinum 4-5 ára sem eru byrjaðir að geta hjólað án hjálpardekkja. Hjólið er eins gíra og getur að hámarki verið ekið á 25 km á klukkustund. Einnig fást mótorkross eða enduro- hjól fyrir krakka sem eru ögn stærri. Jón telur þó skynsamlegast að byrja í sportinu á klifurhjólum. Þeim er hægt að aka yfir nánast hvaða hindrun sem er en slíkur hindrunarakstur verður sífellt vinsælli keppnisíþrótt á meginlandi Evrópu og víða annars staðar.
Blaðið 8.6.2005