8.6.05

Íþrótt allra tómstundahópa


 Jón Hafsteinn Magnússon, eigandi og forstjóri JHM sport, segir geysilega aukningu hafa verið í hópi þeirra er stunda torfæruakstur á bifhjólum á íslandi. „Ég hugsa að á síðustu þremur árum hafi  hópurinn þre- eða fjór-faldast," segir Jón, en hann telur fjöldann vera á bilinu 1500-2.000 manns.



„Þessi íþrótt höfðar til allra; forstjóra, lögfræðinga og verkamanna, í öllum aldurshópum og af báðum kynjum." JHM sport selur torfæruhjól fyrir börn og fullorðna. Þar fæst t.d. lítið hjól fyrir krakka á aldrinum 4-5 ára sem eru byrjaðir að geta hjólað án hjálpardekkja. Hjólið er eins gíra og getur að hámarki verið ekið á 25 km á klukkustund. Einnig fást mótorkross eða enduro- hjól fyrir krakka sem eru ögn stærri. Jón telur þó skynsamlegast að byrja í sportinu á klifurhjólum. Þeim er hægt að aka yfir nánast hvaða hindrun sem er en slíkur hindrunarakstur verður sífellt vinsælli keppnisíþrótt á meginlandi Evrópu og víða annars staðar.

Torfæruskellinöðrurnar fyrir yngri aldurshópinn eru mjög vel útbúnar. Þær hafa sama útlit og stóru hjólin, eins bretti, tankhlífar, hliðarhlífar, sæti og aukabúnað. Þannig lítur 50 kúbika hjól nánast eins út og 300 kúbika. Öll enduro-hjólin eru skráð götuhjól svo þeim má aka hvar sem er.
„Þetta leysir allan bílastæðavanda í Reykjavík," segir Jón, hreykinn yfir lítilli innanbæjarskellinöðru. „Segjum að fólk fái sér svona græju og aki niður í bæ til vinnu. Þá sparast gríðar legt bílastæðapláss. Fimm svona hjól komast hæglega í hvert bílastæði. Hjólið kostar 238.000, er 50 kúbik og eyðir um þremur lítrum á hundraðið. Það er blátt númer á þessu þannig að hver sem er, sem er með bílpróf, má aka því án sérstaks mótorhjólaprófs. Fólk upplifir hlutina svolítið á annan hátt með þessum ferðamáta.     

Blaðið 8.6.2005
TM125 Hjólið sem er í úrvalsflokki þeirra
torfæruhjóla sem fást á landinu.