Akureyringarnir Baldvin Ringsted og Stefán Finnbogason hafa verið þungt haldnir af mótorhjóladellu frá unga aldri. Þeir aka báðir á CBX og hafa að auki nýlega flutt inn nokkur slík hjól til viðbótar.
Stefán: Þetta eru hvorki sneggstu hjólin né þau kraftmestu. Miðað við hjól sem eru framleidd í dag eru þau þung og svifasein en þau líða áfram stabíl og fín. Það er ekki hægt að henda þeim til – þú
ert ekki sneggstur fyrir horn en þau fara best með þig. Eins og Buick meðal hjóla.
Baldvin: Í fyrsta skipti sem ég sá mynd af CBX ákvað ég að ég yrði að eignast svona hjól. Það kom ekkert annað til greina. Það sem ég er ánægðastur með er að það er engin grind fyrir framan vélina, ekkert sem skemmir útsýnið á mótorinn.
Stefán: Þetta voru rándýr hjól á sínum tíma. Ég var heppinn, hjólið mitt er eitt af svokölluðum skólahjólum. Honda-verksmiðjurnar létu framhaldsskólum í Bandaríkjunum í té nokkur hundruð svona hjól til notkunar í vélvirkja- og tækninámi. Í skólunum voru þau ýmist skrúfuð í frumeindir eða hreinlega gleymdust einhvers staðar úti í horni og ég var svo heppinn að rekast á eitt slíkt á spjallrásum CBX-manna. Það var ekki keyrt nema tæpar tvær mílur þegar ég fékk það.
Hvaða athugasemdir heyrast helst um þessi hjól?
Baldvin: „Er þetta virkilega sex strokka?“ eða „Nei, nei, sex strokka línuvél!“
Stefán: „Er þetta framleitt svona?“ Stefán er vélstjóri og þekktur fyrir að fara ekki alltaf troðnar slóðir. Hann segir að nokkrir hafi skriðið undir hjólið, alveg vissir um að hann hefði búið þetta til úr tveimur vélum.
Baldvin: Hér áður fyrr voru flestir mótorhjólamenn áhugamenn um mótorhjól og vissu sitthvað um sögu þeirra og þekktu helstu hjólin, þar með CBX. Nú hin síðari ár vilja margir helst keyra á krómi slegnum loftpressum og spá ekki í neitt annað en það hvernig þeir taki sig út á hjólunum sínum.
Þýðgengi þessara véla er engu líkt.
Ef þú kemur að Harley-Davidson í hægagangi hendist stýrið til um tommu eða tvær en leggirðu tebollann þinn á tankinn á CBX rétt gárast yfirborðið. Stefán: Í hægagangi hljómar vélin eins og sex malandi kettlingar. Þegar þú gefur í heyrast engir skellir og læti heldur hvinur eða þytur. Mér heyrist menn vera ansi heittrúaðir.Stefán: Það eru nú margir H/D menn ansi skemmdir.
Baldvin: Ég vil nú fremur kalla þetta ást en trú. Það er erfitt að skilgreina þessa ást. Það er kannski alltaf erfitt að skilgreina ást?
Stefán: Þetta eru sjaldgæf hjól og menn sem eignast þau láta þau ógjarnan af hendi.
Baldvin: Það eru starfandi eigendaklúbbar í Evrópu, Ameríku, Japan og víðar. Það má greina töluverðan mun á afstöðu til hjólanna á þessum þremur stöðum; í Evrópu er mikið um sérsmíðuð
hjól, nýjustu gerðir af fjöðrun og oft er ekkert upprunalegt nema vélin. Í Bandaríkjunum er mikið
lagt upp úr því að hafa allt upprunalegt, helst eins og hjólið kom af færibandinu. Í Japan eru menn
mikið að mixa saman hlutum úr nýrri Hondum.
Má tala um íslensk sérkenni?
Stefán: Ætli það sé ekki helst króm? Baldvin: Ég verð að viðurkenna að íhaldssemin minnkar ekki með árunum. Mér verður illt af því að sjá myndir af CBX-chopperum. Mér finnst þar illa farið með fallega mótora en mildar útlits-, fjöðrunar- og aflbreytingar eru í lagi.
Er starfandi íslenskur CBXklúbbur?
Baldvin: Á sínum tíma var „Sexý-félagið“ félagsskapur allra sex strokka hjóla á landinu. Nú hefur CBX-hjólunum fjölgað það mikið að vert er að fara að stofna félag og verður það gert á Akureyri 17. júní. Ég hef tekið saman myndir og sögu allra CBX hjólanna á landinu. Ég ætla að taka samantektina með mér á næsta Evrópumót CBX-manna sem verður haldið á Falstri í Danmörku 19.–21. ágúst næstkomandi.
Morgunblaðið 3.6.2005