YKKAR einlægur er einn þeirra u.þ.b. 600 Íslendinga sem fyrstu fimm mánuði ársins 2005 keyptu mótorhjól. Það var gamalt Yamaha XJ600, sem keypt var hjá mótorhjólasölu í Þýskalandi í gegnum netið. Hjólið er árgerð 1994 og var ekið um 37.000 km, en eins og nýtt á að líta og á nýjum dekkjum og vel við haldið. Hingað komið kostaði það nálægt 350.000 kr. og hafa nú bæst við um 1.500 km á vegalengdarmælinn, enda einmuna blíða verið mestallt vorið.
Undirritaður er búinn að sporta sig allnokkuð á nýja leiktækinu sínu, sem margir kalla í glensi Gula fiðringinn, með greinilegri vísan í fiðring af öðrum og grárri litarhætti. Skrifari er samt engan veginn undir það búinn að rita lærðar greinar um mótorhjól, hvað þá heila reynsluakstursgrein. Til þess er þekkingin á málefninu allt of brotakennd. Þess vegna ber að líta á þessi skrif, sem ekki fjalla um Gula fiðringinn að öðru leyti heldur nýja Yamaha MT-01 ofurhjólið, miklu fremur sem upplifun íturvaxins drengs sem skyndilega kemst í stóran dótakassa og fær að leika sér í honum um stundarsakir.
Þó skal þess getið að Guli fiðringurinn er með 60 hestafla vél og er fremur létt götuhjól og hefur því alla tíð virkað bara nokkuð sprækt í huga drengsins. En svo bauðst honum að prófa þetta gljáandi nýja Yamaha MT-01 frá Arctic Trucks, umboðsaðila Yamaha, og þá upplaukst fyrir honum splunkunýr og spennandi veruleiki.
Spurning um Newtonmetra
Komið var með hjólið upp að dyrum seinnipart föstudags og drengnum afhentur lykillinn. Hjólið var skoðað í andakt í krók og kima. Sumt kom kunnuglega fyrir sjónir, ekki síst að MT-01 er á tveimur hjólum, en annað var framandlegt, eins og tvö púströr af sverustu gerð alveg upp við sætið, eins og á torfæruhjólum, og keðjan sem er hægra megin á hjólinu. Framlugtin er líka öðruvísi en aðrar framlugtir; blanda af einhvers konar „retro“-hönnun og módernisma. Pústflækjan og stærðin á V2-vélinni er næstum yfirþyrmandi. Og afturdekkið er sömuleiðis af sverustu sort.
Í svipan rifjaðist upp fréttaflutningur af mótorhjólasýningunni í Tókýó 1999 þegar MT-01 var sýnt sem hugmyndahjól. Þá áttu kannski fæstir von áþví að það yrði nokkurn tíma framleitt, eins furðulegt í uppbyggingu og það var. Heim var það samt komið á númerum og fullum tanki af bensíni. Það er nýbúið að setja MT-01 á markað í Evrópu en nokkru áður í Japan. Hjólið verður hins vegar ekki markaðssett á næstunni í Bandaríkjunum. Þá er gaman að geta þess að Yamaha tók upp allt efni fyrir bæklinga og auglýsingar hér á landi í fyrra og má sjá skínandi skemmtilegar myndir í íslenskri náttúru á www.mt-01.com.
Sumir höfðu spurt skrifara hvort hann treysti sér til þess að hjóla á þessu aflmikla hjóli. Þá kom strax upp íhugann að hjólið er þó ekki „nema“ 90 hestöfl þegar allt kemur til alls, eins og það hefði í raun og veru eitthvað með málið að gera. Það sem allt snýst um í MT-01 er nefnilega tog og aftur tog, Newtonmetrar á Newtonmetra ofan. Yamaha setti stærstu vélina í sínu vopnabúri í þessa glæsilegu mótorhjólagrind – vél sem notuð hefur verið í hörðustu hippana eins og t.d. Warrior, tæpir 1.700 rúmsentimetrar að slagrými, sem sagt stærri vél en t.d. í VW Golf 1.6 FSI. En, nota bene, hjólið er um 920 kg léttara Golfinn.
Það var ekki eftir neinu að bíða. Sólin skein í heiði og kevlar-gallinn hékk óþreyjufullur á herðatré inni í skáp. Setan á hjólinu er þægileg fyrir mann sem kemur af XJ600 og ekki ósvipuð. Lítið mál að stoppa á ljósum. En þegar átti að snúa hjólinu við í þrengslum upp við útidyrnar var það deginum ljósara að hjólið er engin léttavara þrátt fyrir allt. Lyklinum var snúið í svissinum og þrýst á rafstartið. Ætternið leyndi sér ekki í drununum frá vélinni. Þetta er hippahljóð og það finnst fyrir vélinni upp í heiladingul. Grófur víbringur í lausagangi og þrumugnýr í hlustinni. Svo þegar inngjöfinni er skyndilega sleppt sprengir vélin, eins og í gömlum átta gata amerískum kagga. Þvílíkur ruddi!
Og svo var brunað af stað út í vorið. Ífyrsta gír og strax kominn á hámarkshraða! Í öðrum gír og á 2.500 snúningum á allt öðrum hraða. Hjólið er að skila mesta átakinu í kringum 3.000 snúninga og hljóðið er þungt og djúpt og hröðunin þegar komið er upp ávenjulegan aksturshraða gríðarleg. Um leið er hjólið auðvelt viðureignar; bara að muna að halda fast í stýrið! Undirritaður treysti sér hraðar í beygjur á þessum mikla grip en Gula fiðringnum, og það þótt hann væri að prófa MT-01 í fyrsta sinn. Breið afturdekkin tryggja mikið veggrip. Það jók líka sjálfstraustið um allan helming að finna hemlunargetuna frá tvöföldum diskabremsunum að framan. En alltaf þrengir sér inn í vitundina vélarhljóðið og titringurinn frá vélinni, sem samt er ekki til óþæginda, miklu frekar til áminningar um allt aflið sem er undir ganglimunum.Nýr flokkur í uppsiglingu?
Með MT-01 virðist sem Yamaha sé að búa til nýjan flokk mótorhjóla, þar sem allt gengur út á snarpa aksturseiginleika en meira tog en hröðun og spennandi að sjá hvort aðrir framleiðendur feta í sömu fótspor. Þetta er svolítill hlunkur en meðfærilegur að flestu leyti. Spurning er hversu mikið vindhlíf myndi spilla útliti hjólsins, en hún er eiginlega nauðsynleg, að mati skrifara, í þessu voru rokbæli. Eini ókosturinn við MT-01 er verðmiðinn; 1,5 milljónir rúmar. En samt er það kannski fyrirgefanlegt fyrir þá ánægju sem hjólið veitir. Guli fiðringurinn og MT-01
gugu@mbl.is