6.8.05

Gullhjólið er notað á góðviðrisdögum

Sigurður O. Björnsson er stoltur eigandi að Harley Davidson mótorhjóli. Mikil þrautaganga var að koma því til landsins en gullhjólið, eins og strákarnir á Kárahnjúkum kalla gripinn, var alveg þess virði.

„Ég er alveg klár á því að það er ekki til neitt Harley Davidson hjól í líkingu við þetta,“ segir Siggi.
Enda erum við að tala um hundrað ára afmælisútgáfu af Harley Davidson Softail Deuce frá árinu  2003.
„Það var töluvert bras að koma hjólinu hingað. Ég þurfti að kaupa það frá Ameríku,“ segir Siggi.
Hann fór því sjálfur til Ameríku og hlóð hjólið aukahlutum sem ekki eru fáanlegir hérna. Þetta
fyrirkomulag kostaði þó töluverð vandræði. „Reglurnar hjá Harley Davidson í Ameríku eru þannig að þeir selja ekki nokkrum manni nýtt hjól nema að hann hafi amerískt ökuskírteini og lögheimili.
Það sem bjargaði mér í þessu er að ég er amerískur ríkisborgari svo ég gat farið og tekið bílprófið,“ segir Siggi sem bætir við að hjólið sé sérstaklega flott af því að það sé í hundrað ára afmælislitunum
„sterling silver og wild black“. En af hverju gullhjól? „Við vorum að grínast með þetta uppi á Kárahnjúkum þar sem ég vinn, því ég fékk gulllykil með hjólinu því þetta er afmælis útgáfa. Það fengu ekki allir svona lykil nema bara sérstakir viðskiptavinir. Hann kom í öskju og með keðju til að hafa um hálsinn,“ segir Siggi. Hann bætir við að strákarnir hafi dálítið strítt honum á þessu og verið hneykslaðir á því að hann hafi ekki viljað keyra um á hjólinu uppi á Kárahnjúkum. „Það fer ekki  nokkur maður með neitt mótorhjól upp að Kárahnjúkum nema að það sé torfæruhjól. Gullhjólið er líka svo flott að maður notar það ekki nema bara á góðviðrisdögum.“
annat@frettabladid.is