18.8.05

Yamaha 2-trac


NÝVERIÐ kom á almennan markað mótorhjól sem er afar óvenjulegt fyrir þær sakir að það er með drifi á báðum hjólum. Kíkjum nánar á gripinn.
Hvað er Yamaha 2-trac? Hjólið er í raun hið sama og Yamaha WR 450 nema með drifi á báðum hjólum.



Hvernig virkar framdrifið? Í stuttu máli er glussadæla fest á mótorinn og dælir hún vökva gegnum leiðslu sem liggur inn í rotor á framdekkinu sem fær það til að snúast. Afturdekkinu er svo snúið á hefðbundin máta með keðju og tannhjólum.
Hvers vegna framdrif? Hugmyndin er ekki ný, mönnum hefur lengi hugnast að láta vélaraflið knýja bæði fram- og afturdekkið en það er ekki fyrr en á síðustu misserum að menn hafa séð mögulegan markað opnast fyrir slík hjól. Það er helst fyrir tilstilli tækniþróunar og aukinnar sölu á mótorhjólum að menn hafa loks látið verða af því að setja slík aldrifshjól í framleiðslu. Yamaha reið á vaðið, KTM eru að blása til sóknar á þessum markaði og líklegt að fleiri fylgi í kjölfarið. Hugmyndin á margt skylt við fjórhjóladrifsbíla, að gefa ökutækinu jafnara og meira grip öllum stundum.


Hvernig er samvinna fram- og afturdekks? Gagnstætt því sem margir halda er framdrifið í vinnslu öllum stundum, ekki bara ef afturdekkið byrjar að spóla. Framdekkinu er snúið áfram á sama hraða og afturdekkinu. Þegar afturdekkið missir grip og byrjar að spóla (s.s. í djúpum sandi) byrjar framdekkið að snúast hraðar til að halda í við afturdekkið. Þannig virkar framdrifið mest þegar á reynir og notar það allt að 15% af afli mótorsins til að toga hjólið áfram.
Hvernig kemur 2-trac út úr reynsluakstri? Við vitum nú þegar að að grunninum til er þetta bara hefðbundið WR 450 og það eitt og sér er gott mál. Hinsvegar breytir framdrifið aksturseiginleikunum verulega. 2-trac er rásfastur fákur. Þetta er líklega eins nálægt því að vera járnbrautarlest og mótorhjól mun nokkurntíma komast hvað aksturseiginleika varðar. Það er hreinlega eins og hjólið sé á teinum. Það getur bæði verið gott og slæmt, fer eftir því hvar og hvernig þú ert að keyra. Í djúpum sandi er það hrein snilld; þú bara miðar þangað sem þú vilt fara, snýrð upp á bensíngjöfina og hjólið hreinlega étur sig áfram og skilur afturhjóladrifnu hjólin eftir spólandi. Yfirburðir tvídrifsins koma einnig vel í ljós yfir torfæran og sleipan jarðveg þar sem hjólið er alger klifurköttur. Þar sem við erum að fjalla um stórt mótorhjól í öllum skilningi þess orðs, og tvö dekk sem snúast af krafti, verður maður töluvert var við beygjutregðu. Vertu ekkert að rembast við að taka innri aksturslínur í gegnum þröngar beygjur þar sem hjólið virkar í eðli sínu best þegar það fer sem beinast áfram. Þú þarft að átta þig á hvernig hjólið hegðar sér og vinna með því en ekki á móti. T.a.m. eru flestir vanir að aka gegnum sléttar og kantlausar beygjur eftir jöfnum bogalöguðum ferli. Á 2-trac verður þú að leggja þennan akstursstíl til hliðar því framdekkið togar þig áfram, byrjar að stýra en leitast á sama tíma við að rétta sig við og getur þar af leiðandi beint hjólinu út úr beygjunni sem var nú ekki beint hugmyndin í upphafi. Mér reyndist best að koma inn í slíkar beygjur í beinni línu, bremsa með afturdekkinu, búa til vinkil og snúa hjólinu í þá átt sem ég vildi fara, gefa svo aftur í og fara aftur út úr beygjunni í því sem næst beinni línu. Þannig virtist maður ná tökum á hjólinu og með bæði dekkin í vinnslu og þennan kraftmikla mótor var hröðun hjólsins mjög mikil út úr beygjunum og gaman að vera til. Ekki gafst færi á að prófa hjólið í fullorðins brekkuklifri en það er ljóst að á þessu hjóli gæti maður loks klárað brekkur sem hafa gert manni lífið leitt árum saman.
Fyrir er WR 450 nokkuð þungt hjól og er framdrifið varla til þess fallið að létta hjólið. Þó segir Yamaha að 2-trac sé einungis 5 kílóum þyngri en afturhjóladrifni bróðirinn en hvað sem því líður verður maður nokkuð var við kílóin. 2-trac er engu líkt, ekki bara hvað aksturseiginleika varðar heldur hljómar og lyktar hjólið öðruvísi en önnur hjól. Já, þú heyrir nefnilega hvininn í glussanum undir hausnum á þér þar sem hann sprautast gegnum leiðslurnar og inn í framdrifið. 

Og þegar átökin eru mikil hitnar vökvinn og fer að gefa frá sér daufa lykt sem fer ekki fram hjá þér. Eflaust finnst einhverjum þetta fráhrindandi en persónulega fannst mér þetta bara ansi töff! Ohlins sér um fjöðrunina á 2-trac og hvað það áhrærir er hjólið hrein og klár snilld. Ohlins fjöðrun er jafn dýr og hún er góð. Það er sama hvar ber niður, í grjóti, í grasþúfum, í stökkum og lendingum, fjöðrunin hreinlega étur upp allan óþverra sem á vegi hjólsins verður.
Þegar upp er staðið má lýsa 2-trac með tveimur orðum: Grip, fjöðrun. Er þetta hjól fyrir þig? Áttu digra sjóði inni á bankabókinni? Ert þú sífellt í baráttu við djúpan sand, sleipa steina eða brattar brekkur. Vilt þú vera öðruvísi? Ef það er málið er 2-trac inni í myndinni.

ÞK
Morgunblaðið 
Dagbók Drullumallarans 18.8.2004