21.12.05

Á vélhjóli í jöklaferðir 2005


Jöklaferðir hafa á undanförnum árum verið vinsælar meðal jeppa-, skíða- og göngufólks. Færri stunda slíkar ferðir á vélhjólum en þeir eru þó til. Sveinn Birgisson er einn af þeim.

„Ég er búinn að vera að hjóla í 12 ár með hléum. Keypti skellinöðru þegar ég var 15 ára,“ segir Sveinn. „Það sem heillar mig við hjólin er hraðinn, góður félagsskapur, útiveran og snertingin við náttúruna.“
   Sveinn segist reyna að fara í tvö góð ferðalög hvert sumar á hjólinu en á veturna er stefnt á jöklana. En hvað er það sem heillar við jöklana og af hverju að fara þangað á mótorhjóli af öllum farartækjum? „Af sömu ástæðu og maður fer á vélsleða. Það er ómögulegt að láta græjurnar standa inni, það þarf að vera hægt að nota þetta yfir veturinn líka. Að komast á jökul er alltaf sérstakt, allt öðruvísi en að vera í Bláfjöllum til dæmis. Þeir toga alltaf í mann. Ef veðrið er gott er útsýnið og hreinleikinn svo mikilfenglegt að maður fær hálfgert víðáttubrjálæði. Maður veit líka að það komast ekki allir þangað. Þetta er ekki eins og að kaupa flugmiða til London,“ segir Sveinn með virðingarvotti í röddinni. Hann hefur líka reynslu af jeppa-, vélsleða- og gönguferðum á jökla svo það kemur kannski ekki á óvart að hann sæki þangað líka á vélhjóli.
   Jöklaferðir á vélhjólum eru ekki ýkja frábrugðnar vélsleðaferðum. Aðalatriðið er að vera vel klæddur og varinn. Maður finnur mikið fyrir veðrinu og snörpum hreyfingum. Hraðinn er meiri en í jeppaferðum og oft gefast fleiri tækifæri til að stökkva og leika sér. „Fyrir utan hlýjan fatnað þurfa allar hlífar að vera til staðar. Nýrnabelti og brynja eru skilyrði. Maður þarf líka enduro- eða krossaraskó, hjálm auðvitað og svo er alltaf að færast í vöxt að vera með hálskraga sem öryggisbúnað. Hvað hjólið varðar er gott að vera á ísdekkjum. Þau eru með nöglum sem eru mitt á milli nagla í bíldekkjum og nagla í sleðabeltum. Svo er mjög gott að vera með ískross ádrepara. Þá er snúra frá ádreparanum bundin í úlnlið ökumannsins. Ef hann dettur af hjólinu drepst á mótornum og hjólið skaðar engan,“ segir Sveinn og bætir við að gullna reglan um jöklaferðir eigi líka við ef maður stundar þær á vélhjóli: „Það er bannað að slasa sig.“
   Spurður um hvort vélhjólatímabilið sé ekki búið þennan veturinn svarar Sveinn: „Nei, nei, það er rétt að byrja. Hjólið mitt er á númerum og verður það fram undir páska alla vega.
Fréttblaðið 21.12.2005