16.3.05

Fagurkeri á glansandi gæðingi (2005)

Guðbjörg Sigurðardóttir fann draumahjólið á Guggenheim-safninu í New York

 Þegar Guðbjörg Sigurðardóttir, verslunareigandi og óperuunnandi með meiru, sest upp á fákinn sinn og þeysist út í íslenska náttúru er það ekki til að slá hraðamet og finna adrenalínið streyma um æðar, jafnvel þótt farskjótinn gangi fyrir vélarafli og það af kröftugu gerðinni. Þvert á móti segist hún ekki hafa minnsta áhuga á  glannaskap eða fífldirfsku þegar hún ferðast um á Harley Davidson mótorhjólinu sínu. „Það er ekki til töffari í mér,“ segir hún með áherslu. Þrjú ár eru
síðan Guðbjörg fluttist heim frá Bandaríkjunum og eftir 17 ára veru í stórborginni New York velti hún mikið fyrir sér hvernig hún gæti sem best notið íslensku náttúrunnar, sem hún hafði saknað hvað mest þennan tíma úti. „Ég íhugaði að fara í hestamennsku því pabbi er með hesta og krakkarnir mínir eru vanir  hestum. Þetta eru mjög tignarlegar skepnur en ég er ekki mikið fyrir að fara upp í hesthús og moka skít. Auk þess held ég að maður þurfi að vera vön hestamanneskja til að njóta reiðmennskunnar til fulls. Þá datt mér í hug að fá mér annars konar reiðskjóta.
“ Guðbjörg dreif sig í að verða sér úti um réttindi á mótorhjólið og næsta skref var að ákveða hvernig vélfákur skyldi keyptur. „Ég þekkti lítið sem ekkert til mótorhjóla en þar sem ég hafði búið í Ameríku vissi ég að Harley Davidson mótorhjól þættu góð. Raunar hafði ég séð ákveðið hjól á Harley-sýningu í Guggenheim safninu í New York sem þótti mjög framúrstefnulegt enda er það búið miklum og góðum vélbúnaði, sem ég hef svo sem lítinn  áhuga á. Hins vegar fannst mér það óvenju stílhreint og fallegt og það er einhver nútímaklassík í því sem höfðaði til mín.“
  Nýtur einverunnar | Það kom því af sjálfu sér að Guðbjörg leitaði til Harley Davidson umboðsins hér á landi í leit að rétta hjólinu. „Afgreiðslumaðurinn spurði hvort ég væri að  leita að hjóli fyrir manninn minn en þegar ég sagði honum að hjólið væri fyrir mig sagðist hann vita upp á hár hvað myndi henta mér. Hann sýndi mér létt sporthjól en það var ekki hjólið sem ég hafði í huga svo ég bað um að fá að sjá myndir af Harley hjólum, enda þóttist ég viss um að þekkja hjólið af safninu á mynd. Maðurinn náði þá í bók sem við flettum án þess að finna rétta hjólið en þegar hann lokaði bókinni reyndist það vera framan á henni.“ Guðbjörg lét athugasemdir sölumannsins um að svo kröftugt mótorhjól gæti varla hentað fyrir hana sem vind um eyru þjóta og pantaði sér tryllitækið hið snarasta.
 Það er þó ekki krafturinn í hjólinu sem er aðalatriðið fyrir Guðbjörgu. „Þetta er bara svo miklu meira spennandi að ferðast á mótorhjóli en í bíl og yndislegt að finna sveitailminn. Maður er  farinn að þekkja á lyktinni hvort bóndinn á bænum sem maður fer hjá sé með kýr, hesta eða kindur. Svo er ekki verra að þetta er hreinlegt sport sem krefst einskis af mér nema ákveðni og það er alltaf til taks þegar mér dettur í hug.
“ Guðbjörg segist njóta þess mest að vera ein á ferð þegar hún tekur  vélfákinn fram. „Ég er ekki mikið fyrir að keyra í röð í hóp – mér finnst það óþægilegt því þá er búið að taka af mér ákveðið frelsi. Hins vegar fer ég oft einhvern hring á kvöldin og þá ekki niður í bæ heldur frekar til Þingvalla enda með sumarbústað þar, upp í Hvalfjörð eða jafnvel á Búðir til að vera þar yfir nótt. Einveran hentar mér vel því það er svo góð hvíld í henni. Þetta er alls ekki spurning um hraða heldur ákveðið frelsi og að njóta fegurðar náttúrunnar í leiðinni.
Hljóðlát tíska | Hún bætir því við að það hafi verið fagurkerinn í henni sem laðaði hana að mótorhjólasportinu á sama hátt og hún  laðast að fallegum hlutum og skemmtilegu fólki. Sömuleiðis hefur hún mikið yndi af óperu og hefur sterkar skoðanir á framtíð Íslensku óperunnar og aðstöðuleysi hennar. „Umræðan um „tónlistarhús“ er á röngu róli. Við eigum að vera að tala um að byggja ÓPERU-hús þar sem sinfónían fengi inni að sjálfsögðu og þar sem hægt væri að flytja óperur, halda tónleika, ráðstefnur og aðrar samkomur, t.d. alþjóðaþing. Þetta yrði óperuhús sem yrði þjóðinni til sóma og hefði aðdráttarafl fyrir ferðamenn.“
Fagurkerinn í Guðbjörgu hafði líka áhrif á þá ákvörðun hennar að ráðast í verslunarrekstur síðasta haust þegar hún keypti verslunina Bitte Kai Rand á Skólavörðustíg þar sem fatnaður samnefnds dansks hönnuðar er til sölu. „Ég hef alltaf haft gaman af fallega klæddu fólki og Bitte Kai Rand hannar nýklassískan,
frísklegan og nútímalegan fatnað sem bæði er hægt að fara í vinnuna í eða eitthvað fínna eins og út að borða. Maður er alltaf huggulegur til fara og fatnaðurinn kæfir þig ekki í glysi heldur stendur þú sem persóna upp úr. Svona verslun fannst mér algerlega vanta á Íslandi þegar ég flutti heim því hér fer mjög mikið fyrir unglingatísku annars vegar og hins vegar fatnaði fyrir mun eldri konur.“ Þá selur Guðbjörg einnig skartgripi Georg Jensens sem hún segir passa einstaklega vel við föt Bitte Kai Rand, enda sé hvorutveggja klassísk, dönsk hönnun. „Þetta er það sem ég kalla hljóðlega tísku því hún truflar ekki neitt.
“ Það eru þó ekki fötin og skartgripirnir úr búðinni sem Guðbjörg skrýðist þegar hún sest á bak fáki sínum og stormar út á land. „Þá þýðir ekkert annað en að vera í leðurgalla því leðrið er eins og þitt annað skinn og það er betra að það fari en þitt eigið. Ég þurfti hins vegar að hafa svolítið fyrir því að finna mér penan galla sem mér leið vel í,“ segir hún að lokum.
 ben@mbl.is
Morgunblaðið 13.03.2005