20.5.05

Vélknúnir Léttfetar

Hvað veist þú um klifurhjól eða trialshjól eins og þau eru gjarnan kölluð? Lítið? Ekkert? Það er þá bara allt í lagi. Ekki við heldur. Við tölum þá a.m.k. sama tungumálið í þessum fyrsta reynsluakstri sinnar tegundar sem farið hefur fram á Íslandi. 

Lýsa má klifurhjólaíþróttinni sem hljóðlátum vélhjólaballett þar sem jafnvægi og útsjónarsemi eru lykilatriðin en menn stoppa um leið og þeir ætla að fara þrautirnar á fruntaskapnum og kraftinum einum saman. Við smöluðum saman GasGas-hjólum frá JHM-sport í öllum helstu stærðarflokkunum, 250cc, 280cc og 300cc, í reynsluakstur fyrir Dagbók drullumallarans sem var bæði lærdómsríkur og æði skrautlegur á köflum. Eftir nokkra pústra og byltur er þetta það sem við lærðum eftir daginn.

Spænsk listasmíð


GasGas-verksmiðjurnar eru á Spáni og eiga þær að baki langa og sigursæla sögu í klifurhjólaíþróttinni. Minnsta klifurhjólið frá GasGas sem fáanlegt er á Íslandi er 50cc og er ætlað fyrir krakka á aldrinum 6–8 ára. Einnig eru framleidd 125 og 200cc hjól en þau hafa ekki verið í boði hérlendis enn sem komið er. Við ókum hins vegar næstu stærð fyrir ofan sem er 250cc hjólið og eru nokkur slík þegar komin í umferð. Að uppbyggingu er 250cc hjólið líkt stærri hjólinu, stellið, stærð, útlit og þyngd, allt er þetta svipað. Auðveldast er að greina milli hjólanna eftir litnum en 250cc hjólið er rautt, 280cc hjólið er blátt og 300 hjólið er í sérlega fallegum gráum og krómuðum tónum og hefur heimsmeistarinn Adam Raga haft hönd í bagga með þróun þess hjóls. Hjólin eru með vatnskældar tvígengisvélar og hafa lítinn og nettan bensíntank falinn inni í stellinu og tekur hann einungis þrjá lítra af eldsneyti. Hins vegar eru vélarnar mjög eyðslugrannar og þótt ekki séu fyrir hendi nákvæmar eyðslutölur má segja að tankurinn dugi vel á þriðju klukkustund í akstri. Bremsurnar eru til fyrirmyndar, léttar en skila mikilli virkni. Sama má segja um eldsneytisgjöfina, hún er afar létt og þarf aðeins litla hreyfingu til að fá hjólið til að vinna. Munið að nákvæmni er hér lykilatriðið. Glussakúplingin var sömuleiðis fín og skiptir það ekki litlu máli þar sem maður notar kúplinguna rosalega mikið í tæknilega erfiðum þrautum t.d. þegar maður stoppar uppi á kletti og heldur jafnvæginu á meðan maður finnur næstu aksturslínu og skýtur sér svo fram af með því að nota nákvæma samhæfingu milli jafnvægis, bensíngjafar og kúplingar. Reyndar voru einhver vandræði með eitt hjólið, kúplingin fór að slíta illa á tímabili, en ekki er gott að segja nákvæmlega hvað olli þeirri truflun. Eftir að hafa spurst fyrir hjá GasGas-keppnisliðinu í Bretlandi var okkur bent á að mögulega þyrfti að skipta út vökvanum. Lítið mál en rétt að geta þess.

Gírarnir eru sex

Það kemur á óvart að klifurhjól hafi sex gíra, ekki satt? En þeim er raðað þannig upp að lítill munur er á fyrsta upp í fjórða gír þar sem hraðasviðið sem ekið er á í erfiðum þrautum er frekar lítið. Hins vegar er svo stórt stökk frá fjórða og upp í fimmta og sjötta gír en þeir bjóða upp á mun meiri hraða, u.þ.b. 80 km, og eru tilvaldir til að ferja hjólið milli staða, frá einu fjallagilinu í annað.
Hjólið er nokkuð stíft í gegnum gírana en maður þarf bara að kúpla vel og skipta ákveðið.
Nýju hjólin koma með ýmsum flottum búnaði. Má þar nefna aldeilis frábært stýri, ágætis ljósabúnað og hraðamæli sem sýnir ýmsar upplýsingar, s.s. vegalengd og tíma sem ekið er. En hvar er sætið á hjólinu? Hvergi. Klifurhjólamenn standa allan daginn, enginn tími né aðstæður til að setjast niður. Góð æfing fyrir fætur og bakvöðva. Dekkin eru með breiðum gripfleti og úr einstaklega mjúku gúmmíi og er loftþrýstingur einungis um 6 pund. Silkimjúkt vinnslusvið vélarinnar þýðir að dekkin spóla ekki, heldur líma sig föst við jarðveginn og gerir það hjólinu kleift að klifra upp aldeilis ótúlegan bratta og ófærur. Og það besta? Öll þessi mýkt og léttleiki þýðir að hjólið skilur vart eftir sig nein ummerki, jafnvel í mjúkum farvegi. Ótrúlegt en satt. Við ókum hjólunum til skiptis yfir hinar ýmsu þrautir, allt að sjálfsögðu fjarri grónu landi. Menn voru misjafnlega fljótir að ná tökum á gripunum og tóku sumir stórar byltur í grjótinu áður en þeir fóru að gera sér grein fyrir virkni hjólanna. Við skulum ekki nefna nein nöfn í því samhengi en segjum bara sem svo að þótt menn séu margfaldir Íslandsmeistarar í motocrossi sé ekki sjálfgefið að þeir geti klifið snarbrattan klett úr kyrrstöðu. 

Mismunandi aksturseiginleikar

Þótt hjólin séu að stærstum hluta eins uppbyggð hegða þau sér æði ólíkt í akstri. 300cc hjólið er t.a.m. mjög ólíkt 250cc hjólinu. Í bleytu þar sem grip skortir ber stóra hjólið af. Það hefur gríðarlega mikið tog og vinnur best í 3. og 4. gír. 300cc hjólið er jafnþungt 250cc hjólinu í kg talið en þar sem vélin í 300cc hjólinu er stærri finnst manni það hjól virka örlítið stærra. 250cc hjólið hefur mikla vinnslu neðst í aflkúrfunni. Blautir klettar, brattar brekkur, árfarvegir og drulla eru kjörlendi 300cc hjólsins. Þegar nóg er af gripi, aksturslínur eru mjög þröngar og menn eru að hoppa eldsnöggt upp á grjót er 250cc hjólið mest viðeigandi. Segja má að 280cc hjólið sé þarna mitt á milli, hvergi best en gerir allt vel, mjög vel. 

Að lokum

Þetta er einfalt, sama hvert þessara hjóla þú kaupir – þú verður ekki fyrir vonbrigðum. 250cc hjólið er fyrir alla og hentar byrjendum vel. Svo mjúkt en kemst samt ótrúlega mikið. Það fyrirgefur ökumanninum einnig mest fyrir mistök í akstri. 280cc og 300cc hjólin eru að flestu leyti eins, ljúf og létt, en toga þó hraustlegar og henta betur þeim sem eru komnir aðeins lengra, vita hvað þeir eru að gera og vilja meira en 250cc hjólið getur.
Hjólin fást í JHM sport og vegna hagstæðrar gengisþróunar hafa þau verið boðin á fínu verði. 250cc hjólið kostar 580 þúsund (staðgreiðsluverð og skráning innifalin í verðinu), og 280cc og 300cc hjólin kosta 595 þúsund.

ÞK
moto@mbl.is  
morgunblaðið 20.5.2005