BÖÐVAR Jónsson er formaður bæjarráðs Reykjanesbæjar og keypti sér fyrir nokkrum árum Yamaha 750-mótorhjól, sem hann ekur um sér til skemmtunar.
BÖÐVAR Jónsson er formaður bæjarráðs Reykjanesbæjar og keypti sér fyrir nokkrum árum Yamaha 750-mótorhjól, sem hann ekur um sér til skemmtunar. Frúin á heimilinu, Anna Karlsdóttir Taylor, er einnig með próf á mótorhjól og fara þau hjónin stundum saman út að hjóla þegar faðir Önnu, Karl Taylor, lánar dóttur sinni hjól sitt af gerðinni Honda Shadow 1100. Það má því segja að mótorhjólaáhuginn hafi þarna skotið rótum í heilli fjölskyldu.
"Þetta er auðvitað bara ein af þessum dellum sem maður fær. Ég var í jeppamennskunni hér áður fyrr og þegar tíminn fór að verða takmarkaðri færði maður sig yfir í þetta fyrir um þremur til fjórum árum. Þá keypti ég mér hjól, Yamaha Virago 750, en við erum bæði hjónin með próf á mótorhjól," segir Böðvar. Hann er félagi í Örnum - Bifhjólaklúbbi Suðurnesja, ásamt tengdaföður sínum, en segist þó ekkert sérstaklega virkur í starfinu. "Það er rosalega stór hópur sem er í þessum klúbbi og maður sér í tölvupóstinum að það er heilmikið líf í kringum hann, þótt ég geti ekki státað af því að taka mikinn þátt í starfinu. En maður reynir að fara út að hjóla öðru hverju."

Var langyngstur í fyrstu ferðinni með Örnum

Böðvar segir það koma fyrir að þau hjónin fari að hjóla saman þar sem tengdapabbi hans eigi einnig hjól, þótt það gerist ekki oft.
"Ég myndi segja að við hjónin hefðum jafnmikinn áhuga á þessu en ég get ekki sagt að ég sé dellukarl þótt ég hafi mjög gaman af því að fara á góðum degi út að hjóla. Ég veit ekki hvað það er sem heillar mann, það er alltaf gaman í góðu veðri að vera útivið, það er sama hvort það er í þessu, jeppamennskunni eða úti að ganga, það er alltaf gaman að skoða umhverfið og nágrennið."
Hann gekk í bifhjólaklúbbinn Erni fljótlega eftir stofnun og segir að þá hafi verið skemmtilegast að sjá að hann var langyngstur, 33 ára, í fyrstu ferðinni sem hann fór með klúbbfélögunum.
"Mér fannst skemmtilegast við það þegar ég fór í fyrsta sinn út að hjóla eftir að ég gekk í klúbbinn, að þá voru sennilega fimmtán í ferðinni og ég var langyngstur, sá sem var næstur mér var tíu árum eldri. Þannig að ég var bara unglamb í þessu til að byrja með. Síðan hefur fjölgað og nú er fólk frá tvítugu upp í sjötugt í klúbbnum."

22.10.2003