Það finnst vart lipurra hjól til aksturs á krókóttum íslenzkum þjóðvegi. |
REYNSLUAKSTUR Ducati Multistrada
Auðunn Arnórsson
ÞAÐ var mótorhjólaáhugafólki á Íslandi sannkallað gleðiefni er það fréttist í sumar að fyrirtækið Dælur ehf. í Kópavogi hefði hafið innflutning á Ducati-mótorhjólunum ítölsku. Með því að opinber umboðs- og þjónustuaðili fyrir þessa frægu og eftirsóttu mótorhjólategund er tekinn til starfa hér á landi hafa skapazt alveg nýjar forsendur fyrir Íslendinga að eignast, eiga og reka slík hjól. Ducati er þekkt fyrir að framleiða mjög sportleg hjól með mikinn persónuleika og áberandi hönnun sem höfðar beint til ástríðutaugarinnar í þeim sem á annað borð hafa áhuga á mótorhjólum. Ducati hefur skapað sér sérstöðu með því að halda sig við að framleiða sín hjól með L-laga V2-vél, en fyrir því er yfir 40 ára gömul hefð hjá fyrirtækinu. Þróun þessarar tveggja strokka vélartækni, með svokallaða desmodromic-ventlastýringu (sem verkar þannig að knastásar, drifnir af keðjuknúnu tannhjóladrifi, bæði opna og loka ventlunum í stað þess að gormar loki þeim) hefur náð svo miklum hæðum hjá Ducati, að keppnishjól fyrirtækisins og knapar þeirra hafa á síðustu árum rakað saman heimsmeistaratitlum í Superbike-kappakstri. Sérstaðan felst líka í því að öll Ducati-hjól státa af burðargrind sem er soðin saman úr stálrörum eftir kúnstarinnar reglum, en hún er mjög létt miðað við styrkleika. Vélin er berandi hluti af burðargrindinni
Fjórar megingerðir Ducati-hjóla
Til notkunar í almennri umferð býður Ducati upp á fjórar mótor hjólatýpur. Sú sportlegasta, götuútgáfan af Superbike-kappaksturshjólinu, heitir nú 999, en fyrirrennarar þess síðasta áratuginn hétu 916, 996 og 998. Það var 916- hjólið sem í kring um árið 1990 jók hróður Ducati til mikilla muna, enda var hönnun þess næsta byltingarkennd. Af mörgum er það álitið eitt fallegasta mótorhjól allra tíma. 999-hjólið er toppurinn á hinni svokölluðu Supersport-línu, en til hennar teljast líka léttari „racer“- hjól (með loftkældar vélar; 999-hjólið er vatnskælt). Því næst er það klæðningarlausa Monster-línan, sem eru eins konar „cruiser“-hjól. Þá er það ST-línan, sem eru sportleg (malbiks-)ferðahjól með fullklæðningu. Og loks er það nýjasta týpan, sem kom fyrst á markað á þessu ári, en hún ber nafnið Multistrada – sem þýðir svo mikið sem „fjölvega“. Eins og nafnið bendir til er því ætlað að henta til aksturs á flestum gerðum vega. Frá því Multistrada-hjólið kom á markað hefur Ducati vart getað annað eftirspurn, en nýja íslenzka umboðinu tókst að fá eitt eintak af fyrstu árgerðinni til að sýna og selja hér á landi. Sem er mjög heppilegt, þar sem segja má að íslenzka vegakerfið kalli á „fjölvega“-hjól. Á það var einmitt látið reyna í reynsluakstrinum, hversu vel Ducati Multistrada hentar íslenzkum aðstæðum.
Hefðbundin flokkun
Multistrada erfið Það leynir sér ekki þegar hjólið er skoðað í návígi, að hér er á ferðinni mótorhjól sem erfitt er að flokka. Uppbyggingin – há burðargrindin og tankurinn, tiltölulega hátt stýrið og frekar há fjöðrunin – minnir á enduro-hjól, en breið, fínmunstruð dekkin, sportlega harður hnakkurinn og stífstillt fjöðrunin eru dæmigerð einkenni sportlegs götuhjóls. Ökumaður situr frekar uppréttur og stýrið og fetlarnir eru þannig staðsettir að auðvelt er að stýra hjólinu af öryggi á mjög litlum hraða – standa upp, ef því er að skipta – ólíkt því sem gerist á hreinræktuðu „racer“-götuhjóli þar sem ökumaður situr krepptari, með fæturna aftar og hallar meira fram á stýrið. Tiltölulega lágur og miðlægur þyngdarpunktur og góð þyngdardreifing á fram- og afturhjól, í einingu við sportlega stillta fjöðrunina og mjög öflugar og vel „skammtanlegar“ bremsurnar, skapa annars fyrirmyndaraksturseiginleika á hvaða hraða sem er.Kjörlendið er krókóttir þjóðvegakaflar
Kjörlendi Multistrada eru bugðóttir (malbikaðir) þjóðvegakaflar, þar sem það veitir ökumanni ómælda ánægju hvernig hjólið lætur að stjórn – hvernig það beinlínis kallar á að vera hellt inn í hverja beygjuna á fætur annarri og hvernig togmikil vélin rífur hjólið „gráðug“ út úr beygjunum. Það var einmitt á slíkum vegarköflum, í fjalllendi Emiglia-Romagna-héraðsins í nágrenni Ducati-verksmiðjunnar í Bologna, sem þróunarstjórar hennar prófuðu sig fram til þessarar útkomu, nýja Multistrada-hjólsins. Jafnvægið og stöðugleikinn er svo góður að um leið og tekið hefur verið af stað er eins og þessi 220 kg, sem hjólið vegur fulltankað, séu orðin að fjaðurvigt. Upp á þessa tilfinningu hjálpar hve „mittismjótt“ hjólið er, sem gerir ökumanni kleift að klemma það vel milli læra sér rétt eins og um mun minna hjól væri að ræða. Loft-/olíukæld vélin, sem þjónar einnig til að knýja Monster 1000- og Supersport 1000-hjólin, er mjög snúningsviljug og skilar 84 hestöflum og 84 Newtonmetra togi. Þetta afl dugar til að rífa hjólið það vel áfram að það prjónar nokkuð auðveldlega; þó er ökumanni auðvelt að halda framhjólinu niðri með því að beita líkamsþyngdinni. Togið er mest á bilinu 3.500–8.000 snúningum og sex þrepa gírkassinn skilar aflinu af mikilli skilvirkni til gripmikils, 180 mm breiðs afturhjólsins. Hröðun úr kyrrstöðu í 100 km hraða á að nást á 3,5 sekúndum. Mælaborðið skiptist í stóran hefðbundinn snúningshraðamæli og rafeindaskjá sem gefur allar aðrar upplýsingar sem ökumaður þarf á að halda. Það sem helzt mætti gagnrýna við stjórntækin og aksturseiginleikana er frekar stíf kúplingin. Að fjöðrunin sé eins stíf og raun ber vitni er mikilvægur hluti af karakter hjólsins, sem þar með er trúr sportlegri Ducati-hefðinni. Reyndar er hægt að stilla fjöðrunina á ýmsa vegu, sem opnar möguleikann fyrir því að laga hana að gerð (grófleika) vegarins, hleðslu hjólsins og smekk/akstursstíl ökumanns. Fjaðurvegalengd hvolfgaffalsins að framan er 165 mm og miðlægrar gorm/gasdemparafjöðrunareiningarinnar að aftan 145 mm, sem má segja að sé mitt á milli hreinræktaðs enduro-hjóls og hreinræktaðs götuhjóls. Hálfklæðningin með stýrisáfastri „framrúðunni“ veitir góða vindvörn án þess að hefta sýn ökumanns fram á veginn, enda horfir hann yfir skyggnið. Farþegi getur komið sér þægilega fyrir aftan við ökumann.Vítt hæfileikasvið
Í stuttu máli sagt er Ducati Multistrada gríðarskemmtilegt hjól með mjög vítt hæfileikasvið, þar sem málamiðlanalaus en þó afslöppuð sportlegheit eru í fyrirrúmi. Til að henta íslenzkum aðstæðum enn betur væri eflaust ráðlegt að panta viðbótarhlífar, sem boðið er upp á sem aukahluti, en aukahlutaframboðið er mjög breitt. Næst lægi að fá hlíf framan á vélina og aurhlíf á afturhjólið. Meðal þess sem einnig er boðið upp á er þykkari sætisbólstrun og sérhannaðar harðplast-töskur, en með þeim útbúnaði er hjólið klárt í langferðalög. Fyrir þá sem myndu vilja nota hjólið meira á vondum vegum (án bundins slitlags) væri athugandi að setja undir það grófari ferða-enduro-dekk (eins og boðið er upp á undir Honda Varadero 1000 eða Suzuki DL 1000 V-Strom, svo dæmi séu nefnd). En þar með myndi hjólið tapa nokkru af þeim sportlegu götuhjóls-eiginleikum sem það hefur af að státa eins og það kemur frá verksmiðjunni. Þótt Ducati-menn hafi teygt sig í alveg nýja átt með Multistrada-hjólinu var þó aldrei ætlun þeirra að búa til „drullumallara“. Þó hefur frétzt að þess kunni að vera skammt að bíða að Ducati teygi sig enn lengra í átt að því að smíða torfæruhjól. Jafnvel strax árið 2005 sé væntanleg önnur ný týpa af Ducati – eins strokks „supermoto“-hjól, en slík hjól eru almennt hreinræktuð torfæruhjól útbúin fyrir malbiksakstur, með stífari fjöðrun og götuhjóladekkjum. Þessu nýja Ducatihjóli yrði stefnt í samkeppni við hjól eins og KTM Duke. Ducati Multistrada 1000 DS kostar 1.470.000 kr. Sem er vissulega allstór biti að kyngja fyrir tveggja hjóla farartæki, en sé hugsað út í það hve margra milljóna króna dýran bíl þyrfti til að bjóða ökumanni upp á viðlíka akstursánægju og þessi ítalska fegurðardrottning gerir, lítur dæmið öðru vísi út.
Morgunblaðið 8.10.2003
Árni Sæberg
auar@mbl.is