27.9.03

Mótorhjólasýningin í Mílanó 2003

Intermot-mótorhjólasýningin í Mílanó er haldin á hverju hausti og þar keppast framleiðendur við að kynna hjól næsta árs. 

Sýningin í ár var engin undantekning á því og þótti fjölbreytt miðað við frekar einhæfar sýningar síðustu ár. Mestar framfarir hingað til hafa orðið í torfæruhjólum en framleiðendur eru aftur farnir að veita götuhjólum þá athygli sem þau þurfa. Einnig var meira um það en áður að framleiðendur sýndu tilraunahjól og margar frumlegar hugmyndir eru þar á ferðinni.

Mótorhjól með „tvöfaldan persónuleika

 " Kawasaki frumsýndi nýja módellínu á mótorhjólasýningunni í Mílanó í vikunni en það sem kom mest á óvart frá þeim var nýtt tilraunahjól sem hugsanlega fer fljótlega í framleiðslu. Hjólið, sem var sýnt blaðamönnum síðastliðinn miðvikudag, heitir ZZR-X og er með „tvöfaldan persónuleika" ef svo má að orði komast. Með nokkrum einföldum aðgerðum má breyta hjólinu úr sporthjóli í ferðahjól með töskum og sæti fyrir tvo. Vindkúpan er þá einfaldlega stækkuð með því að smella framlengingu á hana. Hjólið er með einföldum afturgaffli og láréttum framgaffli, líkt og í Yamaha GTS 1000 hjólinu.



KTM með alvöru götuhjól næsta sumar

   KTM frumsýndi nýtt götuhjól á Intermot-mótorhjólasýningunni í Mílanó í síðustu viku. Hjólið kallast Duke 990 og fer í framleiðslu og kemur strax næsta sumar á markað. Vélin er sama LC8 vélin og úr Adventure 950 hjólinu en er tjúnuð upp í 122 hestöfl í götuhjólinu. Vélin er mjög létt, aðeins 58 kíló sem er um 20% minna en nokkur samkeppnisaðili getur boðið upp á að sögn talsmanna KTM-verksmiðjanna. Þar af leiðandi er hjólið sjálft líka létt og er þurrvigt þess aðeins 179 kíló. Króm-Moly grindin í hjólinu er til dæmis aðeins 9 kíló.

Nýtt GSX-R 750 hjól frá Suzuki 

   Suzuki kom mörgum á óvart á mótorhjólasýningunni í Mílanó með því að frumsýna nýtt GSX-R 750 sporthjól. Suzuki er því eini framleiðandinn til að halda áfram að framleiða 750 hjól eftir að hætt var að keppa í þeim flokki í Superbike-heimsmeistarakeppninni. Nýja hjólið, sem kemur á markað á næsta ári, ætti þó að freista margra því að það er aðeins 163 kíló og skilar 148 hestöflum sem er nóg til að keppa við Rl eða Fireblade 1000 hjólin.

27.SEPTEMBER 2003
DV BÍLAR