10.12.03

Verður á 300 hestafla hjóli næsta sumar

Viðar Finnsson er einhver magnaðasti mótorhjólamaður landsins og er á kafi í Kvartmíluklúbbnum. Hann er að undirbúa Suzuki Hayabusagötuhjól sitt fyrir kvartmíluna næsta sumar. Í undirbúningnum felst meðal annars það að bæta við nítró-kerfi sem eykur hestaflafjöldann úr 182 í 300.


HONUM gekk ekki sem best síðastliðið sumar á einhverju aflmesta götuhjóli landsins, Suzuki Hayabusa, og segir hann ástæðuna þá að hann hafi aðeins haft eina gerð af keppnisdekkjum sem virkuðu ekki vel í bleytu og auk þess var kúplingin ekki rétt sett upp. En hann ætlar sér stóra hluti næsta sumar og hefur í því skyni breytt hjólinu á ýmsa lund og ætlar sér meðal annars að setja í það nítró-kerfi sem hækkar hestaflatöluna úr 182 í yfir 300.
   Hjólið er 2001 árgerð og fékk Viðar það í sínar hendur í júní það ár. Það er búið að breyta í hjólinu loftsíuboxinu og það er komin önnur sía í það, annar heili og svo er búið að létta það um 12,5 kg. 
   „Pústinu var skipt út og sett í hana púst úr títaníum, sem er mun léttara efni. Við það léttist hjólið um 11 kg. Pústið kostaði 1.330 dollara í Bandaríkjunum. Hingað komið hefur það lagt sig á nálægt 200.000 krónum,“ segir Viðar. 
  Hann segir að einnig hafi heddið hafa verið portað. „Ég á í hjólið 100 hestafla nítró-kit sem ég ætla að setja í það. Þá verður það rúm 300 hestöfl út í hjól, en núna er það 182 hestöfl.“ Þá er verið að tala um hrein hestöfl áður en tillit er tekið til loftþjöppukerfisins, sem virkar þannig að vélin tekur inn á sig meira loft eftir því sem hraðinn eykst.  Hjólið er því líklega að skila nálægt 200 hestöflum út í hjól þegar það er komið á ferð. 
   Hjólið er líklega aflmesta götuhjólið á Íslandi í dag þótt eitt annað hjól sé reyndar 5 hestöflum kraftmeira, en það togar ekki jafnmikið og Súkkan hans Viðars. Togið var mælt í bekk og reyndist vera 144 Nm en hitt hjólið togar 136 Nm. 
   Hjólið vegur ekki nema 194 kg og það verða því rúmlega 1,54 hestöfl til að knýja hvert kg af hreinum málmi, en tæplega 1,10 hestöfl ef reiknað er með 80 kg þungum ökumanni. 
   Viðar segir að hjólið sé u.þ.b. 17 sekúndur að ná 300 km hraða eins og það er í dag. Hann hefur komist hraðast á 246 km hraða á 9,6 sekúndum, „en ég náði ekki að bakka það upp vegna þess að það kviknaði í rafkerfinu,“ segir Viðar. Súkkan er undir tveimur sekúndum í hundraðið. 
  Viðar notar hjólið dags daglega og hefur nú þegar keyrt það 30.600 km frá því hann fékk það.
 Morgunblaðið Á.S.
10. DESEMBER 2003