Lokakeppnin við Kolviðarhól
AKSTURSÍÞRÓTTIR Lokakeppnin í þolakstri (Enduro) fer fram á laugardag. Keppt verður á um 10
kílómetra langri braut á og við gömlu túnin í landi Kolviðarhóls. Í Meistaradeild Íslandsmótsins
verður keppt í tveimur umferðum sem hvor um sig stendur yfir í 90 mínútur. Keppendur fá klukkustundar hlé milli umferða en fyrri umferðin hefst um klukkan 10 en sú seinni um klukkan 14.30.
Keppni í Baldursdeild, móti þeirra sem vilja keppa sér til ánægju, hefst laust fyrir klukkan 13.
Einar Sigurðarson hefur forystu í Meistaradeildinni með 370 stig en Viggó Viggósson hefur 327 stig. Einar og Viggó eru þeir einu sem hafa orðið Íslandsmeistarar í þolakstri síðan keppni um þann titil hófst árið 1998.
Í keppni liða er KTM Racing team efst, Honda Neonsmiðjan er í öðru sæti og Keppnislið JHM Sport í því þriðja. ■