DÆLUR ehf. er þekkt fyrirtæki á sínu sviði og var upprunalega stofnað 1899 af Gísla J. Johnsen í Vestmannaeyjum og bar þá nafn stofnandans. Fyrirtækið skipti síðan um eigendur árið 1960. 1986 var fyrirtækinu skipt upp og sérstakt fyrirtæki stofnað um dæludeildina sem fékk heitið Dælur. Faðir Hjalta, Þorsteinn Hjaltason, starfaði hjá Dælum sem óx og dafnaði og eignaðist fjölskylda hans síðan fyrirtækið.
"Við byggjum fyrirtækið á þessum gamla grunni, þ.e.a.s. góðri þjónustu, vera aðgengilegir og þjóna vel okkar viðskiptavinum," segir Hjalti.
Í mars á þessu ári breyttist eignaraðild fyrirtækisins aftur. Þorsteinn Hjaltason og Jónína Arndal drógu sig út úr því og inn komu þrír nýir eigendur ásamt Hjalta, þeir Gunnar Björnsson, Kristófer Þorgrímsson og Eiríkur Hans Sigurðsson. Fyrirtækið var á Fiskislóð vestur á Granda en flutti nú nýverið í Bæjarlind 1-3.
Eins og nafnið bendir til sérhæfir fyrirtækið sig í sölu og þjónustu á dælum til sjávarútvegs, sumarbústaða og til fleiri nota. En nú hefur bæst við ný deild sem er Ducati-hjólin.
Stútfullur af súrefni"
Hann fór umsvifalaust í gagnaöflun af ýmiss konar tagi. Hann skoðaði innflutning á mótorhjólum til Íslands sem er töluverður og síðan bjó hann til söluáætlun fyrir Ducati.
"Þeim leist vel á þetta og síðan lá leið okkar til Bologna í höfuðstöðvar Ducati. Við skoðuðum verksmiðjuna og sáum vörulínuna og safnið. Sonur Eiríks, Hrólfur, er mótorhjólamaður og þegar hann gekk inn á safnið sáum við geðshræringuna sem hann komst í. Ég uppgötvaði að það var svipað fyrir Hrólf að koma inn á þetta safn og fyrir mig þegar ég, Elvis-aðdáandinn, kom í Graceland í Memphis á sínum tíma."
Ducati er lífsstíll
Hann bendir á að mörg ljón séu á veginum fyrir innflutningi á mótorhjólum til Íslands. Greiða þurfi há flutningsgjöld og 30% vörugjöld auk 25% virðisaukaskatts af hjólunum.
"Hjólin eru dýr þegar þau eru loksins komin til Íslands. Við fórum yfir þetta með Ítölunum og þeir vilja hjálpa okkur til að geta boðið upp á gott verð í byrjun. Besta auglýsingin fyrir okkur er sú að einhver kaupi Ducati-hjól og sjáist á því í Reykjavík eða úti á landi."
Hjalti er stórhuga og hefur ýmislegt á prjónunum. "Við ætlum að stofna eigendaklúbb Ducati á Íslandi og hjóla einu sinni í viku. Á næsta ári ætlum við að flytja hjólin til Ítalíu og taka þátt í Ducati-helginni. Auk þess ætlum við í ökuskóla hjá Ducati, bæði fyrir götuhjól og keppnishjól, til að gera okkur að betri ökumönnum. Við gerum þetta af áhuga og ástríðu, eins og kjörorðið er hjá Ducati."
Morgunblaðið
2. júlí 2003