15.12.05

JÓLAHJÓL

DÆGURLAGIР

Það var í gömlu góðu árdaga Sniglanna sem þetta klassíska jólalag kom í heiminn. Mótorhjólatöffarinn og leikarinn Skúli Gautason á heiðurinn af lagi og texta.

 „Ég átti afmæli og það var veisla heima hjá mér,“ svarar Skúli aðspurður hvernig lagið varð til. Þá leigði hann hús ásamt Þormari Þorkelssyni, öðrum mótorhjólatöffara, á Görðum við Ægisíðu.
„Þar var hálfgert félagsheimili fyrir mótorhjólabullur og oft gestkvæmt og glatt á hjalla,“ segir Skúli. Hann rifjar síðan upp það sem fór fram í örlagaríku afmælisveislunni.

 Börn og mótorhjól 

„Við vorum eitthvað að velta fyrir okkur hvernig hugsunarhátturinn hefði verið hjá mótorhjólatöffurunum þegar þeir voru börn, um hvað þeir voru að hugsa. Flestir voru á því að hafa átt draum að fá mótorhjól í jólagjöf. Svo fóru af stað vangaveltur um það hvort hann væri ekki svolítið áberandi pakkinn og hvort það væri eitthvað hægt að fela þann pakka því að jólagjafir eiga að koma á óvart, ekki satt?“ Upp úr þessum umræðum og vangaveltum spratt svo lagið „Jóla-hjól“ og þar sem þetta var afmælisveislan hans Skúla var honum gefið það loforð í afmælisgjöf að lagið skyldi koma út á plötu. Hann og Þormar mæta daginn eftir upp í stúdíó Mjöt til að taka upp tvö lög, þar á meðal lagið um jólahjólið. „Þetta var glamrað á kassagítar og við bara rauluðum þetta inn,“ segir Skúli.

Milljón dollara hugmynd

Ætlunin var að gera lítinn 45 snúninga vínil og fóru þeir með upptökurnar upp í plötupressuna Alfa sem þá var suður í Hafnarfirði.
 „Þá voru þeir í plötupressuninni í miðju jólaplötuflóðinu og voru einungis í því að pressa stóru 33 snúninga plöturnar. Til að koma okkar plötu inn hefði þurft að afgreiða allar stóru plöturnar fyrst og það var of mikið mál.“
 Á endanum varð platan þeirra á stærð við 33 snúninga plötu en spilanlegi hlutinn aftur á móti aðeins á stærð við 45 snúninga plötu. Meira en helmingur plötunnar var sem sagt auður. „Síðan gáfu þeir okkur hvítt umslag utan um og við Þormar handskreyttum þessi hvítu umslög eftir óskum hvers viðskiptavinar og seldum þetta bara úti á götu. Við sögðum auðvitað ekki frá því að auða svæðið á plötunni væri út af þessum vandræðum í plötupressunni heldur létum við í veðri vaka að þetta væri alveg sérhannað. Þetta væri svona handfang þannig að maður gæti alveg gripið um plötuna með fitugum fingrum án þess að það kæmi niður á hljómgæðunum. Alveg milljón dollara hugmynd. Við prentuðum plötuna í einhverjum fimm hundruð eintökum sem seldust upp þessi jól.“

Morgunblaðið 15.12.2005

27.10.05

Með bensín í blóðinu

Tryggvi Sigurðsson
 Það fæðast sumir með bensín í blóðinu og það er með það eins og svo margt annað í lífinu, þetta leggst í ættir og er Tryggvi Sigurðsson talandi dæmi um það. Hann er þriðji ættliðurinn sem haldinn er bíladellu á háu stigi og ekki er hann minni áhuginn á mótorhjólum. Bílaeignin endurspeglar þennan áhuga, hún er ekki mæld í jeppum heldur bílum og mótorhjólum sem eiga sér sögu og hafa sál og djásnin eru Ford Mustang 68 og Harley Davidsson mótorhjól. Tryggvi er Eyjamaður í húð og hár, sonur Sigurðar Tryggvasonar og afinn er Tryggvi Gunnarsson oft kenndur við Hornið og sjálfur segist Tryggvi tilheyra Hornaflokknum. Tryggvi er vélstjóri á Frá VE en hann á sér annað áhugamál sem eru skip og bátar. Það er ekki margt sem hann veit ekki um báta sem einhvern tíma hafa verið gerðir út frá Vestmannaeyjum, hann á mjög gott myndasafn af bátum og síðast en ekki síst smíðar hann líkön af skipum og bátum af ótrúlegri nákvæmni þar sem nostrað er við hvert smáatriði.
Þetta áhugamál er efni í stórt og mikið viðtal en nú ætlunin að halda sig við bíla og mótorhjól. Tryggvi tekst allur á loft þegar hann er spurður um Mustanginn og hann hellir tölulegum staðreyndum yfir blaðamann sem veit ekki hvaðan á sig stendur veðrið. „Þetta er Ford Mustang árgerð 1968, Fastback
Ford Mustang Fastback 1968
sem mér fínnst skipta miklu máli. Vélin er V8, 302 rúmsentimetrar og gæti verið um 250 hestöfl. Bíll og vél er upprunalegt og hann er m.a.s. á upprunnalegum felgum," segir Tryggvi um þennan dýrðar bíl. Tryggvi er búinn að eiga Mustanginn í tvö ár, en hann var ekki einn um hituna. „Eg var búinn að bíða lengi eftir honum og þeir slógust um hann bíladellukarlarnir. Fyrri eigandi býr á Skagaströnd og þar stóð bíllinn inni í bílskúr nema á tyllidögum, var bara notaður spari. Það er búið að keyra hann 58.000 mílur sem er ekki mikið á tæplega 40 árum." Tryggvi segir að Mustanginn hafi verið í þessu standi þegar hann keypti hann en var nýsprautaður þegar hann var fluttur inn árið 1990. „Eg keypti hann á milljón á borðið sem eru eðlileg afföll af heimilisbílnum á tveimur árum." Tryggvi segir að Ford Mustang hafi alla tíð verið draumabíllinn enda mjög vinsæll þegar hann var að alast upp. „Þegar ég var peyi átti Silli Þórarins flottan Mustang og þegar ég fékk bílpróf 17 ára fékk ég að keyra hann og það var mikil upplifun fyrir ungan svein." En Tryggvi er ekki sá eini sem er haldinn þessum kvilla ef kvilla skyldi kalla. „Það hefur alltaf verið bíladella í Hornaflokknum," segir hann og vísar til þess að fjölskyldan hafi löngum verið kennd við Hornið. „Maður ólst upp við þetta, afi Tryggvi  Gunnarsson eða Labbi á Horninu eins og hann var oft kallaður var bæði með bíla- og mótorhjóladellu, pabbi, Siggi Labba, hélt uppi merki afa í þessum efnum og við bræður mínir eru líka bíladellukarlar. Addi Steini er flottur á því, keyrir um á Porche og sá yngsti er verri en við Addi Steini til samans," sagði Tryggvi.
Þá er komið að mótorhjólunum og þar er ekki komið að tómum kofunum því Tryggvi á fjögur mótorhjól og það elsta er frá árinu 1946. „Mótorhjólin tóku allan minn tíma og pening þegar ég var ungur það tók maður í arf frá bæði pabba og afa. Þar var Hornaflokkurinn enn og aftur á ferðinni. Það er rétt að ég á fjögur mótorhjól í dag en að sjálfsögðu byrjaði maður á skellinöðru."
Tryggvi segir að þetta með mótorhjólin hafi verið svolítið í bylgjum og enn hefur hann ekki fjárfest í draumahjólinu en hann getur ekki kvartað. „Draumamótorhjólið er að sjálfsögðu Harley Davidsson V Road en það er það dýrt að ég get ekki réttlætt það fyrir sjálfum mér að eiga slíkan dýrgrip. En maður verður að eiga einn Harley og ég á Harley Davidsson Sportster 1200, árgerð 2000. Svo á ég tvö Hondahjól, CB-750 af árgerðum 1975 og 1976 sem eru sams konar hjól og ég átti og þegar þú varst að elta mig," sagði Tryggvi hlæjandi og vísaði til fyrri starfa blaðamanns í lögreglunni.
„Fjórða hjólið er Matchless 500 árgerð 1946 sem ég gerði upp. Ég gaf það nú eiginlega syni mínum og hann notar það sem stofustáss. Hann fékk líka hjá mér skellinöðru sem ég gerði upp. Hún er af gerðinni Honda Dax, árgerð 1971 og var upphaflega 50 rúmsentimetrar en er í dag 85 og enginn má vita það."
 Áttu þér annan draumabíl en Mustang? „Mig hefur lengi langað í jafnaldra minn, Chevrolet Bel Air 1957. Annars hef ég aldrei verið með einhverja einstefnu í bílategundunum, hef verið blessunarlega laus við það. Benz er vandaðasti bíllinn, en samt er það nú svo að hver bíll hefur sín einkenni eða öllu heldur karakter."
Er bíladella eitthvað sem eldist afmönnum? „Ég veit það ekki, sjálfur ætla ég að halda þessu áfram á meðan það gefur mér einhverja ánægju. Það sem háir mér er lítill tími því það fer mikill tími í bátasmíðina, svo er það fjölskyldan og sjómennskan og svo er ég  með dellu fyrir bátum og skipum í fullri stærð og á mikið myndasafn og þekki sögu flestra í
Eyjaflotanum. Til að slappa af frá þessu öllu saman finnst mér best að stíga á mótorhjól og taka einn hring. Eg þekki ekkert sem er eins afslappandi," sagði Tryggvi að lokum.

Eyjafréttir 27.10.2005

23.8.05

Þingmaður í leðri Geysist um á mótorfák

Þingmaðurinn Magnús Þór Hafsteinsson hefur endurnýjað kynni sín við Kawasaki-mótorhjól sem hann fór á um stóran hluta Noregs um miðbik síðasta áratugar. Hann rann af stað á mótorhjólinu frá heimili sínu á Akranesi í gær og framundan voru einhverjir torförnustu þjóðvegir landsins á leiðinni til Ísafjarðar.
„Ég er búinn að eiga þetta hjól í tíu ár," sagði Magnús Þór, skömmu fyrir brottför í gær, og hugurinn hvarf aftur til Norður Noregs á 10. áratugnum. „Ég hef farið nokkrum sinnum um allan Noreg og allar Færeyjar. Ég hef nú lent í mörgum svaðilförum á þessu hjóli. Ég var á því í mörg ár, bjó í Noregi og ferðaðist á því með tjald og svefnpoka. Upp á síðkastið hef ég bara verið að eignast börn og svona og er fyrst núna að draga hjólið fram aftur," segir hann.
Erindi Magnúsar Þórs á Ísafirði var fundur Vestnorræna ráðsins sem hófst þar í gær. Er þar um að ræða vettvang þar sem ísland er stórveldi við hlið Færeyja og Grænlands. Íbúar Vestfjarða geta átt von á að fá að berja þingmanninn augum næstu daga, þar sem hann geysist um héraðið, leðurklæddur á mótorfák. „Ég ætla að fara um Vestfirðina næstu daga og hitta fólk. Og gera úttekt á vegakerfinu, þannig að maður viti hvað maður er að tala um á Alþingi. Ég fer um sunnanverða firðina, ég er ættaður þaðan," segir hann. Og hjólið er ekki á leiðinni inn í bílskúr á næstunni.
Magnús Þór hefur í hyggju að nota það í vetur Það er rosalega gott að vera á mótorhjóli, sérstaklega Reykjavík, þar sem umferðarþunginn er orðinn gríðarlegur.  Ef maður er á mótorhjóli fer maður fyrstur af stað á hverjum ljósum. Jafnvel í mestu umferðarhnútum. Þess fyrir utan fær maður allt aðra tilfinningu fyrir landinu á mótorhjóli en í bíl."
DV 23.08.2005

6.8.05

Gullhjólið er notað á góðviðrisdögum

Sigurður O. Björnsson er stoltur eigandi að Harley Davidson mótorhjóli. Mikil þrautaganga var að koma því til landsins en gullhjólið, eins og strákarnir á Kárahnjúkum kalla gripinn, var alveg þess virði.

„Ég er alveg klár á því að það er ekki til neitt Harley Davidson hjól í líkingu við þetta,“ segir Siggi.
Enda erum við að tala um hundrað ára afmælisútgáfu af Harley Davidson Softail Deuce frá árinu  2003.
„Það var töluvert bras að koma hjólinu hingað. Ég þurfti að kaupa það frá Ameríku,“ segir Siggi.
Hann fór því sjálfur til Ameríku og hlóð hjólið aukahlutum sem ekki eru fáanlegir hérna. Þetta
fyrirkomulag kostaði þó töluverð vandræði. „Reglurnar hjá Harley Davidson í Ameríku eru þannig að þeir selja ekki nokkrum manni nýtt hjól nema að hann hafi amerískt ökuskírteini og lögheimili.
Það sem bjargaði mér í þessu er að ég er amerískur ríkisborgari svo ég gat farið og tekið bílprófið,“ segir Siggi sem bætir við að hjólið sé sérstaklega flott af því að það sé í hundrað ára afmælislitunum
„sterling silver og wild black“. En af hverju gullhjól? „Við vorum að grínast með þetta uppi á Kárahnjúkum þar sem ég vinn, því ég fékk gulllykil með hjólinu því þetta er afmælis útgáfa. Það fengu ekki allir svona lykil nema bara sérstakir viðskiptavinir. Hann kom í öskju og með keðju til að hafa um hálsinn,“ segir Siggi. Hann bætir við að strákarnir hafi dálítið strítt honum á þessu og verið hneykslaðir á því að hann hafi ekki viljað keyra um á hjólinu uppi á Kárahnjúkum. „Það fer ekki  nokkur maður með neitt mótorhjól upp að Kárahnjúkum nema að það sé torfæruhjól. Gullhjólið er líka svo flott að maður notar það ekki nema bara á góðviðrisdögum.“
annat@frettabladid.is

2.7.05

Viðtal við Dagrún Jónsdóttir Mótorhjólakonu 2005

Dagrún Jónsdóttir þekkja flestir mótorhjólamenn sem hjóluðu á síðustu öld... bæði var hún í stjórnum Snigla og í  formaður Vélhjólafélag Gamlingja og þrældugleg við að safna gömlum mótorhjólum og gera upp gamla Harley Davidson.

Okkur var bent á þetta viðtal sem leyndist á netinu hjá Ruv.. njótið

Viðtal við Dagrúnu Jónsdóttir 2005 byrjar á 13:40

21.6.05

Haldið upp á 100 ára afmæli mótorhjólsins á Sauðárkróki

Birgir Örn Birgisson
í Brautinni

(Gamalt efni)
Á milli 1000-1500 manns í afmælinu

Afhjúpun minnismerkisins var tvímælalaust hápunkur hátíðarinnar," sagði Helga Eyjólfsdóttir, einn skipuleggjenda afmælishátíðarinnar.
Helga var jafnframt eini kvenkyns keppandinn í vélhjólakeppnunum helgarinnar.Veðursins vegna voru þátttakendur eitthvað færri en vonir stóðu til, en þó er áætlað að á bilinu 1200-1500 manns hafi verið á svæðinu þegar mest var. 

Þrátt fyrir að veðurguðirnir hafi ekki verið hliðhollir hjólafólkinu skemmti bæði það og aðrir áhugasamir áhorfendur sér vel við að fylgjast með hinum ýmsu vélhjóla keppnum sem fram fóru

19.6.05

100 ára afmæli Mótorhjólsins á Sauðárkróki

Á milli 1000-1500 manns í afmælinu

Afhjúpun minnismerkisins var tvímælalaust hápunkur hátíðarinnar," sagði Helga Eyjólfsdóttir, einn skipuleggjenda afmælishátíðarinnar.
Helga var jafnframt eini kvenkyns keppandinn í vélhjólakeppnunum helgarinnar.Veðursins vegna voru þátttakendur eitthvað færri en vonir stóðu til, en þó er áætlað að á bilinu 1200-1500 manns hafi verið á svæðinu þegar mest var. 

Þrátt fyrir að veðurguðirnir hafi ekki verið hliðhollir hjólafólkinu skemmti bæði það og aðrir áhugasamir áhorfendur sér vel við að fylgjast með hinum ýmsu vélhjóla keppnum sem fram fóru
víðsvegar um bæinn á laugardeginum. Að mati Helgu stóð afhjúpun minnismerkisins í Varmahlíð á sunnudeginum uppúr öllum dagskrárliðum á hátíðinni, enda tilfinningaþrungin stund fyrir marga,
sérstaklega þá sem hafa misst einhverja nákomna sér í bifhjólaslysum.

Að veðrinu undanskildu voru forsvarsmenn hátíðarinnar mjög ánægðir með hvernig til tókst og höfðu á orði hversu vel hafi verið tekið á móti þeim. Vildu þeir koma á framfæri þökkum til bæði

18.6.05

Frábært fjölskyldusport

Inda Björk Alexandersdóttir

Inda Björk Alexandersdóttir var að fá sér nýtt mótorhjól. Hún fékk delluna fyrir þrettán árum og eftir það varð ekki aftur snúið.

„Fyrrverandi sambýlismaður minn átti hjól og ég smitaðist af bakteríunni,“ segir Inda. „Ég var ekki einu sinni með próf þegar áhuginn vaknaði, en ég dreif mig að taka prófið um leið og ég mátti. Þetta er þess eðlis að maður verður auðveldlega húkkaður.“
Fyrsta hjólið sem Inda eignaðist var 100 Kawasaki, árgerð ‘78. „Það var ágætis græja, en þetta sem ég var að fá núna er meiriháttar. Þetta er Triumph Speedmaster, rosalega hippo. Ekki hippalegt,“ útskýrir hún, „meira svona króm. Hippahjólin voru gömlu Goldwingarnir sem voru eins og hálfgerð sófasett.“
  Inda pantaði hjólið upp úr bæklingi og var jafnvel örlítið smeyk um að það væri ekki nógu stórt. „Félagi minn er kominn  með Triumph-umboðið á Íslandi sem er nú virkt á Íslandi í fyrsta skipti í 25 ár. Nú þegar ég er búin að fá það og prófa það er ég alsæl.“
  Inda segist ekki beint geta skilgreint hvað það er sem er svona skemmtilegt við mótorhjólasportið. „Það er bara allt. Maður kemst í beina snertingu við náttúruna þegar maður er á ferð um landið og það er svo gott að vera einn með sjálfum sér. Þetta er bara svo ólýsanlega gaman.“
  Inda á þrjú börn, ellefu ára , fimm ára og eins árs og þessi ellefu ára mjög áhugasamur. „Þetta er sport sem hentar fjölskyldufólki og nú erum við til dæmis á leið á fjölskylduhátíð á Siglufirði með Sniglunum.“
  Inda segir enn örla á fordómum gagnvart mótorhjólafólki og segir brýnt að það breytist. „Það er ekki auðvelt að vera á mótorhjóli í umferðinni, aðallega vegna tillitsleysis og frekju þerra sem eru á bíl. Þetta verður að laga og það gerist ekki nema með áróðri og meiri skilningi.“
Fréttablaðið 18.06.2005

10.6.05

Hliðarvagninn tekur í

Akureyri 

Kraftakarlinn Torfi Ólafsson er mikill áhugamaður um mótorhjól, enda einn af stofnendum Sniglanna og með félagsnúmer 54. Hann fjárfesti nýlega í mótorhjóli frá Bandaríkjunum en um er að ræða 40 ára afmælisútgáfu af Hondu Goldwing 1500, árgerð 1989. Hjólið er með hliðarvagni og vegur alls um 630 kg fyrir utan ökumann „en er mun þyngra með ökumanni,“ eins og Torfi orðaði það sjálfur. Hann sagði að mun erfiðara væri að aka þessu hjóli, þar sem hliðarvagninn tæki hraustlega í en hann hefur þó verið að bjóða öðrum fjölskyldumeðlimum á rúntinn. Hann stefnir svo í lengri ferðir þegar hann hefur náð betri tökum á ökutækinu. Torfi ætlaði upphaflega að kaupa stakan hliðarvagn, þar sem hann á annað mótorhjól, Hondu Goldwing 1200, sem einnig er afmælisútgáfa frá fyrirtækinu. Vagninn einn og sér var hins vegar það dýr að Torfa þótti hagkvæmara að kaupa hjól með vagni.
Morgunblaðið 10.06.2005

25.5.05

Íslandsmet í hópakstri á mótorhjólum verður sett í júní

Allt að 700 mótorhjól keyra saman 

MILLI 500 og 700 mótorhjól hvaðanæva af landinu munu aka saman síðasta spölinn frá Varmahlíð til Sauðárkróks 16. júní en þá helgi verður þess minnst að 100 ár eru frá því að fyrsta mótorhjólið var flutt til landsins. Ökumennirnir munu leggja af stað frá sinni heimabyggð um morguninn og mætast klukkan 22 um kvöldið í Varmahlíð. Ekið verður í hóp frá Suðurnesjum, í gegnum  höfuðborgarsvæðið og norður í land annars vegar og hins vegar munu ökumenn af Austurlandi og Akureyri hafa samflot til Varmahlíðar.
Hjörtur L. Jónsson, skipuleggjandi hátíðarinnar, býst við því að um 2.000 gestir komi á hátíðina. Hann segist hafa fengið þessa geðveikislegu hugmynd í kollinn og ákveðið að framkvæma hana. Hann setti sig í samband við mótorhjólaklúbba um land allt og hafa viðtökurnar verið góðar. 
„Ég var að vonast eftir því að um 500 hjól kæmu en er hræddur um að þau verði nær 700,“ segir hann. Ljóst er þó að Íslandmet mun falla þegar hjólin koma saman og keyra síðasta spölinn og skiptir þá litlu máli hvort þau verða fimm eða sjö hundruð, þar sem gamla metið er 234 hjól, en það settu Sniglarnir á 1. maí hópkeyrslu sinni hér innanbæjar.“ Hjörtur segir mikla áherslu lagða á að hafa stjórn á umferðarálaginu sem muni myndast vegna þessa, sérstaklega í ljósi þess að Bíladagar eru haldnir á Akureyri þessa sömu helgi. Þannig verður mikið samstarf við lögregluyfirvöld á svæðinu auk þess sem Esso hefur samþykkt að gefa hjólamönnum frímiða í Hvalfjarðargöngin 16. júní.

Minnisvarði um látna bifhjólamenn afhjúpaður

Ýmsilegt er í boði á dagskrá hátíðarinnar og má meðal annars nefna að á sunnudeginum verður afhjúpaður í Varmahlíð  minnisvarði um alla þá sem hafa látist í mótorhjólaslysum hér á landi en minnisvarðinn er gefinn af Sniglunum.
Að öðru leyti segir Hjörtur áherslu lagða á að hátíðin verði fjölskylduvæn. „Hugmyndin  var að sameina alla mótorhjólamenn, torfæru- og götuhjólamenn í eina fjölskylduhátíð. Mótorhjólasport hefur alltaf áhrif á fjölskylduna, hvernig sem á það er litið og hugsunin var sú að fjölskyldan gæti öll skemmt sér með mótorhjólamönnunum og heimamenn líka.“
Eftir Árna Helgason
arnihelgason@mbl.is
25.05.2005

19.4.05

Ættarmót mótorhjólamannsins


Það var árið 1905, 19. júní nánar tiltekið, að maður að nafni Þorkell Clemenz flutti fyrsta mótorhjólið til íslands. Af því tilefni ætla bifhjólamenn landsins að koma saman í Skagafirði um þjóðhátíðarhelgina og fagna þessum merka áfanga. Mótorhjólaæði hefur gripið um sig á Sauðárkróki.

Það eru fjórtán mótorhjólasamtök sem koma að hátíðinni í samstarfi við Vélhjólaklúbb Skagafjarðar. Heilmikið stendur til, eins og gefur að skilja, og eru það tveir stórir atburðir sem vekja hyað mesta athygli. Sá fyrri er sameiginleg hópkeyrsla frá Varmahlíð til Sauðárkróks að kvöldi 16. júní sem  markar upphaf hátíðarinnar. Hinn seinni er svo á lokadeginum, er afhjúpaður verður minnisvarði um þá sem látist hafa í bifhjólaslysum.
Maðurinn á bak við hátíðina er Hjörtur L. Jónsson. Hann fékk hugdettu um að hrinda slíkri hátíð í framkvæmd og lét bara verða af því að eigin sögn. „Ég fæ stundum brjálaðar hugmyndir og ef þær eru nógu brjálaðar reyni ég að framkvæma þær.
Þannig byrjaði Enduro-ið á íslandi og þannig byrjaði Mótorhjólakvartmílan árið 1989," segir Hjörtur en keppnirnar sem hann vísar til eru vel þekktar innan torfæruhjólaheimsins.

Mótorhjólinu til heiðurs

„Hugmyndin var upphaflega sú að koma saman á einhverju tjaldsvæðinu og halda upp á 100 ára afmæli mótorhjólsins á Íslandi," segir Hjörtur. „En til þess að allir geti fengið eitthvað fyrir sinn snúð eru líka alls kyns atburðir á dagskrá, bæði fyrir götuhjól og torfæruhjól. Vélhjólafélag Skagafjarðar ætlar að halda utan um aksturskeppnirnar sem verða aðallega fyrir torfæruhjólin." Hjörtur ítrekar að þær keppnisgreinar sem keppt er í séu ekki hluti af þeim greinum sem keppt er í til íslandsmeistara yfir allt sumarið. „Þetta er eingöngu til gamans gert og mótorhjólinu til heiðurs. Hátíðin hefur verið kölluð ættarmót mótorhjólamannsins og er því aðaláherslan lögð á samveru og skemmtun."
Hjálmar segir að hátíðin sé fjölskylduhátíð. „Það verður engin kvölddagskrá skipulögð enda kemur slík dagskrá, svo sem böll og tónleikar, sterk inn hjá landsmótí Sniglanna sem er haldin hálfum mánuði síðar. Við leggjum allt upp úr því að hafa hátíðina eins fjölskylduvæna og hægt er. Það er svo þegjandi samkomulag meðal allra bifhjólaklúbba að þeir eru ekki með neina dagskrá hjá sér þessa helgi."

Mótorhjólaæði á Sauðárkróki

Fjölmargir klúbbar eru starfræktir um landið allt en þeir þekktustu eru Vélhjólaíþróttaklúbburinn (VÍK) og Sniglarnir. En þó svo að klúbbarnir séu margir eru félagsmennirnir nánast.  undanteknfngarlaust í fleiri en einum klúbbi. „Einn sem ég talaði við um daginn sagðist vera í sjö klúbbum. Við búumst þó við þónokkrum fjölda, aldrei færri en 500, en ef gestirnir verða mikið fleiri en tvö þúsund lendum við sjálfsagt í vandræðum," segir Hjörtur sem sjálfur er meðlimur í  Sniglunum.  Hátíðin verður á Sauðárkróki eins og fyrr segir og eru heimamenn þar í skýjunum yfir að fá mótorhjólamenn landsins í heimsókn til sín. Segja má að háffgert mótorhjólaæði hafi gripið
um sig en bæði sveitarstjórinn og formaður bæjarstjómar hafa fest kaup á mótorhjóli í tílefni hátíðarinnar. „Jú, sveitarstjórinn okkar, Ársæll Guðmundsson, lét gamlan draum rætast og fékk sér mótorhjól," segir Áskell Heiðar Ásgeirsson, sviðsstjóri í Ráðhúsinu á Sauðárkrókí. „Við héldum tvö glæsileg landsmót ungmennafélaganna í fyrra og sýndum þá að við getum tekið á mótí þónokkrum  fjölda af fjölskyldufólki og haldið hér glæsilega hátíð. Vonandi verður þetta í þeim anda. Svo er vonandi að við náum að rugla saman reitum okkar í kringum þjóðhátíðarhöld okkar."

Nóg að gera 

„Dagskráin er nokkurn veginn klár," segir Hjörtur. „Það eina sem er enn í vinnslu er gerð minnisvarðans. Búið er að hanna hann og menn eru tílbúnir að vinna nánast frítt en það vantar enn fjármagn tíl að kaupa efhið. Það vantar enn styrktaraðila tíl þess." Auk þess að dagskráin er smekkfull af torfærukeppnum og öðru slíku verður nóg um að vera fyrir alla fjölskylduna. Á  laugardeginum verður til að mynda heilmikil dagskrá á íþróttavellinum, til að mynda mótorhjólamannafótboltí. Reglurnar í þeirri íþrótt líkjast á engan hátt hefðbundnum  knattspyrnureglum. Tjaldsvæði verður boðið endurgjaldslaust fyrir mótsgesti í boði sveitarfélagsins.
eirikurst@dv.is
DagblaðiðVísir 19.04.2005 
*Tían breytti aðeins greininni frá frumgreininni Þar sem Nafn Hjartar L J. var ekki rétt skrifað inn í greinina.
en þar var hann skrifaður inn sem Hjálmar.

21.3.05

Hvers vegna verða mótorhjól ósýnileg?

Þegar snjóa leysir og mótorhjólin fara að birtast á götunum þykir mótorhjólafólki oft ástæða til að minna á sig og ekki að óþörfu. Njáll Gunnlaugsson spyr hvers vegna sumir velviljaðir ökumenn keyra bíla í veg fyrir mótorhjól og stöðva svo þar skyndilega.


ÞETTA er spurning sem mótorhjólafólk hefur lengi velt fyrir sér og nú er komin fram kenning sem gæti varpað ljósi á málið. Samkvæmt nýlegum vísindalegum uppgötvunum verður mótorhjólið ökumönnum bíla því sem næst ósýnilegt þegar því er ekið beint í áttina að þeim. Þetta fyrirbæri kallast feluhreyfing og lætur hluti sem eru á hreyfingu beint í áttina að marki sínu, falla saman við bakgrunninn. Þegar mótorhjólið verður skyndilega sýnilegt aftur er fyrsta viðbragð ökumanns bílsins að frjósa og snarstoppa bílinn, oftar en ekki beint fyrir framan aðvífandi mótorhjólið. Þetta fyrirbrigði er vel þekkt úti í náttúrunni og drekaflugan notar þetta bragð til að koma bráð sinni á óvart.

Rekur í rogastans

Þessi feluhreyfing mótorhjólsins í áttina að bílnum gerist þegar mótorhjólinu er ekið í beina línu í átt að bílnum. Í huga ökumannsins virðist mótorhjólið ekki stækka og blandast það því saman við bakgrunninn og verður ósýnilegt. Heili ökumannsins er á þessu augnabliki stilltur til að nema hreyfingu og þess vegna verður hann ekki var við mótorhjólið. Þegar mótorhjólið nálgast svo að bílinn meira stækkar það og verður því ökumanninum skyndilega sýnilegt aftur svo að hann frýs í sporum sínum.
Feluhreyfingu þessari var fyrst lýst í kenningu Srinivasan og Davey árið 1995 um hvernig drekaflugur nota þessa tækni til að ráðast á bráð sína í loftinu. Það var svo breski mótorhjólakennarinn Duncan MacKillop sem kom auga á samhengið og staðfærði þetta yfir á það vel
þekkta fyrirbæri þegar svínað er fyrir mótorhjól.
„Feluhreyfing skordýrsins notfærir sér viðbragð  heilans við skyndilegri hreyfingu,“ útskýrir MacKillop. „Stafirnir sem eru til hliðar í sjónhimnunni eru næmari fyrir hreyfingu og vara okkur við henni.“

Mótorhjólið hluti af heildarmyndinni

Ökumaður bílsins lítur jafnvel til hliðar og sér sambland af húsum og bílum í fjarlægð, í mörgum litum og með mismunandi lögun, og mótorhjólamaðurinn verður hluti af þess ari heildarmynd. Allt lítur þetta út fyrir að vera ekki á hreyfingu og því á ökumaður bílsins sér einskis ills von, fyrr en við birtumst óvænt og hann rekur í rogastans. Í náttúrunni gerist þetta venjulega þegar drekaflugan er kominn mjög nálægt og hún notfærir sér hikið og grípur bráð sína.
   Vísindamenn hafa einnig sýnt fram á að hægt er að láta kanínu frjósa hreyfingarlausa með því einu að láta skugga nálægt henni stækka skyndilega. Samkvæmt slysatölum í Bretlandi er ákomustaður mótorhjóla í þessum slysum venjulega á milli framhjóls og A-bita bílsins, sem að gefur til kynna að mótorhjólið verður ökumanninum ekki sýnilegt fyrr en mjög nálægt gatnamótunum.
   Hvað er hægt að gera? Engar tilraunir hafa verið gerðar á þessu fyrirbrigði varðandi mótorhjól ennþá en MacKillop gerði sínar eigin tilraunir sem virðast styðja mál hans. Hann uppgötvaði að hægt er að gera sig sýnilegri. „Ef maður færir sig nær brúninni þegar maður nálgast gatnamót viðheldur það feluhreyfingunni en ef maður heldur sig í beinni línu fjærst vegarbrúninni verður maður sýnilegri fyrr,“ segir MacKillop.
   Þetta styður það sem haldið hefur verið fram um bestu stöðu mótorhjóls á akrein. MacKillop uppgötvaði líka að hægt er að vara bílstjórann við aðvífandi mótorhjóli þannig
að hann sjái það mun fyrr. „Ég komst að því að smávegis svig á akreininni varð þess valdandi að bílstjórinn leit snöggt í áttina að mér og stoppaði áður en að hann kom út á gatnamótin. Sem bifhjólakennari á ég þó erfitt með að ráðleggja fólki að stunda svig í umferð þar sem taka verður inn í dæmið hraðann. Hjólafólk verður að nota skynsemina og muna hversu ósýnileg við virðumst vera öðrum í umferðinni. Þess vegna er alltaf best að hægja á sér við varhugaverð gatnamót,“ segir Mackillop ennfremur.
Morgunblaðið 18 mars 2005

16.3.05

Fagurkeri á glansandi gæðingi (2005)

Guðbjörg Sigurðardóttir fann draumahjólið á Guggenheim-safninu í New York

 Þegar Guðbjörg Sigurðardóttir, verslunareigandi og óperuunnandi með meiru, sest upp á fákinn sinn og þeysist út í íslenska náttúru er það ekki til að slá hraðamet og finna adrenalínið streyma um æðar, jafnvel þótt farskjótinn gangi fyrir vélarafli og það af kröftugu gerðinni. Þvert á móti segist hún ekki hafa minnsta áhuga á  glannaskap eða fífldirfsku þegar hún ferðast um á Harley Davidson mótorhjólinu sínu. „Það er ekki til töffari í mér,“ segir hún með áherslu. Þrjú ár eru

Áhugavert