13.8.96

Tvö Islandsmet í kvartmílu


ÞRIÐJA kvartmilumótið sem gefur stig til íslandsmeistara fór fram á föstudagskvöld. Tvö íslandsmet voru slegin íflokki mótorhjóla. Sigurður Gylfason á Suzuki ók brautina á 10,227 sekúndum íflokki sporthjóla og Gunnar Rúnarsson á sérsmfðuðu Suzukimótorhjóli ók á 9,694 sekúndum.

Margir eiga möguleika á meistaratitli í hinum ýmsu flokkum kvartmílunnar þegar einu móti er ólokið, en það verður 1. september. Með sigri í flokki bíla með forgjöf er Halldór Björnsson á Toyota Corolla með 280 stig eftir keppni helgarinnar en Torfi Sigurbjörnsson 230. Fyrir sigur í einstakri keppni fá ökumenn 100 stig, síðan 10 ef þeir setja íslandsmet. Síðan eru gefín stig fyrir árangur í tímatökum fyrir keppni, sá sem nær besta tíma fær átta stig og sá lakasti eitt stig. í flokki götubíla náði Jón Geir Eysteinsson á Chevelle bestum tíma í tímatökum og vann síðan Agnar Agnarsson í úrslitaspyrnunni. Jón Geir er með 302 stig til meistara og Agnar 208. í flokki útbúinna götubíla vann Sigtryggur Harðarson á Toyota Celica. I þessum japanska bíl er nú átta cylindra Cleveland vél og amerísk hásing að aftan. Fjöðrun hefur því verið gjörbreytt og í vélarsalnum prófaði Sigtryggur að kæla bensínið með ís áður en það náði blöndungunum. Sú tilraun bætti tíma Sigtryggs í brautinni. Hann ók best á 11,95 sekúndum og var á rúmlega 190 km hraða í endamarki. Sigtryggur er með 233 stig í íslandsmótinu, Grétar 193 og Asgeir Örn Rúnarsson 104, en hann lenti í vélarvandræðum í keppninni.

Það voru hinsvegar mótorhjólaökumenn sem settu íslandsmetin. Sigurður Gylfason sem ekki hafði keppt á mótorhjóli í sumar eftir ágætt ár á vélsleða í vetur mætti og setti íslandsmet. Hann ók Suzuki mótorhjóli sem hann settist á klukkustundu fyrir keppni og tókst að vinna Bjarna Valson á Suzuki í úrslitum. Bjarni er hinsyegar með 194 stig til meistara, en Árni Gunnlaugsson sem varð þriðji um helgina er með 152. Valgeir Pétursson á Honda vann í flokki 600cc mótorhjóla, lagði Unnar Má Magnússon á Kawazaki að velli. Besta aksturstíma i mótinu náði Gunnar Rúnarsson í flokki ofurhjóla á sérsmíðaðri Suzuki mótorhjólagrind. Hann ók á 9,694 sekúndum á sannkölluðu tryllitæki sem hann hefur smíðað með aðstoð margra félaga sinna.

Morgunblaðið 13.8.1996

27.7.96

Frá bifhjólum til blúndna

Viðtal við Vœringjann Atla Bergmann

— Hverjir eru Vœringjarnir? 
„Væringjarnir er fjögurra ára gamall óformlegur félagsskapur áhugafólks um mótorhjol, ferðalög og samkomur sem eru lausar við notkun vímuefna. Þeir hafa beitt sér í forvarnamálum og tekið þátt í eða séð um öryggisgæslu á mörgum stórhátíðum, t.d. Uxanum, og tónleikum, s.s. hjá Björk, Bowie og Prodigy. Þá hafa Væringjar staðið fyrir útihátíðum, ýmist í slagtogi með öðrum mótorhjólafélagsskap, Söxum frá Akureyri, eða einir. Þessa helgi stendur sumarmót Væringjanna yfir, Járnfákurinn, sem er vímulaus fjölskylduhátíð."
 — Hvað merkir vœringi?
„Væringjar voru norrænu mennirnir nefndir sem gegndu lífvarðarstörfum fyrir keisarann í  Miklagarði á sínum tíma. En þeim einum þótti treystandi tíl að gæta lífs og lima Miklagarðskeisara."
Hvernig tengjast Sniglarnir, Bifhjólasamtök lýðveldisins, og Vœringjarnir? 
„Flestir Væringjanna eru jafnframt meðlimir í Sniglunum. Sniglarnir hafa starfað í 12 ár. Þeir eru regnhlífarsamtök líkt og Félag íslenskra bifreiðaeigenda. í Sniglunum er yfir eitt þúsund manns, þar má t.d. finna bændur, sjómenn, lækna, lögfræðinga og alþingismann. Sniglarnir eru með sérstakan klúbb fyrir ungsnigla, þ.e. fyrir krakkana á skellinöðrunum, þar sem m.a. er rekinn harður áróður fyrir öryggi í umferðinni. Annars halda Sniglarnir uppi stöðugum áróðri í þeim efnum, bæði á fundum og í fréttabréfinu Sniglafréttir. Þá taka þeir fyrir önnur hagsmunamál bifhjólaeigenda eins og tryggingariðgjöldin, en þau hafa verið óheyrilega há og lögð jafnt á yfir alla línuna, burtséð frá reynslu viðkomandi.
— Hvaða fleiri minni mótorhjólaklúbbar eru starfandi? 
„Það eru t.d. Óskabörn Óðins, en þeir ætla að vera með mót undir Eyjafjöllum um Verslunarmannahelgina, kvennasamtökin Jarþrúður, Beinþýðir, Vættir, Hvítabirnir og Saxar. Milli þessara klúbba er enginn rígur, öfugt við það sem hefur heyrst af mótorhjólasamtökum í útlöndum. Það eru allir vinir, þó að menn haldi auðvitað með sínum félagsskap líkt og menn halda með sínu íþróttaliði."
— Nú hafa fréttir síðustu mánaða sagt frá stríði milli Vítisengla og Bandidos, ofbeldi, fíkniefhasölu og annarri ólöglegri starfsemi. Hafa slíkar fregnir ekki sloem áhrif á ímynd mótorhjólamanna almennt? 
„Jú, óneitanlega. Meðlimir Vítísengla voru t.d. fyrir skömmu stöðvaðir á norsku landamærunum og ekki hleypt inn og borgaryfirvöld í Kaupmannahöfn vilja koma ungmennasamtökum Vítisengla út úr leiguhúsnæði, sem borgin hefur reyndar styrkt þá með. Þannig er heildin farin að líða fyrir það sem eitt prósentið gera."
— Hafa þessi þekktu alþjóðlegu samtök Vítisengla og Bandidos leitað hófanna hér á landi? „Það hafa þeir, en þeir hafa ekki haft erindi sem erfiði og þeim mun aldrei takast að hasla sér völl á íslandi. Við íslendingar erum einu sinni þannig gerðir að við látum ekki auðveldlega að stjórn, allra síst slíkum ógnaraga. Við höfum engan her og kunnum ekki að ganga í takt. Vítisenglarnir hafa oft verið fengnir til að taka að sér öryggisgæslu vegna þess ógnarvalds sem þeir hafa, en Væringjamir, riddarar ljóssins, eru aftur á móti eftirsóttir til slíkra verka af því að þeir eru „straight" og edrú."
— Þessa helgi standa Vœringjarnir fyrir útihátíð, Járnfáknum, að Reykholti í Biskuþstungum. Hvernig hátíð er þetta? 
„Þetta er vímulaus fjölskylduhátíð með fjölbreyttri dagskrá, varðeldi, sameiginlegu grilli og hjólaleikjum. Þá munu koma fram ýmsir lista- og andans menn, sem tengjast Væringjum með einum eða öðrum hætti. T.d. mun hin efnilega hljómsveit Viridan Green og KFUM and the andskotans leika fyrir dansi og Uriel West kennir fólki trans-dans, þ.e. að tengjast sjálfum sér í gegnum gleði dansins með þvi að falla í trans og finna æðra sjálf. DJ Þossi þeytir skífum og skemmtikraftar troða upp.
— Hvemig fólk heldurðu að mæti á Járnfákinn?
„Fólk af öllum stærðum og gerðum, allt frá svartklæddum sniglatöffurum til Laura Ashley blúndukvenna." - gos

15.7.96

Harley Davidson víkur fyrir Kawasaki


Lögreglan í Reykjavík hefur fengiö fjögur ný mótorhjól af gerðinni Kawasaki 1000 og leysa þau þrjú Harley Davidson hjól af hólmi. Hér er um að ræða bandaríska útgáfu af japönsku hjólunum og hafa þau að sögn gefið góða raun vestra. DV-mynd S 1996

13.7.96

Hvað er svona spennandi við mótorhjól? (1996)


Einn með sjálfum sér (1996)


Yfir sumartímann er alltaf eitthvað um að vera hjá Bifhjólasamtökum lýðveldisins, Sniglunum. I dag er hjóladagurinn og um síðustu helgi héldu þeir landsmót. Sveini Guðjónssyni lék forvitni á að skyggnast á bak við tjöldin hjá samtökunum og komast að því hvað væri svona merkilegt við mótorhjól.


Þeir Jón Páll Vilhelmsson og Gunnar Jónsson, stjórnarmenn í Sniglunum, voru rétt að jafna sig eftir landsmótið í Tjarnarlundi í Dalasýslu um síðustu helgi, þegar við hittumst í bifhjólaversluninni Gullsporti. Þar er hægt að fá flest það sem tilheyrir bifhjólaakstri og þessum sérstaka lífsstíl sem Sniglarnir hafa tileinkað sér, allt frá támjóum leðurstígvélum, leðurarmböndum og beltissylgjum

2.7.96

Vann í sinni fyrstu keppni

 

Viggó Örn Viggósson á Yamaha VR 500 vann fyrstu moto kross keppnina, sem haldin var á nýrri keppnisbraut Kappakstursfélags Akureyrar í Glerárdal. Brautin er mjög skemmtileg og ætluðu upphaflega um 20 keppendur að taka þátt, en á endanum kepptu 13. Bleytan fældi hina frá.

„Aðstæðurnar voru hræðilegar, eins og að vera á svelli. En brautin liggur skemmtilega, þó rigning hafi sett strik í rekninginn núna. Eg fór rólega í byrjun og hafði reyndar ekki þrek til .að fara á fullu við þessar aðstæður, ég hefði bara flogið á hausinn," sagði Viggó um keppnina. Hann hefur átt mótorhjól í mörg ár, en var að keppa í sinni fyrstu keppni í moto kross. Hann varð í sjötta sæti í endurokeppni, sem var daginn áður. „Það fylgir því mikil vinna að eiga moto kross keppnishjól, það þarf sífellt að vera að yfirfara hjólin og bæta. Mér sýnst þessi íþrótt vera að vaxa að nýju eftir mögur ár og brautin hérna á Akureyri er mikil lyftistöng, en almennilega braut hefur vantað fyrir sunnan," sagði Viggó. 

Úrslitin eftir 3 moto: 

1. Viggó Viggósson 55 stig,
2. Heimir Barðason, 48,
3. Reynir Jónsson, 45,
4. Vilhelm Vilhelmsson, 33,
5. Jón Haukur Stefánsson, 30,
6. Hákon Asgeirsson, 28,
7. Magnús Þór Sveinsson, 27,
8. Guðleifur Svanbjörnsson, 12 stig.

Dagur 2.7.1996

1.7.96

Torfærumótorhjól þeystu í Garðsárdal (1996)


Ferðalög á „enduro" mótorhjólum eða torfærumótorhjólum sem eru á skrá er mjög vinsæl ástundun sunnan heiða. 


En fyrir skömmu lögðu menn land undir fót og tóku þátt í fyrstu skipulögðu keppninni fyrir „enduro" mótorhjól hérlendis. Hún fór fram í Eyjafirði og tóku 30 keppendur þátt.

„Þetta var hrikalega erfitt, en um leið skemmtilegt. Við þurftum að slást við skurði, mýrar, brekkur, grjót og vegaslóða á leiðinni, sem var 17 km löng og lá um Garðsárdal," sagði Þorsteinn Marel, en hann vann keppnina. Varð fjórum sekúndum á undan Heimi Barðasyni, gamalkunnum motokross  ökumanni. Þorsteinn eða Steini Tótu, eins og félagarnir kalla hann var 16,56 mínútur að aka leiðina. Margir villtust á leiðinni eða festu hjól sín í erfiðri mýri og allavega einn keppandi, kvenkyns, sofnaði á leiðinni eftir að hafa fest hjól sitt í mýri! „Það var talsverð bleyta á leiðinni, þannig að það varð að aka hæfilega varlega til að fljúga ekki á hausinn. Staðir sem keppendur ætluðu að stökkva yfir skurði reyndust varasamir og hraðinn lækkaði verulega," sagði Þorsteinn.
„Sömu keppendur tóku svo þátt í keppni í brekkuklifri og þá vann Finnur Aðalbjörnsson, sýndi mikla lipurð á heimavelli. Mér fannst frábært að koma til Akureyrar og upplifa mörg akstursfþróttamót sömu helgi og hið nýstofnaða Kappakstursfélag Akureyar er skemmtilegasta nýjung í akstursíþróttum síðustu ár. Þetta er virkilega frískir strákar sem standa á bakvið félagið."
Dagur 2.7.1996

28.3.96

Tilbúnir að drepa fyrir félagana


Hell's Angels-mótorhjólaklúbburinn er trúlega einn stærsti og frægasti mótorhjólaklúbbur heims og var nýverið í fréttunum vegna óhugnanlegra morðárása. Atli Bergmann, áfengisráðgjafi og meðlimur mótorhjólaklúbbsins Væringja, kynntist Hell's Angels og öðrum mótorhjólagengjum náið á sínum yngri árum í Kaupmannahöfn. Guðbjartur Finnbjörnsson ræddi við hann um þá lífsreynslu og mótorhjólamennsku almennt.

,,Sterkt bræðralag einkennir flesta þessa mótorhjólaklúbba og félagar eru venjulega tilbúnir að gera hvað sem er fyrir félaga sína, jafnvel drepa. Ég lenti eitt sinn í illdeilum við einn hættulegasta glæpamann Danmerkur á þessum tíma, KimTusindben var hann kallaður... Nokkrum mánuðum seinna var hann drepinn."

Hell's Angels-mótorhjólaklúbburinn var nýverið í fréttum vegna óhugnanlegra morðárása sem áttu sér stað í tveimur flughöfnum í Skandinavíu. Hell's Angels er trúlega einn stærsti og frægasti mótorhjólaklúbbur heims. Hann átti upptök sín í Bandaríkjunum, en Hell's Angelsklúbbar hafa síðan sprottið upp í mörgum löndum, meðal annars á Norðurlöndum. Atli Bergmann, áfengisráðgjafi hjá Krýsuvíkursamtökunum og meðlimur mótorhjólaklúbbsins Væringja, kynntist mótorhjólagenginu Hell's Angels á sínum yngri árum í Kaupmannahöfn. Atli bjó í Kaupmannahöfn á árunum 1980 til 1984 eða eins og hann sjálfur segir frá, á gleðiog sokkabandsárum sínum. „Þetta voru dagar víns og rósa," segir Atli og brosir. „Ég vann í byrjun sem sjúkraliði. Missti svo vinnuna og tók þá til við ljósfælnari iðju. Iðju sem tengdist Kristjaníu og öllu því hassi sem þar fer um. Á þeim tíma fannst mér hass hið besta mál og ekkert hættulegra en Tuborg-bjór, sem að vísu var þá bannaður á íslandi. En þá fannst mér það aðeins tímabundinn misskilningur hjá yfirvöldum að banna hass," segir Atli. Sem betur fer hef ég komist á aðra skoðun í dag og er löngu hættur neyslu á hassi og öðrum vímuefnum." 

Tilbúnir að drepa fyrir félagana

Atli hefur alltaf verið mikið fyrir mótorhjól og í Kaupmannahöfn keypti hann'sér sitt fyrsta stóra hjól. Þá kynntist hann öðrum mótorhjólaáhugamönnum. Náungar sem voru í klúbbi sem kallaðist Black Sheep eða Svörtu sauðirnir. Black Sheep-klúbburinn var svokallaður vinaklúbbur Hell's Angels. „Þessi klúbbur hentaði mér ágætlega því ég hafði alltaf verið svarti sauðurinn í fjölskyldunni," segir Atli og hlær. „Strákarnir í Black Sheep voru helvíti fínir náungar, traustir og stóðu við það sem þeir sögðu. Eiginleiki sem var og er sjaldgæfur í nútímaþjóðfélagi. Mér líkaði því vel félagsskapurinn. Ég var ekki eiginlegur klúbbfélagi en það munaði minnstu að ég gengi í klúbbinn. Menn byrja á því að vera svokallaðir prospects eða líklegir, sem er nokkurs konar reynslutími til að athuga hvort maður sé hæfur í klúbbinn. Og það stóð til að ég gerðist líklegur. Ástæðan fyrir að ég hætti við var að ég þurfti á einhvern hátt að sanna mig fyrir þeim. Það þýddi að ég átti að vera tilbúinn að gera hvað sem var fyrir hópinn. Ég var ekki alveg tilbúinn til þess. Sterkt bræðralag einkennir flesta þessa mótorhjólaklúbba og félagar eru venjulega tilbúnir að gera hvað sem er fyrir félaga sína. Jafnvel drepa. Ég lenti eitt sinn í illdeilum við einn hættulegasta glæpamann Danmerkur á þessum tíma, Kim Tusindben var hann kallaður. Málið var að hjólið mitt var skráð á stelpu sem ég þekkti og hún lét Kim plata sig til að afsala sér hjólinu til hans. Þegar ég bankaði upp hjá honum þungbúinn og vildi fá hjólið mitt aftur beindi hann byssu að höfði mínu og var til alls vís. Heimsókn mín stóð því stutt og ég var nokkuð ánægður með að sleppa þaðan lifandi. Ég flutti heim stuttu seinna en lét félaga mína í Black Sheep vita hvað hefði gerst. Nokkrum mánuðum seinna var hann drepinn. Trúlega verið búinn að svíkja of marga, meðal annars mig. Black Sheep voru síðan nokkrum árum seinna teknir inn í Hell's Angels.

Lét mig hverfa á meðan vinkonur mínar lumbruðu á stráknum

„Bull Shits-mótorhjólagengið var á þessum árum mjög stórt' og öflugt í Kaupmannahöfn. Bull Shit-arar héldu sig mest í Amagerhverfi Kaupmannahafnar og réðu meira og minna lögum og lofum í Kristjaníu. í augum mínum var Bull Shits ekkert annað en glæpagengi og ég átti erfitt með að þola þá," segir Atli. „Þeir voru þekktir fyrir tilefnislaust ofbeldi, berjandi á minni máttar og stjórnuðu í krafti óttans. Ég lenti sem betur fer aðeins einu sinni í þeim. Þá sat ég í rólegheitum inni á bar í Kristjaníu ásamt þremur íslenskum vinkonum mínum. Þar inni var stór hópur Bull Shitara, nokkrir fullir Grænlendingar og svo við. Einn Bull Shit-aranna var með einhver læti og leitaði að einhverjum til að berja á. Hann var búinn að berja tvo eða þrjá Grænlendinga og ætlaði svo í mig. Mér leist ekki alls kostar á aðstæður," segir Atli og glottir. „Ef ég hefði hann undir, hvað myndu félagar hans gera? Og eins ef hann hefði mig undir. Okkur báðum til háðungar og skammar endaði þetta þannig að vinkonur mínar lumbruðu á honum á meðan ég lét mig hverfa."

Hell's Angels afgreiðir sín mál með skoti í nausinn

„Það leið ekki á löngu uns Nautakúkarnir lentu upp á kant við hinn stóra mótorhjólahópinn, Hell's Angels, og þá kynntust þeir ofjarli sínum. Það varð hreinlega opinbert stríð og margir drepnir. Hell's Angels brugðu á það ráð, til að enda stríðið, að drepa foringja Bull Shits, sem kallaður var Makríllinn. Sá sem tók við var bara kallaður Höfðinginn. Stór, mikill, illúðlegur með sítt skegg, allur húðflúraður og líkastur víkingi til forna. Að minnsta kosti eins og maður ímyndar sér þá. Höfðinginn gekk jafnan um með apa á öxlinni. Hell's Angels afgreiddu hann líka með skoti í hausinn," segir Atli. „Eftir það lögðu Bull Shit-arar niður merkin og létu sig hverfa. Þeir voru hreinlega upprættir. Hell's Angels hafa síðan ráðið því sem þeir vilja ráða. Allt þar til Bandidos fóru að láta á sér kræla fyrir nokkrum árum. Bandidos er einn stærsti mótorhjólaklúbbur heims og þeir einu sem ógna eitthvað veldi Hell's Angels. Svo virðist sem Hell's Angels ætli að nota sömu aðferð og þeir notuðu á Bull Shits til að losa sig við Bandidos, drepa foringjana. Það er ótrúlegt að þeir skuli fara með hríðskotabyssu á Kastrup-flugvöll og hreinlega taka foringja Bandidos af lífi. En svona er nú líf þessara manna. Þess má geta að þegar Bull Shits lagði upp laupana þá fundust nokkur lík undir gólffjölum í húsi þeirra. Það er ekki gott að vera óvinur svona manna. Það er engum manni hollt."

Ég er í besta mótorhjólaklúbbi landsins

Mótorhjólaklúbbar eru til um allan heim, einnig hér á íslandi, en að sögn Atla fer það ávallt eftir þjóðfélagsaðstæðum hvernig þessir klúbbar haga sér. „Hell's Angels-gengi í Bandaríkjunum eru trúlega mun hættulegri en í Danmörku og hér á íslandi. í okkar fína litla velferðarþjóðfélagi er engin forsenda fyrir svona skipulögðum glæpaklúbbum," segir Atli. „Þeir íslendingar sem vilja komast í svona klúbb þurfa að fara til útlanda til þess. Það voru nokkrir íslendingar í Bull Shits og meira að segja var einn af stofnendum klúbbsins íslendingur. Hér á landi voru bara stofnuð Bifhjólasamtök lýðveldisins, Sniglarnir, sem er eins hættulaust fyrirbæri og Félag íslenskra bifreiðaeigenda. Svo eru til nokkrir litlir klúbbar eins og Saxar, Óskabörn Óðins, Hrafnar, Hvítabirnir og Riddarar Lúsífers — en það nafn finnst mér reyndar alveg á mörkunum. Ég meina, hvað eru þeir að segja með þessu nafni, þessir annars mætu og góðu drengir? En síðast en ekki síst má ekki gleyma aðalklúbbnum, klúbbnum mínum, Væringjum. Ég er svo stálheppinn að vera í þessum besta mótorhjólaklúbbi íslands. í honum eru einungis fullorðnir, edrú og ábyrgir einstaklingar, flestir með margra ára edrúmennsku að baki og allir með ólæknandi mótorhjólabakteríu. Hinir upprunalegu Væringjar voru góðu gæjarnir á víkingatímum. Víkingar fóru um rænandi, ruplandi, drepandi og nauðgandi. Væringjar aftur á móti voru bræðralag góðra manna sem stunduðu viðskipti. Þeir voru víðfrægir fyrir heiðarleika og nutu mikils trausts alls staðar í heiminum, voru til dæmis lífverðir keisarans í Miklagarði í mörg hundruð ár. Við Væringjar mótorhjólanna erum afsprengi þeirra. Við virðumst líka njóta mikils trausts, því ef á að vera einhver meiri háttar samkoma, stórtónleikar og því um líkt, þá er oftar en ekki kallað á okkur og við beðnir að sjá um gæslu á svæðinu. Við höfum til að mynda séð um gæslu á Uxanum, þegar Björk hélt hljómleika hér, á Prodigyhljómleikunum og meira að segja Sniglarnir hafa beðið okkur að sjá um gæslu á landsmóti þeirra. Eins munum við sjá um gæslu á- öllum stórtónleikum sumarsins auk þess að halda sjálfir veglegt fjölskyldumót í Aratungu í Biskupstungum í sumar, en það er orðið árlegur viðburður. Þetta segir margt um þá virðingu og traust sem við njótum. Þetta er góður félagsskapur og passar mér betur en að vera í Lions-hreyfingunni eða Rotary." 

Íslenskir mótorhjólaklúbbar eiga ekkert sameiginlegt með Bandidos eða Hells Angels

„Meðlimir íslensku klúbbanna eru upp til hópa hið besta fólk sem hefur gaman af að þeysast um á mótorhjólum og líkar vel við leður. Þar fyrir utan eigum við ekkert sameiginlegt með Hell's Angels, Bull Shits og Bandidos. Það má heldur ekki gleyma því að meðlimir þessara illræmdu erlendu klúbba eru aðeins fámennur hópur miðað við þann fjölda sem keyrir um á mótorhjólum í heiminum. í Bandaríkjunum kynntist ég til að mynda góðum hópi sem kallaði sig Ex winos, það er að segja fyrrverandi drykkjumenn. Þar í hópnum voru fyrrverandi meðlimir Hell's Angels. Menn sem höfðu farið í meðferð, snúið við blaðinu en ekki misst áhugann á mótorhjólum. Snúið sér til sólarinnar. Foringi þeirra er dagskrárstjóri einnar stærstu meðferðarstofnunar Minnesota fyrir unglinga, þannig að ekki eru öll erlend mótorhjólagengi byggð á ofbeldi og eiturlyfjum. En munið það að ef þið, á ferðalagi erlendis, rekist á leðurklædda menn merkta Bandidos, Hell's Angels eða menn merkta í bak og fyrir með hauskúpum og því um líku, látið þá í friði og sniðgangið þá. Þetta eru ekki menn sem friðsæll íslendingur ætti að abbast upp á," segir Atli Bergmann að lokum.

 Helgarpósturinn 1996

12.3.96

„Höfum þó meiri áhyggjur af reglugerðabrjálæðingunum"

Dönsku Vítisenglarnir alræmdir fyrir ofbeldi— útrýmdu m.a. annarri klíku fyrir 12 árum. Sniglarnir íslensku segja svona mál alltaf sverta almenningsálitið


Tíminn tók einn þekktasta Snigil landsins, Steina Tótu, tali í gær, en Steini þekkir dável til skandínavísku Vítisenglanna. Hann segir klíku þeirra fyrst og fremst vera eiturlyfjahóp sem merkilegt nokk gefi stórfé til líknarmála. Mótorhjólanotkun þeirra sé fyrst og fremst skálkaskjól.
-Hvemig samtök eru Hells Angels? 
„Þessi samtök eru fræg fyrir ofbeldi. Vítisenglarnir eru eiturlyfjahringur og hafa lítið með mótorhjól að gera en þau eru fyrst og fremst notuð sem skálkaskjól. Það eru aðeins örfáir tugir manna í þessum hringjum, enda þarf miklar kvaðir og læti til að komast í hópinn."
-Hvaða skilyrði þurfa menn að uppfylla til þess?
„Ég veit það ekki, það hafa t.d. engir íslendingar komist í hópinn. Ég veit um tvo eða þrjá sem hafa pælt í því en það hefur ekki gengið." -Sker þessi eini klúbbur sig þá frá öðrum bifhjólasamtökum? „Já, Hells Angels eru sér á heimsmælikvarða. Þetta er lítið öflugt og lokað samfélag sem starfar með líkum hætti hvort sem er í Skandínavíu, Evrópú eða Ameríku. Þessi glæpahringur á alltaf í stríði við aðrar klíkur. Hins vegar eru samtökin sérkennileg hvað það varðar að þau nota stóran hluta eiturlyfjagróðans til að styrkja góð málefni eins og líknarsamtök, mögulega til að halda friði við almúgann."
 -Sem sagt tvöfalt siferði? 
„Alveg rosalega. Þetta er svona biskupssiðferði." -Kemur oft til átaka á milli mótorhjólahópa? „Nei ekki oft, en það eru sennilega svona 12 ár síðan Hells Angels í Danmörku reyndu að útrýma öðrum flokki. Ég held að af 30 manna hópi hafi bara fjórir eða fimm lifað af."
-En hvað ykkur snigla varðar, ýtir svona atvik undir fordóma gagnvart Bifhjólasamtökum lýðveldisins? 
„Já, svona hlutir hafa alltaf geit það. Það er reyndar ekki langt síðan allur almenningur taldi mótorhjólamenn vera svona. Þess vegna hafa Sniglarnir reynt að dreifa upplýsingum til að sýna að við erum bara venjulegt fólk. Það eru orðið tugir manna sem starfa í „bjúrókrasí", mest megnis til að uppfræða almenning."
 -Hvaða leiðir hafiði helstar til að breyta almenningsálitinu?
„Við höldum náttúrlega okkar striki þótt það séu alltaf einhverjar klíkur sem komi óorði á heildina,
nokkrir tugir manna í hverju landi. Hópur eins og dönsku Vítisenglarnir hafa sig hæga almennt,
nema þegar þeir drepa hver annan í sambandi við eiturlyf. Við höfum samt meiri áhyggjur af reglugerðarbrjálæðingum og embættismönnum en þessu tiltekna máli. Slíkt hefur miklu meiri áhrif á líf hjólamanna."
 -Til hvers ertu þá að vísa? 
„Ég er að vísa til þess að fólk fer oft offari. Það eru mjög margir sem sífellt vilja hafa vit fyrir okkur, t.d. Samtök barnalækna sem hafa lýst því yfir að þeir vilji banna mótorhjól almennt. Fjöldi kvenna í vesturbænum er sama sinnis og vill losna við öll hjól úr umfeið. Þetta fólk skilur ekki út á hvað bifhjólasamtök ganga. Það er ekkert ósvipað fjallgöngum, það er frelsisþörfin sem knýi okkur áfram." -En fordómamir hafa farið minnkandi?
 „Já enda höfum við kerfisbundið unnið að því. Það eru rúmlega 1000 manns skráðir í samtökin þannig að þetta er stór hópur sem hefur hagsmuna að gæta." -BÞ


https://timarit.is

28.2.96

Mótorhjól getur verið fallegasta mubla

Viðar Finnsson er einn af þessum skelfilegu mótorhjólagæjum, sem þeysa um bæinn að sumarlagi á kraftmiklum mótorhjólum, með stóra hjálma á höfði og uppgallaðir í leðurfatnað. 

En Fatnaðurinn er ekki bara stæll, heldur mikilvægt öryggisatriði, og það er hjálmurinn líka.  Hraðinn á mótorhjólunum er heldur ekki ýkja mikill innanbæjar, þegar vel er að gáð. BB tók Viðar tali og spurði hann um mótorhjóladelluna,  en hann hefur fengið konu sína Söru Möller til liðs við sig, þó hún neiti því að vera jafn gagntekin af hjólunum og Viðar.  Hann hefur einnig um nokkurt skeið viðað að sér upplýsingum um sögu bifhjóla á Ísafirði, en hún er lengri og merkilegri en margur hyggur.



   Viðar segist ekki vita hvað hann hafi átt mörg hjól yfir ævina en þau séu ekki mörg. ,,Ég er búinn að eiga þetta hjól sem ég á núna síðan 1989, en það er Suzuki hjól. Ég hef eiginlega verið að smíða mér keppnishjól,” segir Viðar.  Svala skýtur inn í að það sé svo kraftmikið að það sé tæpast hægt að nota það hér á landi. Viðar jánkar því og segir að líklegast til fengi hann ekki að nota hjólið í Evrópu þar sem reglur um mótorhjólaakstur séu mun strangari en hér. ,,Hjólið hefur rúmt hestafl á hvert kíló. Það er á að giska tólf sekúndur úr kyrrstöðu í 250 kílómetra hraða. Ég nota þetta hjól dags daglega, en í Evrópu þyrfti ég að hafa áralanga reynslu af akstri á keppnisþrautum til að fá að nota hjólið. Ég geri mér fyllilega grein fyrir ábyrgðinni sem fylgir því að eiga svo kraftmikið hjól, ég get til dæmis ekki leyft mér að selja hverjum sem er svona tæki.”

 Svala segist aðspurð að áhuginn á að prófa mótorhjól hafi alltaf blundað í henni, þó hún hafi ekki látið til skarar skríða fyrr en hún kynntist Viðari.

Jólahjól í stofunni

   „Við eigum sitt hvort hjólið og notum þau mikið á meðan færðin leyfir. Ég var búinn að ýta á Svölu að taka hjólapróf, og hún gerði það síðasta sumar og keypti sér hjól í kjölfarið, og annað í bútum. Við gerðum það bæði upp, og það er eiginlega betra en nýtt. Það er mjög skemmtilegt ferðahjól, frekar létt hjól með góðri vél en loftfjöðrum allan hringinn, svo Svala finnur ekkert fyrir því að aka hjólinu á malarvegum. Síðan hún tók prófið höfum við verið mikið á ferðinni á hjólunum og þetta er rosalega gaman. Draumurinn er að geta farið til Evrópu, með engan farangur nema mótorhjólið. Þetta kostar sama og ekkert, hjólin eyða nánast engu og það kostar lítið að fara með þau í ferjurnar. Svo er það hlýtt á sumrin að það má bara sofa við hliðina á hjólunum,” segir Viðar. Hjólin þeirra fá þann sess sem þeim ber, yfir vetrarmánuðina er þeim lagt, ekki inn í geymslu eða bílskúr eins og flestir myndu gera, heldur er þeim komið fyrir í upphituðu herbergi í húsi Viðars. Honum finnst geymslustaðurinn greinilega ekkert skrýtinn.

   „Þetta er ekkert mál, þessi geymsla fer bara best með þau. Það er regla hjá mér að þegar fyrsta hálkan kemur, og hjólin eru tekin af götunni, eru þau höfð í toppstandi, þau eru þrifin og bónuð, teknir úr þeim rafgeymar og bensíni tappað af líka. Svo kem ég þeim fyrir þar sem er hiti. Það eina sem við þurfum að gera þegar vorar, er að setja rafgeymana í, en þeir eru teknir úr til að valda ekki tæringu. Ég geri þetta í stað þess að aka þeim skítugum inn í skúr, óupphitaðan, þar sem þau yrðu fyrir hita- og kuldabreytingum og sagga. Um vorið væri allt orðið pikkfast í hjólunum og það tæki einhverjar vikur að koma því á götuna. Menn lenda oft í því að þurfa að rífa hjólin í sundur eftir veturinn, en með því að geyma þau inni í upphituðu herbergi, eru þau klár til notkunar hvenær sem er. Mér finnst þetta sjálfsagður hlutur að geyma hjólin inni í herbergi. Þetta sparar manni mikla vinnu og það er mikið skemmtilegra að sjá fallegt, stífbónað hjól, en ónýtt sófasett. Hjól getur verið fallegasta mubla, “ segir Viðar.

   Hjólin þjóna ýmsum tilgangi yfir vetrarmánuðina, og Svala segir að Viðar hafi stillt sínu hjóli upp inni í stofu ein jólin, og skreytt það með forláta jólaseríu. „Það var alveg nóg pláss fyrirjólatré, en ég gerði þetta fyrir krakkana og þetta þótti eitthvað öðruvísi,” segir Viðar og vill auðsjáanlega lítið ræða óhefðbundnar jólaskreytingar sínar.

Hafði mikið fyrir að eignast fyrsta hjólið

    Það kemur næstum því fyrirlitningarsvipur á Viðar þegar hann er spurður um fyrsta hjólið sitt, og greinilegt að honum finnst ekki mikið til þess koma í dag, enda hamingjusamur eigandi mótorhjóls af kraftmestu gerð.

   „Það var bara skellinaðra,” hálfhnussar í Viðari, en hjólið eignaðist hann þegar hann var þrettán ára og hann átti það í nokkur ár. Svo kemur nú í ljós að það eru ýmsar minningar tengdar fyrstu skrefunum á mótorhjólaleiðinni. „Mótorhjólaeignin bitnaði auðvitað á foreldrunum, því það þýddi ekkert að læsa hjólin inni, við hefðum bara búið okkur til nýtt hjól. Þá fórum við oft inn í fjörð til að leika okkur. Löggan var alltaf á eftir okkur, því við vorum allt of ungir til að aka hjólunum, hún náði okkur aldrei en vissi auðvitað hverjir þessir mótorhjólastrákar voru, þetta var ekkert öðruvísi en í dag.

   Ég breytti bara hjólinu þangað til löggan hætti að geta náð mér. Við fundum út að löggan var á gömlum Landroverjeppa og komst ekki upp hallann þar sem Hlíf er nú. Aðalvinnan hjá okkur var að fá hjólið það kraftmikið að það drifi upp hallann til hliðar við trjálundinn. Þegar það tókst vorum við sloppnir, því löggan elti okkur alltaf þarna inn. Þá skutumst við upp á veginn og hurfum á milli húsanna. Löggan var svo lengi að snúa við á Landrovernum og fara hringinn upp á veg, að á þessu flutum við.

   Ég hafði mikið fyrir að eignast hjólið, og fjármagnaði það allt sjálfur. Ég var á sjó, seldi blöð og svoleiðis. Ég var ekki nema þrettán ára gamall þegar ég fór fyrst á færi, þá háseti á bát. Svo lönduðum við líka upp úr Fossunum, við vorum á kafi í vinnu tólf, þrettán ára,” segir Viðar. Hann man ekki lengur kaupverðið á hjólinu en annað því tengt rifjast nú upp. „Nú man ég hvernig ég fjármagnaði kaupin, ég fór og talaði við bankastjóra, hann hét Helgi ef ég man rétt. Hann var svo hissa á að ég skyldi þora að tala við hann, að mig minnir að hann hafi lánað mér sjálfur fyrir hjólinu. Ég var svo ákveðinn í þessu, kom askvaðandi inn þrettán ára og vildi fá lán. Ég held að hann hafi hringt í pabba eftir á og sagt honum af þessu því maður þurfti að vera átján ára til að fá víxil.”

Tókst að lækka iðgjöldin

   Viðar hefur eytt töluverðum tíma í að semja við tryggingafélög um lækkun á tryggingariðgjöldum fyrir mótorhjólafólk á Ísafirði. Og náði árangri, að uppfylltum ákveðnum skilyrðum getur mótorhjólaeigandi lækkað iðgjöld sín um 90%, og jafnvel meir. Sem dæmi nefnir hann að fullt tryggingariðgjald af hjóli Svölu hafi numið 167 þúsund á ári, en sé í dag ellefu þúsund. ,,Ég sá það að við gátum ekki leyft okkur að eiga hjól, hvað þá sitt hvort hjólið af því iðgjöldin voru svo óheyrilega há. Ég fór því í alls konar vesen við tryggingarfélagið, og fékk m.a. upplýsingar frá Umferðarráði um tíðni mótorhjólaslysa á svæðinu síðustu fjögur árin. Til að komast inn í pakkann þarftu að hafa þrjár tegundir trygginga hjá Scandia og ganga að umgengnisreglum við hjólið, sem ég samdi og tryggingarfélagið samþykkti.

   Reyndar eru reglurnar svo sjálfsagðar að það á ekki að þurfa að segja mótorhjólafólki þær, reglurnar þykja bara svo fínar af því að ég setti þær á prent, þær eru að vera með hjálm, vera í hlífðarfatnaði, en það er ekki lagaskylda að vera í hlífðargalla uppúr og niðurúr og háum stígvélum með stáltám, heldur aðeins að vera með hjálm. Leðurgalli hefur allt að segja, og hann getur komið íveg fyrirmikil meiðsli. Hann getur líka hjálpað til við að halda skrokknum saman ef hann brotnar. Þriðja reglan er að lána aldrei hjólið sitt. Það kom nefnilega í ljós, að í yfir 90% tilfella var ökumaður mótorhjóls sem lenti í slysi, ekki eigandi hjólsins og í á að giska 80% tilvika voru ökumenn hjólanna ekki í órétti. Það var gerð tilraun á síðasta ári með að lækka iðgjöldin hér, og það gaf það góða raun að okkur er boðið upp á þau aftur í ár. Ég benti tryggingafélaginu bara á staðreyndir, og sýndi fram á að það hefði ekki rétt á að hafa iðgjöldin svona há hér, því tjónagreiðslur eru nánast engar. Ef Svala fer á hjólið mitt, hefði kostað 208 þúsund að tryggja það með gamla iðgjaldakerfinu, en í dag borga ég nítján þúsund. Lækkunin á iðgjaldi af hjólinu mínu á einu ári, nægði fyrir hjólinu handa Svölu.

Þetta hefur vakið mikla athygli hjá Bifhjólasamtökunum og menn þaðan hafa verið að fá upplýsingar hjá mér um þessi breyttu iðgjöld. Nú þegar hefur ákveðinn bifhjólaklúbbur í Reykjavík, eigendur fornhjóla fengið þennan samning gegn því að fara eftir reglunum hjá okkur, en þeir mega bara nota hjól sem eru eldri en tuttugu ára. En þetta er rosalegur sigurfyrir okkur í baráttunni við tryggingafélögin. Annar mikilvægur sigur vannst fyrir tveimur árum síðan, þegar við fengum í gegn lagabreytingu í þá veru að við tjón þar sem mótorhjól koma við sögu er metið hver er í rétti og hver ekki.

Áður giltu þær reglur að trygging mótorhjólsins greiddi allt tjón. Það hefði ekki skipt neinu máli hvort ökumaður þess var í órétti eða ekki. Ef þú varst stopp úti í vegkanti og að borða nestið þitt, og Jón Jónsson kom akandi og ók yfir þig, borguðu hans tryggingar ekki tjónið heldur þínar. Meðal annars vegna þessa voru iðgjöldin svo há.”


Tryggingafélög selja stórhættuleg tjónahjól

Viðar segir að óheyrilega háar tryggingar valdi því að alltaf séu einhverjir sem aki um ótryggðir með fölsuð númer. „Þetta er það sem tryggingarnar hafa kallað uppá, og fyrir mótorhjólamann í dag er tryggingafélagið hættulegasti aðilinn. Það er vegna þess að tryggingafélög setja tjónahjól á uþpboð, þar sem einhver handlaginn maður sem er glúrinn að rétta og Sprauta, kaupir hjólið, en hann veit ekkert um hjólið sjálft. Mótorhjólaviðgerðir eru ekki lögverndað starf, sem það ætti að vera. Maðurinn lagarbeyglurnar, en ekkert meira. Svo kemur til dæmis strákurinn minn, sem er nýkominn með hjólapróf, og hann sér bara flott hjól, nýsprautað og fínt. Hann hefur ekki þekkingu til að sjá að hjólið er stórhættulegt, með ónýtum legum, framhjólið læsist eða eitthvað enn annað. Strákurinn kaupir hjólið, og þar með er það komið á götuna og þess eru mörg dæmi að mótorhjól hafi sjö sinnum verið skráð ónýt hjá Bifreiðaskránni, en þau fara alltaf aftur á götuna. Erlendis er grindin yfirleitt bútuð niður þegar hjól eru dæmd ónýt, og þannig ætti það að vera hér líka.

Einn kunningi minn keypti hjól á síðasta ári, sem hafði verið flutt inn notað frá Bandaríkjunum. Hjólið var eitthvað skrýtið á malbiki, en það gekk vel að aka því á malarvegum, ef ekið var eftir veginum miðjum, þar sem hryggurinn myndast. Þegar við skoðuðum hjólið reyndist vera sex sentimetra skekkja á fram- og afturhjóli, sem annað var til hliðar við hitt. Það fylgdu engar upplýsingar um að hjólið væri tjónahjól,” segir Viðar og hann fullyrðir að mörg slys hafi orðið vegna tjónahjóla í umferð.

Fjórir íbúar á Hlíf gamlir mótorhjólaeigendur

Saga bifhjóla á Ísafirði nær aftur til ára síðari heimstyrjaldarinnar, en ýmsir Ísfirðingar urðu sér úti um herhjól, forláta gripi sem hægt var að þeysast á yfir flestar vegleysur, og Viðar segir að hjólin hafi verið mikilvægur hlekkur í samgöngusögu Ísfirðinga, áður en vegagerð hófst fyrir alvöru á milli byggðarlaga og útúrfjórðungnum. Hann hefur greinilega mikla ágirnd á segulbandi blaðamanns, og segist fá ótal upplýsingar á förnum vegi, en þó eigi hann eftir að grafa upp hvaða Ísfirðingur eignaðist fyrsta mótorhjólið.

   „Ég fæ rosasögur frá þessum tíma þegar ég hitti gömlu mótorhjólakallana, ég þarf eiginlega að hafa svona segulband og taka þær upp,” segir Viðar. Hann segist þurfa að fá einhvern í lið með sér til að skrifa niður þær upplýsingar sem hann hefur aflað, en það hefur enn ekki orðið úr því. „Ég hef mikinn áhuga á að safna saman sögu bifhjóla á Ísafirði. Ég hef sjálfur svo gaman af hjólum og foreldrar mínir voru mikið á hjólum. Þau bjuggu í sumarbústað inni í skógi og komust ekki til vinnu nema hafa hjólið, en hafa nú gleymt þeim tíma, að minnsta kosti skilja þau ekkert í því af hverju ég er á hjóli í dag, og finnst þetta bölvað vesen og vitleysa.

    Ég hef alltaf haft áhuga á að gera upp gamalt hjól, og svo kviknaði áhuginn á sögunni smátt og smátt. Ég á eftir að grafa upp fyrsta mótorhjólaeigandann hér, en á Hlíf eru einir fjórir menn, komnir um nírætt, sem áttu mótorhjól á sínum tíma.” Viðar nær í þéttskrifaða bók þar sem hann hefur skrifað nöfn ýmissa gamalla mótorhjólaeigenda. Þar má finna nöfn þeirra Guðbjarnar Jónssonar, Eiríks Guðjónssonar, Aðalbjarnar Guðmundssonar, Bærings Jónssonar, Ingólfs Eggertssonarí Pólnum, Helga Hjartarsonar, Hjartar Jónssonar og Simsonar gamla svo einhverjir séu nefndir. „Þessir menn, sem enn eru á lífi eiga mikið af góðum minningum, og sumir þeirra eiga myndir úr ótalmörgum ferðum sem voru farnar á hjólunum hér í eina tíð. Hjólin komu mikið til frá Bretanum og það eru til nokkur hjól á landinu frá þessum tíma. Elsta hjólið sem ég hef grafið upp er á Eyrarbakka í eigu Sigurðar Ingólfssonar og er frá árunum fyrir 1940. Hann bjó á Eyri við Ingólfsfjörð og notaði hjólið til að komast til Hólmavíkur.”

Öll fjölskyldan á einu hjóli

„Sögurnar segja manni svo mikið, blómatími mótorhjólanna var á eftirstríðsárunum, en svo datt þetta í lægð á milli. Þetta voru aðalfarartækin hér áður fyrr, og oft voru hjón með tvö börn á einu hjóli. Þá var yngsti krakkinn á tanknum eða stýrinu fyrir framan pabbann, sem keyrði. Fyrir aftan hann kom eldri krakkinn og aftast var svo mamman. Svona fór fólk um allt, upp að skíðaskála, inn í skóg, út í Arnardal og inn í Álftafjörð um hverja einustu helgi. Þetta var jafnvel eina farartækið sem fjölskyldan átti, en ég veit ekki hvað yrði sagt við mann í dag, ef fjöskyldan færi öll á eitt hjól. 





Ísafjörður er trúlega einn merkasti bifhjólastaður á landinu, því hér voru á tímabili 24 hjól en bara 8 bílar. Það eru svo margar skemmtilegar sögur sem fylgja þessum tíma, en það hefur enginn nennt að safna þeim saman. Ég komst til dæmis að því að Helgi Hjartar og Geiri Bæsa voru fyrstu mennirnir sem fóru á vélknúnu farartæki til Súðavíkur, og eins til Þingeyrar. Þeir gerðu þetta tugum ára áður en vegirnir til staðanna komu. Fólk notaði bifhjól til þess að fara suður, til Siglufjarðar, yfir Þorskafjarðarheiðina, og til Hólmavíkur löngu áður en Djúpvegurinn opnaði. Þá var ekið eftirslóðum, túnum og fjörunni, alls staðar þar sem hægt var.

Þegar Helgi og Geiri Bæsa fóru á Þingeyri, var meðal annars farið eftir fjörunni, þegar þeir ætluðu að snúa heimleiðis, var komið flæði og þeir komust ekki sömu leið til baka. Þeir urðu því að láta ferja sig og hjólin yfir Dýrafjörðinn. Matti Bjarna fyrrverandi alþingismaður var á kafi í mótorhjólunum líka, hann fór oft, ásamt fleirum, yfir Gemlufallsheiði, eftir einhverjum krókastígum og þeir létu svo ferja sig yfir á Þingeyri. Þetta var svona helgarsport hjá þeim félögunum. Svo voru menn afskaplega vel klæddir á mótorhjólunum, þegar farið var á ball var innst drifhvít stífstraujuð skyrta og bindi, utan yfir hana var þykkköflótt vinnuskyrta og tóbakshálsklúturtilheyrði, og leðurjakki utan yfir allt. Það þótti óskaplega fínt að vera með leðurhúfu líka. Menn buðu líka blómarósunum í Húsmæðraskólanum Ósk í ferðalög á hjólunum, þá var tvímennt á hverju hjóli út í Arnardal og í fórum Helga eru myndir úr slíku ferðalagi.

Nýlega sagði Helgi mér sögu af því þegar hann og Dúddí fóru ásamt öðru barninu í hjólatúr. Þau heyra smádrunur fyrir aftan sig, og fljótlega skýst mótorhjól fram úr þeim. Þá var þar kominn fjölskyldufaðir með konu og tvö börn. Hann vinkar Helga, og hverfur sjónum, en nokkru seinna eykst hávaðinn ógurlega. Nokkru seinna aka Helgi og hans fjölskylda fram á pústið af hinu hjólinu, en það hafði dottið undan, alveg frá vélinni og aftur úr og var stykkið um einn metri á lengd. Sú fjölskylda hafði ekki orðið vörvið neitt, þó hávaðinn í hjólinu hafi auðvitað aukist gífurlega. Loksins þegar Helgi nær hinum ferðalöngunum heima á hlaði hjá þeim, segir hann við ökumanninn, „Heyrðu góði, týndirþú ekki einhverju?” Þá lítur hinn yfir fjölskylduna og segir „Nei, nei, erum við ekki öll hérna?”

 Marga dreymir um að fá sér mótorhjól á ný

Viðar segist hafa orðið þess áskynja að margir gamlir mótorhjólaeigendur gæli við þá hugmynd með sjálfum sér að fá sér hjól á ný. „Það er nokkuð af fólki sem er komið yfir sextugt sem langar til að fá sér mótorhjól á ný. Til dæmis kom Torfi Björns til mín og sagðist vera búinn að fá leyfi hjá henni Siggu sinni til að kaupa aftur hjól,” segir Viðar.

Að lokum hefur Viðar orð á því að oft velji fólk sér óþarflega dýran flutningsmáta, það hvarfli ekki að því að nota mótorhjól, sem þó eru ódýr í rekstri. „Sjáið bara eitt lítið dæmi, hann Ólaf Helga koma akandi ofan af Urðarvegi að Stjórnsýsluhúsinu, einn í sjö manna bíl sem vegur á þriðja tonn. Hann ætti að fá sér mótorhjól í vinnuna.” 

Bæjarins Besta 28.2.1996

4.2.96

Mótorhjól í stað vímuefna (1996)

Forvarnarstarf gegn vímuefnaneyslu unglinga á íslandi hefur hingað til verið mjög svo ómarkvisst og lítið í það lagt. Svo virðist sem ekkert sé að gert fyrr en í óefni er komið. Þá eru dýr meðferðarheimili opnuð og þeim síðan lokað stuttu seinna vegna fjárskorts. Enginn virðist vita hvað á að gera. Það þarf að taka á þessum málum áður en þau verða að raunverulegum vandamálum. Öflugt forvarnarstarf,  sem ber árangur, er það sem þarf. Fullorðna fólkið á að koma til móts við unglingana og  hlusta á það, sem þeir eru að segja, í stað þess að reyna að þvinga þá inn á brautir sem henta þeim ekki.

25.11.95

Sniglarnir ­ hagsmunasamtök bifhjólafólk

Bifhjólasamtök lýðveldisins

BIFHJÓLASAMTÖK lýðveldisins, Sniglar, voru formlega stofnuð 1. apríl 1984 af tuttugu manna hópi. Nú eru félagsmenn skráðir 982 en það eru u.þ.b. 400 til 500 virkir. Í Sniglunum er fólk úr öllum stéttum þjóðfélagsins allt frá alþingismanni til atvinnuleysingja. En öll eiga þau sameiginlegt áhugamál og það er mótorhjól.

 Hér áður fyrr urðu Sniglar mikið varir við fordóma í sinn garð, fordóma sem voru sprottnir frá bíómyndum þar sem glæpagengin þeysa um á mótorhjólum og gera eitthvað ljótt. En nú tilheyrir þessi hugsunarháttur fortíðinni. Sniglar hafa margoft sýnt það og sannað að þau eru fyrirmyndarfólk. Auðvitað eru skemmd epli inn á milli eins og annars staðar í þjóðfélaginu en svartir sauðir fá ekki inngöngu í samtökin. Inngönguskilyrði eru þau að umsækjandi sé orðinn 17 ára og hafi fengið meðmæli 13 fullgildra Snigla. Umsækjandi í Ungsnigla verður að vera orðinn 15 ára, hafa samþykki forráðamanns ásamt a.m.k. meðmælum 6 fullgildra Snigla. Síðan fer umsóknin fyrir stjórn sem ákveður hvort viðkomandi fær inngöngu.

Innan Snigla er stjórn sem er skipuð 5 fullgildum Sniglum og skipta þeir með sér hlutverkum oddvita, varaoddvita, gjaldkera, ritara og fjölmiðlafulltrúa. Einnig eru þar starfandi nokkrar nefndir.

Tilgangur Snigla er að koma á sem víðtækustu samstarfi bifhjólafólks, gæta hagsmuna þess og bæta aðstöðu til ánægjulegri bifhjólamenningar, t.d. vinna og fylgjast með nauðsynlegum endurbótum á umferðarlögum, kennslureglum, skoðunarmálum, tryggingagjöldum, opinberum gjöldum og öðru er viðkemur bifhjólum. Einnig er lögð áhersla á að stuðla að auknum skilningi á málefnum Snigla og ná sem víðtækustu samstarfi við önnur félög, samtök og einstaklinga hvað varðar meðferð og notkun bifhjóla.

Ýmsar hefðir

Í Sniglunum eru hinar ýmsu hefðir, t.d. 1. maí er árleg hópkeyrsla, 17. júní er árleg ferð á Akureyri, 24. júní er hjóladagur Snigla með alls konar uppákomum. Hvítasunnuhelgina sniglast margir á Lýsuhól, landsmót er alltaf haldið fyrstu helgina í júlí og má segja að það sé fjörmesta ættarmót sem haldið er á Íslandi. Svo er Landmannalaugarferð fyrstu helgina í september. Þangað fara yfirleitt þeir allra hörðustu Sniglar sem til eru. Síðan er farin árleg barnaferð með afkomendur og litla ættingja Snigla.

Sniglar eru virkastir á sumrin en þegar líða tekur á haustið og leggja verður hjólunum er haldin Haustógleði, síðan tekur Vetrarsorgardrykkjan við.

Margir leggjast í dvala yfir veturinn með hjólunum sínum og dunda þar við að smíða, breyta, hreinsa og pússa gripina en gefa sér nú samt tíma til að halda jólahjólaball og árshátíð. Nú, svo er árlegur aðalfundur. Sniglarnir gefa út Sniglafréttir mánaðarlega sem eru fullar af fróðleik, glensi og gamni.

Lesandi góður, þú veist nú ýmislegt um Bifhjólasamtök lýðveldisins, Snigla. Opnir Sniglafundir eru haldnir að Bíldshöfða 14 kl. 20.00 öll miðvikudagskvöld.

Hjóladagurinn verður haldinn hátíðlegur 24. júní

Hjóladagurinn er baráttudagur bifhjólafólks á Íslandi. Með hjóladegi viljum við vekja athygli á veru okkar í umferðinni, sjónarmiðum okkar og baráttumálum.

Sniglar héldu þennan dag hátíðlegan fyrst árið 1990 og hefur hann orðið mjög vinsæll. Dagskrá hjóladagsins nú í ár er á þessa leið: Kl. 15.00 er hópkeyrsla frá Kaffivagninum niður á Granda. Bifhjólafólk sem tekur þátt í keyrslunni mæti kl. 14.00. Hjólað verður um stórborgarsvæðið og endað niðri á Ingólfstorgi kl. 16.00. Þar verða hátíðarhöld sem byrja með setningu og síðan verður einnar mínútu þögn í minningu látinna félaga. Síðan mun Snigill halda tölu og Ólafur Guðmundsson forseti LÍA flytur ræðu, Árni Johnsen flytur ræðu, fulltrúi lögreglustjóra í Reykjavík talar, Valgerður Þ.E. Guðjónsdóttir frá Umferðarráði talar. Tveir mótorhjólamenn segja frá eigin mótorhjólaslysi, Sniglar láta móðan mása og heiðurssnigill 1000 krýndur. Gunni Klútur 58 kemur á óvart og síðan eru dagskrárlok kl. 18.00. Minjagripasala Snigla verður á staðnum. Hvetjum við alla sem áhuga hafa á að skoða glæsta járnfáka og kynna sér sjónarmið okkar að mæta niðri á Ingólfstorgi kl. 16.00.

Bestu kveðjur.
BRYNJA GRÉTARSDÓTTIR,
Snigill nr. 936,
23. júní 1995 

https://www.mbl.is/greinasafn/grein/208757/

30.8.95

Datt á 160 km hraða

Mótorhjólakappinn Karl Gunnlaugsson flaug
harkalega á hausinn í mótorhjólakeppni  í
Englandi. Hann handarbrotnaði en hjálmur
og hlífðargalli varnaði frekari meiðslum Hvíta
skellan á hjálminum sýnir að hann er ónýtur.

í stórri mótorhjólakeppni á Snetterton kappakstursbrautinni í Englandi


Kall Gunnlaugsson, nýkrýndur íslandsmeistari í kvartmílu, þykist lánsamur að hafa sloppið með handarbrot eftir að hann féll af keppnishjóli sínu í kappaksturskeppni í Englandi. Hann féll af hjólinu á 160 km hraða fyrir framan hóp annarra keppenda ístórri mótorhjólakeppni á Snetterton-kappakstursbrautinni. Hann keppti þar ásamt Þorsteini Marel, sem varð í sjöunda sæti í liðakeppni ásamt tveimur breskum ökumönnum. 

Ég slapp ótrúlega vel og var hræddur í fyrsta skipti í keppni. Ég fór alltof geyst í beygju, missti stjórn áhjólinu og kastaðist í veg fyrir aðra keppendur, sem voru fyrir aftan. Ég var alltof bráður, ætlaði að slá í gegn í fyrsta hring, en flaug í stað þess á hausinn í fyrstu beygju," sagði Karl
Gunnlaugsson í samtali við Morgunblaðið. „Eg lenti á höfðinu og öxlunum og munaði minnstu að ég yrði undir hjólinu, sem var fyrir aftan mig. Svo rann ég 150 metra eftir brautinni og út á grasbala. Ég þorði ekki að hreyfa mig og hugsaði um það hvort ekki væri nú tími til kominn að hætta. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem ég meiðist í keppni á mótorhjóli. Sem betur fer reyndust meiðslin ekki alvarleg. Ég var með sérstaka axlarpúða og bakpjötu, sem sjálfsagt bjargaði miklu. Á spítala var síðan gert að meiðslunum og ég er með þrjá stálpinna í handarbakinu, þar sem ég brotnaði."
Þrátt fyrir.þetta áfall hyggst Kari keppa í kappakstri í Englandi á næsta ári og í kvartmílu hérlendis. „Þorsteinn stóð sig vel í mótinu úti, var um tima í fjórða sæti, en féll í það sjöunda vegna bilunar í hjólinu. Við eigum alveg erindi erlendis á þolakstursmót, þar sem ekið er samfleytt í sex klukkutíma. Svona óhapp er góð lexía, þótt hún sé sársaukafull. Ég mun ekki æða af stað af sama kappi. Svo sannar þetta nauðsyn þess að vera með góðan öryggisbúnað, hvort sem menn keppa á mótorhjóli eða aka á götunum," sagði Karl.

Morgunblaðið 30.8.1995
http://timarit.is