1.7.96

Torfærumótorhjól þeystu í Garðsárdal (1996)


Ferðalög á „enduro" mótorhjólum eða torfærumótorhjólum sem eru á skrá er mjög vinsæl ástundun sunnan heiða. 


En fyrir skömmu lögðu menn land undir fót og tóku þátt í fyrstu skipulögðu keppninni fyrir „enduro" mótorhjól hérlendis. Hún fór fram í Eyjafirði og tóku 30 keppendur þátt.

„Þetta var hrikalega erfitt, en um leið skemmtilegt. Við þurftum að slást við skurði, mýrar, brekkur, grjót og vegaslóða á leiðinni, sem var 17 km löng og lá um Garðsárdal," sagði Þorsteinn Marel, en hann vann keppnina. Varð fjórum sekúndum á undan Heimi Barðasyni, gamalkunnum motokross  ökumanni. Þorsteinn eða Steini Tótu, eins og félagarnir kalla hann var 16,56 mínútur að aka leiðina. Margir villtust á leiðinni eða festu hjól sín í erfiðri mýri og allavega einn keppandi, kvenkyns, sofnaði á leiðinni eftir að hafa fest hjól sitt í mýri! „Það var talsverð bleyta á leiðinni, þannig að það varð að aka hæfilega varlega til að fljúga ekki á hausinn. Staðir sem keppendur ætluðu að stökkva yfir skurði reyndust varasamir og hraðinn lækkaði verulega," sagði Þorsteinn.
„Sömu keppendur tóku svo þátt í keppni í brekkuklifri og þá vann Finnur Aðalbjörnsson, sýndi mikla lipurð á heimavelli. Mér fannst frábært að koma til Akureyrar og upplifa mörg akstursfþróttamót sömu helgi og hið nýstofnaða Kappakstursfélag Akureyar er skemmtilegasta nýjung í akstursíþróttum síðustu ár. Þetta er virkilega frískir strákar sem standa á bakvið félagið."
Dagur 2.7.1996