28.3.96

Tilbúnir að drepa fyrir félagana


Hell's Angels-mótorhjólaklúbburinn er trúlega einn stærsti og frægasti mótorhjólaklúbbur heims og var nýverið í fréttunum vegna óhugnanlegra morðárása. Atli Bergmann, áfengisráðgjafi og meðlimur mótorhjólaklúbbsins Væringja, kynntist Hell's Angels og öðrum mótorhjólagengjum náið á sínum yngri árum í Kaupmannahöfn. Guðbjartur Finnbjörnsson ræddi við hann um þá lífsreynslu og mótorhjólamennsku almennt.

,,Sterkt bræðralag einkennir flesta þessa mótorhjólaklúbba og félagar eru venjulega tilbúnir að gera hvað sem er fyrir félaga sína, jafnvel drepa. Ég lenti eitt sinn í illdeilum við einn hættulegasta glæpamann Danmerkur á þessum tíma, KimTusindben var hann kallaður... Nokkrum mánuðum seinna var hann drepinn."

Hell's Angels-mótorhjólaklúbburinn var nýverið í fréttum vegna óhugnanlegra morðárása sem áttu sér stað í tveimur flughöfnum í Skandinavíu. Hell's Angels er trúlega einn stærsti og frægasti mótorhjólaklúbbur heims. Hann átti upptök sín í Bandaríkjunum, en Hell's Angelsklúbbar hafa síðan sprottið upp í mörgum löndum, meðal annars á Norðurlöndum. Atli Bergmann, áfengisráðgjafi hjá Krýsuvíkursamtökunum og meðlimur mótorhjólaklúbbsins Væringja, kynntist mótorhjólagenginu Hell's Angels á sínum yngri árum í Kaupmannahöfn. Atli bjó í Kaupmannahöfn á árunum 1980 til 1984 eða eins og hann sjálfur segir frá, á gleðiog sokkabandsárum sínum. „Þetta voru dagar víns og rósa," segir Atli og brosir. „Ég vann í byrjun sem sjúkraliði. Missti svo vinnuna og tók þá til við ljósfælnari iðju. Iðju sem tengdist Kristjaníu og öllu því hassi sem þar fer um. Á þeim tíma fannst mér hass hið besta mál og ekkert hættulegra en Tuborg-bjór, sem að vísu var þá bannaður á íslandi. En þá fannst mér það aðeins tímabundinn misskilningur hjá yfirvöldum að banna hass," segir Atli. Sem betur fer hef ég komist á aðra skoðun í dag og er löngu hættur neyslu á hassi og öðrum vímuefnum." 

Tilbúnir að drepa fyrir félagana

Atli hefur alltaf verið mikið fyrir mótorhjól og í Kaupmannahöfn keypti hann'sér sitt fyrsta stóra hjól. Þá kynntist hann öðrum mótorhjólaáhugamönnum. Náungar sem voru í klúbbi sem kallaðist Black Sheep eða Svörtu sauðirnir. Black Sheep-klúbburinn var svokallaður vinaklúbbur Hell's Angels. „Þessi klúbbur hentaði mér ágætlega því ég hafði alltaf verið svarti sauðurinn í fjölskyldunni," segir Atli og hlær. „Strákarnir í Black Sheep voru helvíti fínir náungar, traustir og stóðu við það sem þeir sögðu. Eiginleiki sem var og er sjaldgæfur í nútímaþjóðfélagi. Mér líkaði því vel félagsskapurinn. Ég var ekki eiginlegur klúbbfélagi en það munaði minnstu að ég gengi í klúbbinn. Menn byrja á því að vera svokallaðir prospects eða líklegir, sem er nokkurs konar reynslutími til að athuga hvort maður sé hæfur í klúbbinn. Og það stóð til að ég gerðist líklegur. Ástæðan fyrir að ég hætti við var að ég þurfti á einhvern hátt að sanna mig fyrir þeim. Það þýddi að ég átti að vera tilbúinn að gera hvað sem var fyrir hópinn. Ég var ekki alveg tilbúinn til þess. Sterkt bræðralag einkennir flesta þessa mótorhjólaklúbba og félagar eru venjulega tilbúnir að gera hvað sem er fyrir félaga sína. Jafnvel drepa. Ég lenti eitt sinn í illdeilum við einn hættulegasta glæpamann Danmerkur á þessum tíma, Kim Tusindben var hann kallaður. Málið var að hjólið mitt var skráð á stelpu sem ég þekkti og hún lét Kim plata sig til að afsala sér hjólinu til hans. Þegar ég bankaði upp hjá honum þungbúinn og vildi fá hjólið mitt aftur beindi hann byssu að höfði mínu og var til alls vís. Heimsókn mín stóð því stutt og ég var nokkuð ánægður með að sleppa þaðan lifandi. Ég flutti heim stuttu seinna en lét félaga mína í Black Sheep vita hvað hefði gerst. Nokkrum mánuðum seinna var hann drepinn. Trúlega verið búinn að svíkja of marga, meðal annars mig. Black Sheep voru síðan nokkrum árum seinna teknir inn í Hell's Angels.

Lét mig hverfa á meðan vinkonur mínar lumbruðu á stráknum

„Bull Shits-mótorhjólagengið var á þessum árum mjög stórt' og öflugt í Kaupmannahöfn. Bull Shit-arar héldu sig mest í Amagerhverfi Kaupmannahafnar og réðu meira og minna lögum og lofum í Kristjaníu. í augum mínum var Bull Shits ekkert annað en glæpagengi og ég átti erfitt með að þola þá," segir Atli. „Þeir voru þekktir fyrir tilefnislaust ofbeldi, berjandi á minni máttar og stjórnuðu í krafti óttans. Ég lenti sem betur fer aðeins einu sinni í þeim. Þá sat ég í rólegheitum inni á bar í Kristjaníu ásamt þremur íslenskum vinkonum mínum. Þar inni var stór hópur Bull Shitara, nokkrir fullir Grænlendingar og svo við. Einn Bull Shit-aranna var með einhver læti og leitaði að einhverjum til að berja á. Hann var búinn að berja tvo eða þrjá Grænlendinga og ætlaði svo í mig. Mér leist ekki alls kostar á aðstæður," segir Atli og glottir. „Ef ég hefði hann undir, hvað myndu félagar hans gera? Og eins ef hann hefði mig undir. Okkur báðum til háðungar og skammar endaði þetta þannig að vinkonur mínar lumbruðu á honum á meðan ég lét mig hverfa."

Hell's Angels afgreiðir sín mál með skoti í nausinn

„Það leið ekki á löngu uns Nautakúkarnir lentu upp á kant við hinn stóra mótorhjólahópinn, Hell's Angels, og þá kynntust þeir ofjarli sínum. Það varð hreinlega opinbert stríð og margir drepnir. Hell's Angels brugðu á það ráð, til að enda stríðið, að drepa foringja Bull Shits, sem kallaður var Makríllinn. Sá sem tók við var bara kallaður Höfðinginn. Stór, mikill, illúðlegur með sítt skegg, allur húðflúraður og líkastur víkingi til forna. Að minnsta kosti eins og maður ímyndar sér þá. Höfðinginn gekk jafnan um með apa á öxlinni. Hell's Angels afgreiddu hann líka með skoti í hausinn," segir Atli. „Eftir það lögðu Bull Shit-arar niður merkin og létu sig hverfa. Þeir voru hreinlega upprættir. Hell's Angels hafa síðan ráðið því sem þeir vilja ráða. Allt þar til Bandidos fóru að láta á sér kræla fyrir nokkrum árum. Bandidos er einn stærsti mótorhjólaklúbbur heims og þeir einu sem ógna eitthvað veldi Hell's Angels. Svo virðist sem Hell's Angels ætli að nota sömu aðferð og þeir notuðu á Bull Shits til að losa sig við Bandidos, drepa foringjana. Það er ótrúlegt að þeir skuli fara með hríðskotabyssu á Kastrup-flugvöll og hreinlega taka foringja Bandidos af lífi. En svona er nú líf þessara manna. Þess má geta að þegar Bull Shits lagði upp laupana þá fundust nokkur lík undir gólffjölum í húsi þeirra. Það er ekki gott að vera óvinur svona manna. Það er engum manni hollt."

Ég er í besta mótorhjólaklúbbi landsins

Mótorhjólaklúbbar eru til um allan heim, einnig hér á íslandi, en að sögn Atla fer það ávallt eftir þjóðfélagsaðstæðum hvernig þessir klúbbar haga sér. „Hell's Angels-gengi í Bandaríkjunum eru trúlega mun hættulegri en í Danmörku og hér á íslandi. í okkar fína litla velferðarþjóðfélagi er engin forsenda fyrir svona skipulögðum glæpaklúbbum," segir Atli. „Þeir íslendingar sem vilja komast í svona klúbb þurfa að fara til útlanda til þess. Það voru nokkrir íslendingar í Bull Shits og meira að segja var einn af stofnendum klúbbsins íslendingur. Hér á landi voru bara stofnuð Bifhjólasamtök lýðveldisins, Sniglarnir, sem er eins hættulaust fyrirbæri og Félag íslenskra bifreiðaeigenda. Svo eru til nokkrir litlir klúbbar eins og Saxar, Óskabörn Óðins, Hrafnar, Hvítabirnir og Riddarar Lúsífers — en það nafn finnst mér reyndar alveg á mörkunum. Ég meina, hvað eru þeir að segja með þessu nafni, þessir annars mætu og góðu drengir? En síðast en ekki síst má ekki gleyma aðalklúbbnum, klúbbnum mínum, Væringjum. Ég er svo stálheppinn að vera í þessum besta mótorhjólaklúbbi íslands. í honum eru einungis fullorðnir, edrú og ábyrgir einstaklingar, flestir með margra ára edrúmennsku að baki og allir með ólæknandi mótorhjólabakteríu. Hinir upprunalegu Væringjar voru góðu gæjarnir á víkingatímum. Víkingar fóru um rænandi, ruplandi, drepandi og nauðgandi. Væringjar aftur á móti voru bræðralag góðra manna sem stunduðu viðskipti. Þeir voru víðfrægir fyrir heiðarleika og nutu mikils trausts alls staðar í heiminum, voru til dæmis lífverðir keisarans í Miklagarði í mörg hundruð ár. Við Væringjar mótorhjólanna erum afsprengi þeirra. Við virðumst líka njóta mikils trausts, því ef á að vera einhver meiri háttar samkoma, stórtónleikar og því um líkt, þá er oftar en ekki kallað á okkur og við beðnir að sjá um gæslu á svæðinu. Við höfum til að mynda séð um gæslu á Uxanum, þegar Björk hélt hljómleika hér, á Prodigyhljómleikunum og meira að segja Sniglarnir hafa beðið okkur að sjá um gæslu á landsmóti þeirra. Eins munum við sjá um gæslu á- öllum stórtónleikum sumarsins auk þess að halda sjálfir veglegt fjölskyldumót í Aratungu í Biskupstungum í sumar, en það er orðið árlegur viðburður. Þetta segir margt um þá virðingu og traust sem við njótum. Þetta er góður félagsskapur og passar mér betur en að vera í Lions-hreyfingunni eða Rotary." 

Íslenskir mótorhjólaklúbbar eiga ekkert sameiginlegt með Bandidos eða Hells Angels

„Meðlimir íslensku klúbbanna eru upp til hópa hið besta fólk sem hefur gaman af að þeysast um á mótorhjólum og líkar vel við leður. Þar fyrir utan eigum við ekkert sameiginlegt með Hell's Angels, Bull Shits og Bandidos. Það má heldur ekki gleyma því að meðlimir þessara illræmdu erlendu klúbba eru aðeins fámennur hópur miðað við þann fjölda sem keyrir um á mótorhjólum í heiminum. í Bandaríkjunum kynntist ég til að mynda góðum hópi sem kallaði sig Ex winos, það er að segja fyrrverandi drykkjumenn. Þar í hópnum voru fyrrverandi meðlimir Hell's Angels. Menn sem höfðu farið í meðferð, snúið við blaðinu en ekki misst áhugann á mótorhjólum. Snúið sér til sólarinnar. Foringi þeirra er dagskrárstjóri einnar stærstu meðferðarstofnunar Minnesota fyrir unglinga, þannig að ekki eru öll erlend mótorhjólagengi byggð á ofbeldi og eiturlyfjum. En munið það að ef þið, á ferðalagi erlendis, rekist á leðurklædda menn merkta Bandidos, Hell's Angels eða menn merkta í bak og fyrir með hauskúpum og því um líku, látið þá í friði og sniðgangið þá. Þetta eru ekki menn sem friðsæll íslendingur ætti að abbast upp á," segir Atli Bergmann að lokum.

 Helgarpósturinn 1996