Bifhjólasamtök lýðveldisins
BIFHJÓLASAMTÖK lýðveldisins, Sniglar, voru formlega stofnuð 1. apríl 1984 af tuttugu manna hópi. Nú eru félagsmenn skráðir 982 en það eru u.þ.b. 400 til 500 virkir. Í Sniglunum er fólk úr öllum stéttum þjóðfélagsins allt frá alþingismanni til atvinnuleysingja. En öll eiga þau sameiginlegt áhugamál og það er mótorhjól.
Hér áður fyrr urðu Sniglar mikið varir við fordóma í sinn garð, fordóma sem voru sprottnir frá bíómyndum þar sem glæpagengin þeysa um á mótorhjólum og gera eitthvað ljótt. En nú tilheyrir þessi hugsunarháttur fortíðinni. Sniglar hafa margoft sýnt það og sannað að þau eru fyrirmyndarfólk. Auðvitað eru skemmd epli inn á milli eins og annars staðar í þjóðfélaginu en svartir sauðir fá ekki inngöngu í samtökin. Inngönguskilyrði eru þau að umsækjandi sé orðinn 17 ára og hafi fengið meðmæli 13 fullgildra Snigla. Umsækjandi í Ungsnigla verður að vera orðinn 15 ára, hafa samþykki forráðamanns ásamt a.m.k. meðmælum 6 fullgildra Snigla. Síðan fer umsóknin fyrir stjórn sem ákveður hvort viðkomandi fær inngöngu.Innan Snigla er stjórn sem er skipuð 5 fullgildum Sniglum og skipta þeir með sér hlutverkum oddvita, varaoddvita, gjaldkera, ritara og fjölmiðlafulltrúa. Einnig eru þar starfandi nokkrar nefndir.
Tilgangur Snigla er að koma á sem víðtækustu samstarfi bifhjólafólks, gæta hagsmuna þess og bæta aðstöðu til ánægjulegri bifhjólamenningar, t.d. vinna og fylgjast með nauðsynlegum endurbótum á umferðarlögum, kennslureglum, skoðunarmálum, tryggingagjöldum, opinberum gjöldum og öðru er viðkemur bifhjólum. Einnig er lögð áhersla á að stuðla að auknum skilningi á málefnum Snigla og ná sem víðtækustu samstarfi við önnur félög, samtök og einstaklinga hvað varðar meðferð og notkun bifhjóla.
Ýmsar hefðir
Í Sniglunum eru hinar ýmsu hefðir, t.d. 1. maí er árleg hópkeyrsla, 17. júní er árleg ferð á Akureyri, 24. júní er hjóladagur Snigla með alls konar uppákomum. Hvítasunnuhelgina sniglast margir á Lýsuhól, landsmót er alltaf haldið fyrstu helgina í júlí og má segja að það sé fjörmesta ættarmót sem haldið er á Íslandi. Svo er Landmannalaugarferð fyrstu helgina í september. Þangað fara yfirleitt þeir allra hörðustu Sniglar sem til eru. Síðan er farin árleg barnaferð með afkomendur og litla ættingja Snigla.Sniglar eru virkastir á sumrin en þegar líða tekur á haustið og leggja verður hjólunum er haldin Haustógleði, síðan tekur Vetrarsorgardrykkjan við.
Margir leggjast í dvala yfir veturinn með hjólunum sínum og dunda þar við að smíða, breyta, hreinsa og pússa gripina en gefa sér nú samt tíma til að halda jólahjólaball og árshátíð. Nú, svo er árlegur aðalfundur. Sniglarnir gefa út Sniglafréttir mánaðarlega sem eru fullar af fróðleik, glensi og gamni.
Lesandi góður, þú veist nú ýmislegt um Bifhjólasamtök lýðveldisins, Snigla. Opnir Sniglafundir eru haldnir að Bíldshöfða 14 kl. 20.00 öll miðvikudagskvöld.
Hjóladagurinn verður haldinn hátíðlegur 24. júní
Hjóladagurinn er baráttudagur bifhjólafólks á Íslandi. Með hjóladegi viljum við vekja athygli á veru okkar í umferðinni, sjónarmiðum okkar og baráttumálum.
Sniglar héldu þennan dag hátíðlegan fyrst árið 1990 og hefur hann orðið mjög vinsæll. Dagskrá hjóladagsins nú í ár er á þessa leið: Kl. 15.00 er hópkeyrsla frá Kaffivagninum niður á Granda. Bifhjólafólk sem tekur þátt í keyrslunni mæti kl. 14.00. Hjólað verður um stórborgarsvæðið og endað niðri á Ingólfstorgi kl. 16.00. Þar verða hátíðarhöld sem byrja með setningu og síðan verður einnar mínútu þögn í minningu látinna félaga. Síðan mun Snigill halda tölu og Ólafur Guðmundsson forseti LÍA flytur ræðu, Árni Johnsen flytur ræðu, fulltrúi lögreglustjóra í Reykjavík talar, Valgerður Þ.E. Guðjónsdóttir frá Umferðarráði talar. Tveir mótorhjólamenn segja frá eigin mótorhjólaslysi, Sniglar láta móðan mása og heiðurssnigill 1000 krýndur. Gunni Klútur 58 kemur á óvart og síðan eru dagskrárlok kl. 18.00. Minjagripasala Snigla verður á staðnum. Hvetjum við alla sem áhuga hafa á að skoða glæsta járnfáka og kynna sér sjónarmið okkar að mæta niðri á Ingólfstorgi kl. 16.00.
Bestu kveðjur.
BRYNJA GRÉTARSDÓTTIR,
Snigill nr. 936,
23. júní 1995
https://www.mbl.is/greinasafn/grein/208757/