Sýnir færslur með efnisorðinu Fróðleikur. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu Fróðleikur. Sýna allar færslur

23.8.12

Fuglasafn Sigurgeirs og Mótorhjólasafnið á Akureyri

 Mörg athyglisverð söfn á Íslandi:

Fuglasafn Sigurgeirs fær hæstu einkunn

- Safn Ólafs á Þorvaldseyri og fjölskyldu hans fylgir þar fast á eftir


Í sumarfríi mínu settist ég upp á mótorhjól og ók stóran hring í kringum Ísland. Á ferðalaginu heimsótti ég nokkur af fjölmörgum söfnum sem urðu á vegi mínum og vert er að benda fólki á að skoða.

Fyrst ber að nefna safn Ólafs á Þorvaldseyri og fjölskyldu hans, sem nefnist Eyjafjallajökull. Frábært
framtak og vel upplýsandi um hamfarirnar þegar Eyjafjallajökull gaus í apríl fyrir rúmum tveim árum. Þó safnið sé ekki stórt eru bæði aðkoma og snyrtimennska til fyrirmyndar og vel staðið að öllu er við kemur safninu. Á safninu er súynd stuttmynd sem er aðallega samansett úr fréttamyndum. Þegar ég var á ferðinni var verið að sýna útgáfu myndarinnar með þýsku tali, en það kom ekki að sök, þessar myndir sögðu allt sem segja þurfti og mögnuð upplifun að vera á staðnum þar sem þessar
hamfarir dundu yfir í svona fallegu umhverfi svo stuttu eftir gosið. Það var einstaklega fræðandi að bera saman útsýnið að gosstöðinni í sumar og myndina, sem tekin var þar sem safnið stendur, þegar fjölskyldan var að flýja heimilið við upphaf goss. Þetta er safn sem enginn má láta framhjá sér fara.
   Næst var það sérstakt safn í Löngubúð á Djúpavogi, en þar eru í raun þrjú söfn; skáldastofa,  Eysteinsstofa Eysteins Jónssonar ráðherra og yfir öllu loftinu í þessu langa húsi er mikið safn gamalla
muna sem eru aðallega frá síðustu öld og flestir þekkja frá barnæsku. Hins vegar mætti leggja smá vinnu í að merkja gripina betur og segja frá því hvaða ár þessir munir voru almennt í notkun. Þarna var lægsti aðgangseyririnn, en aðeins kostaði 500 krónur inn á öll söfnin þrjú.

Fuglasafn Sigurgeirs fær hæstu einkunn

Fuglasafn Sigurgeirs er í YtriNeslöndum við Mývatn. Ég á erfitt með að lýsa hrifningu minni á þessu
safni með öðrum orðum en að þarna hefur systkinum og vinum Sigurgeirs Stefánssonar frá Ytri-Neslöndum tekist frábærlega að reisa safn utan um þetta mikla fuglasafn sem Sigurgeir hafði komið sér upp áður en hann lést í slysi á Mývatni. 
   Þarna hefði ég getað verið allan daginn. Uppsetningin á safninu er þannig að allir fuglar eru í glerbúrum en fyrir framan hvern fugl er lítill takki. Sé ýtt á takkann kviknar lítið ljós við fætur fuglsins og fyrir ofan mann heyrist hljóð úr viðkomandi fugli. Sé ýtt aftur á takkann sér maður á korti hvert fuglinn fer yfir vetrartímann. Það eru ekki bara fuglar í safninu því þarna má einnig sjá lifandi kúluskít og fullyrði ég að þetta sé eini staðurinn þar sem hægt er að sjá kúluskít lifandi á safni. Í húsi við hlið safnsins er lítið bátaskýli og þar er sögð saga veiði í Mývatni. Ég verð, að öllum öðrum söfnum ólöstuðum, að gefa þessu safni hæstu einkunn og
í mínum huga er það eitt besta safn sem ég hef komið á hingað til.

Mótorhjól og falleg listaverk Mótorhjólasafn Íslands er á Akureyri

og reist í minningu Heiðars Þ Jóhannssonar sem lést í mótorhjólaslysi sumarið 2006. Vissulega mætti
aðkoman að safninu vera betri, en hvorki er búið að malbika planið né klæða húsið að utan. Inni í safninu er búið að opna neðri hæðina, en þar eru um 80 mótorhjól og nokkur mjög sjaldgæf, bæði gömul og „alíslensk nýsmíði“, en það sem sjaldnast er nefnt við þetta safn eru hin fjölmörgu listaverk sem Heiðar smíðaði (sennilega er hans þekktasta listaverk minnismerki um fórnarlömb bifhjólaslysa, sem stendur við Varmahlíð og heitir Fallið). 
   Flest þessi listaverk gaf Heiðar vinum og ættmennum við hátíðleg tækifæri. Þegar safnið var opnað tóku þessir vinir og ættmenni sig saman og gáfu safninu listaverkin sem eru höfð í sérstöku herbergi er nefnist Heiðarsstofa. Þar eru uppáhalds mótorhjól Heiðars ásamt bikarasafni hans úr ýmsum keppnum í mótorsporti. Ýmislegir munir eru þarna á safninu er tengjast mótorhjólum eins og sérstakt leyfisbréf til að keyra mótorhjól, munir sem tengjast Sniglunum o.fl. Það sem mest er að þessu safni er aðkoman, en að bæta hana og klæða húsið að utan væri safninu mikils virði.

Mætti vera meira um veiðisögu og nytjar á Selasafni

 Selasetur Íslands er á Hvammstanga og er ágætlega uppsett safn um hina fallegu ímynd selsins, en fyrir mig, afkomanda manns sem skaut sel í matinn um hávetur og gerði að honum í brunagaddi svo að börn hans fengju eitthvað að borða, fannst mér alveg vanta að lýsa nytjum á sel. 
   Þarna mætti alveg segja frá veiðiaðferðum og verkunaraðferðum á árum áður (myndir af verkun á sel hefði dugað mér). Hins vegar fannst mér sniðugt hvernig litlu kassarnir eru settir upp með spurningunum utan á. Þegar maður opnar dyrnar er svarið inni í skápnum. Þetta var vel gert og sérstaklega hvernig hæðin á kössunum er hugsuð til að henta bæði börnum og fullorðnum.


Gaman að koma á Hákarlasafnið

Mér fannst gaman að koma í Hákarlasafnið í Bjarnarhöfn á Snæfellsnesi þó það sé svolítið  sundurlaust.  Þarna er samansafn af  ýmsum áhöldum, veiðarfærum, verkfærum o.fl. sem aðallega var notað snemma á síðustu öld, en einnig eru þarna uppstoppuð dýr s.s. fuglar, refir, minkar o.fl.
Á safnið vantar sárlega meiri lesningu til að útskýra safnhlutina (hversu gamlir þeir voru og til hvers þeir voru notaðir á sínum tíma).
    Margir athyglisverðir gripir eru á safninu og góðar myndir sem sýna verkunarferli á hákarli, næstum allt frá bryggju að þorrablóti. Á þetta safn var gaman að koma, aðkoman góð og móttökurnar voru góðar og alúðlegar. 

Ef ég væri beðinn að raða þessum söfnum í 1. til 6. sæti mundi ég setja Fuglasafn Sigurgeirs í fyrsta sæti, í annað sæti Eyjafjallajökulssetur Ólafs á Þorvaldseyri og síðan get ég ekki gert upp á milli næstu þriggja safna sem eru mislangt komin í  uppbyggingu og eiga eflaust eftir að batna mikið á komandi árum. 
HLJ 
Bændablaðið | 
 23.8 2012

4.7.12

Þakk­lát­ur fyr­ir að vera á lífi

Þór­ar­inn Karls­son var á leiðinni í grill­veislu ásamt tveim­ur vin­um sín­um þegar líf hans um­turnaðist á nokkr­um sek­únd­um. Þeir voru all­ir á mótor­hjól­um og í full­um rétti þegar bíl úr gagn­stæðri átt var ekið í veg fyr­ir þá. Þór­ar­inn lenti á bíln­um og kastaðist eft­ir göt­unni, lenti á kant­steini og flaug af hon­um eina 3 metra þar sem hann kút­velt­ist og endaði á höfðinu.
Slysið varð vorið 2007 á gatna­mót­um við Reykja­nes­braut og var dæmi­gert að mörgu leyti, þar sem ökumaður ger­ir ekki ráð fyr­ir mótor­hjóli og ekur fyr­ir það. Al­geng­asta teg­und mótor­hjóla­slysa eru árekstr­ar á gatna­mót­um, sam­kvæmt upp­lýs­ing­um frá Rann­sókn­ar­nefnd um­ferðarslysa, og í lang­flest­um til­fell­um lend­ir þar sam­an hjóli og bíl. Vand­inn ligg­ur því ekki síður hjá öku­mönn­um bíla, þegar þeir gleyma að taka til­lit til mótor­hjóla í um­ferðinni.
Til­gangs­laust að vera reiður
Þór­ar­inn tví­kjálka­brotnaði, viðbeins­brotnaði og hand­leggs­brotnaði báðum meg­in. Mjaðmakúl­an vinstra meg­in fór í gegn­um mjaðmagrind­ina og vinstri ökkl­inn fór í sund­ur. Rif­bein sem brotnuðu stung­ust í gegn­um lung­un á hon­um og slagæð fór í sund­ur. Þór­arni var haldið sof­andi í önd­un­ar­vél í rúm­ar þrjár vik­ur og út­skrifaðist 6 mánuðum eft­ir slysið eft­ir þrot­lausa end­ur­hæf­ingu á Grens­ás­deild, en rætt var við sjúkraþjálf­ara þar sem unnu með Þór­arni á Mbl.is í gær.
Áverk­arn­ir sem Þór­ar­inn hlaut voru svo al­var­leg­ir að ótrú­legt má heita að hann lifi, enda seg­ist Þór­ar­inn þakk­lát­ur fyr­ir að vera á lífi og ekki tjái að velta sér upp úr því sem hann hafi misst. „Það er enda­laust hægt að vera sár og reiður út í lífið, en maður tap­ar sjálf­um sér og öðrum á því að gera það. Slys­in ger­ast og aum­ingja maður­inn sem lenti í því að fara fyr­ir hjól og gera mann örkumla, það er á sam­visk­unni hans allt hans líf."
Breytt­ur maður vegna heilaskaða
Þór­ar­inn hef­ur náð markverðum bata eft­ir slysið, en mun hins­veg­ar aldrei ná sér að fullu. Hann er með lamaða hægri hönd og með stöðuga verki, en þeir áverk­ar sem erfiðast hef­ur reynst að læra að lifa með sjást þó ekki utan á hon­um, því þeir urðu inni í höfðinu á hon­um. Þór­ar­inn seg­ist hafa grín­ast með heilaskaðann fyrst og ekki gert sér grein fyr­ir hvað hann háir hon­um mikið.
Hann á erfitt með að skipu­leggja, muna hluti, finna orð og tala í sam­hengi. Hann seg­ist í fyrsta skipti hafa kynnst því að til sé nokkuð sem heiti and­leg þreyta. „Að gera ekk­ert er leiðin­legt, en svo ef maður fer að reyna að rembast og segja „ég get þetta al­veg" þá kemst maður að því að það er ekki svo­leiðis. Raun­veru­leik­inn er ekki að geta, held­ur að tak­ast á við lífið eins og það er. En það var svo­lítið erfitt fyr­ir mig fyrst að biðja um hjálp." Skaði á fram­heila olli per­sónu­leika­breyt­ing­um, sem hann skynj­ar að vísu ekki sjálf­ur, en hans nán­ustu hafa sagt hon­um það. Hann hef­ur í kjöl­farið m.a. starfað með Hug­ar­fari, fé­lagi fólks með áunn­inn heilaskaða.
Mun fleiri mótor­hjól í um­ferðinni
Marg­falt fleiri mótor­hjól eru í um­ferðinni í dag en fyr­ir ára­tug. Þannig voru 2.279 mótor­hjól skráð árið 2000, en árið 2011 voru þau 9.922 tals­ins. Það er 440% aukn­ing. Á sama tíma fjölgaði mótor­hjóla­slys­um um 230%, sam­kvæmt töl­um frá Um­ferðar­stofu. 32 slösuðust eða lét­ust á mótor­hjóli árið 2000, en 107 árið 2008 sem var metár að þessu leyti. Sem bet­ur fer hef­ur þó dregið úr al­var­leg­ustu slys­un­um, og í fyrra voru þau 74 tals­ins. Hér má sjá kort yfir öll bana­slys í um­ferðinni á Íslandi und­an­far­in 5 ár.
Árið 2007, þegar Þór­ar­inn varð fyr­ir slys­inu, urðu marg­ir mótor­hjóla­menn fyr­ir sams­kon­ar slys­um. Tveir þeirra létu lífið. Þetta varð til þess að Um­ferðar­stofa réðst í aug­lýs­inga­her­ferðina „Fyr­ir­gefðu, ég sá þig ekki", til að hvetja til meiri aðgát­ar gagn­vart mótor­hjól­um. Síðan hef­ur dregið úr al­var­leg­ustu slys­un­um. Ein­ar Magnús Magnús­son, upp­lýs­inga­full­trúi Um­ferðar­stofu, seg­ir að reynsla og viðhorf hafi áhrif og ár­ang­ur­inn megi m.a. þakka því að veg­far­end­ur séu nú orðnir van­ari mótor­hjól­um í um­ferðinni.
Dýr­keypt að gleyma sér eitt augna­blik
Þór­ar­inn tel­ur þó að fólk mætti vera enn meðvitaðra. „Þegar þetta er komið í praks­is og maður er í um­ferðinni, þó að viðhorfið sé að líta tvisvar og allt það þá koma þessi til­felli, að fólki vilji drífa sig til að ná rauða ljós­inu. Það eru alltaf svona smá augna­blik í um­ferðinni þar sem fólk gleym­ir sér eða er bara í sín­um eig­in heimi."



Þór­ar­inn var á mótor­hjóli á leið í grill­veislu þegar ekið var í
veg fyr­ir hann. Ljós­mynd/Þ​ór­ar­inn Karls­son
Þessi litlu augna­blik geti verið dýr, eins og Þór­ar­inn fékk sjálf­ur að reyna. „Ég skildi ekki hvað slys og áhætta er fyrr en ég var sjálf­ur bú­inn að lenda í þessu. Það er í sjálfu sér ekki slysið sjálft, það tek­ur bara ein­hverj­ar sek­únd­ur, en það eru af­leiðing­arn­ar sem fólk er að berj­ast við í mörg, mörg ár. Og það er ekki bara mann­eskj­an sem slasast sem lend­ir í þessu, held­ur allt fólkið í kring sem upp­lif­ir þetta með manni."
Þór­ar­inn bend­ir á að um­ferðarslys séu eins og öf­ugt lottó. Nokkuð sem eng­inn vilji lenda í, en eng­inn reikni held­ur með því. Hann tel­ur að besti hugs­un­ar­hátt­ur­inn í um­ferðinni sé eins og ann­ars staðar, að koma fram við ná­ung­ann eins og sjálf­an sig. Eng­inn breytt hegðun fólks nema það sjálft. „Ég breyti þér ekki, þú breyt­ir þér."


Þór­ar­inn var á mótor­hjóli á leið í grill­veislu þegar ekið var í veg fyr­ir hann. Ljós­mynd/Þ​ór­ar­inn Karls­son


Marg­falt fleiri mótor­hjól eru í um­ferðinni í dag en fyr­ir ára­tug og árið 2007 urðu mörg sams­kon­ar slys og Þór­ar­inn varð fyr­ir.


Mbl.is/​Elín Esther
4.7.2012

15.9.11

Létt mótorhjól í smalamennsku


  Í Bændablaðinu þann 18. ágúst sl. var auglýst mótorhjól sem „nýjung í smalamennsku“. Létt klifurhjól, tætir ekki upp gróður, umhverfisvænt. Með þessari auglýsingu opnaðist heit umræða um smalamennsku á vélknúnum tækjum og utanvegaakstur.



Flest mótorhjól eiga ekkert erindi í smalamennsku

Ég er á þeirri skoðun að motocrossmótorhjól eigi ekkert erindi í smalamennsku þar sem gróður er. Þau eru sérsmíðuð keppnistæki til aksturs á motocross-brautum, en öðru gegnir með svo kölluð enduro-hjól, sem eru aðeins mýkri, en samt í flestum tilfellum óhentug til smalamennsku. Það er því vissulega fagnaðarefni ef þessi klifurhjól geta verið notendavæn í smölun og alltaf ber að fagna
nýjungum. Af hverju mættu bændur ekki nýta sér nýjustu tækni eins og aðrir? Mér fannst ég knúinn til að kanna málið. Ég hafði samband við umboðið og bað Kristján eiganda þess að lána mér hjólið til prufuaksturs við smalamennsku. Hann varð við bón minni og lánaði mér hjólið, fór ég með það í
Húnavatnssýsluna á kerru og smalaði í tvo daga

Sætislaus Sherco
Mótorhjólið heitir Sherco, er með 272cc tvígengismótor og kemur með götuskráningu, þannig að það
má keyra í almennri umferð. Fyrri daginn fór ég á því keyrandi (standandi alla leiðina) 20 km fram
á Grímstunguheiði í Öldumóðuskála þar sem bændur voru að leggja upp í smalamennsku. Ég kynnti mig fyrir gangnaforingjanum og spurði hvort hann hefði einhver not fyrir mig. Hann svaraði: Það fer einn á sexhjóli niður slóðann hjá Refkelsvatni, fylgdu honum og hann segir þér hvað þú átt að gera. Ég fór vegslóðann á eftir sexhjólinu, rétt eins og hundur sem fylgir húsbónda sínum. Ég reyndi að gera eins og mér var sagt, en mér var ætlað að smala blautasta svæðið á leiðinni niður heiðina á milli tveggja vatna þar sem illfært er gangandi, ríðandi eða á sexhjóli.

Markaði ekki í jarðveginn
Sennilega kom það mér mest á óvart hvað hjólið hafði lítið fyrir þessu og rann þarna ofan á jarðveginum án þess að marka neitt í jörðina, nema hvað grasið lagðist á hliðina rétt á meðan ekið var yfir það, ekki eitt spól og engin drulla. Þegar ég var kominn yfir labbaði ég til baka til að færa sönnur á þetta með mynd. Í þeim göngutúr held ég að hafi markað meira eftir mig og mína hörðu skó en klifurhjólið á fínmunstruðum, mjúkum dekkjunum.

Erfitt að geta ekki setið
Eftir um 70 km akstur fyrri daginn hafði ég eytt rétt innan við fimm lítrum af bensíni. Seinni daginn
smalaði ég fjallshlíð hjá bónda sem ég þekki í Vatnsdalnum og hlíðin er brött, enda heitir fjallið Brattafjall. Hjólið skilaði mér upp og niður hlíðina með lítilli fyrirhöfn, á aðeins einum stað sá ég u.þ.b. meters kafla þar sem ég hafði beygt harkalega og rifið upp mosa, en stærstu mistökin hjá mér í þessum prufuakstri voru að ég æfði mig ekkert á hjólinu fyrir þessa smalamennsku og vitandi það
að geta ekki sest niður á hjólinu var ég ekki í neinu líkamlegu formi til að gera það sem ég gerði þessa helgi á Sherco-klifurhjólinu. Sherco-hjólið gat einfaldlega gert miklu meira heldur en ég gat.

Sporar minna en hross
Tvímælalaust mæli ég með þessu hjóli til smalamennsku og er það mitt mat að hjólið skemmi minna en maður með þrjá hesta. Sama hver fer um landið, það verða alltaf eftir spor og er þá ekki eðlilegt að nota þann fararmáta sem sporar minnst út?
Lokaorð mitt er að auglýsingin stenst;  þetta er umhverfisvænasta hjól sem ég hef keyrt. Mér tókst með mikilli lagni að tæta upp einn meter af mosa með því að gera það á ferð í beygju, hjólið er svo létt að það markar varla í jörð. Sherco-hjólið sem ég prófaði kostar 1.100.000 krónur en nánari
upplýsingar um hjólið má finna á vefsíðunni www.mxsport.is.


Kostir:
Létt (69 kg), kraftmikið, lágvært, götuskráning, mjúk dekk, gott í gang, eyðir litlu (í vinnu einum lítra á klukkutíma), hátt undir lægsta punkt, æðislegt leiktæki (finnst mér allavega).

Ókostir:
Tel að flestir byrjendur vildu hafa sæti (tiltölulega lítið mál að útbúa festingu fyrir reiðhjólahnakk á hjólið en þetta hjól sem ég prófaði er meira keppnistæki í klifuríþróttum, en til eru svipuð hjól með sætum), það þarf að æfa sig á hjólinu fyrir smalamennsku (ég er að drepast úr strengjum), mæli ekki
með hjólinu fyrir þyngri menn en 90 kg (persónulegt mat).


Bændablaðið 
 15. september 2011

7.7.11

Hetja sem ríður um héruð 2011


Njáll ökukennari við nýju Triumph hjólin sem mótorhjólaleigan
hans Biking Viking var að fá.

Njáll Gunnlaugsson skrifar bækur og kennir á vélhjól

Upphaflega fór ég í ökukennsluna til að kenna á mótorhjól en í dag kenni ég líka á fólksbíla,“ segir Njáll Gunnlaugsson, ökukennari og bifhjólamaður. Árið 1998 byrjaði Njáll að kenna á mótorhjól og hefur sinnt því í þrettán ár. Áhugi hans á mótorhjólum hófst snemma á unglingsárunum. „Mótorhjólaáhuginn byrjaði með skellinöðru og svo kaupi ég fyrsta götuhjólið mitt tvítugur og þá var ekki aftur snúið. Fyrst var ég að leika mér á Honda MB og MT sem ég fékk hjá vinum mínum á unglingsárunum og síðan þróaðist þetta út í götuhjólin.“ Njáll segir að frá því hann fékk sér sitt fyrsta
hjól hafi hann alltaf átt mótorhjól. „Ég keypti mér í vetur fyrsta hjólið sem ég átti og ætla að gera það upp á næstu mánuðum en það er kawasaki GPz 550 Þá fjárfesti ég líka í Honda MB svona til gamans og til að rifja upp gamla og góða tíma. Það hjól er nú komið til systursonar míns sem er að taka sínu fyrstu skref á mótorhjóli“

BMW í uppáhaldi

„Ætli það séu ekki að verða 30 til 40 hjól sem ég hef átt yfir ævina. Við hjónin eigum í dag 12 hjól og síðan rek ég mótorhjólaleigu og er með kennsluhjól þar að auki,“ segir Njáll og bætir við að BMW-hjól séu í miklu uppáhaldi hjá sér. „Ég er búinn að eiga og á nokkur BMW-hjól og hef gaman af þeim. Þeir kunna að smíða skemmtileg og flott mótorhjól og þau eru oft hátæknivædd með  skemmtilegum nýjungum.“ Gífurleg aukning á sölu mótorhjóla var um miðjan síðasta áratug í uppsveiflunni en eftir hrun hefur sala á hjólum dregist verulega saman. „Þegar mest var í  uppsveiflunni voru flutt inn nærri 1.500 hjól á ári en í fyrra voru flutt inn 150 hjól. Nýliðun er því minni í dag,“ segir Njáll sem bætir við að mikil sprenging hafi verið í sölu á rafmagnsvespum og augljóst að fólk sé að leita að ódýru farartæki til að komast á milli staða. „Rafmagnsvespurnar eru flokkaðar í sama flokk og reiðhjól ef þær komast ekki yfir 25 km á klukkustund. Menn hafa ekki gert ráð fyrir þessu og það vantar reglur um þetta og jafnvel stíga og annað, bæði fyrir hjól og vespur. Þetta er viðvarandi vandamál á Íslandi í dag. Sá fjöldi sem nú er kominn á rafmagnsvespu getur þó
seinna meir skilað sér á götuhjólin og þannig stækkað flóruna og aukið nýliðun í mótorhjólaheiminum.“


Með mótorhjólið í forgangi

Þó Njáll kenni hvoru tveggja á mótorhjól og fólksbíl er ekki hægt að segja annað en að hann hafi mótorhjólið í forgangi. Þau eiga hug hans allan. „Ég hef lengi safnað gömlum myndum af
mótorhjólum og svo vatt þetta upp á sig og endaði á því að ég gaf út bók um 100 ára sögu mótorhjólsins á Íslandi,“ segir Njáll sem seldi Mótorhjólasafni Íslands upplag af bókinni vel
undir kostnaðarverði til að styrkja byggingu safnsins á Akureyri. „Ég þekkti vel til Heidda, sem safnið er meðal annars reist til minningar um og Jóa, sem rekur safnið. Mér fannst því rétt að styrkja safnið með þessum hætti.“ Bókin, sem heitir Þá riðu hetjur um héruð – 100 ára saga mótorhjólsins á Íslandi, er til sölu hjá Mótorhjólasafni Íslands og er skemmtilegt ágrip um sögu mótorhjólsins á Íslandi.

Ímyndin um hörkutólið 

Það loðir oft við mótorhjólin ímyndin af uppreisnarseggjum í leðurjökkum að þeysast um götur borgarinnar á ógnarhraða. „Það er svo mikil gróska í mótorhjólamenningunni í dag. Það eru allir á mótorhjóli, hvort sem það er ráðherra eða ruslakall. Þegar það eru svona margir á mótorhjólum þá eru alltaf til einhverjir sem vilja greina sig frá fjöldanum, hvort sem fólk gerir það með hjólunum eða klúbbnum sem það er í. Þannig er nú bara mannlífið,“ segir Njáll sem telur að hluti af  ýmyndarvandanum sé ekki síst umfjöllun í fjölmiðlum sem einblíni oftar á slæmu hlutina. Njáll segir vélhjólamenn almennt vera meðvitaða um umferðaröryggi, hvort sem það snýr að þeim sjálfum eða öðrum. „Við í Sniglunum förum á hverju vori út á göturnar til að minna fólk á mótorhjólin á vegunum
og auðvitað líka til að bæta ímyndina.Við keyrum umferðarátak á hverju ári og erum til að mynda í góðu samstarfi við vegagerðina um betra vegumhverfi fyrir mótorhjólafólk, en árangur þessa samstarfs má sjá með tilraunavegriðum á Hafnarfjarðarveginum og mun sjást enn frekar í framtíðinni.“
vilhjalmur@mbl.is
Morgunblaðið
7.7.2011

18.6.09

„Kókapuffs" - Einn versti óvinur bifhjólamannsins





 Ágætu meðlimir og aðrir bifhjólamenn.

Nýlega fór ég rúnt um Egilsstaði á mínu ágæta hjóli. Fór um allmörg gatnamót, ætíð með í huga að þar gæti leynst möl, sandur og annað sem tilheyrir ekki okkar íslenska malbiki, þó malbikið okkar sé vissulega ekki á heimsmælikvarða. Skellti mér í heita pottinn og þegar ég var búinn þar, eftir ca. 1,5 klst, tók ég annan svipaðan hring þar sem veðrið bauð engan veginn upp á að fara beint heim.

 Nema hvað: Hefði ég ekki farið yfir með mín föstu varnarorð í huganum, em ég geri alltaf þegar ég sest á hjólið og set í gang, þá hefði ég verið í háum hættuflokki með að dúndrast á hliðina í sömu beygjunum sem voru þokkalegar hreinar tuttu áður.

Mitt fyrsta persónulega varnarorð er: KÓKAPUFFS!

Greinilegt var, að einhver ágætur/ágætir verktakar höfðu ekið sömu leið og ég, ekki með það í huga að hugsa um öryggi okkar, sem og annara vegfaranda, heldur hugsa um að koma sem mestu efni á trukkana á kostnað öryggis okkar og annara vegfarenda en sínum fjárhag til framdráttar, það er koma sem mestu efni með í hverri ferð. Skiljanlegt að hluta en allt hefur sín takmörk.


#29 Smári Sigurjónsson, meðlimur og stjórnarmaður Vélhjólaklúbbs Austurlands - DREKAR www.drekar.is

19.9.08

Sjálfbærar samgöngur í sjónmáli 2008

ORKUGJAFAR framtíðar í umferðinni og farartæki knúin þeim eru efst á baugi samgönguráðstefnunnar Driving Sustainability ’08 sem sett var á Hilton Reykjavík Nordicahótelinu í gær.
Ráðstefnan er helsti viðburður Samgönguviku Reykjavíkurborgar og skipulögð af Framtíðarorku ehf. Gestgjafar eru Reykjavíkurborg, Landsbankinn og Icelandair. Fyrirlesarar eru margir af fremstu sérfræðingum á sviði nýrrar tækni á samgöngusviðinu og frumkvöðlar í sjálfbærri orkunýtingu. Þá eru sýnd vistvæn ökutæki af ýmsu tagi á ráðstefnunni.

Tilraunastofan Ísland 

Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, hélt opnunarræðu ráðstefnunnar í gærmorgun. Hann sagði að ekki væri langur tími til stefnu að leggja nýjan grundvöll að samgöngum því hefðbundnir orkugjafar, gas og olía, væru að ganga til þurrðar. Ólafur kvaðst vera þeirrar skoðunar að Ísland gæti bæði gegnt hlutverki tilraunastofu og samkomustaðar um orkugjafa framtíðar. Hér mætti stefna saman fólki hvaðanæva úr heiminum til að miðla af og deila með öðrum þekkingu á nýrri tækni. Hann hvatti erlenda gesti ráðstefnunnar til að nýta sér Ísland því mikilvægt væri að sýna í verki að hin nýja samgöngutækni sé nothæf.

Ótæmd orka undir iljunum 

Sigurjón Þ. Árnason, bankastjóri Landsbanka Íslands, benti á að olía, kol og gas væru enn ráðandi orkugjafar þrátt fyrir tækniframfarir. Þekktar lindir jarðefnaeldsneytis tryggja aðeins 40-50 ára notkun eins og hún er í dag. Efnahagslegar ástæður eru ekki síður mikilvægar og hátt olíuverð mun eitt og sér knýja leitina að nýjum orkugjöfum, að mati Sigurjóns. Kjarnorkan er skammtímalausn en framtíðin er í endurnýjanlegum orkugjöfum. Sigurjón vakti athygli á þeirri gríðarlegu orku sem er við fætur manna. Ekki þarf nema örlítið brot af hitaorku jarðskorpunnar til að fullnægja orkuþörf mannkyns.

Sannkallað sólarflug

 Dr. Bertrand Piccard hélt innblásið erindi um að finna nýjar leiðir að lausnum á aðsteðjandi vanda. Piccard öðlaðist heimsfrægð þegar hann flaug fyrstur manna í kringum jörðina í loftbelg. Hann sagðist hafa lofað sér því þá að vera ekki háður eldsneyti í næstu hnattferð. Nú stjórnar hann verkefni um hnattflug á flugvél knúinni sólarorku sem getur verið á lofti jafnt nótt sem dag (www.solarimpulse.com). Stefnt er að tilraunaflugi á frumgerð flugvélarinnar á næsta ári og flugi kringum jörðina einu eða tveimur árum síðar.
Piccard sagði að mannkynið mundi ekki komast af á 21. öld nema það tæki upp nýja endurnýjanlega orkugjafa. Það yrði hvorki einfalt né auðvelt og því fylgi bæði áhætta og áskorun.

Örar framfarir

 Piet Steel, aðstoðarforstjóri evrópskra málefna hjá Toyota-bílaframleiðandanum í Evrópu, gerði m.a. grein fyrir því markmiði Toyota að smíða hinn „fullkomna umhverfisbíl“ og ýmsum leiðum að því marki. Blendings- eða tvinnbíllinn Toyota Prius hefur notið mikillar velgengni og eins blendingsbílar frá Lexus. Steel taldi að blendingstæknin væri besta tæknin í umferðinni nú. Sala Prius hefur vaxið jafnt og þétt og stefnir Toyota að því að selja milljón slíkra bíla á ári snemma á næsta áratug þessarar aldar. Á næsta ári er væntanleg ný kynslóð Prius og tengiltvinnútgáfa, sem hægt verður að hlaða með því að stinga bílnum í samband við rafmagn, er væntanleg. Þá er einnig í undirbúningi að búa bílana fullkomnari rafhlöðum en nú eru í þeim.
 Í gær var einnig fjallað um framfarir í smíði rafgeyma í rafbíla og tvinnbíla, rafvæðingu bílaflotans í Danmörku og lífeldsneyti þar í landi, hönnun afkastamikilla rafknúinna ökutækja, notkun tengiltvinnbíla í norrænum löndum, þróun í átt að farartækjum sem ekki losa kolefni og dagskránni lauk með pallborðsumræðum um hreina tækni, rafmagn og kerfisbreytingu í samgöngukerfinu.
 Hanna Birna Kristjánsdóttir, borgarstjóri í Reykjavík, mun slíta orkuráðstefnunni síðdegis í dag
Eftir Guðna Einarsson gudni@mbl.is
Morgunblaðið
19.9.2008

4.3.08

Ofur-rafmótorhjól til Íslands

 Heimsins kraftmesta rafmagnsmótorhjól, Killacycle frá Colorado í Bandaríkjunum, verður til sýnis á ráðstefnunni Driving Sustainability ´08 sem fram fer á Hótel Nordica í dag og á morgun. 


Hönnuður Killacycle-hjólsins og eigandi, Bill Dubé verður með kynningu á tækninni að baki þessu einstaka farartæki, sem sett hefur hvert hraða- og spyrnumetið á fætur öðru á síðustu árum. Í desember síðastliðnum fór það kvartmíluna í fyrsta sinn á undir átta sekúndum, en það er langbesti spyrnutími sem rafdrifið farartæki hefur nokkru sinni náð. Auk þessa ofurmótorhjóls verða öllu hversdagslegri en þó nýstárleg farartæki til sýnis og til umfjöllunar á ráðstefnunni, svo sem rafmagnsvespur og rafreiðhjól. Sú þróun sem orðið hefur í rafhlöðutækni á síðustu árum hefur nú gert rafdrif í svo léttum farartækjum að mjög hagnýtum og hagkvæmum kosti til að komast mengunar- en þó áreynslulaust milli staða innanbæjar. Þetta er í annað sinn sem alþjóðlega ráðstefnan Driving Sustainability er haldin, en rafvæðing ökutækja, stórra sem smárra, er í brennidepli dagskrár hennar í ár. Meðal annarra dagskrárliða má nefna kynningu á „i MiEV“-rafbílnum frá Mitsubishi og á tilraun til að fljúga umhverfis hnöttinn á sólarrafdrifinni flugvél. - aa
Fréttablaðið 
18.08.2008

27.10.07

Innrás mótorhjóla úr austri

 MARGIR hafa velt fyrir sér auknum innflutningi bíla frá Kína til Evrópu og hugsanlegri sprengingu á markaði ódýrra bíla í kjölfarið. 

Þessi sprengja er hins vegar um það bil að springa í mótorhjólainnflutningi og ekki síður hér á Fróni en á meginlandinu. Á undanförnum þremur árum hafa vel á þriðja hundrað kínversk mótorhjól verið flutt til landsins og er þá ekki talinn með fjöldi fjórhjóla. Í Kína varð sprengingin í framleiðslunni árið 2003 og hún hefur aukist töluvert síðan. Árið 2003 voru framleidd 14 milljón mótorhjól í Kína, sem var 48% af heimsframleiðslunni. 

Kína flytur út mótorhjól til yfir 200 landa, og þá oftar en ekki til þróunarlanda í Asíu og Afríku. Árið 2010 er búist við að Kína og Indland verði með samanlagða framleiðslu upp á 36 milljón mótorhjól á ári. Þar sem annars staðar aukast sífellt kröfur um minni mengun farartækja sem eykur eftirspurn eftir betri eldsneytis- og kveikjukerfum. 

Eitt íslenskt fyrirtæki hefur sett stefnuna á þann markað en það er fyrirtækið Fjölblendir ehf. sem hefur þróað blöndung fyrir minni vélar sem minnkar losun CO2 allt að 80% og HC+NOx allt að 35%.

Útflutningur til Ameríku og Evrópu vex líka hröðum skrefum en útflutningur þangað jókst úr 3,4 milljónum eintaka árið 2002 í 9 milljón stykki árið 2004. Þetta er aukning upp á 123% á tveimur árum og aukning á útflutningsverðmæti úr 650 milljónum dollara í 1,45 milljarða dollara. 

Þessu er líkt farið í mörgum löndum í Suðaustur-Asíu. Mikil aukning er á framleiðslu mótorhjóla í Indlandi en þar er áætlað að framleiðslan aukist um meira en helming á næstu þremur árum, upp í 15 milljónir mótorhjóla á ári árið 2010. Lönd eins og Suður-Kórea og Malasía eru einnig á hraðri uppleið. Í Malasíu jókst framleiðslan frá 2003 úr 352.933 mótorhjólum í 472.726 mótorhjól árið 2004, eða aukning upp á 34%. Flest þau mótorhjól sem framleidd eru í Austurlöndum fjær eru undir 200 rúmsentimetrum.

Morgunblaðið
26. OKTÓBER 2007

26.10.07

Sjálfskipt mótorhjól með „skotti“

ÍTALSKI mótorhjólaframleiðandinn Aprilia hefur nú lært ýmislegt af framleiðslu skellinaðra og ákveðið að bjóða mótorhjól sem gæti heldur betur hleypt lífi í mótorhjólamarkaðinn. Um er að ræða sjálfskipt mótorhjól sem ætti að hafa drjúgt notagildi þar sem það er líka með „skotti“.

Aflið gert aðgengilegt

Það er Aprilia Mana sem mun fást með þessum sjaldgæfa búnaði – í mótorhjólum í það minnsta. Þetta er þó ekki í fyrsta skiptið sem mótorhjól fæst sjálfskipt því bæði Honda og Moto Guzzi hafa smíðað mótorhjól með sjálfskiptum gírkassa – árin 1979 og 1975. (Þá má geta þess að nýverið kynnti Honda nýja gerð sjálfskiptingar sem lesa má nánar um á bls. 2 í blaðaukanum.)

   Sjáfskipting verður stillanleg á þrjá vegu; með sport, touring og regnstillingu en einnig er handskiptimöguleiki fyrir hendi, líkt og á fínustu lúxusbílum.

Góðir dómar

Mörgum kann að lítast illa á þá hugmynd að hafa mótorhjól sjálfskipt og hafa þannig t.d. ekki stjórn á skiptingum í beygjum en mótorhjólið hefur nú þegar verið tekið til prófunar hjá breska veftímaritinu Telegraph.co.uk og fékk þar mjög góða dóma og var sjálfskiptingin með öllu hrekklaus.

   Hjólið er útbúið 75 hestafla vél, 840 cc, tveggja strokka V-vél með 8 ventlum og er aflið yfirdrifið fyrir sjálfskiptinguna og í raun hentar sjálfskiptingin vel þar sem hröðun úr beygjum og úr lítilli ferð verður snurðulaus.

   Helstu mínusarnir þóttu vera mikill titringur og sú staðreynd að með sjálfskiptingu er vélarhemlun nánast úr sögunni. 

Morgunblaðið 
26. OKTÓBER 2007

5.10.07

BMW á góðri siglingu


Í rúm 80 ár hafa BMW mótorhjól aðallega verið þekkt fyrir þrennt; áreiðanleika, endingu og svarta litinn sem yfirleitt prýðir þau. Til viðbótar þessu þóttu BMW mótorhjól framan af vera tæki fyrir roskið mótorhjólafólk, í það minnsta vel efnað mótorhjólafólk því BMW mótorhjól hafa jafnan verið með þeim dýrustu sem til eru.

   Síðan á sjöunda áratugnum hefur þó BMW hægt og rólega verið að taka nýja stefnu og er um að ræða þróun fremur en einhverja byltingu þó annað megi lesa úr erlendum tímaritum.
   Þróunin hófst með R90S og R100RS sem á sínum tíma voru byltingarkennd hjól og fyrstu sportlegu BMW mótorhjólin. Síðan þá hefur þróunin hægt og sígandi verið í þá átt að BMW höfðar með hjólum sínum sífellt meira til yngri kaupenda en þó ennþá efnaðra. Hin síðustu ár hefur þróunin tekið stórt stökk fram á við og sendir BMW nú frá sér hvert hjólið á fætur öðru sem margir rótgrónir BMW mótorhjólaunnendur myndu líklegast ekki þekkja sem BMW hjól ef þeir sæu það úti á götu.

Brautargræja með meiru

HP2 Sport er eitt af þessum mótorhjólum en eins og önnur hjól BMW sem hafa markað nýju stefnuna síðustu árin þá er hjólið í eðli sínu ekta BMW.
   HP2 Sport byggist eins og nafnið gefur til kynna á háþróaðri HP mótorhjólalínu BMW en HP stendur fyrir „High Performance“. Í HP mótorhjólunum hefur þyngd verið minnkuð eins og unnt er og aflið aukið en samt er haldið í það sem er þykir einkennandi fyrir BMW, þ.e. drifskaftið og boxervélina frægu.
   BMW HP2 Sport er án efa eitt sportlegasta hjólið frá BMW í dag. Hjólið er útbúið 1200 vél með fjórum ventlum á strokk og skilar það 128 hestöflum við 8750 snúninga sem er það mesta sem boxervél frá BMW hefur skilað frá upphafi.
   Til að koma aflinu í götuna, en það er yfirleitt engin hægðarleikur á öflugum mótorhjólum, hefur HP2 Sport fengið sex gíra „quick shift“ gírkassa sem leyfir skiptingar í næsta gír fyrir ofan á fullri gjöf líkt og á keppnismótorhjóli.
   Hjólið er aðeins 178 kíló að þyngd, eða 199 kíló með öllum vökvum og verður það að teljast nokkuð gott fyrir BMW mótorhjól og ættu aksturseiginleikarnir að verða góðir þar sem boxermótorhjólin frá BMW hafa sérlega lágan þyngdarpunkt.


   Öhlins demparar eru á hjólinu, bæði að framan og aftan en auk þess er hjólið með ABS bremsukerfi og háþróað, en óhefðbundið Telelever fjöðrunarkerfi sem gefur mótorhjólinu mikinn stöðugleika við erfiðar aðstæður. 


Morgunblaðið 5.10.2007
Eftir Ingvar Örn Ingvarsson
ingvarorn@mbl.is

16.6.07

Bifhjólamenn fordæma ofsaakstur


SAMTÖK bifhjólamanna hafa hver á fætur öðrum sent frá sér yfirlýsingar þar sem þau fordæma háskaakstur, hvort sem er á bifhjólum eða öðrum farartækjum. Þau benda á að hraðakstur á mótorhjólum sé ekki einkamál þeirra sem þessa iðju stunda heldur hafi hann áhrif á bifhjólamenn um allt land.

 Yfirlýsingarnar koma í kjölfar þess að tveir mótorhjólamenn, sem reynt höfðu að stinga lögreglu af, lentu í árekstri á Breiðholtsbraut aðfaranótt mánudags en við hann hálsbrotnaði annar mannanna. Síðdegis í gær fengust þær upplýsingar á gjörgæsludeild að hann væri enn sofandi í öndunarvél. Hinn maðurinn slasaðist ekki alvarlega. Aðeins um tveimur sólarhringum eftir þetta hörmulega slys mældist stór hópur mótorhjólamanna á um 174 km hraða á Þingvallavegi en þegar lögregla gaf þeim merki um að nema staðar stungu þeir af. Ekki kom til eftirfarar í það skiptið og eru mennirnir ófundnir, eftir því sem lögreglan á höfuðborgarsvæðinu sagði í gær.


Gríðarleg fjölgun

Sylvía Guðmundsdóttir, varaformaður Sniglanna, bifhjólasamtaka lýðveldisins, sagði samtökin fordæma allan hraðakstur. Nú færi mikið fyrir fréttum af hraðakstri mótorhjólamanna en hún taldi líklegt að það stafaði einfaldlega af þeirri fjölgun sem orðið hefur í þessum hópi á síðustu árum. 

Í Morgunblaðinu í gær var greint frá því að sýslumaðurinn á Selfossi hyggst krefjast þess að hjólin sem mennirnir tveir voru á verði gerð upptæk, en við þá kröfu styðst hann við nýtt ákvæði í umferðarlögum. Annað hjólið er reyndar talið nánast ónýtt en það hefur engin áhrif á kröfugerðina. Til að forðast misskilning er rétt að taka fram að hið sama mun ganga yfir ökumenn bifreiða sem verða staðnir að ofsaakstri. 

Sylvía sagði að Sniglarnir gætu ekki lýst sig andvíga þessari ákvörðun sýslumanns enda væri heimildin bundin í lög. Þá vonaðist hún til þess að þessi stefna hefði sem mest forvarnargildi. Hún hefði hins vegar heyrt frá nokkrum bifhjólamönnum að þetta yrði til þess að þeir myndu alls ekki stöðva hjólin ef þeir ættu á hættu að glata hjólunum í hendur lögreglu. 

Morgunblaðið hefur áður fjallað um þá sprengingu sem hefur orðið í innflutningi á bifhjólum eins og sést í töflunni hér að ofan. Um leið hefur þeim fjölgað gríðarlega sem hafa tekið mótorhjólapróf eða úr rúmlega 200 árið 1998 í ríflega 1.000 í fyrra. 

Guðbrandur Sigurðsson, aðalvarðstjóri hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, sagði að þrátt fyrir of mörg dæmi um ofsaakstur mætti ekki gleyma því að stærstur hluti bifhjólamanna væri til fyrirmyndar. 




Eftir Rúnar Pálmason
runarp@mbl.is

 https://timarit.is/files/42497224

Meira en hundrað bifhjól á sérstakri sýningu í dag


BIFHJÓLASAFN
er væntanlegt í flóru safnanna á Eyjafjarðarsvæðinu og í dag fer fram sérstök fjáröflun til styrktar því. Hún fer þannig fram að haldin er sérstök bifhjólasýning í Toyota-húsinu á Akureyri á Baldursnesi frá 10-19. Á annað hundrað mótorhjóla frá öllu landinu verða til sýnis. Að auki verður tekið við frjálsum framlögum til að setja safnið á fót. Safnið er stofnað í minningu Heiðars Þ. Jóhannssonar sem lést í bifhjólaslysi 2. júlí á síðasta ári. 

„Bifhjólasafnið mun spanna hundrað ára sögu bifhjólsins,“ segir Jóhann Freyr Jónsson sem unnið hefur að því að stofna safnið. „Við höfum yfir 50 hjól í langtímageymslu sem eiga eftir að fara í safnið, þannig að nú vantar bara húsnæði undir það. Af þessum hjólum skildi Heiddi sjálfur eftir sig ein 22.“


Fannst í Grímsárvirkjun


Meðal hjóla safnsins er eitt af gerðinni BSA Lightning 650cc ’71-árgerð, sem áður var í eigu Heiðars Þ. Jóhannssonar. „Þetta er fyrsta stóra hjólið sem hann eignaðist og hann varð frægur fyrir alls konar kúnstir á því. Hjólið komst bara nýlega í okkar hendur. Stuttu eftir andlát hans gerðist nefnilega sú ótrúlega tilviljun að hjólið fannst í góðu standi í Grímsárvirkjun. Þannig að við fengum það að sjálfsögðu í safnið.“ Hjólið er vel ökufært og var í gær ekið til Akureyrar fyrir sýninguna.




15.6.07

Tían sýnir á Akureyri


 Meðlim­ir Bif­hjóla­sam­taka Lýðveld­is­ins Snigl­anna standa nú fyr­ir mik­illi mótor­hjóla­sýn­ingu á Ak­ur­eyri. Stofnað hef­ur verið mótor­hjóla­safnið Tían sem sam­an­stend­ur að mestu leyti af þeim 50 bif­hjól­um sem voru í eigu Heiðars Jó­hanns­son­ar snigils núm­er tíu sem lést í bif­hjóla­slysi fyr­ir tæpu ári síðan. Bif­hjóla­menna hafa fjöl­mennt á sýn­ing­una sem stend­ur fyr­ir utan hús­næði Toyota á Ak­ur­eyri í blíðskap­ar veðri og stend­ur hún til klukk­an sjö í kvöld.




18.5.07

Mótorhjólajálkar í ralli


Góður andi

Í kringum keppni sem þessa skapast ævinlega góður andi meðal manna en þarna var saman kominn mikill fjöldi mótorhjóla áhugafólks og sýndu gestir reyndar ekkert minni áhuga á yngri mótorhjólum sem voru einnig á svæðinu.
Meðal þeirra mótorhjóla sem mátti sjá þarna var fjöldinn allur af Harley Davidson en fyrirtækið var stofnað árið 1903 í Milwaukee í Bandaríkjunum, Indian-mótorhjól sem einnig eru frá Bandaríkjunum og voru framleidd á tímabilinu 1922-1953, Nimbus mótorhjól voru einnig í talsverðum mæli enda ekki skrítið þar sem þau eru dönsk og voru framleidd á árunum 1920 til 1957. Þarna mátti einnig sjá nokkur Royal Enfield sem eru bresk en fyrirtækið var stofnað 1890, bresku BSA-hjólin voru þarna líka en fyrsta hljólið af þeirri tegund var hannað 1903 og Henderson sem voru – og eru enn – með glæsilegustu mótorhjólum en þau voru aðeins framleidd í skamman tíma, frá 1912 til 1931, en voru þá með því hraðskreiðasta sem til var á götunum. Einnig gat að líta hjól frá Sunbeam sem er breskt fyrirtæki og framleiddi mótorhjól frá 1912 – meðal annars fögnuðu þau oft sigrum í TT (tourist trophy) kappakstri og síðast en ekki síst BMW sem hóf smíði mótorhjóla árið 1923 með hinu fræga R32.

ALDUR og fyrri störf þurfa ekki að vera nein hindrun fyrir mótorhjól frekar en ökumenn þeirra.
Slík hefði yfirskriftin getað verið í árlegu ralli forn-mótorhjóla sem haldið var í Danmörku í gær en þar er ekið sem leið liggur frá Skagen, nyrsta odda Danmerkur, til Kaupmannahafnar.
Blaðamaður náði keppendum í Álaborg þar sem þeir sýndu gestum og gangandi gripina og var þarna mikið um forvitnileg mótorhjól og ekki síður forvitnilega ökumenn.
Þetta er í 42. skiptið sem rallið er haldið og eru elstu mótorhjólin frá 1914 og þau yngstu frá 1934. Í þetta skiptið voru keppendur 244 talsins og var virkilega gaman að sjá þessi gömlu mótorhjól keyra um götur Álaborgar og sérstök upplifun að heyra í gömlu vélunum. 
   Það kemur á óvart hve þátttakan er góð í keppni sem þessari, í ekki stærra landi en Danmörku og því má leiða líkum að því að jafnvel væri grundvöllur fyrir álíka viðburði á Íslandi – þó vissulega yrði hann smærri í sniðum. Það leynast í það minnsta ótrúlegustu gripir í bílskúrum landsmanna sem eru ekki eingöngu á fjórum hjólum.

Morgunblaðið 18.5.2007

3.4.07

Kerr­ur fyr­ir mótor­hjól

Svona lít­ur þessi magnaða kerra út. mbl.is

Já það er allt til meira segja kerr­ur fyr­ir mótor­hjól. 

Wipi er franskt fyr­ir­tæki sem sér­hæf­ir sig í smíðum á mótor­hjóla­kerr­um. Smíðin er stór­merki­leg og mikið er lagt í það að hafa kerr­urn­ar flott­ar í út­liti. Þegar skoðuð er hönn­un­in sjálf sést strax að mikið hef­ur verið hugsað út í létt­leika kerr­un­ar. Kerr­an er svipuð á breidd og hjól yfir höfuð og ekk­ert ósvipuð hjóli yfir höfuð. Kerr­an er fest með sér­stöku festi­setti sem sett er á Sw­ing­arm hjóls­ins sem ger­ir kerr­unni kleift að hall­ast um leið og hjólið, bremsu­ljós er tengt frá hjól­inu yfir í kerr­una.

Fyr­ir­tækið hann­ar kerr­ur fyr­ir hvert hjól og pass­ar ekki kerra yfir á aðra hjóla­teg­und. Þeir sem vilja fræðast nán­ar um kerr­urn­ar geta skoðað vefsíðuna www.remorque-wipi.com.

https://www.mbl.is
3.4.2007

30.6.06

Stormur kynnir Victory mótorhjól



 Það er viðeigandi að söluumboð Victory-mótorhjólanna, Stormur ehf., hefji sölu á þessum lítt þekktu mótorhjólum 4. júlí, þjóðhátíðardag Bandaríkjanna en þá eru átta ár liðin frá því merkinu var hleypt af stokkunum í Bandaríkjunum. „4. júlí er átta ára afmæli Victory-mótorhjóla fagnað í Bandaríkjunum og því full ástæða til að fagna sömuleiðis opnun fyrsta sjálfstæða umboðsins fyrir Victory-hjól utan Bandaríkjanna,“ segir Skúli Karlsson, framkvæmdastjóri Storms ehf.

Skúli ætlar að bjóða öllum mótorhjólaáhugamönnum að fagna áfanganum með sér í húsakynnum Storms að Kletthálsi 15 og bjóða upp á veitingar á staðnum.
Til sýnis verða fimm gerðir Victory-mótorhjóla, á verði frá 1.851 þúsund til 2.301 þúsund, en það eru gerðirnar Vegas, Vegas 8 ball sem er ódýrasta mótorhjólið, Jackpot sem er dýrasta mótorhjólið, Hammer og Kingpin – einu hjólin sem vantar úr framleiðslulínu Victory eru Jackpot Ness Signature og Victory Touring Cruiser en þau mun þurfa að sérpanta.

„Ég er ekki að selja þetta vegna verðsins, ég sel þetta vegna þess að þetta eru langflottustu hjólin á markaðnum,“ segir Skúli sem fékk verðlaun fyrir fallegasta mótorhjólið á sýningu Bílaklúbbs Akureyrar helgina 16. til 18. júní en þar vöktu hjólin mikla athygli.

Victory hefur náð góðum árangri í Bandaríkjunum sem „hitt“ bandaríska mótorhjólamerkið en söluaukning síðustu ár hefur verið mjög mikil og telja framleiðendur Victory að það stafi að stórum hluta af því að þeir fylgja ekki hefðum og eru ungt fyrirtæki í mótorhjólaframleiðslu sem leitar nýrra leiða.

Flest Victory mótorhjól eru með 100 rúmtommu vél, eða sem svarar rúmlega 1,6 lítra vél og því ljóst að þessi mótorhjól eru ekki vélarvana en jafnan eru mjög stórir og öflugir mótorar notaðir í þær gerðir mótorhjóla sem flestir kalla orðið „hippa“ hér heima.

Morgunblaðið 30.6.2006

18.8.05

Yamaha 2-trac


NÝVERIÐ kom á almennan markað mótorhjól sem er afar óvenjulegt fyrir þær sakir að það er með drifi á báðum hjólum. Kíkjum nánar á gripinn.
Hvað er Yamaha 2-trac? Hjólið er í raun hið sama og Yamaha WR 450 nema með drifi á báðum hjólum.



Hvernig virkar framdrifið? Í stuttu máli er glussadæla fest á mótorinn og dælir hún vökva gegnum leiðslu sem liggur inn í rotor á framdekkinu sem fær það til að snúast. Afturdekkinu er svo snúið á hefðbundin máta með keðju og tannhjólum.
Hvers vegna framdrif? Hugmyndin er ekki ný, mönnum hefur lengi hugnast að láta vélaraflið knýja bæði fram- og afturdekkið en það er ekki fyrr en á síðustu misserum að menn hafa séð mögulegan markað opnast fyrir slík hjól. Það er helst fyrir tilstilli tækniþróunar og aukinnar sölu á mótorhjólum að menn hafa loks látið verða af því að setja slík aldrifshjól í framleiðslu. Yamaha reið á vaðið, KTM eru að blása til sóknar á þessum markaði og líklegt að fleiri fylgi í kjölfarið. Hugmyndin á margt skylt við fjórhjóladrifsbíla, að gefa ökutækinu jafnara og meira grip öllum stundum.


Hvernig er samvinna fram- og afturdekks? Gagnstætt því sem margir halda er framdrifið í vinnslu öllum stundum, ekki bara ef afturdekkið byrjar að spóla. Framdekkinu er snúið áfram á sama hraða og afturdekkinu. Þegar afturdekkið missir grip og byrjar að spóla (s.s. í djúpum sandi) byrjar framdekkið að snúast hraðar til að halda í við afturdekkið. Þannig virkar framdrifið mest þegar á reynir og notar það allt að 15% af afli mótorsins til að toga hjólið áfram.
Hvernig kemur 2-trac út úr reynsluakstri? Við vitum nú þegar að að grunninum til er þetta bara hefðbundið WR 450 og það eitt og sér er gott mál. Hinsvegar breytir framdrifið aksturseiginleikunum verulega. 2-trac er rásfastur fákur. Þetta er líklega eins nálægt því að vera járnbrautarlest og mótorhjól mun nokkurntíma komast hvað aksturseiginleika varðar. Það er hreinlega eins og hjólið sé á teinum. Það getur bæði verið gott og slæmt, fer eftir því hvar og hvernig þú ert að keyra. Í djúpum sandi er það hrein snilld; þú bara miðar þangað sem þú vilt fara, snýrð upp á bensíngjöfina og hjólið hreinlega étur sig áfram og skilur afturhjóladrifnu hjólin eftir spólandi. Yfirburðir tvídrifsins koma einnig vel í ljós yfir torfæran og sleipan jarðveg þar sem hjólið er alger klifurköttur. Þar sem við erum að fjalla um stórt mótorhjól í öllum skilningi þess orðs, og tvö dekk sem snúast af krafti, verður maður töluvert var við beygjutregðu. Vertu ekkert að rembast við að taka innri aksturslínur í gegnum þröngar beygjur þar sem hjólið virkar í eðli sínu best þegar það fer sem beinast áfram. Þú þarft að átta þig á hvernig hjólið hegðar sér og vinna með því en ekki á móti. T.a.m. eru flestir vanir að aka gegnum sléttar og kantlausar beygjur eftir jöfnum bogalöguðum ferli. Á 2-trac verður þú að leggja þennan akstursstíl til hliðar því framdekkið togar þig áfram, byrjar að stýra en leitast á sama tíma við að rétta sig við og getur þar af leiðandi beint hjólinu út úr beygjunni sem var nú ekki beint hugmyndin í upphafi. Mér reyndist best að koma inn í slíkar beygjur í beinni línu, bremsa með afturdekkinu, búa til vinkil og snúa hjólinu í þá átt sem ég vildi fara, gefa svo aftur í og fara aftur út úr beygjunni í því sem næst beinni línu. Þannig virtist maður ná tökum á hjólinu og með bæði dekkin í vinnslu og þennan kraftmikla mótor var hröðun hjólsins mjög mikil út úr beygjunum og gaman að vera til. Ekki gafst færi á að prófa hjólið í fullorðins brekkuklifri en það er ljóst að á þessu hjóli gæti maður loks klárað brekkur sem hafa gert manni lífið leitt árum saman.
Fyrir er WR 450 nokkuð þungt hjól og er framdrifið varla til þess fallið að létta hjólið. Þó segir Yamaha að 2-trac sé einungis 5 kílóum þyngri en afturhjóladrifni bróðirinn en hvað sem því líður verður maður nokkuð var við kílóin. 2-trac er engu líkt, ekki bara hvað aksturseiginleika varðar heldur hljómar og lyktar hjólið öðruvísi en önnur hjól. Já, þú heyrir nefnilega hvininn í glussanum undir hausnum á þér þar sem hann sprautast gegnum leiðslurnar og inn í framdrifið. 

Og þegar átökin eru mikil hitnar vökvinn og fer að gefa frá sér daufa lykt sem fer ekki fram hjá þér. Eflaust finnst einhverjum þetta fráhrindandi en persónulega fannst mér þetta bara ansi töff! Ohlins sér um fjöðrunina á 2-trac og hvað það áhrærir er hjólið hrein og klár snilld. Ohlins fjöðrun er jafn dýr og hún er góð. Það er sama hvar ber niður, í grjóti, í grasþúfum, í stökkum og lendingum, fjöðrunin hreinlega étur upp allan óþverra sem á vegi hjólsins verður.
Þegar upp er staðið má lýsa 2-trac með tveimur orðum: Grip, fjöðrun. Er þetta hjól fyrir þig? Áttu digra sjóði inni á bankabókinni? Ert þú sífellt í baráttu við djúpan sand, sleipa steina eða brattar brekkur. Vilt þú vera öðruvísi? Ef það er málið er 2-trac inni í myndinni.

ÞK
Morgunblaðið 
Dagbók Drullumallarans 18.8.2004

25.8.04

Vélhjólamaður kærir lögreglumann

Vélhjólamaður hefur kært lögreglumann í Reykjavík fyrir að hafa stofnað lífi sínu og limum í hættu. Hilmar Ingimundarson, lögmaður vélhjólamannsins, segir lögregluna hafa farið yfir á öfugan vegarhelming til að stöðva vélhjólamanninn sem kom á móti lögreglubílnum á Ægisíðunni. Málið var kært til lögreglunnar í Reykjavík sem áframsendi málið til ríkissaksóknara. Lögreglan er vanhæf til að rannsaka kærur á hendur sínum starfsmönnum og félögum. Hilmar segir með ólíkindum að lögreglumaður hafi ætlað sér að stöðva mótorhjól á ferð með þessum hætti. Hann segir lögregluna hafa fyrr um kvöldið hafa verið að eltast við vélhjól á mikilli ferð en þeir hafi ekki vitað hvort um sama hjól hefði verið að ræða eða ekki. "Hann var alltof seinn að bremsa og lenti á lögreglubílnum sem var á öfugum vegarhelming. Hann hlaut skrámur og mar og hjólið fór mjög illa," segir Hilmar. Lögreglumaðurinn segist hafa sett viðvörunarljósin á en vélhjólamaðurinn kannast ekki við það og hefur Hilmar farið fram á rannsókn. Í tetrakerfinu á að vera hægt að sjá hvar lögreglubílar eru staddir, á hvaða hraða og hvort þeir séu með viðvörunarljósin á. Slysið varð 31. maí og fór Hilmar fram á rannsóknina 10. júní þar sem upplýsingar úr tetrakerfinu væru ekki geymdar nema í tvo mánuði.

Vísir
25. ágúst 2004

17.12.03

Tvær bækur um mótorhjól


UM þessar mundir er verið að skrifa tvær bækur um mótorhjól á Íslandi. Annars vegar er um að ræða 20 ára afmælisrit Bifhjólasamtaka Lýðveldisins, Snigla, sem kemur út á næsta ári.


Annars vegar er um að ræða 20 ára afmælisrit Bifhjólasamtaka Lýðveldisins, Snigla, sem kemur út á næsta ári. Áætlað er að sú bók verði tæplega 200 síður í A4-broti og prentuð í lit og því öll hin glæsilegasta. Samið hefur verið við fyrirtækið Hönnun og umbrot ehf. að annast útgáfu og sölu þessarar bókar. 
Í bókinni verður fjallað um 20 ára sögu samtakanna og eru gamlir félagar, sem eiga til góðar sögur og myndir, hvattir til að hafa samband við ritstjórnina á netfanginu sniglar@design.is.


100 ára afmælið



Árið 2005 eru 100 ár síðan fyrsta mótorhjólið kom til landsins og af því tilefni mun um jólin 2004 koma út saga mótorhjólsins fram að stofnun Sniglanna árið 1984. Fyrsti mótorhjólamaður landsins var Þorkell Þ. Clementz vélfræðingur sem einnig var fyrsti bílstjóri Thomsen-bílsins. Hann kom með fyrsta hjólið 20. júní 1905 og sótti reyndar um einkaleyfi á vörumerkinu ELG fyrir það, en ekki er vitað til að sú tegund hafi nokkurn tímann verið við lýði.
 Hjólið var í samkeppni við bílinn og þótti fljótt í ferðum miðað við hann. Að sögn Njáls Gunnlaugssonar, höfundar bókarinnar, er lítið annað vitað um þennan grip og engar myndir til af hjólinu svo vitað sé. "Þorkell var mikill frumkvöðull og því væri gaman að vita meira um hann ef einhver skyldi lúra á upplýsingum um hann. Í bókinni verður einnig fjallað um aðra frumkvöðla, en mótorhjólin urðu oft fyrst til að komast ákveðnar leiðir um landið. Meðal annars mun fyrsta vélknúna farartækið til að fara yfir Kjöl hafa verið mótorhjól.
 Ekki verður skrifað um mótorhjólasögu landans án þess að fjalla um Lögregluna í Reykjavík, sem í rúm 60 ár hefur notað Harley Davidson-hjól í þjónustu sinni. Einnig verður til dæmis fjallað um skellinöðruklúbbinn Eldingu sem Æskulýðsráð Reykjavíkur stóð fyrir, en margir þjóðþekktir einstaklingar voru þar virkir félagsmenn um tíma," sagði Njáll.


Sem hluta af þessu verkefni Njáls hefur hann sett saman lista með upplýsingum um gamla eigendur og tegundir mótorhjóla á Íslandi og er nú svo komið að yfir 800 fornhjól eru á þessum lista. Vill Njáll hvetja alla sem eru með gömul mótorhjól eða upplýsingar um þau að hafa samband í síma 898-3223 eða skrifa honum tölvupóst á netfangið okukennsla@simnet.is og nálgast jafnvel upplýsingar um gömlu hjólin sín og bæta í gagnagrunninn.


"Myndir og sögur í bókina eru líka vel þegnar því enn má bæta í eyðurnar í sögunni," sagði Njáll að lokum.

MBL
17.12.2003

8.10.03

Tomahawk sem skúlptúr

Hugmyndahjólið Tomahawk er það öflugasta sem smíðað hefur verið. Hjólið er smíðað utan um V10 vélina úr Viper.

Tomahawk sem skúlptúr


HJÓLIN undir farartækinu eru fjögur en samt telst þetta vera mótorhjól og kallast Dodge Tomahawk. Þetta er eitthvert grófgerðasta og aflmesta mótorhjól sem búið hefur verið til en það er ekki komið á markað og verður líklegast aldrei markaðssett. Hjólið skilar 500 hestöflum og hröðun úr kyrrstöðu í 100 km hraða er 2,5 sekúndur og hámarkshraði talinn vera 480 km á klst, þ.e.a.s. ef sá maður finnst sem getur staðfest þessar tölur með akstri. 
  
Hjólið er smíðað utan um V10 vélina, þá sömu og er að finna í Viper ofursportbílnum. Slagrýmið er 8,3 lítrar. 
Hjólið var frumsýnt á bílasýningunni í Detroit snemma á þessu ári og nú hefur verið sérsmíðað annað hjól fyrir ónefnda sérverslun ríka fólksins í Dallas. 
Hægt er að kaupa eftirlíkingu af hjólinu fyrir 550.000 dollara en hana er ekki hægt að keyra heldur er um að ræða nokkurs konar skúlptúr