25.8.04

Vélhjólamaður kærir lögreglumann

Vélhjólamaður hefur kært lögreglumann í Reykjavík fyrir að hafa stofnað lífi sínu og limum í hættu. Hilmar Ingimundarson, lögmaður vélhjólamannsins, segir lögregluna hafa farið yfir á öfugan vegarhelming til að stöðva vélhjólamanninn sem kom á móti lögreglubílnum á Ægisíðunni. Málið var kært til lögreglunnar í Reykjavík sem áframsendi málið til ríkissaksóknara. Lögreglan er vanhæf til að rannsaka kærur á hendur sínum starfsmönnum og félögum. Hilmar segir með ólíkindum að lögreglumaður hafi ætlað sér að stöðva mótorhjól á ferð með þessum hætti. Hann segir lögregluna hafa fyrr um kvöldið hafa verið að eltast við vélhjól á mikilli ferð en þeir hafi ekki vitað hvort um sama hjól hefði verið að ræða eða ekki. "Hann var alltof seinn að bremsa og lenti á lögreglubílnum sem var á öfugum vegarhelming. Hann hlaut skrámur og mar og hjólið fór mjög illa," segir Hilmar. Lögreglumaðurinn segist hafa sett viðvörunarljósin á en vélhjólamaðurinn kannast ekki við það og hefur Hilmar farið fram á rannsókn. Í tetrakerfinu á að vera hægt að sjá hvar lögreglubílar eru staddir, á hvaða hraða og hvort þeir séu með viðvörunarljósin á. Slysið varð 31. maí og fór Hilmar fram á rannsóknina 10. júní þar sem upplýsingar úr tetrakerfinu væru ekki geymdar nema í tvo mánuði.

Vísir
25. ágúst 2004