AUÐVITAÐ er þetta hálfgerð klikkun.
Ég meina, hver þarf 650 kúbika torfæruhjól? Hjól sem þeytir þér svimandi nærri 200 kílómetra hraðanum allt þar til vegurinn er skyndilega á enda. Auðvitað þarf enginn lifandi maður í raun svo mikið afl. En það er einmitt þetta, þessi skemmtilega klikkun, sem gerir þetta hjól svo spennandi. Spurningin er þó hvort þetta mikla afl komi ekki niður á aksturseiginleikum hjólsins?Smávegis sögustund til að byrja með.
Eins og IKEA er Husaberg sænsk framleiðsla en ólíkt húsgögnunum er hjólunum ekki beint ætlað að vera hagnýt. Husaberg er keppnistæki smíðað með afl og léttleika að leiðarljósi. Í upphafi varð há bilanatíðni þess valdandi að vinsældir þessa annars ágæta hjóls urðu ekki eins miklar og vonir stóðu til. Þegar KTM og Husaberg-verksmiðjurnar gengu svo í eina sæng varð úr farsælt hjónaband sem færði báðum aðilum ávinninga. KTM fékk aðgang að framúrstefnulegri hönnun Husaberg-manna, sem á móti fengu nutu góðs af hágæða smíði og gæðaeftirliti austurrísku KTM-verksmiðjanna. Þar með fékk Husaberg það sem alltaf vantaði, vandaða og fullkláraða framleiðslu.Hreinn og tær gangur
Gangurinn í mótornum kemur á óvart. Engin læti. Engar sprengingar eða glamur. Bara hreinn og tær gangur. Hjólið er fremur milt á lágsnúningi, það má bögglast áfram með hraða snigilsins yfir grjót og urð og hjólið drepur ekki á sér og sýnir enga óvænta hrekki. Þegar komið er upp og yfir 3.000 snúningana fara hlutirnir að gerast og "bergurinn" að toga fyrir alvöru. Ég held að hámarkshraði þessa hjóls markist ekki af hjólinu sjálfu heldur hversu hratt þú þorir að keyra það. Þetta er a.m.k. í fyrsta skipti í mjög mörg ár sem ég keyri mótorhjól sem kemst hraðar en ég þori að fara. Þvílík sigling! Hjólið rennur ljúflega í gegnum alla gíra en þegar komið er í 6. gír er eins gott að vegurinn framundan sé beinn og breiður og að þú haldir þér fast í stýrið.Góð fjöðrun
Fjöðrunin (White Power) reyndist mjög góð, bæði að framan og aftan og var hjólið mjög áreiðanlegt við allar þær aðstæður sem boðið var upp á hvort sem það var í mold, sandi eða grjótbrölti. Við þröngar aðstæður s.s. í kröppum beygjum eða þar sem þarf að skipta ört um aksturslínur verður þú var við stærð og afl hjólsins og getur orðið úr því orkufrek glíma notir þú ekki rétta aksturstækni (hærri gír og lægri snúning til að minnka að mótorinn togi þig út úr beygju). Það sem gerir hjólinu kleift að komast vel frá slíku er þægilegt og jafnt vinnslusvið mótorsins, góð fjöðrun og fín glussakúpling. Á hálendisvegum sem bjóða upp á meiri hraða er svo vart hægt að hugsa sér betra ferðahjól. Mín helstu umkvörtunarefni eru stór tankur sem samt tekur furðulítið eldsneyti, (9 lítra), miðað við fyrirferðina. Það fer svo fremur illa saman við þá staðreynd að 650cc hjólið er mjög eyðslufrekt, sérstaklega ef því er haldið á snúningi. Var ég of spenntur (og hræddur) til að fylgjast með því hversu ört lækkaði í bensíntanknum og tókst mér að verða bensínlaus uppi á miðri heiði. Ég var lítið hrifinn af frambremsunni en ef það er eitthvert hjól sem þarf góðar bremsur þá er það þetta. Vinstra númeraspjaldið átti það til að krækjast í stígvélin mín. Einnig var stýrið allt of lágt en við skulum skrifa það á minn eigin ofvöxt (193 cm) fremur en hjólið sjálft þar sem flestir aðrir eru hæstánægðir með stýrið. Frágangur hjólsins er með ágætum og virðast gæði og ending hjólanna vera sambærileg við annað sem er í boði.Fáránlega kraftmikið hjól
Husaberg hefur tekist að smíða aldeilis ótrúlegt hjól sem er fáránlega kraftmikið en samt ljúft og milt. Það kom mér skemmtilega á óvart hversu góða aksturseiginleika svo stórt hjól getur haft. Hjólið hentar engan veginn þeim sem eru að stíga sín fyrstu skref í sportinu en höfðar þeim mun sterkar til stórra stráka sem ekki kalla allt ömmu sína.
ÞK
22. september 2004 | Bílablað mbl