5.10.07

BMW á góðri siglingu


Í rúm 80 ár hafa BMW mótorhjól aðallega verið þekkt fyrir þrennt; áreiðanleika, endingu og svarta litinn sem yfirleitt prýðir þau. Til viðbótar þessu þóttu BMW mótorhjól framan af vera tæki fyrir roskið mótorhjólafólk, í það minnsta vel efnað mótorhjólafólk því BMW mótorhjól hafa jafnan verið með þeim dýrustu sem til eru.

   Síðan á sjöunda áratugnum hefur þó BMW hægt og rólega verið að taka nýja stefnu og er um að ræða þróun fremur en einhverja byltingu þó annað megi lesa úr erlendum tímaritum.
   Þróunin hófst með R90S og R100RS sem á sínum tíma voru byltingarkennd hjól og fyrstu sportlegu BMW mótorhjólin. Síðan þá hefur þróunin hægt og sígandi verið í þá átt að BMW höfðar með hjólum sínum sífellt meira til yngri kaupenda en þó ennþá efnaðra. Hin síðustu ár hefur þróunin tekið stórt stökk fram á við og sendir BMW nú frá sér hvert hjólið á fætur öðru sem margir rótgrónir BMW mótorhjólaunnendur myndu líklegast ekki þekkja sem BMW hjól ef þeir sæu það úti á götu.

Brautargræja með meiru

HP2 Sport er eitt af þessum mótorhjólum en eins og önnur hjól BMW sem hafa markað nýju stefnuna síðustu árin þá er hjólið í eðli sínu ekta BMW.
   HP2 Sport byggist eins og nafnið gefur til kynna á háþróaðri HP mótorhjólalínu BMW en HP stendur fyrir „High Performance“. Í HP mótorhjólunum hefur þyngd verið minnkuð eins og unnt er og aflið aukið en samt er haldið í það sem er þykir einkennandi fyrir BMW, þ.e. drifskaftið og boxervélina frægu.
   BMW HP2 Sport er án efa eitt sportlegasta hjólið frá BMW í dag. Hjólið er útbúið 1200 vél með fjórum ventlum á strokk og skilar það 128 hestöflum við 8750 snúninga sem er það mesta sem boxervél frá BMW hefur skilað frá upphafi.
   Til að koma aflinu í götuna, en það er yfirleitt engin hægðarleikur á öflugum mótorhjólum, hefur HP2 Sport fengið sex gíra „quick shift“ gírkassa sem leyfir skiptingar í næsta gír fyrir ofan á fullri gjöf líkt og á keppnismótorhjóli.
   Hjólið er aðeins 178 kíló að þyngd, eða 199 kíló með öllum vökvum og verður það að teljast nokkuð gott fyrir BMW mótorhjól og ættu aksturseiginleikarnir að verða góðir þar sem boxermótorhjólin frá BMW hafa sérlega lágan þyngdarpunkt.


   Öhlins demparar eru á hjólinu, bæði að framan og aftan en auk þess er hjólið með ABS bremsukerfi og háþróað, en óhefðbundið Telelever fjöðrunarkerfi sem gefur mótorhjólinu mikinn stöðugleika við erfiðar aðstæður. 


Morgunblaðið 5.10.2007
Eftir Ingvar Örn Ingvarsson
ingvarorn@mbl.is