10.10.07

Kúaskítur beint í æð


Fimmtán gljáandi, urrandi Harley Davidson mótorfákar með íslenskum knöpum brunuðu um hlykkjótta sveitavegi austurræisku Alpanna í september.


 Alpanna í september. „Mótorhjólaklúbburinn HOG stendur fyrir Harley Owners Group og er stærsti mótorhjólaklúbbur veraldar með yfir milljón meðlimi,“ segir Jón Örn Valsson, framkvæmdastjóri Harley Davidson Íslandi, sem ásamt fimmtán meðlimum í Íslandsdeild HOG gekk frá hjóli sínu í gám til Frankfurt, þaðan sem brunað var á hjólunum niður Móseldalinn í átt til austurrísku Alpanna.

„Íslandsdeild HOG fer utan ár hvert, ásamt því að reiða farþega í kringum Tjörnina á menningarnótt til styrktar langveikum börnum. Nú fórum við á Harleymót til Faak am See, austurrísks fjallaþorps í 550 metra hæð. Alls mættu 50 þúsund manns, en í Ölpunum er ekki þverfótað fyrir mótorhjólafólki í eftirsóknarverðum aðstæðum þar sem hægt er að keyra upp og niður hlykkjótta vegi innan um stórkostlegt landslag og vinalega smábæi,“ segir Jón Örn sem skrapp yfir í ítalska hluta Alpanna og til Ljúblíana í Slóveníu meðan á mótinu stóð. 

„Það er mikil stemning í þessum ferðum. Við forðumst hraðbrautir eins og heitan eldinn því það er hundleiðinlegt ferðalag þar s ekki sést landslag og aðeins stoppað á bensínstöðvum. Svona ferðalag snýst um hjólaleiðina að áfangastað og til baka, en það er mótorhjóladellan í okkur að vera á góðum hjólum á mismjóum, bugðóttum sveitavegum. Maður upplifir náttúruna beint í æð, eins og alla lykt, hvort sem hún er af nýsleginni töðu eða kúaskít,“ segir Jón Örn hlæjandi, en að meðaltali ók hópurinn 250 kílómetra leið á dag. 

„Við áttum einungis bókaða gistingu fyrstu og síðustu nótt ferðarinnar. Því var ekkert stress að keyra á milli náttstaða heldur létum við hvern dag ráðast og stoppuðum í hvert sinn sem eitthvað freistaði,“ segir Jón Örn sem eignaðist sína fyrstu skellinöðru tólf ára gamall.

 „Gamla ímynd mótorhjólamannsins er á hröðu undanhaldi, en lengi þótti annars flokks að vera á mótorhjóli og ógleymanlegt þegar fjörutíu Sniglar fylgdu félaga sínum heim í Mosfellsbæinn og kona hringdi á lögregluna. Í dag eru Harley-eigendur allt frá lægsta launamanni til skurðlækna, milljónamæringa og þingmanna, og allir tala saman á jafnréttisgrundvelli. Harley sameinar fólk og hjólamenn heilsast þegar þeir mætast hér heima og ytra, því þetta er bræðralag. Mótin eru svo ekkert annað en stór partí þar sem skiptast á sýningar og böll með rokkhljómsveitum og fjöri. Þess vegna er maður æstur að fara aftur, ár eftir ár, til að njóta ferðalags, hjólamennsku og þess að vera í góðra vina hópi.




 https://timarit.is/files/40479599#search=%22m%C3%B3torhj%C3%B3lakl%C3%BAbbur%22