27.10.07

Innrás mótorhjóla úr austri

 MARGIR hafa velt fyrir sér auknum innflutningi bíla frá Kína til Evrópu og hugsanlegri sprengingu á markaði ódýrra bíla í kjölfarið. 

Þessi sprengja er hins vegar um það bil að springa í mótorhjólainnflutningi og ekki síður hér á Fróni en á meginlandinu. Á undanförnum þremur árum hafa vel á þriðja hundrað kínversk mótorhjól verið flutt til landsins og er þá ekki talinn með fjöldi fjórhjóla. Í Kína varð sprengingin í framleiðslunni árið 2003 og hún hefur aukist töluvert síðan. Árið 2003 voru framleidd 14 milljón mótorhjól í Kína, sem var 48% af heimsframleiðslunni. 

Kína flytur út mótorhjól til yfir 200 landa, og þá oftar en ekki til þróunarlanda í Asíu og Afríku. Árið 2010 er búist við að Kína og Indland verði með samanlagða framleiðslu upp á 36 milljón mótorhjól á ári. Þar sem annars staðar aukast sífellt kröfur um minni mengun farartækja sem eykur eftirspurn eftir betri eldsneytis- og kveikjukerfum. 

Eitt íslenskt fyrirtæki hefur sett stefnuna á þann markað en það er fyrirtækið Fjölblendir ehf. sem hefur þróað blöndung fyrir minni vélar sem minnkar losun CO2 allt að 80% og HC+NOx allt að 35%.

Útflutningur til Ameríku og Evrópu vex líka hröðum skrefum en útflutningur þangað jókst úr 3,4 milljónum eintaka árið 2002 í 9 milljón stykki árið 2004. Þetta er aukning upp á 123% á tveimur árum og aukning á útflutningsverðmæti úr 650 milljónum dollara í 1,45 milljarða dollara. 

Þessu er líkt farið í mörgum löndum í Suðaustur-Asíu. Mikil aukning er á framleiðslu mótorhjóla í Indlandi en þar er áætlað að framleiðslan aukist um meira en helming á næstu þremur árum, upp í 15 milljónir mótorhjóla á ári árið 2010. Lönd eins og Suður-Kórea og Malasía eru einnig á hraðri uppleið. Í Malasíu jókst framleiðslan frá 2003 úr 352.933 mótorhjólum í 472.726 mótorhjól árið 2004, eða aukning upp á 34%. Flest þau mótorhjól sem framleidd eru í Austurlöndum fjær eru undir 200 rúmsentimetrum.

Morgunblaðið
26. OKTÓBER 2007