23.8.12

Fuglasafn Sigurgeirs og Mótorhjólasafnið á Akureyri

 Mörg athyglisverð söfn á Íslandi:

Fuglasafn Sigurgeirs fær hæstu einkunn

- Safn Ólafs á Þorvaldseyri og fjölskyldu hans fylgir þar fast á eftir


Í sumarfríi mínu settist ég upp á mótorhjól og ók stóran hring í kringum Ísland. Á ferðalaginu heimsótti ég nokkur af fjölmörgum söfnum sem urðu á vegi mínum og vert er að benda fólki á að skoða.

Fyrst ber að nefna safn Ólafs á Þorvaldseyri og fjölskyldu hans, sem nefnist Eyjafjallajökull. Frábært
framtak og vel upplýsandi um hamfarirnar þegar Eyjafjallajökull gaus í apríl fyrir rúmum tveim árum. Þó safnið sé ekki stórt eru bæði aðkoma og snyrtimennska til fyrirmyndar og vel staðið að öllu er við kemur safninu. Á safninu er súynd stuttmynd sem er aðallega samansett úr fréttamyndum. Þegar ég var á ferðinni var verið að sýna útgáfu myndarinnar með þýsku tali, en það kom ekki að sök, þessar myndir sögðu allt sem segja þurfti og mögnuð upplifun að vera á staðnum þar sem þessar
hamfarir dundu yfir í svona fallegu umhverfi svo stuttu eftir gosið. Það var einstaklega fræðandi að bera saman útsýnið að gosstöðinni í sumar og myndina, sem tekin var þar sem safnið stendur, þegar fjölskyldan var að flýja heimilið við upphaf goss. Þetta er safn sem enginn má láta framhjá sér fara.
   Næst var það sérstakt safn í Löngubúð á Djúpavogi, en þar eru í raun þrjú söfn; skáldastofa,  Eysteinsstofa Eysteins Jónssonar ráðherra og yfir öllu loftinu í þessu langa húsi er mikið safn gamalla
muna sem eru aðallega frá síðustu öld og flestir þekkja frá barnæsku. Hins vegar mætti leggja smá vinnu í að merkja gripina betur og segja frá því hvaða ár þessir munir voru almennt í notkun. Þarna var lægsti aðgangseyririnn, en aðeins kostaði 500 krónur inn á öll söfnin þrjú.

Fuglasafn Sigurgeirs fær hæstu einkunn

Fuglasafn Sigurgeirs er í YtriNeslöndum við Mývatn. Ég á erfitt með að lýsa hrifningu minni á þessu
safni með öðrum orðum en að þarna hefur systkinum og vinum Sigurgeirs Stefánssonar frá Ytri-Neslöndum tekist frábærlega að reisa safn utan um þetta mikla fuglasafn sem Sigurgeir hafði komið sér upp áður en hann lést í slysi á Mývatni. 
   Þarna hefði ég getað verið allan daginn. Uppsetningin á safninu er þannig að allir fuglar eru í glerbúrum en fyrir framan hvern fugl er lítill takki. Sé ýtt á takkann kviknar lítið ljós við fætur fuglsins og fyrir ofan mann heyrist hljóð úr viðkomandi fugli. Sé ýtt aftur á takkann sér maður á korti hvert fuglinn fer yfir vetrartímann. Það eru ekki bara fuglar í safninu því þarna má einnig sjá lifandi kúluskít og fullyrði ég að þetta sé eini staðurinn þar sem hægt er að sjá kúluskít lifandi á safni. Í húsi við hlið safnsins er lítið bátaskýli og þar er sögð saga veiði í Mývatni. Ég verð, að öllum öðrum söfnum ólöstuðum, að gefa þessu safni hæstu einkunn og
í mínum huga er það eitt besta safn sem ég hef komið á hingað til.

Mótorhjól og falleg listaverk Mótorhjólasafn Íslands er á Akureyri

og reist í minningu Heiðars Þ Jóhannssonar sem lést í mótorhjólaslysi sumarið 2006. Vissulega mætti
aðkoman að safninu vera betri, en hvorki er búið að malbika planið né klæða húsið að utan. Inni í safninu er búið að opna neðri hæðina, en þar eru um 80 mótorhjól og nokkur mjög sjaldgæf, bæði gömul og „alíslensk nýsmíði“, en það sem sjaldnast er nefnt við þetta safn eru hin fjölmörgu listaverk sem Heiðar smíðaði (sennilega er hans þekktasta listaverk minnismerki um fórnarlömb bifhjólaslysa, sem stendur við Varmahlíð og heitir Fallið). 
   Flest þessi listaverk gaf Heiðar vinum og ættmennum við hátíðleg tækifæri. Þegar safnið var opnað tóku þessir vinir og ættmenni sig saman og gáfu safninu listaverkin sem eru höfð í sérstöku herbergi er nefnist Heiðarsstofa. Þar eru uppáhalds mótorhjól Heiðars ásamt bikarasafni hans úr ýmsum keppnum í mótorsporti. Ýmislegir munir eru þarna á safninu er tengjast mótorhjólum eins og sérstakt leyfisbréf til að keyra mótorhjól, munir sem tengjast Sniglunum o.fl. Það sem mest er að þessu safni er aðkoman, en að bæta hana og klæða húsið að utan væri safninu mikils virði.

Mætti vera meira um veiðisögu og nytjar á Selasafni

 Selasetur Íslands er á Hvammstanga og er ágætlega uppsett safn um hina fallegu ímynd selsins, en fyrir mig, afkomanda manns sem skaut sel í matinn um hávetur og gerði að honum í brunagaddi svo að börn hans fengju eitthvað að borða, fannst mér alveg vanta að lýsa nytjum á sel. 
   Þarna mætti alveg segja frá veiðiaðferðum og verkunaraðferðum á árum áður (myndir af verkun á sel hefði dugað mér). Hins vegar fannst mér sniðugt hvernig litlu kassarnir eru settir upp með spurningunum utan á. Þegar maður opnar dyrnar er svarið inni í skápnum. Þetta var vel gert og sérstaklega hvernig hæðin á kössunum er hugsuð til að henta bæði börnum og fullorðnum.


Gaman að koma á Hákarlasafnið

Mér fannst gaman að koma í Hákarlasafnið í Bjarnarhöfn á Snæfellsnesi þó það sé svolítið  sundurlaust.  Þarna er samansafn af  ýmsum áhöldum, veiðarfærum, verkfærum o.fl. sem aðallega var notað snemma á síðustu öld, en einnig eru þarna uppstoppuð dýr s.s. fuglar, refir, minkar o.fl.
Á safnið vantar sárlega meiri lesningu til að útskýra safnhlutina (hversu gamlir þeir voru og til hvers þeir voru notaðir á sínum tíma).
    Margir athyglisverðir gripir eru á safninu og góðar myndir sem sýna verkunarferli á hákarli, næstum allt frá bryggju að þorrablóti. Á þetta safn var gaman að koma, aðkoman góð og móttökurnar voru góðar og alúðlegar. 

Ef ég væri beðinn að raða þessum söfnum í 1. til 6. sæti mundi ég setja Fuglasafn Sigurgeirs í fyrsta sæti, í annað sæti Eyjafjallajökulssetur Ólafs á Þorvaldseyri og síðan get ég ekki gert upp á milli næstu þriggja safna sem eru mislangt komin í  uppbyggingu og eiga eflaust eftir að batna mikið á komandi árum. 
HLJ 
Bændablaðið | 
 23.8 2012